ILLUGASTAÐIR er einn helsti sögustaður Vatnsness á síðustu öld. Þar bjó læknirinn og kvennagullið Natan Ketilsson (1795-1828) þar til hann var myrtur í rúmi sínu ásamt Pétri Jónssyni sakamanni að kvöldi 13. mars. Meðal ástkvenna Natans var Vatnsenda-Rósa, sem átti með honum dótturina Þórönnu Rósu. Rósa átti líka dótturina Pálínu Melantínu.

Sagnabrunnur á Illugastöðum

ILLUGASTAÐIR er einn helsti sögustaður Vatnsness á síðustu öld. Þar bjó læknirinn og kvennagullið Natan Ketilsson (1795-1828) þar til hann var myrtur í rúmi sínu ásamt Pétri Jónssyni sakamanni að kvöldi 13. mars.

Meðal ástkvenna Natans var Vatnsenda-Rósa, sem átti með honum dótturina Þórönnu Rósu. Rósa átti líka dótturina Pálínu Melantínu. Hún var ráðskona Páls Melsteð en var drifin í hjónaband með smiði nokkrum, Ólafi Ásmundssyni, þegar uppgötvaðist að hún væri með barni.

Önnur ástkona Natans var Agnes Magnúsdóttir sem ráðin var að Illugastöðum. Agnes var fögur og greind og gerði sér vonir um að verða bústýra og eiginkona Natans. Þess í stað setti hann Sigríði Guðmundsdóttur, 15 ára stúlku, bústýru. Natan veitti Sigríði einnig meiri athygli og sýndi blíðuhót og þóttist Agnes illa svikin.

Friðrik Sigurðsson frá Katadal á Vatnsnesi var hrifinn af Sigríði og þótti ófyrirleitinn og hefnigjarn. Gerði hin afbrýðisama Agnes allt sem í hennar valdi stóð til þess að koma þeim saman og etja gegn Natan. Að kvöldi hins 13. mars hafði hatrið magnast svo að þremenningarnir létu til skarar skríða, myrtu Natan og Pétur, kveiktu í líkunum og brenndu bæinn til þess að reyna að hylja verksummerkin. Sem ekki tókst.

Böðull gegn vilja sínum

Agnes og Friðrik voru dæmd til lífláts en Sigríður til ævilangrar fangelsisvistar í Kaupmannahöfn. Aftakan var gerð árið 1830 og var jafnframt sú síðasta á Íslandi. Bróðir Natans, Guðmundur Ketilsson, var þvingaður til þess að taka að sér hlutverk böðulsins og voru líkin dysjuð en höfuðin sett á stöng. Um 100 árum síðar gerðu Agnes og Friðrik vart við sig gegnum miðil og óskuðu þess að hvíla í vígðri mold. Fór svo að bein þeirra voru grafin upp með leyfi biskups og jarðsett við Tjörn á Vatnsnesi í júní árið 1934.

Guðmundur Ketilsson tók við búi Natans á Illugastöðum. Yfir ætt hans og Friðriks frá Katadal hvíldi lengi skuggi vegna atburðanna en þær tengdust síðan þegar barnabarn Guðmundar og bróðursonur Friðriks giftust. Guðmundur var langalangafi Auðbjargar Guðmundsdóttur, sem í dag býr á Illugastöðum, og er hún því bæði tengd hinum myrta og þeim sem ódæðið framdi.

Auðbjörg og Píla

Sá sem á leið um Vatnsnesið getur ekki látið hjá líða að koma við á bænum. Húsfreyjan Auðbjörg tekur höfðinglega á móti gestum, sýnir bæinn og nánasta umhverfi og segir söguna af Natan og örlögum hans. Á Illugastöðum er æðarvarp og því blasa við gestum ótal fuglahræður í skrautlegum flíkum, sem þjóna þeim tilgangi að fæla burtu tófu og aðra óboðna.

Skammt frá húsi Auðbjargar er gamla bæjarstæðið og þaðan má fikra sig eftir ströndinni og út í sker þegar fjarar, þar sem rústir smiðju Natans standa eftir. Auk sagnabrunnsins á Auðbjörg safn gamalla muna, egg, uppstoppaða fugla og 115 ára gamalt hvaleyra og svo má auðvitað heilsa upp á tíkina Pílu.

Morgunblaðið/hke AUÐBJÖRG og Píla telja ekki eftir sér að lóðsa ókunnuga um Illugastaði.