ÖLD FRÁ FÆÐINGU ATHAFNAMANNS ÞÓRHALL GUTTORMSSON Áttunda apríl síðastliðinn hefði Einar Sigurðsson, bátasmiður á Fáskrúðsfirði, orðið eitt hundrað ára gamall. Í sumar reisir Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar honum varða og heiðrar minningu stórbrotins velgjörðarmanns og máttarstólpa byggðarlagsins.

ÖLD FRÁ FÆÐINGU

ATHAFNAMANNS

ÞÓRHALL GUTTORMSSON

Áttunda apríl síðastliðinn hefði Einar Sigurðsson, bátasmiður á Fáskrúðsfirði, orðið eitt hundrað ára gamall. Í sumar reisir Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar honum varða og heiðrar minningu stórbrotins velgjörðarmanns og máttarstólpa byggðarlagsins.

Vert er að minnast þess manns sem gerði sjávarplássið Fáskrúðsfjörð að stórveldi í bátasmíði á Austfjörðum og þótt víðar væri leitað um strendur landsins. Talið er að fyrr á öldum hafi austfirskir bátar verið minni en í öðrum landshlutum. Á tímabilinu 1397-1570 munu 27 teinæringar (með fimm árar á borð) vera nefndir í Fornbréfasafni en enginn þeirra á Austurlandi og frá 1186 til 1570 eru engir áttæringar nefndir fyrir austan en a.m.k. 43 annars staðar. Nokkurra sexæringa mun þó vera getið. Fram á fyrsta tug þessarar aldar var svipað uppi á teningnum, stærstu bátar í eigu Íslendinga voru ekki austfirskir. Því er líklegt að Austfirðingar hafi einkum notast við fjögra og tveggja manna för og í litlum mæli sexæringa. Ástæða þess að austfirskir bátar voru ekki stærri er sú að ekki var róið fyrir Austurlandi á vetrum, heldur um sumur,vor og haust. Til sóknar á miðin á þeim árstímum þurfti ekki stórra báta við. Alveg fram til þessarar aldar voru bátar á Austurlandi smíðaðir úr rekaviði eða viði úr strönduðum skipum, að því er heimildir greina.

Svo sem kunnugt er varð sú umbylting í austfirskri útgerð á síðustu áratugum 19. aldar að Færeyingar og síðar Norðmenn tóku að flykkjast á fiskimiðin fyrir Austurlandi. Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur tók svo til orða (1898) að "allur veiðiskapur er nú á Austfjörðum með útlendara (færeysku og norsku) sniði en nokkurs staðar annars staðar á landinu" og í byrjun þessarar aldar voru langflestir austfirskir bátar smíðaðir erlendis.

EN HÉR er átt við árabáta því þegar bjarma tók af nýrri öld hélt tími vélbáta innreið sína á Austfirði. Stefán Th. Jónsson á Seyðisfirði var þar frumkvöðullinn, keypti hann árið 1904 mótorbát í Danmörku. Var báturinn látinn heita Bjólfur og kom til landsins í aprílmánuði. Þegar í stað lukust augu útgerðar- og sjómanna upp fyrir því að þar var komið fley sem fengur væri í. Stefán auglýsti að þeir sem vildu gætu pantað hjá sér mótor og bát " . . . hingað kominn með öllum áhöldum . . . " Er ekki að orðlengja það að innfluttum dönskum bátum fjölgaði svo ört hér á landi að ekki leið á löngu þar til danskar bátasmíðastöðvar höfðu ekki undan að sinna eftirspurn frá Íslandi. Hlaut þá að draga til þess sem raunin varð að Íslendingar kæmu sjálfir á laggirnar bátasmíðastöðvum.

En áður en drepið verður á austfirskar bátasmíðastöðvar þykir hlýða að lýsa í stuttu máli, landkröbbum til hægðarauka, gerð hinna fyrstu innfluttu vélbáta. Þeir voru súðbyrtir tvístefnungar eins og það er kallað, með því er átt við að borðin í skrokknum mynduðu skarsúð þar sem hvert borð, talið að ofan, gekk að hluta yfir á næsta borð fyrir neðan og stefni voru að framan og aftan(skutur). Borð og bönd (v-laga máttarviðir sem liggja þvert um bátinn og borðin eru boltuð og hnoðnegld gegnum böndin og líkja mætti við sperrur í húsi) voru úr eik. Bátarnir voru jafnan 6-10 tonn á stærð (þ.e. báru þann þunga) og vélarkraftur 6-10 hestöfl. Um vélina var skýli eða kassi því að henni varð að hlífa.Í fyrstu voru bátarnir opnir, þilfarslausir, og eftir fá ár höfðu flestir verið styrktir með því að fjölga böndum og var lúkar settur að framanverðu. Enn síðar voru þeir með stýrishúsi.

