29. maí 1997 | Aðsent efni | 1207 orð

Flugslysið í Héðinsfirði

Í DAG eru 50 ár síðan mesta flugslys Íslandssögunnar varð er 25 manns fórust í Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands, TF-ISI í Hestfjalli við Héðinsfjörð. Árin 1942 til 1947 voru miklir uppgangstímar hjá Flugfélagi Íslands. Félagið var stofnað upp úr Flugfélagi Akureyrar árið 1942 og átti þá tvær flugvélar.

Flugslysið

í Héðinsfirði

Mesta flugslys Íslandssögunnar er 25 manns fórust í Hestfjalli í Héðinsfirði hinn 29. maí árið 1947. Hörður Geirsson rifjar upp þennan hörmulega atburð. Í DAG eru 50 ár síðan mesta flugslys Íslandssögunnar varð er 25 manns fórust í Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands, TF-ISI í Hestfjalli við Héðinsfjörð.

Árin 1942 til 1947 voru miklir uppgangstímar hjá Flugfélagi Íslands. Félagið var stofnað upp úr Flugfélagi Akureyrar árið 1942 og átti þá tvær flugvélar. Vorið 1947 voru vélarnar orðnar níu og þar af voru þrjár DC-3 og þrír Catalínu flugbátar. Margir ungir flugmenn fóru til flugnáms eftir stríð og þar sem skortur var á reyndum flugmönnum voru þessir ungu menn fljótir að vinna sig upp í flugstjóratign.

Á þessum árum var ekki kominn flugvöllur við Akureyri heldur var landflugvélum lent á Melgerðisflugvelli sem er um 30 mín. akstur inn af Akureyri, en sjóflugvélum var lennt á pollinum við Akureyri. Lítið var af flugleiðsögutækjum á þessari flugleið og var því venjan að fljúga sjónflug.

Vélin hverfur

Ferð TF-ISI átti að verða fyrri ferð vélar og áhafnar til Akureyrar þennan dag. Var haldið af stað frá Reykjavík kl. 11.25 og áætlaður flugtími til Melgerðis voru 90 mín., en flugvélin hafði flugþol til 6 tíma flugs. Hafði fyrir ferðina verið ákveðið að eina færa leiðin væri að fljúga til Skagafjarðar og þaðan að reyna að skríða undir skýjum útfyrir mynni Siglu- Héðins- og Ólafsfjarða til að komast inn í Eyjafjörð. Ferðin gekk samkvæmt áætlun til Skagafjarðar og fyrir mynni Siglufjarðar, síðan var flogið framhjá Siglunesi þar sem síðast sást til vélarinnar. Vitað er að flugvélin flaug inn í þoku u.þ.b. 2 km frá þeim stað þar sem hún fórst (sjá kort).

Leit var hafin þegar áhöfnin hafði ekki samband á umtöluðum tíma og var fyrst reynt að kalla vélina upp. Síðar um daginn var send til leitarflugvél frá Varnarliðinu í Keflavík sem leitaði með radar úti fyrir ströndinni þar sem síðast sást til vélarinnar, einnig voru þennan dag sendir leitarflokkar til leitar á sjó og með ströndum fram, en þeir sem fóru í Héðinsfjörð sáu ekkert þar sem þoka lá niður að sjó og ekkert sást uppí fjallshlíðar.

Flakið finnst

Um nóttina 30. maí létti til og var hafin leit með þremur flugvélum Flugfélags Íslands og var það síðan Smári Karlsson flugmaður á TF- ISP sem fann flugvélina í Hestfjalli kl. 8.20 um morguninn. Var strax ljóst að enginn hafði komist lífs af úr þessu slysi.

Flugvélin hafði komið úr suðurátt er hún flaug í fjallið, þar sem hún hafði splundrast og einnig brunnið mikið.

Þegar fréttir bárust til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar fóru björgunarflokkar strax af stað til leitar og er aðkomunni þannig lýst í Tímanum 31.5. 1947:

"Flugmönnunum sem sáu flakið, virtist það myndi verða mjög örðugt að komast að því nema helst að fara uppá fjallið og síga niður í gilið, þar sem flakið lá. Klettar ganga þarna fram í sjó og er fjallið bæði bratt og hömrótt. Bátum sem voru á nálægum stöðum var gert viðvart og nokkru fyrir hádegi tókst vélbátnum Agli frá Ólafsfirði að leggjast að klöpp þarna rétt hjá og gátu skipverjar síðan klifrað upp að flakinu. Blasti við þeim mjög hörmuleg sjón er þangað kom. Allt var brunnið af flugvélinni sem brunnið gat og hún hafði brenglast mikið við sprenginguna. Flest líkin lágu á víð og dreif í kringum flakið, sum all fjarri. Hafa þau sennilega henst úr vélinni við sprenginguna. Mörg þeirra höfðu mikla áverka, en önnur voru með minni. Minnstir áverkar höfðu orðið á líkum barnanna. Í vélinni sjálfri voru nokkur lík."

