Skylda okkar felst ekki í því að virkja fallvötn og byggja stíflur, segir Guðmundur Páll Ólafsson, heldur að skila landi okkar óspilltu til komandi kynslóða. ÞAÐ MÆLTI mín móðir að tvennu skyldi maður trúr vera öðru fremur; sjálfum sér og landinu

GRÁT FÓSTRA MÍN

Skylda okkar felst ekki í því að virkja fallvötn og byggja stíflur, segir Guðmundur Páll Ólafsson, heldur að skila landi okkar óspilltu til komandi kynslóða.

ÞAÐ MÆLTI mín móðir að tvennu skyldi maður trúr vera öðru fremur; sjálfum sér og landinu sínu. Að vera landinu sínu trúr snýst um siðferði í verndun og nýtingu landsins. Slóð okkar er vörðuð mistökum, ókræsilegum og umfram allt óþörfum. Og meðlætið, skemmdir og skuldasúpa, hefur verkað illa á landann með tilheyrandi timburmönnum og fjárhagslegum niðurgangi.

Stjórnvöld ríkis og sveitafélaga hafa skapað miðstýrt ofurveldi sem heitir Landsvirkjun og allir eru smeykir við og fáir svo heimskir að ráðast á. Ofurveldið virðist hafið yfir lög og rétt fólksins sem byggir landið og ögrar nú náttúru Íslands meira en nokkurt annað afl í þjóðfélaginu. Það er ekki vegna þess að í Landsvirkjun sitji einhver illmenni að svikráðum. Málið snýst um ofurvald og ójafnræði; um siðferði og lífsgildi; um verðmætamat og hvað mikilvægast er hverju sinni. Það snýst um það hvernig menn láta blekkjast af skýjaborgum stóriðjujöfra og fölskum reikningsforsendum. Enginn nær heildarsýn; því síður greina menn hvað í raun skiptir máli líkt og Marta vinkona Jesú forðum daga og voðaverkin eru á næsta leiti.

Klisjur stjórnmálanna

Að vera landinu sínu trúr er það að vinna að framtíðarvelferð lands og þjóðar, en landið - það er náttúra þess - og þjóðin eru órjúfanleg heild. Þess vegna er ekki hægt að vera annaðhvort landinu eða þjóðinni trúr. Stjórnmálamenn segja: Við verðum að byggja stóriðjur og fórna landinu ef við ætlum að halda þeim lífsstíl sem fólk vill. En er það svo? Er þetta ekki bara gömul, úrelt klisja? Urðum við rík af Stóru-Kröflu? Var Blönduvirkjun kannski gáfuleg og arðsöm? Og þrá ekki flestir rólegra og innihaldsríkara líf? Hvers konar áróðursbull er þetta? Það þótti líka bráðnauðsynlegt að grafa landið út og suður í skurðum til þess að landbúnaður gæti dafnað á Íslandi. Nú vita menn að það var að mestu leyti óþarfi og hrikaleg náttúruspjöll. Nú skal mokað ofan í og menn þegja þunnu hljóði.

Þetta er rifjað upp vegna þess að stjórnmál verða gjarnan klisjukennt blaður. Rökin sem menn hafa fyrir því að fremja ódæði á náttúru landsins eru hol. Þeir éta upp hver eftir öðrum sömu tuggurnar um moldarkofana, lífsþægindin, hagvöxtinn, menntun og frelsi - og komast svo að örlagaríkri niðurstöðu: Því miður þá verðum við að fórna landinu fyrir hagvaxtartrúna. Fórna landinu, fórna sálinni, fórna lífsgleðinni . . . hverju á ekki að fórna fyrir hagvöxt og rangnefnd lífsgæði?

