BJARNI Hafþór Helgason framkvæmdastjóri Útvegsmannafélags Norðurlands, hefur farið mikinn á síðum Morgunblaðsins undanfarið gegn greiðslu veiðileigu og til varnar kvótakerfinu. Málflutningur hans er svipaður margra ára málflutningi kollega hans, Kristjáns Ragnarssonar formanns LÍÚ.
Að þekkja mann . . . á Alþingi?

Sparifjáreigandinn (þjóðin) má eiga höfuðstólinn á bankareikningum (fiskinn í sjónum) ef hún lætur hann alveg í friði, segir Kristján Þ. Davíðsson, og ef hún skiptir sér ekki af því hver fær vextina ókeypis til ávöxtunar og eignar. BJARNI Hafþór Helgason framkvæmdastjóri Útvegsmannafélags Norðurlands, hefur farið mikinn á síðum Morgunblaðsins undanfarið gegn greiðslu veiðileigu og til varnar kvótakerfinu. Málflutningur hans er svipaður margra ára málflutningi kollega hans, Kristjáns Ragnarssonar formanns LÍÚ. Umræðu um veiðileigu telur hann óskir um eyðingarskatt á landsbyggðina og sýnist síst skilja að til skuli vera svo fáfróðir landar að þeir séu ekki sáttir við ríkjandi fyrirkomulag. Í ljósi starfs hans er ekki ástæða til að vera hissa á slíkri afstöðu og ljóst að útgerðarmenn norðan heiða hafa í honum fengið skeleggan starfsmann til liðs við sig.

Hitt vekur meiri athygli ef það vefst fyrir honum að ekki ríkir sátt um kvótakerfið. Má vera að honum þyki það réttlátt enda segir hann að það sé nánast beiskur kaleikur að þiggja ókeypis kvóta að gjöf og að ekkert sé tekið frá þjóðinni af sameign hennar þótt völdum einkaaðilum hafi verið falið að veiða fisk þjóðarinnar. Stjórnvöld sjái til þess að jafnmikið sé í sjónum við lok árs og í upphafi þess og "enginn hafi því tekið neitt frá neinum". Þetta er gróf einföldun.

Það sem vekur andúð á kvótakerfinu og býr til uppnefni eins og kvótaaðall, sægreifar og kvótakóngar er sú staðreynd að þorra fólks þykir misrétti felast í kvótakerfinu. Kvótalögin misbjóða réttlætiskennd almennings og þetta er hvati þeirrar miklu gagnrýni á kvótakerfið sem fram hefur komið. Veiðileyfagjald er ekkert nýtt.

Veiðileyfagjald eða leiga er löngu innleidd hér, það var gert strax með framseljanlegum kvótum. Leigan er hins vegar ekki greidd til eigenda auðlindarinnar heldur til kvótaeigendanna. Það er vel mögulegt að leigja á hundruð þúsunda króna fyrir hvert tonn veiðileyfi af útgerðarmanni sem aldrei var á sjó viðmiðunarárin. Sá útgerðarmaður þarf ekki einu sinni að kunna að veiða öðruvísi en í "smugum" laganeta og leigja frá sér heimildir í stað þess að skapa sér lífsviðurværi með fiskveiðum. Og það er hægt að selja kvóta af báti og láta svo skipshöfnina seinna taka þátt í að kaupa hann til baka. Er furða að talað sé um leiguliða og lénsherra?

Það er ekki lengur hægt að kaupa bát og koma undir sig fótunum með vinnu við fiskveiðar, eins og forfeður okkar gerðu mann fram af manni og eins og fjölmargir duglegir útgerðarmenn hafa gert í gegnum tíðina. Þetta er nú bannað og ekki hægt án þess að borga fyrst veiðileigu. Veiðileyfið er í mörgum tilfellum dýrara en fleyið og það er ekki hægt að fá keypt af þjóðinni, sem samkvæmt fyrstu grein laga um fiskveiðistjórnun á fiskinn, heldur einungis af einum eftirtalinna: Manni sem var svo lánsamur að vera byrjaður að veiða fisk einhver viðmiðunaráranna, erfingjum slíks manns, eða fjárfestum sem fjárfest hafa í kvóta slíks manns. Kvótalögin bjuggu til stétt manna sem er uppnefnd kvótaaðall og allir aðrir sem vilja veiða fisk skulu samkvæmt lögunum borga veiðileigu til "aðalsins". Afskriftir eru í fyrirtækjarekstri til þess hafðar að hægt sé að telja til útgjalda slit og úreldingu tækja, húsa, skipa og annars sem tilheyrir tekjusköpuninni. En það að hægt sé að afskrifa keyptan kvóta, sem er endurnýjaður ókeypis á hverju ári um ófyrirséða framtíð, er að margra mati lýsandi dæmi um siðleysi löggjafans og þess "aðals" sem stendur að slíkri lagasetningu. Afskriftaheimild á kvóta er illa dulbúin niðurgreiðsla til kvótaeigenda, ávísun á peninga úr vösum skattgreiðenda til kvótaeigenda, enda lögleg kvótaviðskipti oft uppnefnd "kvótabrask". Afskriftirnar lækka skattbærar tekjur kvótaeigandans og til að bæta sér upp tekjutapið hækkar ríkið skatta annarra skattgreiðenda, launþega og fyrirtækja.