Björgun líkanna úr fjallinu reyndi mjög á björgunarmennnina við þessar aðstæður auk þess sem flestir þeirra voru ungir menn og hafði þessi reynsla djúpstæð áhrif á þá.

Líkin voru fyrst flutt til Ólafsfjarðar og þaðan til Akureyrar og kom ms Atli með þau kl. 22.00 að Torfunefsbryggjunni þar sem voru saman komnir um 4.000 manns.

Sorgarlög voru spiluð og sungin. Pétur Sigurgeirsson, síðar biskup, hélt ræðu og voru líkin síðan sett á vörubílspalla og ekið til kirkjukapellunnar.

Minningarathöfn var haldin um þau sem jörðuð voru utan Akureyrar 5. júní og þau flutt í varðskipinu Ægi til Reykjavíkur. Það var síðan 6. júní að í Akureyrarkirju fór fram jarðarför þeirra 11 sem jarðsungin voru á Akureyri. Að henni lokinni var virðuleg líkfylgd þar sem bílalest flutti kisturnar og skátar gengu fylktu liði með bílalestinni.

Í Reykjavík voru hinir látnu jarðsungnir dagana 10. til 12. júní.

Ekki feig

Til eru sögur af fólki sem ekki fór ferðina. Hafa þrjár slíkar borist höfundi til eyrna en ekki er ástæða til að segja nema eina þeirra hér þar sem tvær eru frá öðrum eða þriðja aðila. Saga Maríu Jóhannsdóttur frá Úlfá er á þessa leið:

"Var María stödd hjá vinkonu sinni, Kristínu Böðvarsdóttur, í Hafnarfirði. Ætlaði hún að kaupa sér far með TF-ISI til Akureyrar, treysti hún sér ekki til að fara ein út á Reykjavíkurflugvöll vegna ókunnugleika og fór því Kristín með henni. En er þær voru komnar á flugvöllinn og hún ætlaði að fara að greiða fargjaldið þá er hún peningalaus og var Kristín undrandi á því að María skyldi fara út á flugvöll peningalaus. Kristín býðst til að lána henni fyrir fargjaldinu en þá hafði hún sáralitla peninga á sér svo að þær höfðu rétt fyrir fargjaldi í vagninn til Hafnarfjarðar. Er þangað kom var María orðin veik svo að hún treysti sér ekki til að fara. Morguninn eftir var ekkert að henni en þá heyra þær vinkonur að verið sé að leita að vélinni. Þótti þeim það merkilegt að þær skyldu báðar gleyma peningunum er þær fóru til að kaupa farseðilinn.

Telur María að þarna hafi æðri máttvöld séð til þess að hún fór ekki með vélinni. Kom María síðan með Catalínu flugbát til Akureyrar jarðarfarardaginn. Voru fáir farþegar í vélinni og allir hálf hræddir."

Minnisvarði

Það sem eftir var af flaki flugvélarinnar mun hafa verið fjarlægt nokkrum árum eftir slysið. Ekki hefur tekist að hafa upp á neinum sem kann að greina frá örlögum þess. Sennilegast er að leifarnar af flakinu hafi verið dregnar niður í fjöru þar sem sjórinn hefur eyðilagt það sem eftir var.

Nú, þegar 50 ár eru liðin frá þessum sorgardegi, hafa Kiwanismenn á Ólafsfirði, auk annarra, bundist samtökum um að reisa minnisvarða nærri slysstaðnum. Er gert ráð fyrir því að hann verði vígður 12. júlí.

Það eina sem höfundur hefur fundið á prenti eftir 1947 þar sem slyssins er minnst, er lítil klausa í Degi á Akureyri 29. maí 1957, 10 árum eftir slysið. Það er vel við hæfi að gera orð Erlings Davíðssonar, ritstjóra Dags, að lokaorðum þessarar greinar, þar segir í niðurlagi: "Vér minnumst þessa sorgardags og þeirra er þá voru í burt kallaðir, með þökk og virðingu."

Höfundur er safnvörður við Ljósmyndadeild Minjasafnsins á Akureyri og hefur skrifað um flugsögu. Grein þessi er útdráttur úr grein höfundar í tímaritinu Súlur 1997, sem Sögufélag Eyfirðinga gefur út.TF-ISI veturinn 1947 í Reykjavík.Helgi Sveinsson/Úr safni Gunnars Steindórssonar. LEIFAR vélarinnar utan í brattri hlíðinni. Hér má sjá hversu erfiðar aðstæður voru á slysstað. Í baksýn sést inn Héðinsfjörð.

Helgi Sveinsson/Úr safni Gunnars Steindórssonar BJÖRGUNARMENN í fjörunni niður af slysstað.

Gert af höf. eftir lýsingum gagna málsins. KORT af flugleið TF-ISI. X-ið sýnir slysstað. Þekkt og líkleg flugleið er sýnd. Hörður Geirsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.