Víkur nú sögunni að austfirskum vélbátasmíðastöðvum. Voru tvær settar upp í byrjun, á Seyðisfirði og Eskifirði. Hin seyðfirska snemma árs 1905 og var Stefán Th. þar að verki og umsjón með því hafði Friðrik Gíslason úrsmiður. Fyrsti báturinn var Lagarfljótsormurinn og flutti fólk og varning á Lagarfljóti.

Þórarinn Tulinius átti bátasmíðastöðina á Eskifirði. Fyrri hluta árs 1906 tók stöðin til starfa og stýrði smíðinni danskur mótorbátasmiður. Þessar fyrstu vélbátasmíðastöðvar áttu að vísu ekki langlífi að fagna en vélbátaöldin var gengin í garð og að fyrstu stöðvunum slepptum tóku allmargir til hendinni við bátasmíðar og verður haft fyrir satt að þriðji fjörðurinn, þar sem bátar voru smíðaðir, hafi verið Norðfjörður.

Eftir fyrstu hrinuna í vélbátasmíði á Austfjörðum dró brátt verulega úr starfseminni og fyrstu bátasmíðastöðvarnar lögðu upp laupana eða færðust minna í fang. Einstaklingar sinntu áfram bátasmíði á flestum fjörðum, smíðaðir voru litlir árabátar (skektur), trillur og jafnvel þilfarsbátar. Á þriðja áratugnum færðist trillusmíði mjög í aukana því að slík veiðitæki þóttu henta vel á grunnmiðum. Þá var og ærið að sýsla í viðhaldi og endurnýjun flotans og breytingum og stækkun eldri báta, jafnvel við að setja vélar í róðrarbáta. Gerð þeirra báta, sem smíðaðir voru fyrir austan, mun hafa verið í svipuðu fari og hinna fyrstu innfluttu vélbáta. Breytingar urðu þó að sjálfsögðu á lagi þeirra hjá sumum skipasmiðum og áferðin önnur, hekk var sett að aftan og þeir urðu sumir lóðréttir að framan. Í stað þess að vera súðbyrtir var farið að kantsetja byrðinginn, borðin voru lögð hvert upp af öðru en sköruðust ekki svo að báturinn varð sléttur að utan. Tekið var að byggja utan á nokkra báta, þeir tvöfaldaðir eins og sagt var. Slík aðferð var höfð á Eskifirði og eitthvað á Fáskrúðsfirði, ytra byrðið var kantsett og slétt, jók það á fegurð bátanna og styrkleika.

NÚ SKAL vikið að aðal persónu þessa greinarkorns, Einari Sigurðssyni. Hann fæddist á Djúpavogi 8. apríl 1897. Foreldrar hans, Guðrún R. Ögmundsdóttir frá Svínhólum í Lóni og Sigurður Einarsson úr Hálsþinghá í Berufirði, áttu heima í Hlíð á Djúpavogi, urðu búendur á Teigarhorni þegar Einar var tveggja ára en fluttust að Búðum í Fáskrúðsfirði árið 1901 þar sem Sigurður vann í vélaviðgerðum og við smíðar því að hann var mikill hagleiksmaður. Útgerð stundaði hann líka. Sonurinn Einar hefur því frá barnsaldri hrærst í umhverfi sem markaði honum framtíðarstarf og verkefni því að hann lærði handtökin af föður sínum og snemma beygðist krókurinn til þess sem verða vildi. Um tvítugt hélt Einar til Reykjavíkur, vann og nam um skeið í trésmiðju Völundar og lauk jafnframt iðnskólanámi og varð meistari í húsasmíði. Eftir það fór hann til náms og starfa í húsasmíði á Sandnesi í Noregi. Síðar lærði Einar skipateikningar í Reykjavík og hlaut meistararéttindi í skipasmíði.

