LESANDI hringdi og spurði hver væri munurinn á að nota pressuger í kubbaformi, perluger í dós eða þurrger í bréfi? Steinunn Óskarsdóttir hjá Leiðbeiningarstöð heimilanna segir vinsældir þurrgers hafa aukist á undanförnum árum því það er þægilegra og fljótlegra í notkun en pressugerið. "Þurrgerinu er sáldrað beint út í hveitið en pressugerið þarf að leysa upp í volgum vökva.
Hvaða gertegund hentar best?

LESANDI hringdi og spurði hver væri munurinn á að nota pressuger í kubbaformi, perluger í dós eða þurrger í bréfi?

Steinunn Óskarsdóttir hjá Leiðbeiningarstöð heimilanna segir vinsældir þurrgers hafa aukist á undanförnum árum því það er þægilegra og fljótlegra í notkun en pressugerið. "Þurrgerinu er sáldrað beint út í hveitið en pressugerið þarf að leysa upp í volgum vökva.

Að auki geymist pressugerið ekki eins vel og þurrgerið og þegar það fer að eldast þarf meira magn af því en ella."

Steinunn segir það smekksatriði hvort brauð bragðist betur með þurrgeri eða pressugeri. "Sumir finna engan mun milli tegunda."

Steinunn Ingimundardóttir, sem einnig starfar hjá Leiðbeiningarstöð heimilanna, segir deig með pressugeri hefast mun fyrr en með öðrum gertegundum. "Í pressugeri er gerillinn lifandi en í hinum tegundunum í nokkurs konar dvala."

Hún varar við því að hafa vökvann of heitan, því þá drepast gerlarnir algerlega.

Í bókinni Gerbakstur, sem Kvenfélagasamband Íslands gaf út, segir: Pressuger eru lifandi frumur sem mynda lofttegund (koltvísýring) úr sykurefni mjölsins ef þeim eru búin hagstæð lífsskilyrði. Þessi lofttegund lyftir brauðinu og gerfrumurnar dafna best við 35 C. Of kaldur vökvi og kalt umhverfi lamar mátt þeirra svo það tekur lengri tíma að deig lyfti sér.

Gott pressuger er samloðandi og rakt, geymsluþol þess er takmarkað og nauðsynlegt er að geyma það í góðum umbúðum á köldum stað.

Þurrger er þurrkað pressuger. Það getur geymst mánuðum saman í loftþéttum ílátum á þurrum stað. Þurrger fæst bæði í dósum og litlum pökkum. 1 pakki jafngildir 50 g af pressugeri en 1 tsk. þurrgers jafngildir 10 g af pressugeri. 15 g af þurrgeri samsvara 50 g af pressugeri.

FLEIRI nota þurrger í bakstur en áður.