FLUTNINGUR grunnskólans að öllu leyti til sveitarfélaganna er viðamesti og mikilvægasti verkefnaflutningur frá ríki til sveitarfélaga fyrr og síðar, að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sveitarfélögin taka að öllu leyti við rekstri grunnskólans frá og með deginum í dag Mikilvægasti verkefna-

flutningurinn til þessa

Grunnskólalögin sem samþykkt voru í byrjun árs 1995 koma að fullu leyti til framkvæmda í dag, 1. ágúst, og flyst þá grunnskólinn að öllu leiti til sveitarfélaganna. Hallur Þorsteinsson ræddi við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Eirík Jónsson, formann Kennarsambands Íslands, um flutninginn.

FLUTNINGUR grunnskólans að öllu leyti til sveitarfélaganna er viðamesti og mikilvægasti verkefna flutningur frá ríki til sveitarfélaga fyrr og síðar, að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Alls flytjast 3.700 starfsmenn frá ríki til sveitarfélaga, og þegar upp verður staðið árið 2000 hafa verið fluttir til sveitarfélaganna 7 milljarðar króna til þess að sinna þessu verkefni sem snýr beinlínis að því sem ríkið hefur haft með höndum varðandi grunnskólann. Þar er um að ræða laun kennara, rekstur sérskóla og rekstur á skólaskrifstofum sem nú taka við verkefnum fræðsluskrifstofanna.

Samkomulag tókst um það milli ríkis og sveitarfélaga að ríkið mun leggja fram 1.325 milljónir króna á næstu fimm árum til stuðnings stofnkostnaðarframkvæmdum vegna grunnskólans, en það er vegna áforma um að einsetja grunnskólana á næstu fimm árum. Síðan mun lögbundið framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til lánasjóðs sveitarfélaga renna til sömu framkvæmda á næstu 5-6 árum. Þannig fara samtals 2.135 milljónir króna í stofnkostnaðarframkvæmdirnar á þessu tímabili til að auðvelda sveitarfélögunum að einsetja skólana. Í dag eru um 130 skólar einsetnir en um það bil 70 skóla á eftir að einestja og skiptast þeir nokkuð jafnt milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Liður í því að efla sveitarstjórnarstigið

"Þessi flutningur er auðvitað liður í því að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og auka sjálfstæði sveitarfélaga. Það hefur verið mikil umræða um það á undanförnum árum að dreifa valdi og þetta er kannski einhver merkasti áfanginn í því ferli fram til þessa," segir Vilhjálmur.

"Þetta tengist einnig öðru mjög mikilvægu verkefni á sviði sveitarstjórnarmála sem er að sameina og stækka sveitarfélögin, og þótt þetta sé út af fyrir sig mjög erfitt viðfangsefni þá hefur okkur orðið nokkuð ágengt. Þannig voru sveitarfélögin 201 talsins árið 1990 og nú eru þau 165 og víða viðræður í gangi um sameiningu. Sameining sveitarfélaga og það að taka við fleiri verkefnum eru því á margan hátt tengd mál og að sumu leyti samstiga verkefni."

Tæplega þrjú ár eru liðin frá því umræðan um flutning grunnskólans hófst og mörgum verkefnum hefur þurft að sinna á þessum tíma svo að flutningnum gæti orðið. Vilhjálmur segir að í fyrsta lagi hafi þurft að tryggja starfsréttindi kennara og lífeyrissjóðsmál.

"Það má segja að í grunnskólalögunum sem samþykkt voru 1995 hafi komið fram þau þrjú atriði sem voru kjarninn í öllum undirbúningnum, og líka atriði sem landsþing Sambands sveitarfélaga tók á sérstaklega og voru nánast skilyrði fyrir gildistökunni. Það var að tryggja öllum kennurum sambærileg lífeyrisréttindi, sambærileg ráðningarréttindi og starfsréttindi og í þriðja lagi að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna til að sinna þessu verkefni og þeim auknu verkefnum í grunnskólanum sem lögin gerðu ráð fyrir," segir Vilhjálmur.