Árið 1921 settist Einar að á Fáskrúðsfirði og hófst handa við iðngrein sína. Stofnaði hann trésmíðafyrirtæki ásamt Benedikt Sveinssyni húsasmið. Hlaut það nafnið Trésmíðaverksmiðja Austurlands. Samstarf þeirra Benedikts varð skammætt og að því loknu starfrækti Einar fyrirtækið einn síns liðs. Það var í sjóhúsi föður hans og síðar, þegar umsvifin jukust, fjölgaði húsunum, byggð voru bátaskýli og hús undir vélsmíði og verslun. Verkstæðishúsin voru innst í Búðaþorpi skammt fyrir utan Odda, íbúðarhús Einars sem hann hafði reist sjálfur. Verkstæðið var jafnan kennt við Odda og nefnt Oddaverkstæðið. Ekki þýddi að hefja trésmíðar áhaldalaus. Sá Einar í blaði að danskt fyrirtæki auglýsti trésmíðavélar svo að hann brá undir sig betri fætinum, hélt til Danmerkur og samdi við fyrirtækið um kaup á vélum. Komu þær til Fáskrúðsfjarðar 1925. Þær helstu voru : stór bandsög, hjólsög og þykktarhefill, knúnar með olíumótor úr bát föður hans þangað til rafmagn leysti hann af hólmi. Þá þurfti og að kaupa handverkfæri, sem urðu mörg rafknúin í tímans rás.

HJÁ Oddaverkstæðinu unnu að jafnaði ekki færri en tíu menn og oft miklu fleiri þegar stór verkefni biðu úrlausnar. Smíði árabáta var meðal þess fyrsta sem Einar tók sér fyrir hendur. Bátar og bátasmíðar urðu mestu áhugamál hans en ekki skal því gleymt að inn á milli sinnti hann ætíð af miklum dugnaði annarri smíði, húsasmíði og gerð hafnarmannvirkja. Reisti hann tugi húsa í heimabyggð og annars staðar, íbúðarhús, félagsheimili, sundlaugar, verksmiðjuhús, sláturhús og frystihús. Hafnarmannvirki gerði hann á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Eskifirði. Einar sinnti líka fjölmörgum viðhaldsverkefnum, gerði við og endurbætti báta og mannvirki í stórum stíl því að aldrei sat hann auðum höndum né lét verk undan dragast. Smátt og smátt varð Oddi og Oddaverkstæðið alhliða þjónustumiðstöð, opin gestum og gangandi þar sem allt var gert til að leysa úr vanda þeirra og allt búið til, frá barnavögnum, hjónarúmum og líkkistum til stórra báta. Til marks um það hvílíkur umsvifamaður Einar var má tilfæra sem dæmi að hann hafði samtímis undir eða í smíðum, auk bátasmíðinnar, hús á Búðum, prestshúsið á Kolfreyjustað, Franska spítalann, sem verið var að endurreisa í Hafnarnesi, og hús á Þorvaldsstöðum í Breiðdal sem reist var úr afgangsviði úr gamla spítalanum. Svo fljótur var Einar í förum að hann fór á alla þessa staði yfir land, fjörð og fjallaskörð ef svo bar undir til eftirlits á einum degi, en auðvitað höfðu umsjón með tilteknu verki menn sem hann treysti.

SVO AÐ aftur sé vikið að báta smíðinni sem Einar hafði sífellt meiri og meiri áhuga fyrir þá tók hann árið 1926 að smíða opinn vélbát sem hann ætlaði raunar sjálfum sér en seldi þó bóndanum á Urðarteigi við Berufjörð. Lauk hann því verki á mánuði eða svo. Gekk það svo greiðlega að það hvatti hann til frekari dáða í bátasmíði og næstu áratugi runnu út af Oddaverkstæðinu fjölmargar trillur og skektur. Sjálfum taldist Einari svo til að hann hefði smíðað um 100 opna vélbáta á starfsferli sínum og tugi árabáta. Þilfarsbátarnir urðu tuttugu. Í bátasmíði fór Einar Sigurðsson ekki troðnar slóðir, hún mótaðist einkum af hugmyndum hans sjálfs um það hvernig bátar ættu að vera til að hæfa og standast sjólag fyrir Austurlandi, þar sem straumkast er mikið og hnútar myndast. Krafan um vandvirkni sat alltaf í fyrirrúmi. Bátarnir voru léttir og ganggóðir enda settir upp daglega. Ekki þykir hér ástæða til að lýsa trillum Einars í smáatriðum en tekið skal fram að þær voru jafnan 22 fet á lengd og um 6 fet á breidd með um 20 þverböndum.

