ÁFJÓRÐA áratugnum lofaði Dali Elenu Diakanoff, ástkonu sinni, þekktari sem Gala, að gera hana að drottningu í kastala í Toscana. Hann stóð við loforð sitt árið 1970 er hann keypti kastala í Púbol, smáþorpi í La Pera-sveit í nágrenni Girona-borgar í Katalóníu.
Kastali Gölu opnaður almenningi Eftir miklar viðgerðir hefur kastali Gölu, eiginkonu Salvadors Dalis, sem staðið hefur auður í fjórtán ár, verið opnaður almenningi sem safn og ferðamannastaður. Stofnunin sem stendur fyrir þessu hefur kynnt framkvæmdina sem afhjúpun á súrrealískum einkaheimi hjónanna. Þorri Jóhannsson átti leið um Katalóníu og kynnti sér málið.

ÁFJÓRÐA áratugnum lofaði Dali Elenu Diakanoff, ástkonu sinni, þekktari sem Gala, að gera hana að drottningu í kastala í Toscana. Hann stóð við loforð sitt árið 1970 er hann keypti kastala í Púbol, smáþorpi í La Pera-sveit í nágrenni Girona-borgar í Katalóníu. Dali lét samstarfsmenn sína fljúga yfir fæðingarhérað sitt til að finna hallir og síðan valdi hann þessa byggingu frá fjórtándu öld með kirkju og rómantískum garði mjög nálægt Sanuari dels Angels þar sem þau voru gefin saman 1958.

Hann hafði sjálfur yfirumsjón með endurbyggingu, skreytingum og innréttingum á kastalanum en gat aldrei farið þangað sjálfur án leyfis eigandans, Gölu.

Virkið varð að athvarfi Gölu til dauða hennar, 1982, listamaðurinn og hún ræddust að vísu við í síma daglega. Í raun eyddi Gala sumrunum þarna til endurnæringar og hvíldar eftir kröftugt samkvæmislíf sitt meginhluta ársins. Hún fór í göngutúra og heimsótti staðarfólk í nágrenninu og tók ekki við neinum heimsóknum fyrir utan sína ungu elskhuga. Eitthvað sem ekki var rætt, þó allir staðarmenn vissu af því.

Kastalinn hefur verið lokaður síðan 1984 er Dali yfirgaf hann í kjölfar bruna í herbergi hans. Eftir viðgerðir á byggingunni og listmununum hefur kastalinn verið opnaður aftur sem safn þar sem almenningi er seldur aðgangur. Þar gefst fólki í fyrsta skipti kostur á að kynnast einkaheimi parsins eins og segir í áróðri Dali-Gala stofnunarinnar.

Allt eins og áður

" Það er allt eins og það var áður," segja hjónin Jochim Chicot og Dolors Bosch, sveitafólk sem í 27 ár hefur litið eftir kastalanum og þjónuðu Gölu þegar hún dvaldi þar. Þau þekktu Gölu náið og vildu aðeins lýsa henni sem vingjarnlegum persónuleika og minntust heimsókna ungra pilta. Þau brosa er þau segja að henni hefði ekki líkað svona tíðar heimsóknir fólks en búist er við 50.000 gestum á ári.

Gala var virt af nágrönnum sínum og hún var alltaf kastalafrúin. Hún rétti þorpsbúum oft hjálparhönd, lánaði til dæmis einhvern kastalasalinn fyrir hátíðir ef það rigndi. Gala lést 88 ára 1982 í Portlligat, húsi Dalis við ströndina. Eftir dauðann var hún flutt til Púbol þar sem hún hvílir í steinkistu í kjallaranum. Við hlið hennar er önnur tóm þar sem Dali átti að liggja.

Við dauða Gölu féll Dali, sem var tíu árum yngri en hún, í þunglyndi og sorg. Hann ákvað að yfirgefa heimili sitt og flytja í kastalann til að skilja Gölu ekki eftir eina í kjallaranum. En hann fór aðeins tvisvar niður í kjallara til að sjá gröf sinnar ástkæru. Hann einangraði sig og tók ekki við heimsóknum. Eftir brunann 1984 er hann bjargaðist naumlega og var lagður inn á spítala í Barcelona, sneri hann aldrei aftur í kastalann, heldur bjó í turninum Galatea, við hlið safnsins í Figueras, þar sem hann lést 1989 og var jarðaður í safninu.

Í Púbol málaði Dali síðustu olíumálverk sín og fylgdi eftir yfirlitssýningum á verkum sínum í Madrid og Barcelona á málverkum sem voru dreifð um allan heiminn og þurfti að safna saman. Honum fannst mikið til koma þegar kóngurinn og prinsinn hringdu í hann í kastalann til að óska honum til hamingju. Og ennþá meira þegar kóngurinn útnefndi hann markgreifann af Púbol. Allt var þetta liður í að gera Dali að spænskum listamanni áður en Frakkland eða Bandaríkin eignuðu sér hann og Dali þótti mikið til um. Einn þátturinn í óvinsældum hans innan listheimsins var að hann sem súrrealisti skyldi vera hlynntur stjórnvöldum Spánar alla tíð. Vegna peningahyggju hans kölluðu fyrrum súrrealistafélagarnir hann Dollars í háði.