"Um þessi atriði fjölluðu sérstakir vinnuhópar undir stjórn verkefnisstjórnar og þeir hafa verið að störfum allt frá því í maí 1995. Þessum hópum tókst að skila sínu verki á þann veg að það var að segja má full sátt milli ríkis, sveitarfélaga og kennara, og það var einnig full sátt milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarþáttinn. Þetta voru kannski stærstu úrlausnaratriðin í þessu ferli öllu. Síðan tók við margskonar útfærsla eftir að þessi niðurstaða náðist, t.d. varðandi launayfirfærslu, sérskóla, nýbúafræðslu og ýmis önnur atriði. Síðast en ekki síst hafa sveitarfélögin sjálf ásamt landshlutasamtökunum verið að því undanfarið eitt og hálft ár sérstaklega að vinna að yfirfærsluverkefnum frá fræðsluskrifstofunum yfir til skólaskrifstofa. Þar hefur verið unnið mjög gott starf og mér sýnist að þar sé í meginatriðum búið að skipa málum í skynsamlegan farveg. Það er 21 skólaskrifstofa sem nú tekur til starfa í stað 8 fræðsluskrifstofa. Það er því veruleg breyting sem á sér stað á þessum vettvangi, og mér sýnist að sveitarfélögin séu búin að vinna sína heimavinnu með ágætum hætti."

Hugsanlegir hnökrar verða einfaldlega leystir

Vilhjálmur segir að ef einhverjir endar kunni að vera lausir varðandi flutnig grunnskólans þá séu þeir léttvægir og hnökrar sem kunni að koma í ljós verði einfaldlega leystir. Hann segir að engin stórvandamál séu hins vegar fyrirsjáanleg.

"Ugglaust koma upp einhver smávandamál sem út af fyrir sig er ekki óeðlilegt þegar um svo stóra yfirfærslu er að tefla. Sveitarstjórnarmenn eru hins vegar ekki alveg grænir í þessum málum því þeir hafa haft verulega mikla ábyrgð á rekstri grunnskólans til margra ára, og það má segja að þeir hafi í raun verið með allt að helming kostnaðar varðandi grunnskólahaldið. Við höfum þannig þurft að annast allar stofnkostnaðarframkvæmdir grunnskólanna frá árinu 1990 og viðhald skólanna um langan tíma. Síðan höfum við kostað allan annan rekstur en laun kennara, rekstur sérskóla og rekstur fræðsluskrifstofa, og á síðasta ári höfum við því verið að borga álíka upphæð og ríkið hefur látið renna til grunnskólans."

Aukin þjónusta

Sú mikla umræða sem átt hefur sér stað undanfarin 2-3 ár um flutning grunnskólans hefur að áliti Vilhjálms leitt til þess að sveitarstjórnarmenn, foreldrar og aðrir áhugamenn um grunnskólann hafa haft miklu meiri tækifæri til þess að ræða málefni grunnskólans.

"Þetta hefur verið eitt helsta umræðuefnið hjá sveitarstjórnarmönnum fyrir utan umræðuna um vanda atvinnulífsins og er þetta út af fyrir sig merkur árangur. Síðan er það líka staðreynd að þessi umfjöllun öll og verkefnaflutningurinn hefur gert það að verkum að það verður um að ræða verulega aukningu í skólahaldinu á mörgum sviðum. Þetta endurspeglast í grunnskólalögunum annars vegar og hins vegar í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptinguna.