Þjóðarhagur?

Það er í ljósi þessa að fólk, ekki síst á landsbyggðinni, hvers hag forsvarsmenn samtaka útgerðarmanna bera svo mjög fyrir brjósti, á bágt með að líta á fyrstu málsgrein kvótalaganna sem haldbæran sannleika. Að óbreyttum kvótalögum hæðast stjórnvöld að þeim íbúum landsins sem í dag búa við að hafa fiskinn "fyrir utan stofugluggann" en mega ekki veiða hann nema borga veiðileigu til kvótaeigendanna og borga auk þess niðurgreiðslur í formi afskrifta til þeirra sem eiga kvótann. Lög um fiskveiðistjórnun eru móðgun við það fólk sem nú er boðið að horfa á þá nágranna sína sem enn eiga trillu veiða heila 19 daga á ári, ef það vill ekki sjálft taka þátt í leiknum gegn greiðslu veiðileigu til kvótaeigendanna.

Það sem kvótalögin í reynd segja er að sparifjáreigandinn (þjóðin) má eiga höfuðstólinn á bankareikningum (fiskinn í sjónum) ef hún lætur hann alveg í friði, tekur aldrei neitt út, krefst ekki vaxtanna, hvorki að hluta né í heild og skiptir sér ekki af því hver fær vextina (veiðina) ókeypis til ávöxtunar og eignar. Auk þess skal sá sem vill taka þátt í að hámarka vextina núna (veiða) borga leigu og niðurgreiðslu til þeirra sem fengu vaxtaúthlutun (kvóta) á sínum tíma. Það þætti saga til næsta bæjar ef bankarnir byðu sparifjáreigendum svona kjör. Það er engum láandi að berjast fyrir óbreyttu ástandi ef viðkomandi nýtur vaxtaúthlutunar á slíkum kjörum, nokkuð sem umbjóðendur Kristjáns og Bjarna Hafþórs gera. Og gerðin ­ og ábyrgðin ­ er fyrst og fremst bankastjóranna sem bjóða okkur þessi kjör, þingmeirihluta og ríkisstjórna undanfarins áratugar.

Lénsveldi kvótalaganna

Þetta kerfi er alls ekki nýtt, það var víða reynt á miðöldum og af sögunni dæmt ónothæft. Það er kallað lénsveldi og þeir fáu sem nutu þess voru kóngar, greifar og aðrir aðalsmenn, samanber uppnefnin kvótakóngur, sægreifi og kvótaaðall. Á miðöldum safnaðist þjóðarauður, með siðlausum lagasetningum spillts ríkisvalds og siðlausum gerðum spillts aðals, á fárra manna hendur uns upp úr sauð.

Það er rangt að verið sé að þjófkenna þá sem stunda sjávarútveg þegar fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar er rætt opinberlega á gagnrýninn hátt. Það skilur lýðræðisþjóðfélag frá öðrum tegundum þjóðskipulags, til dæmis lénsveldi, að menn mega láta opinberlega í ljósi mismunandi skoðanir á málefninu. Það er vitlaust að skammast út í þá umræðu með offorsi og rökleysum um Gullfoss og morgunkorn og halda því fram að eyðing landsbyggðarinnar verði afleiðing kvótaleigu til ríkisins, hún hefur þegar gengið nokkuð á veg í "skjóli" kvótakerfisins. Að veifa grýlu kommúnisma og ríkisforsjár þegar rætt er um veiðileigu til ríkisins er moðreykur rökþrota manna því það sem lagt er til er einfaldlega markaðsvæðing lénsveldisins.

Reynslan sýnir að afturhvarf til fortíðar er ekki rétta leiðin, en það sjá flestir sem vilja að það verður fyrr en seinna að sníða af kvótakerfinu verstu gallana ef sátt á nokkurn tíma að nást um það. Og hver veit nema veiðileiga til eigendanna myndi einfaldlega lækka markaðsverð kvótans og þannig verka eins og kvótakerfið, sem, að sögn framkvæmdastjóra Útvegsmannafélags Norðurlands, "ekki tekur neitt frá neinum", heldur einungis millifæra fé frá "kvótaaðlinum" til "eigendanna". Er slík millifærsla kannski það sem andstæðingar veiðileigu eru að berjast gegn? Í ljósi málsmeðferðar Alþingis hingað til má ef til vill vænta þess að það telji sér sæmst að láta duga að fella niður fyrstu greinina í kvótalögunum, virðing þess af málsmeðferðinni hingað til er hvort eð er orðin lítil sem engin.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og er hluti af sjávarútvegsfyrirtæki.

Kristján Þ.

Davíðsson