21. febrúar 1998 | Menningarblað/Lesbók | 3982 orð

"SKIPI ÞÍNU ER EKKI ÆTLAÐ AÐ LENDA" EFTIR HARALD ÓLAFSSON

HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ FYRRI HLUTI ­

I Dirfska er það af manni sem ekki hefur starfað í Guðspekifélaginu að ætla sér að ræða um verk og kenningar Sigvalda Hjálmarssonar, fyrrum forseta Guðspekifélagsins.

"SKIPI ÞÍNU ER EKKI

ÆTLAÐ AÐ LENDA"

EFTIR HARALD ÓLAFSSON

HUGLEIÐINGAR UM KENNINGAR SIGVALDA HJÁLMARSSONAR ­ FYRRI HLUTI ­

Hvert er inntak hugmynda Sigvalda Hjálmarssonar og hverju velti hann öðru fremur fyrir sér? Í greininni er einvörðungu stuðst við bækur hans, einkum þær sem beinlínis fjalla um hugrækt, dulfræði og jóga. Sigvaldi segir: "Það er aðeins einn leyndardómur í dag: hið innra í manninum sjálfum. Og ef nútímamaðurinn á einhvern guð, þá er hann þar."

I Dirfska er það af manni sem ekki hefur starfað í Guðspekifélaginu að ætla sér að ræða um verk og kenningar Sigvalda Hjálmarssonar, fyrrum forseta Guðspekifélagsins. Eitt hef ég mér þó til máls bóta: Ég starfaði um þriggja ára skeið við hlið Sigvalda og eftir að við héldum hvor í sína áttina slitnaði þó aldrei þráðurinn, og þegar við hittumst var eins og við værum í miðju samtali þó að annar hefði kannski um ár og mánuði dvalist á Indlandi og hinn einhvers staðar í Evrópu. Þar með er ekki sagt að allar viðræður okkar hafi verið um þau áhugamál hans sem ollu því að hann varð 35 ára að aldri forseti Guðspekifélagsins. Þau mál bar þó oft á góma, en oftast í sambandi við trúarbrögð yfirleitt, en þau voru okkar sameiginlega áhugamál. En Sigvaldi lét sér fátt óviðkomandi og hafði skoðanir á mönnum og málefnum og var ófeiminn við að segja þær. Fáa menn hef ég þekkt sem hirtu minna um bæjarslúður en Sigvaldi, og aldrei heyrði ég hann segja kjaftasögur eða taka undir þegar samstarfsmenn hans í gáska og af örlítilli illkvitni létu gamminn geisa um ávirðingar náungans, þær sem oft var lítill fótur fyrir. Ég held að Sigvaldi hafi tekið því af þeirri varfærni sem felst í orðum Stephans G. "Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi." Ég kynntist Sigvalda Hjálmarssyni þegar ég í ársbyrjun 1958 hóf störf á Alþýðublaðinu. Hann var fréttastjóri blaðsins og óreyndur fréttamaður sótti til hans ráð og leiðbeiningar. Ég vissi að þessi svipmikli og snöfurlegi maður með snyrtilegt skeggið og glaðbeitt viðmót var forseti Guðspekifélagsins og þar af leiðandi hlaut að vera hægt að fræðast af honum um sitt af hverju sem mann langaði til að vita um sjálfið, jóga og meistarana í Tíbet. Ekki stóð á því að Sigvaldi fræddi mig, og hvern þann sem eftir leitaði, um félagið sitt, hugsjónir guðspekinga og leit þeirra að sannindum um mannskepnuna og veröldina alla. Oft hlaut ég að dást að því hve hiklaust og allt að því hversdagslega Sigvaldi ræddi um margt það sem okkur áheyrendum var lítt skiljanlegt og við höfðum ekki forsendur til að skilja. Síðar varð mér ljóst að hann ræddi ekki um margt það sem honum var mjög mikils virði, og oft mun hann hafa sleppt að nefna ýmislegt sem hann taldi geta valdið misskilningi þeirra sem ekki þekktu hugtök og tilvísanir sem fróðir menn nota þegar þeir fjalla um dýpri rök austrænna dulfræða. Viðræður okkar utan hins daglega amsturs voru gjarnan um trúarbrögð og heimspeki almennt, og ekki fremur um indversk eða austræn viðhorf en þau sem kölluð eru vestræn. Mér varð fljótt ljóst að hér fór maður sem um margt var óvenjulegur, örlítið framandi og ekki allur á yfirborðinu. Þó hef ég fáum kynnst sem voru hversdagslegri en Sigvaldi. Hann var hversdagslegur í þeirri merkingu orðsins, að hann var ákaflega lifandi þátttakandi í öllu því sem fólk var daglega að bjástra við. Hann horfði vissulega á marga hluti öðrum augum en flestir, en mannúð hans og meðlíðan með öllu lifandi var slík að hann lifði hversdaginn til fulls. Hann var jafnaðarmaður, fremur af eðli en yfirvegun, fræðari af velvilja, og skáld af því að hann gat ekki sagt hið ósegjanlega á annan hátt. Árin 1958-1960 voru mikil umbrotaár