Í grunnskólaögunum endurspeglast þetta hvað snertir fjölgun vikulegra kennslustunda og fjölgun kennsludaga, en við gerð síðustu kjarasamninga við kennara komst það til framkvæmda að kennsludögum fjölgar úr 161 í 170. Síðan endurspeglast þetta í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, og þá ekki síst fyrir frumkvæði sveitarstjórnarmanna að það verður um töluverða aukningu að ræða hvað varðar sérkennslu og ekki síst sérfræðiþjónustu. Þannig verður um það bil 30% aukning í sérfræðiþjónustu frá því sem var, og það verður líka um að ræða töluverða aukningu í nýbúakennslu. Þriðja atriðið er svo að það eru að eiga sér stað aukin þjónustutengsl skóla og leikskóla, en það er verið að samræma þjónustu við skóla og leikskóla og þá oftast í gegnum skólaskrifstofurnar. Það eru því heilmiklar hræringar og margar nýjungar á ferðinni og raunverulega má líkja þessu við byltingu."

Eina breytingin er nýr viðsemjandi

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarsambands Íslands, segir að í dag sé sér efst í huga vonin um að flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga gangi vel. Mikil vinna hafi verið fólgin í aðdraganda flutningsins og allir reynt að gera sitt besta til að hann tækist sem best. Öllum réttindamálum kennara og kjaramálum hafi verið komið í höfn og það fólk sem hafi verið í kennslu þurfi í raun ekkert að verða vart við að það hafi verið skipt um vinnuveitanda. Eina breytingin hvað þetta varðar væri sú að það kæmi nýr viðsemjandi. Spurningin væri hvort hann yrði betri eða verri en sá gamli, og það yrði framtíðin einfaldlega að leiða í ljós.

"Það er svo sem viðbúið að það komi fram einhverjir byrjunarörðugleikar einhvers staðar, en það verður bara að vinna á þeim. Ég held að öll helstu mál hafi verið til lykta leidd og nokkuð vel hafi tekist að ganga frá þeim. Það er hins vegar þannig að þegar svona stór málaflokkur er undir þá er spurningin hvort manni hafi tekist að sjá fyrir um allt. Núna er fyrsti útborgunardagur sveitarfélaganna og þá kemur í ljós hvernig tekist hefur að koma þessum launaforritum yfir, og síðan verður aftur krítískur punktur 1. október þegar farið verður að greiða laun samkvæmt vinnuskýrslum, yfirvinnugreiðslur og annað þess háttar. Þetta eru atriði sem við hjá Kennarasambandinu höfum búist við að verði þau fyrstu þar sem vandamál gætu komið upp, en vonum að það verði einungis í undantekningartilfellum," segir Eiríkur.

Enginn með eftirlitsskyldu og vald til að grípa inn í

Eiríkur segir að hann telji að valdsvið menntamálaráðuneytisins verði mjög lítið hvað varðar grunnskólana eftir þessa breytingu, og hætta á því að þróunin geti orðið í mismunandi áttir hjá einstökum sveitarfélögum.

"Þá verður manni hugsað til þess sem kallað hefur verið jafnrétti til náms, og þó að maður viti að það hafi ekkert verið uppfyllt hingað til, býður það hættunni heim að það verður í raun og veru enginn aðili sem hefur bæði eftirlitsskyldu og valdsvið til að grípa inn í. Það er talað um að menntamálaráðuneytið hafi faglega ábyrgð og annað slíkt, en valdsvið þess verður í raun og veru ekki neitt, og þeir sem þar eru geta ekkert gert þó að einstaka sveitarfélög standi sig ekki í stykkinu. Ég hef töluverðar áhyggjur af því og þótt ég sé ekki að kalla eftir einhverri harðri miðstýringu þá held ég að það sé nauðsynlegt að sá sem hefur eftirlitsvaldið hafi líka vald til þess að grípa inn í ef málin eru að þróast á einhvern vitlausan veg. Því hefur reyndar verið haldið fram, og það kann vel að vera rétt, að þegar sveitarfélag er orðið ábyrgt fyrir rekstri síns skóla þá muni íbúarnir veita það aðhald sem þarf til að þjónustan verði í lagi."

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Eiríkur Jónsson

Alls flytjast 3.700 starfsmenn frá ríki til sveitarfélaga

Viðbúið að það komi fram einhverjir byrjunarörðugleikar