Nefna verður til sögunnar Peter Wigelund, færeyskan skipasmið sem vann að bátasmíði á Fáskrúðsfirði árin 1928 og 1929. Hann hafði lært iðngrein sína í Kaupmannahöfn og starfaði síðan í Danmörku, Færeyjum og Reykjavík þar sem hann vann við bryggjusmíði. Hann smíðaði líka nótabáta fyrir útgerðarfélagið Kveldúlf. Fyrir beiðni útgerðarmanns á Fáskrúðsfirði fór Wigelund þangað austur, smíðaði Kötlu, kantsettan bát og tvo aðra litla vélbáta og leiðbeindi Einari Sigurðssyni sem þá var nýliði í smíði kantsettra báta.

Kaflaskipti urðu í bátasmíði Einars Sigurðssonar síðara árið sem Wigelund var á Fáskrúðsfirði. Tveir þilfarsbátar voru þá smíðaðir á Oddaverkstæðinu, Þór og Björn. Einar lærði margt af Wigelund sem fylgdist vel með smíði bátanna og miðlaði Einari af reynslu sinni og þekkingu. Haft er eftir Einari að Wigelund hefði verið besti kennari sinn í bátasmíði. Á Reykjavíkurtíma sínum vann Einar hjá Wigelund í slippnum og þótti hann margra manna maki.

Að lokinni smíði tveggja fyrstu þilfarsbáta í smiðju Einars Sigurðssonar varð þess nokkur bið að slíkir bátar yrðu búnir til á Fáskrúðsfirði enda var heimskreppan tekin að segja til sín hér á landi. Ekki misstu menn þó móðinn því að árið 1934 var stofnað Samvinnufélag Búðahrepps sem gekkst fyrir útgerð og efldi annað atvinnulíf á staðnum. Í framhaldi af því var Einari í Odda falið að smíða á vegum félagsins þrjá 19 tonna báta. Voru þeir úr eik og furu að færeyskri fyrirmynd og teiknaði Wigelund þá þótt hann væri löngu fluttur til Norðfjarðar. Samvinnubátarnir, Alda, Bára og Hrönn, voru í smíðum frá því í septemberlok 1934 til útmánaða 1935. Þar hefur því rösklega verið staðið að verki og samkvæmt fyrirframgerðri áætlun. Unnið var að smíði þeirra allra samtímis og reist var af nauðsyn véla- og járnsmíðaverkstæði hjá Oddaverkstæðinu svo sem fyrr getur. Andrés, bróðir Einars, sá um niðursetningu véla og tækja, enda járnsmíðameistari. Bátasmíðin var orðin afar umfangsmikil og viðgerðir á bátum færðust mjög í aukana. Í verksamningi Einars við Samvinnufélagið var það ákvæði að hann átti að borga dagsektir ef verkið drægist á langinn hjá honum en félagið var firrt allri ábyrgð þótt það stæði ekki við sitt um efnisöflun. Slík var staða verktaka í þá daga. Sagan segir að samvinnubátarnir hafi upphaflega átt að heita Gunnar, Njáll og Skarphéðinn. Þegar hin nöfnin urðu ofan á sagði gömul, framsýn kona í plássinu að fyrst breyta ætti nöfnunum hlekktist þeim öllum á. Eftir að bátarnir höfðu verið seldir fór Aldan upp í Grindavík og hafnaði í stórgrýti, Hrönn fór upp í kletta við Gvendarnes og Báran fékk á sig feiknabrot í Hornafjarðarósi. En allir komust á flot á ný. Það hefðu ekki allir bátar gert.

Eftir að samvinnubátunum var hleypt af stokkunum lá smíði þilfarsbáta á Fáskrúðsfirði að mestu leyti niðri til ársins 1944. Seint á því ári tók nýsköpunarstjórnin svokallaða sér fyrir hendur að endurnýja framleiðslutæki þjóðarinnar enda var úr mikilli fjárhagslind að ausa, stríðsgróðanum. Fiskiskipaflotinn skyldi stækkaður og nýbyggingaráð lagði til um smíði og staðsetningu nýrra framleiðslutækja, m.a. um fimmtíu báta sem íslenskum bátasmíðastöðvum var falið að smíða. Það kom í hlut Einars Sigurðssonar að smíða fjóra Landsmiðjubáta, nýsköpunar- eða ríkisbáta, eins og þeir voru ýmist nefndir. Hófst verkið í Oddaverksmiðjunni árið 1945 og átti að afhenda þá fullgerða á árunum 1946 og 1947. Þrjátíu og fimm manns unnu við smíði bátanna undir stjórn Einars og voru engin válynd veður látin hamla framkvæmdum. Allir þilfarsbátar Oddaverkstæðisins voru smíðaðir eða frá gengnir utandyra en einstaka hlutir í þá inni í húsunum. Þeir voru afhentir á tilsettum tíma, þrjátíu og níu tonn að stærð allir og þóttu vandaðir í hvívetna.