á Alþýðublaðinu. Alþýðuflokkurinn átti blaðið og reksturinn gekk upp og niður. Flokkurinn var í þremur ríkisstjórnum á þessum tíma. Blaðinu var breytt í nýtt og fjörugra form og það var gaman að vinna við að fylgjast með hinni félagslegu og stjórnmálalegu gerjun sem átti sér stað um þær mundir. Sigvaldi var vissulega Alþýðuflokksmaður en hann var ófeiminn við að gagnrýna eigin flokk ef hann taldi þess þurfa. Hann átti aldrei erfitt með að taka afstöðu. En mitt í umræðum um útfærslu landhelginnar, afnám gjaldeyrishafta, eða draugagang á Skaga sagði Sigvaldi stundum upp úr þurru að hann ætti ekkert að vera að velta þessu fyrir sér, hann væri hvort eð er rétt ófarinn til Indlands. Við grínuðumst með þetta og hann hló með okkur að þessari Indlandsför. Undir niðri vissum við þó, vinnufélagarnir, að hann væri vís með að fara einn góðan veðurdag til Indlands. Rúmlega fertugur tók hann sig upp með fjölskyldu sinni og sigldi til Indlands eins og ekkert hefði í skorist. Og skrifaði bók um Indland sem er ómetanleg heimild um hugmyndir hans, þekkingu og afstöðu til heimsins. Ég ætla nú að reyna að rekja örfáa þætti í hugsun Sigvalda eins og hún birtist í ritum hans. Bækur hans fjalla flestar um fræði sem guðspekingar og dulhyggjufólk fæst við. Margt er í þeim ritum mér harla torskilið, og spurningar mínar fleiri en svörin. Kynni mín af Sigvalda veita mér kjark til þess að rifja nokkra kafla úr bókum hans og leitast síðan við að draga fram það sem mér finnst þar áhugaverðast. Ekkert mundi Sigvaldi fyrirgefa af meiri alúð en fávisku, en ég er hræddur um að hann hleypti í brúnirnar ef hann merkti óheiðarleika í fari manna eða máli. Hvert er þá að mínu mati inntak hugmynda Sigvalda Hjálmarssonar? Hverjar er þær meginkenningar sem hann aðhylltist? Hverju velti hann öðru fremur fyrir sér? Í þessu rabbi styðst ég einvörðungu við bækur hans, einkum þær sem beinlínis fjalla um hugrækt, dulfræði og jóga. En því hef ég rifjað upp í örfáum orðum persónuleg kynni okkar, að þau hafa gefið mér allt aðra sýn á manninn Sigvalda Hjálmarsson en hefði ég einvörðungu lesið ritverk hans. Ég er viss að um að margt hefði ég skilið á annan hátt hefði ég ekki þekkt Sigvalda og rætt við hann um margt af því sem hann fjallar um í bókum sínum. En einkum hefði ég vafalaust fengið allt aðra mynd af persónunni hefði ég ekki þekkt hann. Stíll Sigvalda er stundum hnökróttur, og rithátturinn á það til að vera tilgerðarlegur. En hefði það borist í tal hefði hann sagt: Þetta er minn stíll, minn ritháttur. Og það var auðvitað alveg rétt. Þegar ég les texta hans nú finnst mér einmitt þetta vera sá Sigvaldi sem ég þekkti, og mér finnst ég heyra rödd hans í stílnum og orðavalinu. Sigvaldi gaf mér nær allar bækur sínar, en ég fékk aðeins eitt bréf frá honum. Það er örstutt, en samt furðulega efnismikið. Hann bendir þar á nokkra staði í bókum sínum sem hann segir svara einhverju sem ég var að spyrja hann um, og hann benti líka á kafla sem hann sagði að segðu kannski meira en virðast mætti í fljótu bragði. Þetta stutta bréf hefur hjálpað mér að meta verk Sigvalda. Í fyrstu málsgreininni í fyrstu bók Sigvalda, Eins og opinn gluggi (1968) er vitnað í Hávamál Indíalands, Bhagavad Gita , þar sem Krishna eru lögð í munn þessi orð: "Ég segi menn boðna og velkomna hvern veg sem þeir nálgast mig, af því vegirnir sem þeir velja er þeir koma hvaðanæva eru mínir vegir" ( Hávamál Indíalands, þýðandi Sigurður Kristófer Pétursson, 1978:57). Jafnframt því að Sigvaldi segir þetta vera dæmi um víðsýni Indverja, eða réttara sagt, indverskra spekinga, þá varar hann við að túlka þessa setningu svo að öll trúarbrögð séu sama tóbakið þegar allt kemur til alls. Hins vegar sé hægt að halda því fram að öll trúarbrögð eigi eitthvað sameiginlegt. Strax í þessum fyrsta pistli kemur fram kjarninn í hugsun Sigvalda, hugsun sem gengur eins og rauður þráður gegnum verk hans. Eftir að hafa rakið hvernig "nútímamaðurinn" (hugtakið nútímamaður er að vísu nokkuð óljóst) er ekki trúlaus