Náttúruvernd og umhverfisráðuneyti

Bæði Náttúruverndarráð og umhverfisráðuneyti voru stofnuð á sínum tímum til að standa vörð um ómetanlega hagsmuni náttúru og þjóðar. Náttúruverndarráð hefur vissulega unnið gott starf undir þungum hæl stjórnmála- og hagsmunaafla en ennþá er óvíst um gagnsemi mikilvægasta ráðuneytis á Íslandi á eftir menntamálaráðuneyti. Ástæða er að taka þannig til orða vegna þess að umhverfisráðuneytið ætti að vera höfuðráðuneyti, yfir iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og samgöngum ef eitthvert vit væri í umhverfisvernd. En líklega var það aldrei ætlun þings að umhverfisráðuneyti skipti sköpum og hefði yfir fagráðuneytum að segja; yrði ráðuneyti sem örðugt væri að ganga fram hjá eða misnota.

Illa er komið fyrir náttúruvernd á Íslandi. Samtök um náttúruvernd eru liðin tíð, Landvernd er fjárvana og máttlaus í herkví Landsvirkjunar og fleiri hagsmunaafla. Stjórnmálamenn hafa ávallt haft kverkatak á Náttúruverndarráði og oft komið í veg fyrir að ráðið geti bitið fast á ögurstundu, þó svo að mönnum í ráðinu hafi með hetjulegum hætti tekist að bjarga einstæðri náttúruperlu í heiminum, Þjórsárverum, frá því að lenda undir miðlunarlóni Landsvirkjunar. Ekki tókst þeim hins vegar að bjarga Eyjabökkum eða Dimmugljúfrum, Grand Canyon Íslendinga, og óvíst er um mikilúðlegasta foss landsins, Dettifoss, nokkra fegurstu fossa landsins í Þjórsá og er þá fátt eitt talið. Svo báglega hefur tekist til að með lögum hefur Landsvirkjun fengið frjálsar hendur að spilla stórum landssvæðum, og má með sanni segja að þessi stofnun og allt sem henni fylgir er mesta ógn við náttúru Íslands sem upphugsuð hefur verið.

Himinhrópandi aðstöðumunur Náttúruverndarráðs annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar sýnir í hnotskurn viðhorf yfirvalda til náttúru landsins. Náttúruverndarráð hefur ávallt verið fjársvelt en peningum ausið í Landsvirkjun. Ráðið hefur ekki einu sinni haft efni á að hafa upplýsingafulltrúa, náttúruvísan mann sem hefði þann eina starfa að túlka sjónarmið náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar á Íslandi. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn haft sérstaka áróðursmenn sem túlka einsýn sjónarmið stofnunarinnar svo að rödd stóriðjunnar er yfirgnæfandi og ruglar fólk í ríminu. Um næstu áramót verða svo tímamót í náttúruvernd þegar Náttúruverndarráð verður skúffa í Umhverfisráðuneyti, sem er aftur skrifborð í Landbúnaðarráðuneyti, en áfram fitnar Landsvirkjun eins og púkinn á bitanum. Leikurinn er ójafn.

Óhróður um umhverfissinna

Náttúruvernd er mannvernd. Hún snýst um verndun náttúruarfleifðar og hins sögulega arfs. Um leið er hún heilsteypt sýn á eilífðarnýtingu landsins gæða og eina framtíðarvon mannsins. En mistúlkun eða misskilningur embættis- og stjórnmálamanna og ýmissa hagsmunaaðila á náttúruvernd er bæði menntunar- og siðferðisbrestur. Einstaka fjölmiðlamenn hafa apað eftir þeim og sett "umhverfissinna" undir sama hatt og ótínda glæpamenn. Reynt hefur verið að ala þjóðina upp í hatri á þeim sem vilja vernda náttúruna vegna þess að fólk í einhverjum samtökum úti í löndum hefur áhyggjur af framtíð jarðar og sendir sín skilaboð til okkar með réttu eða röngu. Pétur og Páll hafa ekki einkarétt á fáfræði og ofstæki. Það sýna til dæmis sjónvarpsfréttir stundum. Óhróður og öfgar gagnvart "umhverfissinnum" lýsa átakanlegu dómgreindarleysi og skammsýni og þeir sem gerast sekir um þann óhróður mæla gegn öllum þeim sem hafa áhyggjur af landi okkar og þjóð. Þess vegna er það gleðiefni að loks standa nokkrir ágætir fjölmiðla- og fréttamenn upp og þora að sýna fólki hluta af þeim ódæðisverkum sem til stendur að fremja á náttúru landsins í nafni framfara. Við höfum öll sofið á verðinum því Íslendingar, upp til hópa, vilja landinu sínu vel og reyna eftir megni að standa um það vörð - þeir eru umhverfissinnar, náttúruverndarar.