EFTIR þetta mikla verkefni tók mjög að sneiðast um bátasmíðar á Fáskrúðsfirði og hlé urðu ætíð á milli. Þau voru nýtt til viðhalds báta og annarra verkefna. Árið 1960 var á Oddaverkstæðinu smíðaður 13 tonna þilfarsbátur, Andey. Sá bátur var fyrsti frambyggði vélbáturinn á Austurlandi. Kostir frambyggðra báta eru t.d. þeir að dekkrými er þá meira og áhöfnin er í skjóli þegar mikil bræla er. Síðasti þilfarsbáturinn, sem smíðaður var á Oddaverkstæðinu undir stjórn Einars, var Hafborg 1967.

Nú skal vikið nokkru nánar að því umhverfi sem Einar Sigurðsson hrærðist í. Allt fram til miðrar þessarar aldar var Fáskrúðsfjörður einangrað samfélag. Hann var ekki í þjóðbraut og ekki lögðu aðrir leið sína þangað landveg en þeir sem áttu erindi í fjörðinn Ruddar götur og slóðir voru fyrir hesta um heiðar og skörð en bílfært varð ekki frá Búðum og alla leið til Reyðarfjarðar fyrr en 1954 og til Stöðvarfjarðar litlu fyrr. En Fáskrúðsfirðingar voru að mestu sjálfum sér nógir. Nýtnir og góðir bændur, hörkuduglegir sjómenn, lagnir handverksmenn og úrræðagóðir verslunarmenn mynduðu þann ramma sem hélt samfélaginu fastmótuðu. Góð og náin samvinna þessa fólks var lífsakkeri þess þar sem enginn hlekkur mátti bresta. Oddaverkstæðið var einn hlekkurinn, sveitin annar, sjósóknin hinn þriðji, framleiðslan og útgerðin hinn fjórði. Sjávarútvegurinn var auðvitað mjög háður Oddaverkstæðinu og ef gera þurfti við bát sat það fyrir.

Þar til nógu stór vörubíll kom til sögunnar verður ekki annað sagt en efnisaðdrættir hafi verið Oddaverkstæðinu örðugir. Efninu var skipað upp á bryggju úti í þorpi, síðan var því fleygt í sjóinn og dregið inn að Odda. Til að koma því í land voru notaðir kaðlar með króki á endanum sem höggvinn var í blakkirnar. Hver maður var með sinn krók svo að hægt var að koma jafnmörgum að og þurfa þótti til að toga. Þegar bátarnir höfðu verið smíðaðir varð að hleypa þeim af stokkunum á hlunnum því að dráttarbraut eða slippur var enginn. Slík vinna var harla erfið.

HJÁ Einari Sigurðssyni unnu verklagnir og duglegir menn, bæði aðkomnir og þeir sem heima áttu á Búðum. Hverjum var skipað í það verk sem honum hæfði best og þegar dró úr bátasmíðinni var þeim, sem mesta reynsluna höfðu og Einar treysti best, falin húsasmíði í öðrum héruðum, á Djúpavogi, Eskifirði, Reyðarfirði og uppi á Héraði. Nokkra lærlinga í trésmíði tók Einar en ekki munu menn hafa lokið þar prófi í skipasmíði.