Átak hefur verið gert til að skilja eftir ósnortna súrrealíska listmuni og húsgögn eftir Dali. Endurbætur á Púbol-kastala eru í höndum Dirección General del Patrimonio del estado, heimserfingja listamannsins, samkvæmt umdeildri erfðaskrá hans. Samræming á verkefninu hefur verið á ábyrgð Margarita Ruiz frá Gala-Salvador Dali stofnuninni, en hún vill að endurbæturnar komi öllu útliti í fyrra horf. Arkitektinn Orol Clos hefur gert allt til að ná dalisku andrúmslofti og umhverfi með blöndu af því að sýna einkaheimili og fjarlægð safnsins.

Brjálæðisleg tilbeiðsla

Heimsóknin hefst í skjaldarmerkjasalnum þar sem er hásæti Gölu með olíumálverki á bakinu og myndskreytt loft með áþekkri fresku og í Dali-safninu; með englum, hvítum hesti og tungli. "Ég hef haft ánægju af að skreyta loftin því þegar ég horfi í augu Gölu sé ég himnaríki". Tilbeiðslan og hollustan sem listamaðurinn sýndi konu sinni var brjálæðisleg og endurspeglast í innréttingum og skreytingum í næstum öllum kastalanum; í svefnherbergjunum, eldhúsinu, á salernum og í öllum vistarverum fyrstu hæðarinnar þar sem komið er inn eftir að gengið er í gegnum yfirbyggt port með gotneskum gluggum. Þar eru einnig til sýnis síðustu ljósmyndirnar sem frúin leyfði að væru teknar í kastalanum. Þar tekur við píanósalur, setustofa þar sem er borð með strútslöppum og síðan uppstoppaður hvítur hestur. Þar á eftir er herbergi Gölu sem brann er Dali dvaldi þar og afgangurinn er skrifstofa, eldhús og stór borðstofa með athyglisverðu eldstæði eftir Dali. Efri hæðin sem var notuð sem vörugeymsla er núna sýningarsalur þar sem til sýnis eru tugir kjóla og persónulegra muna Gölu, hannaðir af frægum tískuhönnuðum eða eiginmanninum sjálfum.

Ótrúlegt safn

Á neðstu hæð kastalans er búið að koma fyrir hestvagni sem Dali og Gala notuðu til að ferðast um svæðið og kadílakkinn sem fór með Gölu hinstu ferðina sem lík og með Dali frá sjúkrahúsinu í Barcelona til Portlligat, en hann neitaði þótt sjúkur væri að þiggja þjónustu sjúkrabíls. Á neðri hæðinni var dýflissa þar sem er núna verslun. Þar eru seldir listmunir undir áhrifum eða beint úr verkum Dalis. Ætlun Gala-Dali stofnunarinnar er að stjórna því að listmunirnir og minjagripir séu í anda Dalis eftir margra ára öngþveiti á markaðnum. Þeir vilja halda uppi heiðri listamannsins og hafa einkaleyfi á minjagripaframleiðslu um hann. Skemmst er að minnast er Dali áritaði auðar arkir auk nokkura samninga, hálfelliær undir lokin. Gala-Dali stofnunin, sem varð til 1983 í þeim tilgangi að dreifa og birta verk listamannsins, ætlar að koma skikk á þá hluti.

Garðurinn hefur einnig verið endurbættur af landslagsarkitekt sem endurteiknaði hönnun Dalis. Garðurinn er geometrískur með stíg sem leiðir til sundlaugar er Gala notaði, umkringd brjóstmyndum Wagners og gosbrunni sem er í formi risafisks. Á báðum hliðum garðsins eru fílar með langar lappir úr málverkum Dalis og úr rönum þeirra rennur vatn. Þar endar leiðin gegnum safnið.

Dali-þríhyrningur

Með því að opna kastalann og gera hann að safni fyrir almenning verður myndaður Dali-þríhyrningur með Dali-safninu í Figueras og heimili hans í Portlligat sem verður opnað síðar á þessu ári. Fjármálaráðuneytið sem er eigandi Púbol kastalans og heimilisins listamannsins, leggur fé í verkið.

Samkvæmt kynningu á opnun Púbol-kastala á þar að afhjúpa hina þjóðsagnakenndu dulúð sem einkenndi líf íbúanna. Það er ekki jafn sjónrænt og stórfenglegt og búist var við. Ofhlaðið og skreytilegt, en hvað sem segja má um listamanninn, án efa snilld. Þannig mun séníið mala gull fyrir ferðamannaiðnaðinn löngu eftir dauða sinn. Höllin verður opin frá mars til október árlega.GRAFHÝSI Gölu.

HÁSÆTI Gölu.

INNGANGUR í kastalann.