Arðmesta fjárfestingin

Tiltölulega nýverið uppgötvaði þjóðin dýrmætan arf sinn á hálendi Íslands. Allan ársins hring hverfur fólk í faðm þessara miklu víðerna og nýtur nærveru við óbyggðir og mannvirkjafæð. Löngu fyrr hófst stríðsáætlun Landsvirkjunar, en í sama mund og þjóðin áttaði sig á mikilvægi hálendisins þá hófst stríðið. Stríðið gegn víðáttunum, gegn fallvötnum og fossum, gegn dýrmætum þjóðararfi. Snillingar hafa meira að segja reiknað út tapið við að láta Dettifoss falla fram af fossbrúninni óvirkjaðan og hvað það kostar rosalega mikið að hafa túrhestafoss þar yfir ferðamannatímann og svo framvegis. Þetta er hægt að reikna út, en ekki hvað það kostar sárgrætilega mikið að virkja.

Sterk rök hníga að því að arðmesta fjárfesting sem íslenska þjóðin gæti lagt í sé að hætta við allar stórvirkjanir, eituriðjur og sæstrengi. Við það myndi verðgildi landsins sem ferðamannalands aukast um ál- og stálverksmiðjur á fárra ára bili - án verulegs tilkostnaðar. Sérstaða íslenskrar náttúru er farin að skila efnahagslegum arði - hinn andlegi hefur ávallt verið til staðar. Þar að auki myndi spennan í þjóðfélaginu minnka stórum, andlega heilsan dafna og með breyttum hugsunarhætti gæti stórkostleg verðmætasköpun orðið í hugviti og smáiðnaði. Þá væri jafnvel hægt að taka á heildarstefnu í byggða- og menningarmálum.

Vitlaust reiknað

Líklega er til of mikils mælst að íslenskur stjórnmálaflokkur taki upp náttúruverndarstefnu. Til þess vantar þrek, framsýni og þor - og Eysteina Jónssyni. Stjórnmálaumræða nútímans er gersamlega máttlaus gagnvart peningavaldi og gylliboðum stóreiturvera. Samt sem áður er engin - ekki ein einasta - hagfræðikönnun á virkjunum og eiturverum, trúverðugt plagg. Engin þeirra sýnir ótvírætt að hagkvæmasti kostur á nýtingu lands hafi verið valinn, vegna þess að stærsta þáttinn vantar í öll reiknilíkönin, sjálft gildismatið. Auk þess er hið daglega brauð óútreiknanleg óvissa, jafnvel fyrir færustu reiknimeistara. Náttúruóreiða í veraldarviðskiptum er áþekk og í veðurfari og nýjar hæðir og lægðir óreiðunnar myndast sífellt og gera hverja hagkvæmnikönnun stóriðju marklausa í þann mund sem dagur er að kveldi kominn.

Ímynd Íslands

Í getspám eituriðjubraskaranna hafa þjóðfélagsfórnir aldrei verið lagðar á vogarskálarnar og þær eru af þvílíkum stærðargráðum að engin eituriðja er réttlætanleg á Íslandi þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði að ímynd Íslands sem eins mikilvægasta fæðubúrs á norðurhveli, með hreina náttúru, er í veði. Þarna rekast gríðarlegir hagsmunir sjávarútvegs, landbúnaðar og annarrar matvælaframleiðslu á við eituriðjuna og landsspjöllin. Og þá er skylt að nefna ferðaþjónustuna sem halar inn gjaldeyri út á landslag og þessa sérstæðu ímynd - svimandi upphæðir sem nema tugum milljarða og er rétt að fara af stað. Aðeins sjónhverfingamenn geta bæði gefið og tekið og íslenskir stjórnmálamenn eru ekki komnir alveg svo langt. Palli er heldur ekki einn í heiminum. Náttúra Íslands, hálendi og strönd, eru líka griðastaðir fyrir aðra en Íslendinga - fyrir alla sem til landsins koma. Og hvar er þá náttúruverndarstefna ferðaþjónustumanna, framtíðarsýn og barátta þeirra gegn landsspjöllum og eituriðjum? Hvar mótmæla náttúrufræðingar? Eru kraftaskáldin dauð og hugsjónabændur horfnir? Hefur nokkur heyrt getið um Hvanneyringa og Hólamenn í seinni tíð - nema í jólakveðjum ríkisútvarpsins?

Eitt er þó mikilvægast. Það er frumburðarréttur okkar að fá að njóta landsins þar sem saga okkar og náttúrunnar er falin við hvert fótmál og að fá að búa í óspilltri náttúru. En náttúra þessa lands verður ekki svipur hjá sjón ef við reisum henni níðstangir með háspennumöstrum, sökkvum sögunni og perlunum í miðlunarlón, missum sjónar á fjólubláu fjöllunum vegna mengunardrullu og öndum að okkur viðbjóði eiturverksmiðja. Verða það döpur örlög okkar að vera framherjar í stóreituriðjum og leggja einstakt land og menningu í rúst? Og fyrir hvað? Á að framleiða eitthvað merkilegt? Eitthvað stórkostlega menningarlegt og merkilegra fyrir heimsbyggðina heldur en ferskt loft og óspjallaðar víðáttur á hálendi Íslands? Hver vill fórna Dettifossi fyrir álpappír eða hjólkoppa? Það verða líklega örlög Köldukvíslarbotna.

Siðferðisskyldan

Ef við höfum snefil af siðferði til að bera þá felst skylda okkar ekki í því að virkja fallvötn og byggja stíflur heldur að skila landi og lofti óspilltu til komandi kynslóða. Það er þjóðararfurinn og þjóðarauðurinn, sjálfur frumburðarréttur sérhvers Íslendings.

Þegar metin eru áhrif virkjana nægir umhverfismat engan veginn, þó svo að það sé spor í rétta átt. Það er siðferðisleg skylda að meta heildaráhrif á landið, fyrir þjóðina og fyrir ferðaþjónustu framtíðar, og þá verður að grandskoða um leið hverju er fórnað fyrir hvað. Er rétt að sökkva landinu okkar vegna hjólkoppa? Er rétt að stuðla að eyðingu ósónlags eða gróðurhúsaáhrifum fyrir stundargróða einhverra í útlöndum sem eru á hrakhólum með eiturverksmiðjur sínar. Sjálfir munum við aldrei græða á neinni stóreituriðju. Það er gjörsamlega útlilokað mál. Til hvers eyðileggjum við þá dýrmætt land? Við höfum ekki svarað því. Ætlum við að svara því eða gerum við það barasta aþþí?

Hagsmunir Íslendinga

Siðferðislega erum við afvegaleidd vegna yfirþyrmandi áherslu á aurasjónarmið. Ekki er þar með verið að segja að efnahagur skipti engu. Hann skiptir verulegu máli, að sjálfsögðu. Einmitt þess vegna á að leggja öll spilin á borðið en ekki bara sum. Í spilamennsku stórvirkjana og eituriðju er haft rangt við og ekki einu sinni rétt gefið.

Siðblindan er svo dæmalaus að talsmenn stóriðjunnar hafa stimplað sjálfa sig sem hina sönnu náttúruverndara, einmitt þeir sem standa fyrir mestri umhverfisbyltingu og eyðileggingu á hálendi Íslands og telja sig líka ganga erinda smælingjans og atvinnuleysingjans þegar þeir stofna til stóriðju. En stóriðja, mengun og landsspjöll eru ekki hagsmunir Íslendinga. Svo einfalt er það. Og þeir sem aðhyllast þá sýndarnáttúruvernd að það sé betra - ef ekki skylda okkar - að virkja nýtanlega hreina orku, eins og hún er ranglega kölluð, til þess að bjarga jörðinni frá mengandi kola- og kjarnorkuverum annarra landa eru beinlínis að fíflast með fólk, vísindi og náttúruvernd. Vissulega er það blekking ein að vatnsaflsvirkjanir séu skaðlausar umhverfinu. Við þurfum líka að eiga óbeislaða orku þegar þekking og framfarir hafa orðið í nýtingu raforku og sú stóra stund rennur upp að við lærum að virkja án þess að landsspjöll hljótist af. Það er langt í land með það og á meðan eigum við að virkja fólk í stað þess að vanvirða sköpun náttúrunnar og þau dýrmæti sem okkur hafa fallið í skaut. Þetta skynja og skilja flestir Íslendingar og vita að hvorki Landsvirkjun né stjórnmálamenn hafa umboð frá þjóðinni til að eyðileggja fjársjóði hennar eða afhenda þá.

Skipulag og réttleysi

Skipulagsvinna á hálendi Íslands er á lokastigi. Ágætir landslagsarkitektar eru þar að störfum og vinna samviskusamlega. Full ástæða er samt til að hafa verulegar áhyggjur. Meirihluti þjóðarinnar hefur ekkert um þessa vinnu að segja þar sem einungis þau sveitafélög og héraðsnefndir sem eiga lendur eða beitarréttindi á öræfum hafa málið í sínum höndum. Hér skal ekki dreginn í efa góður vilji einlægra fulltrúa þessara héraða, en ansans ári er það undarlegt lýðræði ef réttur manna til að stjórna skipulagsvinnu á hálendi Íslands stendur og fellur með því hvort grasbítar þeirra hafa verið á beit á hálendinu eða ekki. Eiga til dæmis fulltrúar Reykjavíkur að birtast einungis sem stríðsmenn Landsvirkjunar? Ég er ekki viss um að Reykvíkingar séu alls kostar sáttir við það. Landið er þjóðareign og hálendið ætti einfaldlega að vera þjóðgarður og sameign. Núverandi skipan mála er ranglát og ávísun á vandræði, mistök og ójöfnuð þegar fram líða stundir; kannski líka undanfari þess að neyða fólk til að greiða gjald fyrir að sjá landið sitt og fara um vegina sem það á og er búið að borga með sköttum.

Hér lón ­ þið flón . . .

Á hálendi Íslands er Landsvirkjun á sérsamningi eins og annars staðar og endranær. Skipulagsvinnu er ólokið og samt hefur umhverfisráðherra veitt Landsvirkjun leyfi fyrir einu miðlunarlóninu enn - við Hágöngur - "með ákveðnum skilyrðum" sem í raun merkir ekki neitt. Þar með hefur umhverfisráðherra horfið af braut skipulagsvinnunnar, hundsað viðleitni skipulagsstjóra til að vanda verkin og ögrað þjóðinni. Illa hljómar það í eyrum að umhverfis- og iðnaðarráðherra ásamt formanni umhverfismálanefndar alþingis - eða þeir þrír menn sem standa í fylkingarbrjósti fyrir þessari ákvörðun og stóriðjuæðinu sem tröllríður landinu - eru allir framsóknarmenn og arftakar Eysteins Jónssonar mesta náttúruverndara í stjórnmálum á Íslandi fyrr og síðar. Svona var ekki framsókn í foreldrahúsum mínum á Húsavík.

En til hvers er verið að skipuleggja hálendið ef Landsvirkjun fær að valsa um það og benda "hér og hér lón - þið flón"? Hvers vegna er vinnu ekki lokið við að meta gildi landsins áður en rokið er í að veita leyfi til að byggja miðlunarlón? Hver neyðir umhverfisráðherra til að ákveða gríðarlegt lón við Hágöngur á landi sem er mjög áhættusamt að stífla? Er það þrýstingur vegna eiturálvers Columbia Venture? Hverjir hrópuðu hæst úlfur, úlfur, EFTA, GATT og ESB? Þetta reyndust svo ekki úlfarnir. Hverjir öskruðu hæst? Kannski þeir sem ákafast vilja eyðileggja íslenska náttúru?

