TVEGGJA manna er saknað eftir að kúfiskveiðiskipið Æsa ÍS-87 frá Flateyri sökk í Arnarfirði um hádegisbilið í gær. Fjórir úr sex manna áhöfn skipsins komust um borð í gúmbjörgunarbát og var þeim bjargað um borð í Vigdísi BA-377, sem var nærstödd og sá neyðarljós frá Æsu. Kom Vigdís með mennina til Bíldudals um kl. 14.30. Ágætt veður var þegar Æsa sökk og sléttur sjór.
Fjórir björguðust en tveggja er saknað eftir að Æsa ÍS-87 sökk í Arnarfirði Kafaði undir Æsu og

leysti björgunarbátinn

TVEGGJA manna er saknað eftir að kúfiskveiðiskipið Æsa ÍS-87 frá Flateyri sökk í Arnarfirði um hádegisbilið í gær. Fjórir úr sex manna áhöfn skipsins komust um borð í gúmbjörgunarbát og var þeim bjargað um borð í Vigdísi BA-377, sem var nærstödd og sá neyðarljós frá Æsu. Kom Vigdís með mennina til Bíldudals um kl. 14.30. Ágætt veður var þegar Æsa sökk og sléttur sjór.

Jón Gunnar Kristinsson, einn skipbrotsmannanna fjögurra á Æsu ÍS, drýgði mikla hetjudáð þegar hann kafaði undir Æsu þar sem hún maraði í kafi á hvolfi og leysti gúmbjörgunarbátinn frá með handafli. Sjálfvirkur sleppibúnaður er í bátnum en svo virðist sem hann hafi ekki skotið gúmbátnum frá. Á meðan héldu þrír félagar hans sér á floti á kili Æsu.

Gerðu sér ekki grein fyrir því hvað hefði gerst

"Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hvað hefði skeð, en þeir sögðu að þetta hefði allt gerst svo rosalega snöggt. Einn af þeim var niðri í lúkar og ég held að hann skilji það ekki ennþá hvernig hann komst upp," sagði Símon Viggósson, skipstjóri á Vigdísi BA frá Patreksfirði, í samtali við Morgunblaðið, en áhöfnin á Vigdísi bjargaði fjórum af sex skipverjum Æsu eftir að skipið sökk. Símon hafði fylgst með Æsu við veiðar í gærmorgun en síðan hvarf skipið sjónum hans.

"Síðan sá ég bara þúst í sjónum og hélt ég fyrst að þetta væri hvalur. Ég keyrði samt að þessu og eftir tíu mínútur eða kortér sá ég neyðarblysið frá þeim. Stuttu seinna hvarf svo báturinn af yfirborðinu en hann var á hvolfi þegar ég sá hann fyrst. Mennirnir voru komnir í gúmmíbátinn þegar ég kom að, en þeir höfðu verið á kilinum. Það hafði flotið upp björgunarbátur í hylki hjá þeim, en hann var samt á kafi og þurfti einn þeirra að kafa eftir honum. Hann stakk sér af kili eftir bátnum og náði að sprengja hann upp. Síðan fóru hinir í hann," sagði Símon.

Gengnar fjörur í dag

Víðtæk en árangurslaus leit var í gær gerð að mönnunum sem saknað er. Alls tóku 32 bátar og tveir togarar þátt í leitinni auk TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, og björgunarsveitarmenn gengu fjörur beggja vegna Arnarfjarðar. Formlegri leit var hætt á miðnætti, en fjörur verða áfram gengnar í dag og björgunarbátur björgunarsveitar Slysavarnafélagsins á Patreksfirði mun leita á sjó. Olíubrák kom fljótlega upp frá Æsu eftir að skipið sökk og fann Sæborg BA-77 flakið á um 70-80 metra dýpi kl. 13.34.

Ekki er unnt að svo stöddu að birta nöfn mannanna tveggja sem saknað er.Víðtæk leit/22-23

Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson