ÍLESBÓK 22. nóvember sl. birtist grein eftir Björgvin Sigurðsson um hreyfingu Þingeyinga á síðustu öld í þá veru að flytja úr landi vegna þrengsla og harðinda. Menn höfðu haft augastað á Grænlandi vegna þess að þangað var ekki löng sjóferð og hægt að búa þar með sauðfé, en Einar Ásmundsson í Nesi, sjálfmenntaður gáfumaður,

BRASILÍUFARARNIR

GÍSLI SIGURÐSSON TÓK SAMAN

Á árunum 1863-1873 fluttust 35 Þingeyingar til Brasilíu en ferðin þangað tók marga mánuði og uppí hálft ár. Þeir settust að á fallegum og frjósömum stað sunnarlega í landinu, en þrátt fyrir mikið basl beið þeirra ekkert svipað harðræði og hins mikla fjölda sem kaus að flytja til Kanada nokkru síðar. ÍLESBÓK 22. nóvember sl. birtist grein eftir Björgvin Sigurðsson um hreyfingu Þingeyinga á síðustu öld í þá veru að flytja úr landi vegna þrengsla og harðinda. Menn höfðu haft augastað á Grænlandi vegna þess að þangað var ekki löng sjóferð og hægt að búa þar með sauðfé, en Einar Ásmundsson í Nesi, sjálf menntaður gáfumaður, hafði lesið um Brasilíu og taldi vitlegra að flytja þangað en í annað ennþá kaldara land en Ísland. Um þetta undirbúningsskeið þegar Þingeyingar fóru að hyggja á Brasilíuferð var grein Björgvins, en hvernig fór þetta ævintýri?

Á árunum 1937-38 setti Þorsteinn Þ. Þorsteinsson saman bók sem heitir einmitt Ævintýrið, og fjallar um Brasilíufarana, ferðirnar á áfangastað, landnám þeirra og afdrif. Bókin er að verulegu leyti byggð á bréfum frá þessu fólki til ættingja á Íslandi. Hún er mikill doðrant, 400 bls. og er þessi grein byggð á frásögnum úr bókinni. Hér er að sjálfsögðu sleppt því sem fram var komið um undirbúninginn og bréfaskriftir þeirra Einars í Nesi og Jakobs Hálfdanarsonar á Grímsstöðum, en eftir "skurðarveturinn og fellisvorið 1859 fór að bera á mikilli burtþrá" manna í Þingeyjarsýslu, segir í bókinni.

Gífurleg flæmi í Brasilíu voru á þessum tíma ónumið land og stjórnvöld unnu að því að fá innflytjendur frá Evrópu og gripu Þjóðverjar það tækifæri öðrum fremur. Búið var að þýða á þýzku og sænsku lýsingu á Brasilíu handa tilvonandi Brasilíuförum. Þar stóð að Brasilía væri eitt bezta og frjósamasta land í heiminum og náttúrugæðin framúrskarandi; óþrjótandi skógar, mikill fjöldi verðmikilla trjátegunda og ekki þurfti annað en að seilast upp í trén eftir ávöxtunum.

Þessi auglýsingarit bárust Þingeyingum og hefur án efa hreyft við mörgum í harðindunum að lesa um jarðargróðurinn: Kaffitré, sykurreyr, olíuvið, pálmavið, brauðvið, hör, tóbaksjurt, hrísgrjón, hveiti, mais, fíkjur og fjölda korntegunda og ávaxta að ógleymdum rúsínunum og kaffibaununum, sem Íslendingum þótti mest til koma. Gengu sögur um að menn áttu að geta slegið, líklega með orfi og ljá, marga hestburði af rúsínum á dag. Þetta var eins og lýsing á Himnaríki.

Í ríki náttúrunnar var þó sumt að varast; grimm dýr til dæmis. Þar voru jagúar og kúgúar talin verst, en af öðrum dýrum mátti nefna apaketti, höggorma, letidýr, tapíra, og villihjarðir nauta og hesta. Í fljótum skyldu menn varast krókódíla, en gnægð var þar af fiski, svo og í sjó, einnig hvalir. Margskonar málmar voru í jörð, en ljóst var þó að Þingeyingar mátu meira beitilönd og skilyrði til kvikfjárræktar en námur og ávaxtatré.

Hér var sannarlega land sem sjá mátti í hillingum. En þrátt fyrir langan undirbúningstíma, svo sem rakið var í fyrrnefndri Lesbókargrein, fór svo að margir guggnuðu á að taka þetta skref út í óvissuna. Í bók sinni segir Þorsteinn Þ. Þorsteinsson svo:

"Hinn mikli sannleikur þessa máls er sá að Íslendingar voru hræddir við Brasilíu sökum ókunnugleikans, þótt þá langaði þangað. Og af sömu ástæðum þekkingarleysis, sýnir ríkisstjórn Brasilíu tómlæti sitt til að veita þeim ókeypis far þangað."Kjarkmikill frumherji

Fyrstur Íslendinga til að stíga þetta afdrifaríka skref varð Kristján Guðmundsson frá Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit, f. 1840. Að vísu lögðu þeir þrír af stað 1863, allt ungir menn úr Þingeyjarsýslu, og var ferðinni heitið til Brasilíu. Fyrst varð að sigla til Kaupmannahafnar, en þar guggnuðu félagar Kristjáns og sneru heim aftur. Kristján fór sér að engu óðslega; dvaldi í Kaupmannahöfn í tvö ár og nam þar smíðar og sjómannafræði, en réðist síðan á skip sem var í Brasilíuferðum. Fékk það ótrúlega góðan byr og var ekki nema 44 daga á leiðinni yfir hafið, en Kristján steig af skipsfjöl í Ríó de Janeiro, "á stað sem hann hafði lengi langað til að líta meðan hann var heima á ættjörðinni og varð hann glaður í hjarta sínu."

Í stórborginni Ríó tók Kristján upp ættarnafnið Ísfeld og svo gerðu faðir hans og systkini einnig þegar þau komu, en að því verður vikið síðar. Kristján fékk fljótlega vinnu við gerð gufuvélar sem átti að hreinsa vatn borgarbúa og lærði brátt ensku, enda unnu Englendingar við þetta verk.

Það varð Kristjáni til happs að hann kynntist auðugum Þjóðverja sem tók hann uppá sína arma og varð Kristján þar eins og einn af fjölskyldunni. Það var alltaf ætlunin, að foreldrar og systkini Kristjáns kæmu á eftir honum og í bréfi til þeirra dáist hann að ævintýraborginni Ríó og lofar yndisleik landsins. Segir Kristján að það sé sama hvert farið sé, allsstaðar sjái maður " hinn sanna guðdómlega ríkdóm af allskonar plöntum og ávaxtatrjám og yndisleg blómsturtré." Ennfremur segir hann í bréfi: "Sá sem einu sinni hefur verið þarna, staðið úti í morgunkyrrðinni, andað að sér ilmandi loftinu og séð allt hið mikla skraut og fegurð náttúrunnar, getur borið um það vitni, en varla er hægt fyrir hina sem aldrei hafa komið þar að gera sér í hugarlund hversu unaðsfullt það er."

Eftir þessa lýsingu þarf engan að undra að Kristján settist að í Ríó fyrir fullt og fast. Hann kom sér vel áfram, lærði portúgölsku og keypti síðan veitingahús af hinum þýzka velgjörðamanni sínum og rak það í 6 ár. Smíðaverkstæði rak hann samhliða og græddist fé. Hugur hans beindist þó í þá átt að afla sér menntunar, enda las hann margar vísindagreinar, segir í bókinni. Skjótur frami hans var lyginni líkastur og eftir aðeins áratug var þessi innflytjandi orðinn yfirbyggingarmeistari Ríó-borgar.

Síðasta bréfið til Íslands skrifaði Kristján 1873, eftir 10 ára veru í Ríó. Segir hann þar, að þótt mörgum sinnum sé betra að vera í Brasilíu, muni Íslendingar ekki geta haft þess full not í fyrstu sökum vankunnáttu í málinu og vanþekkingar á eðli og náttúru landsins. En úr því þeir vilji nú af eigin hvötum fara til Vesturheims, þá ræður hann þeim fremur til þess að flytja til suðurfylkja Brasilíu en norðurfylkja Bandaríkjanna og segir enn vera allmikið til af ágætum og óseldum bújörðum þar.

Kristján kvæntist þýzkri konu og þau eignuðust 8 börn, sem öll dóu í bernsku nema ein stúlka, Kristjana, sem var 6 ára þegar hópurinn kom frá Íslandi 1874. Í þeim hópi var faðir Kristjáns og systkini, en skömmu áður hafði Kristján fengið gulu veikina, sem svo var nefnd, og lézt þessi einstæði hæfileikamaður úr henni, aðeins 34 ára gamall.Fjórir Þingeyingar ráðast í Brasilíuför

Fimm mánuðum eftir að Kristján sigldi af stað til Brasilíu frá Kaupmannahöfn, lögðu fjórir sýslungar hans af stað í sömu langferð frá Akureyri. Fyrir þeim fór Jónas Hallgrímsson, sem getið var um í grein Björgvins Sigurðssonar, en hann átti líkt og Kristján að kanna lönd þar syðra og gefa heimamönnum og Útflutningsfélaginu skýrslu. Jónas var frá Víðikeri í Bárðardal, rúmlega fertugur og vanur trésmiður. Sigríður kona hans fór ekki með, en fluttist að Grímsstöðum í Mývatnssveit með þrjá syni þeirra og var kallað að hann skildi hana þar eftir "í góðra manna höndum".

Jónas Friðfinnsson, 24 ára gamall úr Bárðardal, kvaddi einnig ættjörðina og unnustu sína, Maríu Friðriksdóttur í Hrappstaðaseli. Hún giftist 5 árum síðar öðrum manni, enda kom Jónas ekki aftur til Íslands. Í Brasilíu tók hann upp ættarnafnið Bárðdal. Jón Einarsson, fimmtugur Mývetningur, var sá þriðji í þessum hópi. Hann hafði búið í Svartárkoti í Bárðardal í 15 ár og síðan á Björgum í Köldukinn til 1860, en þá andaðist kona hans. Sumum börnum sínum kom hann í fóstur, en hafði önnur á sínum vegum. Með honum fór Jón Jónsson, 18 ára sonur hans, til Brasilíu og tók upp ættarnafnið Ármann.

Ekki er vitað hvort Brasilíuför þeirra fjórmenninganna stóð í sambandi við Útflutningsfélagið, en líklegt má telja að svo hafi verið. Víst er að minnsta kosti, að Jónas Hallgrímsson átti að kynna sér staðhætti í Brasilíu og velja búsetusvæði, þar sem hægt væri jöfnum höndum að stunda kvikfjárrækt og akuryrkju. Jónas hafði það framyfir félaga sína að kunna dönsku allvel og þótt ólíklegt mætti teljast kom sú kunnátta að ótrúlega góðu gagni á fyrstu vikunum í Brasilíu.

Áformað hafði verið að þeir sigldu 1862 en það dróst á langinn um eitt ár. Skipsferð fengu þeir loksins frá Akureyri á vegum Örum & Wulff í Kaupmannahöfn. Það segir sína sögu um mennningarlegan áhuga Þingeyinga á þessum tíma, að nýkomnir til Hafnar eftir erfiða sjóferð létu þeir það verða sitt fyrsta verk að fara í Thorvaldsensafnið.

Frá Höfn lá leiðin fyrst til Hamborgar; þaðan sigldu Brasilíuför. Magnús Eiríksson guðfræðingur í Höfn, sem nefndur hefur verið fyrsti íslenzki femínistinn og kynntur var með grein í Lesbók sl. haust, gerðist hjálparhella þeirra félaga. Má segja að hann leiddi þá eins og börn og fylgdi þeim til Hamborgar og sleppti ekki af þeim hendi fyrr en þeir voru komnir í skipið. Í fyrstu var ætlunin að halda syðst í Brasilíu og leita landa þar sem heitir Rio Grande do Sul. Þeim var þó ráðlagt frá því og bent á nýlenduna Dona Fransisca sem betri kost, en þangað fluttu Þjóðverjar stríðum straumum.

Um miðjan ágúst var akkerum létt í Hamborg, en um miðjan október sást til fjalla í Brasilíu. Þótti Þingeyingum merkilegt að fjöllin voru ekki nakin eins og á Íslandi, heldur skógi vaxin upp á tinda.

Enn var siglt nærri hálfan mánuð suður með strönd Brasilíu, en 26. október yfirgáfu Þingeyingarnir skipið í Joinville í nýlendunni Dona Fransisca. Þar fengu þeir að búa leigufrítt í húsi í 8 vikur. Fljótlega komust þeir í samband við norskan kaupmann, Ulriksen að nafni, sem bauðst til að tala máli þeirra við nýlendustjórnina. Henni bar skylda til að sjá þeim fyrir vinnu. Það fór hins vegar svo að þeir tóku atvinnutilboði frá öðrum kaupmanni; sá var danskur, hét Lange og nú hefur dönskukunnátta Jónasar komið sér vel. Kaupmaðurinn rak sögunarmyllu og þar áttu þeir að vinna. En vinnutíminn var langur, frá 5.30 að morgni til 7 að kvöldi.

Þorsteinn segir í bók sinni: " Í nýlendunni Dona Fransisca var siðsemi, stjórn og regla í bezta lagi. Flest fólkið var víðsvegar frá Þýzkalandi, glaðvært, viðfeldið og greiðugt. Embættis- og yfirmenn ljúfir og lítillátir. Börnin frjálsleg og kurteis. Illindi mjög sjaldgæf þó æði margir tæki sér drjúgum í staupinu."

Þetta hefur verið furðu gott samfélag miðað við það sem við mátti búast í nýlendu á frumstigi. Flestir voru þokkalega efnaðir, fáir mjög ríkir og fáir bláfátækir. Þegar þeir félagar höfðu kynnzt lífinu þarna fannst þeim að þeir gætu fellt sig við að setjast þar að, enda þótt fullheitt væri um hásumarið. Þeim fannst þó miður, að þarna gætu Íslendingar varla haft það búskaparlag sem þeir voru vanir og ákváðu því að svipast frekar um eftir heppilegra svæði, og þá suður í Rio Grande do Sul. Fóru tveir þeirra félaga á stúfana og áttu að skrifa ef þeim litist vel á sig, en koma sjálfir til baka ella.

Enn fór svo að staðkunnugir menn ráðlögðu þeim frá þessari breytingu; töldu allt afar dýrt syðst í landinu, en litla vinnu að hafa og auk þess viðgengist þar þrælahald. Annar norskur kaupmaður, Gjörrigsen, sagði að þeir ættu að líta á hálendið við bæinn Curityba, lítið eitt innar í landinu, þar sem stunda mætti kvikfjárrækt. En bezti staðurinn væri áreiðanlega þar sem þeir höfðu sezt að í fyrstu. Gjörrigsen sagði við Jónas: "Ég skil ekki hvað þú ert blindur að eyða fé þínu og tíma til að leita uppi hentugan stað handa þessu félagi sem þú nefnir. Það mun verða þér illa launað. Félagið ætlast til þess að þú ferðist hér um og skrifir nákvæmar lýsingar á öllu án þess að láta þig hafa nægilegt fé til þess. Og ef félagsmenn koma hingað, kalla þeir þig líklegast lygara..." Og þessi norski kaupmaður bætir við: "Ég hef aldrei viljað skrifa heim til Noregs aðra lýsingu en svohljóðandi: - Hér deyr enginn úr hungri og þrælarnir hér eru frjálsari en bændurnir heima".Byggt og ræktað í Dona Fransisca Þingeyingarnir ákváðu þessu næst að fá sér jarðarskika í Dona Fransisca og hefja búskap. Landið sem þeir keyptu af nýlendustjórninni var fáeina kílómetra frá bænum Joinville. Þangað fluttu þeir feðgar, Jón Einarsson og Jón sonur hans, og byggðu sér hús. Jónas Friðfinnsson Bárðdal keypti einnig land, 38 dagsláttur, og bætti fljótlega öðru eins við, segir hann í bréfi til móður sinnar. Ekki var það ákjósanlegt ræktunarland, allt skógi vaxið og mikið verk að ryðja skóginn, en ætlunin var að rækta sykurreyr og kartöflur. Ekki verður séð að Jónas hafi verið bjartsýnn, því hann segir í bréfinu: "Engan eggja ég þó til að flytja hingað, og ekki heldur frá því. Mér finnst það of mikill ábyrgðarhluti, því ég veit ekki hvað mér eða öðrum er fyrir beztu."

Bréf voru óratíma á leiðinni milli Brasilíu og Íslands. Á árinu 1867 skrifar Jónas fimmta bréfið eftir tveggja ára bið frá því hann skrifaði síðast til Íslands og hefur þá ekkert heyrt frá unnustu sinni, móður og systkinum. Ekki vissi hann hvort bréfin hefðu glatazt, eða hvort tómlæti var um að kenna. Hann skrifar enn 1868 án þess að hafa fengið svar og ræðir þar um sjálfan sig, Brasilíu og Ísland: " Þó ég sé nú búinn að vera hér næstum þrjú og hálft ár er ég þó enn heldur fátækari en þegar ég fór að heiman. Það gengur ótrúlega fljótt að eyða peningum hér, einkum fyrir einhleypa menn, sem einlægt eru á sífelldum hrakningi." En í öllum bréfum þessara Þingeyinga má sjá að Brasilía hefur töfrað þá með fegurð sinni og gróðursæld.

Árið 1865 höfðu allir Þingeyingarnir keypt sér stærri landskika og komið sér upp húsum. Þeir voru farnir að geta bjargað sér vel á þýzku og gátu talað við nágrannana. En þeir héldu um leið fast í menningararfinn; höfðu haft með sér fornsögur í farteskinu að heiman og komu saman til þess að lesa þær. Trúlega hafa Njála og Egla ekki verið lesnar upphátt fyrr eða síðar á afskekktum stað inni í skóglendi Brasilíu.

Veikindi voru landlæg í nýlendunni og herjuðu einnig á þá félaga. Sökum heilsubrests gat Jónas Hallgrímsson hvorki stundað smíðar né aðra daglaunavinnu og Jón Einarsson var orðinn of roskinn til þess að þola langan vinnudag í sögunarmyllunni. Jónas Friðfinnsson breytti skógarjörð sinni í akurlendi og stundaði jafnframt smíðar.

En þó þetta liti bærilega út, voru þeir alltaf með hugann við hálendið sem þeim hafði verið bent á með tilliti til kvikfjárræktar og hugsanlegra búsetuskilyrða til handa þeim sem heima biðu á Íslandi. Þeir fóru vestur á hálendið í könnunarför 1866 og leizt þá svo vel á sig, að þeir ákváðu að flytja og hefja landnám á nýjan leik. Jón Einarsson var þá látinn. Jarðir sínar í þýzku nýlendunni settu þeir í umboðssölu og fengu lágt verð fyrir. Þessi frumbyggð Þingeyinganna í Dona Fransisca, þar sem mörgum svitadropum hafði verið úthellt, leystist upp sumarið 1866. Eftir andlát föður síns réðst Jón yngri í vegavinnu og kvæntist síðar konu af brasilískum og enskum ættum. Samdi hann sig eftir það að siðum innfæddra, en svo er að sjá að hann hafi samt alltaf þráð Ísland. Hann dó fyrir aldur fram um eða fyrir 1883.Búskapur í Curityba

Þeim Jónasi Hallgrímssyni og Jónasi F. Bárðdal þótti dásamlega fallegt í Curityba þegar þeir komu þangað í ágúst 1866. Bærinn er í 1000 m hæð yfir sjó og loftslagið er heilnæmt. Þar var þó ekki árennilegt að kaupa jarðir fyrir eignalitla menn. Fyrst reyndu þeir að fá vinnu við smíðar en gekk erfiðlega, svo þeir settu upp eigið smíðaverkstæði og kölluðu sig meistara.

Jónas F. Bárðdal undi illa einlífinu og fór nú að verða vonlítill um unnustuna heima á Íslandi, enda skrifar hann móður sinni 1867 og segist vera kvæntur konu af þýzku foreldri. Þeir meinbugir voru helztir á ráðahagnum að hún var kaþólsk, en hann "hatari kaþólskunnar". Líklega hefur Jónas haft betur í þessari trúarbragðadeilu því lútherskir prestar skírðu börn þeirra. Ekki er vitað til þess að Jónas skrifaði fyrrverandi unnustu sinni, Maríu Friðriksdóttur, um heitrof sitt og kvonfang. Þrátt fyrir lélegt heilsufar byggði Jónas hús yfir fjölskylduna 1870 og þegar tímar liðu var hann talinn með beztu "meisturum" í plássinu.

Í bréfi til Jakobs Hálfdanarsonar á Grímsstöðum kveðst Jónas Hallgrímsson hafa verið meira og minna veikur eftir að hann flutti í góða loftið uppi á hálendinu. Í bréfinu svarar hann spurningum sem Jakob hafði sent honum, en ekki gat Þingeyingum verið uppörvun í svari Jónasar. Meðal annars taldi hann verzlunina afar slæma í smærri bæjunum á hálendinu. Það hafði verið breitt út á Íslandi að sálarkraftar manna veikluðust í Brasilíu. En Jónas bar þann orðróm til baka og fullyrti að hann héldi sínum óskertum.

Þessi útlegð Jónasar Hallgrímssonar kann að virðast óskiljanleg í ljósi þess að heima á Íslandi átti hann konu og þrjá syni. Hitt mun þó láta nærri, að hann hafi einfaldlega ekki eignast fjármuni til þess að komast heim. Og svo vandaður maður sem Jónas var, vildi hann ekki eggja landa sína á að flytja til Brasilíu fyrr en hann hefði fundið ákjósanlegan stað. Hann sagði alltaf kost og löst í bréfum sínum, enda treystu menn þessum upplýsingum hans. Oftast dvaldi hann hjá nafna sínum Bárðdal, en vorið 1870 var hann í smábænum Antonia við Paranáquayfjörðinn og fékk þar gulu veikina, sem dró hann til dauða.

Niðurlag í næstu Lesbók.

Heimildir: Ævintýrið frá Íslandi til Brasilíu eftir Þorstein Þ Þorsteinsson, 1937-1939.UM MIÐJAN ágúst sigldu Þingeyingarnir frá Hamborg og eftir tveggja mánaða siglingu sáu þeir strönd Brasilíu. Þeim þótti merkilegt að fjöllin voru skógi vaxin uppá tinda.

Myndlýsing: Freydís Kristjánsdóttir.

BRÉF voru óratíma á leiðinni milli Íslands og Brasilíu. Jónas Hallgrímsson, sem átti konu og syni heima í Þingeyjarsýslu, hélt áfram að leita að heppilegu svæði til landnáms. Bréfin frá honum voru lesin með athygli því hann sagði bæði kost og löst á Brasilíu.

Myndlýsing: Freydís Kristjánsdóttir.JÓNAS Bárðdal kunni einlífinu illa og fór að verða vonlítill um unnustuna heima á Íslandi. Myndlýsing: Freydís Kristjánsdóttir.