Þeim sem unnu hjá Einari og til hefur náðst liggja mjög vel orð til hans. Hann hafi verið sérstakur maður, mannkostamaður að öllu leyti, áreiðanlegur og traustur fram í fingurgóma og ekki hafi þurft skriflegan verksamning því að orð stóðu. Samvinnan við mannskapinn var til fyrirmyndar svo að enginn bar kala til hans, enda var hann heppinn með fólk. Þegar hann sagði mönnum til í vinnunni eða fyrir verkum hafði hann ekkert fest á blað, né endurtók það sem hann var búinn að segja. Því varð athygli manna að vera í lagi. Dagfarslega var hann fumlaus og ákveðinn, rólegur og lipur í allri umgengni og til hans fór enginn bónleiður til búðar, hvort sem var á nóttu eða degi. Einar var gestrisinn og örlátur og sagt er að hann hafi umbunað fátækum í viðskiptum. Hann fylgdist vel með á sínu sviði og las í því skyni tæknibækur um grein sína. Bróðir Einars, Guðlaugur, gekk næstur honum í forystuhlutverkinu á verkstæðinu. Ekki voru þeir ávallt sammála bræðurnir en ef eitthvað bar á milli var ótvírætt hvor réð. Tækninýjungum og hvers konar framförum fagnaði Einar, bæði í sinni grein og öðru, mun hann fyrstur hafa eignast jeppa í plássinu og beitt honum fyrir sláttuvél í stað hesta. Einar var harðsnúinn málafylgjumaður og ræðumaður þegar til þurfti að taka og koma fram sérstöku máli. Hvasst augnaráðið hafði sefjandi áhrif á tilheyrendur svo að honum veittist létt að vinna menn á sitt band. Í samfélagi Einars giltu hefðir og formfesta. Svo var til dæmis þegar einhver úr plássinu dó, þá var öllu samkomuhaldi aflýst. Einar hafði líka sínar venjur. Þegar hann fór burt og bjóst til að vera fjarri um nokkurt skeið kvaddi hann alla starfsmenn sína með handabandi og heilsaði þeim á sama hátt þegar heim kom. Prýði og ræktun lands var honum hugleikin og fyrir tilverknað hans voru plöntur gróðursettar í Kirkjubólslandi í Fáskrúðsfirði. Nóg hefur sá sér nægja lætur. Sýndi það sig í hófsemi Einars sem var slík að jaðra þótti við meinlæti. Hann neytti hvorki víns né tóbaks.

Árið 1929 gekk Einar að eiga Þórhildi Þorsteinsdóttur frá Löndum í Stöðvarfirði, dótturdóttur séra Guttorms Vigfússonar í Stöð. Tókust með þeim kynni þegar Einar var að reisa hús fyrir Kristján bróður hennar. Þau eignuðust sex börn. Þrjú þeirra komust upp: Guðrún húsmóðir og kennari, Sigurður byggingafræðingur og Guðlaugur skipasmíðameistari. Hinn 13. mars 1940 dó Þórhildur af barnsförum. Sár harmur var þá kveðinn að Einari og börnum hans og við sjálft lá að hann leysti upp heimilið. Hinn duli maður bar ekki sorg sína á torg en gaf Stöðvarhreppi peninga til minningar um konu sína. Var þeim varið til skógræktar þar sem heitir Þórhildarlundur. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og seig eru sifjaböndin. Laufey hálfsystir hans og Kristín stjúpmóðir hans tóku að sér heimilið og við búsforráðum. Snerist þá hagur Einars og barna hans mjög til hins betra. Síðar réðst til hans ráðskona, Unnur Pétursdóttir frá Rannveigarstöðum í Álftafirði. Gengu þau síðan í hjónaband. Einar lést 3. febrúar 1984.

Árið 1972 var Einar sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar og 1977 varð hann heiðursborgari Búðakauptúns. Í sumar reisir Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar honum varða og heiðrar minningu stórbrotins velgjörðarmanns og máttarstólpa byggðarlagsins.

Höfundur er íslenzkufræðingur Heimildir:

Smári Geirsson: Iðnsaga Austurlands s. hl. 1995.

Starfsmenn Oddaverkstæðisins: Benedikt Jónasson, Bergsteinn Ólason, Christen Sörensen.

EINAR Sigurðsson 50 ára.

ODDI byggður 1920 af Einari og Sigurði föður hans.

BÁRA 19 lestir, einn af samvinnubátunum.

RÁN 4 lestir, smíðuð 1942.

SUNDLAUGIN á Fáskrúðsfirði byggð 1947.

RÍKISBÁTARNIR 36 lesta í smíðum 1945-47.

HADDUR, 15 lestir, smíðaður 1962.

EINAR á ferðalagi erlendis. Á myndinni, talið frá vinstri: Einar Sigurðsson, Bárður Tómasson, Reykjavík, Runólfur Jóhannsson, Vestmannaeyjum og Egill Þorfinnsson, Keflavík.