Víkjum enn að öðru. Hvernig hljómar áhættumat Landsvirkjunar á Hágöngulóni? Áhættumat fyrir sveitir Suðurlands; fyrir blómlegar byggðir; fyrir ferðalanga á fjöllum - fyrir blessað fólk í sveitum og bæjum Suðurlands - ef stíflan brestur, ef stíflurnar bresta vegna eldsumbrota í næsta nágrenni, flóða frá gosstöðvum eða jarðskjálfta? Skilst það að hættuspilið snýst líka um fólk?

Eitt lón á ári?

Eitt lón á ári? Hver er sú framtíðarsýn? Hve lengi á að draga Íslendinga á asnaeyrunum og segja engar ákvarðanir teknar á þessari stundu heldur fari þetta nú allt eftir framboði og eftirspurn. Hvers konar náttúrusýn til framtíðar er þetta "framboðogeftirspurn"-rugl? Hvers vegna lætur iðnaðarráðherra ekki birta áform Landsvirkjunar og leggja þau undir þjóðaratkvæði, eða bara sveitastjórnarkosningar? Þá gæti þjóðin öll ákveðið hvaða sveitum hún vill eyða eða hvaða fossum skal fórna. Hvernig lítur framtíðarsýn Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis út? Íslendingnum til sjávar og sveita þætti ofurvænt um að vita hvort eða hvenær ráðgert er að sökkva sveitinni hans, ógna byggðinni með stíflu eða sökkva þessum og þessum hluta öræfanna - öræfi sem framtíðarbörn Íslands vilja eflaust eiga óspillt með öllu?

Grát fóstra mín

Fyrir margt löngu sögðu Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti landinu stríði á hendur. Og svo rækilega hefur verið búið um hnútana að þjóðin sjálf, eigendur landsins, hefur nær ekkert að segja um hvernig farið er með það. Engu skiptir hvort land er skipulagt eða ekki ef stórvirkjana- og stóriðjujöfrar fá að leika lausum hala um hvað er gert á hálendi og í byggð. Leikreglurnar eru ekki í lagi. Jafnvel ágætir þingmenn og þingmannanefndir ráða ekkert við Landsvirkjun og þúsundir Íslendinga horfa á virkjunarbrjálæði Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis með viðbjóði en fá ekkert að gert vegna þess að það er búið að girða fyrir flestar leiðir til mótmæla nema pennann og þá gömlu sem var notuð við upptök Laxár - dýnamítið.

Þjóðinni ofbýður. Henni ofbýður tilviljanakennt stóriðjufálm en þögn hennar er heldur ekki réttlætanleg lengur. Stórbrotnar og fáfarnar slóðir við Hágöngur, Dimmugljúfur, Eyjabakka, Langasjó . . . eru í veði, og miklu meira. Allt hálendi Íslands liggur meira og minna á fórnarstalli stóriðju nema hálendi Vestfjarða og virðingarleysi fyrir dásemdum íslensks landslags, fyrir lífi og tilveru fólks er algjört. Í samanburði við þessi áform er okurverð á rafmagni og ranglæti í orkuverði til ólíkra þjóðfélagsþegna hjóm eitt.

Enn má stöðva stóriðjuhernað gegn landinu. Flöggum heldur hreinu landi og fögru heldur en landspjöllum og eiturverum. Beitum skæðasta og beittasta vopninu, íslenskri tungu. Skerum burt rotið mein og sprengjum áformin í tætlur. Mótmælum öll hvar og hvenær sem er og verum landinu og sjálfum okkur trú.

Skrifað í Stykkishólmi 18. desember 1996

Höfundur er faðir og náttúruverndari.

Guðmundur Páll Ólafsson