heldur trúarbragðalaus, og lifir þar af leiðandi í ákaflega smáum heimi, án leyndardóma, segir hann: Himininn er ekki lengur himnaríki, iður jarðar ekki lengur víti. Maðurinn hefur farið út í geiminn þar sem er ekkert upp og ekkert niður og engin átt. Það er aðeins einn leyndardómur í dag: hið innra í manninum sjálfum. Og ef nútímamaðurinn á einhvern guð, þá er hann þar (1968:12). Hann rekur síðan hvernig hinn nýi heimur manna er heimur vísinda og hvernig hugsunarhátturinn muni í framtíðinni mótast æ meir af vísindum. Og hann spyr: "Er þessi vísindalegi hugsunarháttur gersamlega sneyddur andlegleika? Hafa vísindalega hugsandi menn litla andlega möguleika? Getur ekki Krishna sagt að þeirra vegur liggi líka til hans?" Hann vitnar í þau ummæli Max Plancks, að sá guðdómur sem hinn trúaði maður reyni að nálgast með því að gera sér af honum hugræna mynd, sé sama eðlis og mátturinn að baki náttúrulögmálunum sem vísindamaðurinn fær vissa þekkingu um (1968:15). Sigvaldi heldur svo áfram: Alheimsregla vísindanna má skoðast hinn sami grundvallar veruleiki og guð trúarbragðanna. Og vísindin treysta þessum "guði" sínum. Ef vísindamaðurinn ekki reiddi sig á alheimsregluna gæti hann ekki treyst því að sama tilraun gæfi sömu niðurstöðu í dag og á morgun. Traust hans á því að það ríki regla í tilverunni gerir honum fært að reiða sig á lögmál náttúrunnar. Annars þýddi ekki að tala um lögmál náttúrunnar. Annars þýddi ekki að tala um lögmál og engin vísindi væru til. En hann nálgast ekki þennan "guð" sinn með tilfinningum í tilbeiðslu, heldur með skilningshæfileikanum í hugarstarfi. Sá einn er munurinn (sama rit). Hann bendir á að hægt sé að nota mismunandi hugtök um sama veruleika, eins og komi mjög skýrt fram í austrænni heimspeki. Það eru ekki hugmyndirnar, hugtökin, sem mestu máli skipta heldur veruleikinn sem á bak við liggur, sannleikurinn. Það er hægt að nálgast sannleikann eftir gagnstæðum leiðum. Hann spyr: "Er einhver von um að vísindin geti orðið með tímanum andleg leið á svipaðan hátt og trúarbrögðin hafa jafnan verið?" (1968:18). Sigvaldi ræðir svo um hvernig háttað sé því sem hann kallar "esóterísk fræði" trúarbragðanna. "... en þau lúta að því að upplifa guðdóminn eða veruleikann beint, að því er sagt er, í stað þess að búa til um hann kennisetningar eða kenningar" (sama rit). Það er þó aldrei um neinar endanlegar niðurstöður að ræða, hvorki í vísindum né dulfræðum. Vísindalegur sannleikur er að vita það sem er sannast og réttast um tiltekin viðfangsefni. Dulfræðin leita hins sanna, en þau eru ekki endanleg fremur en vísindin. Sigvaldi lýkur þessu inngangserindi sínu með þessum orðum: En ég hygg að ef mér leyfist að gizka á hvað helzt muni innan tíðar verða kallað leið nútímans þá séu það esóterísk fræði eða mystík sem reist er á vísindalegum hugsunarhætti og mjög beinni og umbúðalausri lífsafstöðu, að lifa sterkt og eðlilega (1968:23). Þetta er að mínum dómi inntak þess sem Sigvaldi er að fjalla um í verkum sínum. Hann er vísindalega sinnaður, hann leitar að því sem er satt, rökrétt. Reynslan er í aðra röndina eins konar tilraun sem hægt er að endurtaka, og öðlast þannig smám saman vissu um hvað felst í þeim veruleika sem liggur að baki fyrirbærinu. Eins og vísindamaðurinn leitar að samhengi og reglu leitar dulfræðingurinn að samræmi í reynslu og upplifun. Dularöflin sem eru að baki lögmálum náttúrunnar eru þegar allt kemur til alls hin sömu og dulspekin er að fást við. Orðin eru ólík, hugtökin margvísleg, en að baki allrar viðleitni manna til að finna það sem er satt og rétt er samræmt lögmál um að allt í veröldinni sé á einhvern hátt tengt. Undrunin er upphaf þekkingarinnar, og þekkingin vex í réttu hlutfalli við fjölbreytni þeirrar reynslu sem maðurinn öðlast. Sigvaldi mundi vafalaust bæta við, að þekkingin minnki líka eftir því sem reynslusviðið þenst út. Aukin þekking er ekkert annað en rík tilfinning fyrir því hve lítið manneskjan veit. En Sigvalda var ekki nóg að ræða almennt um áhugamál sín. Hann vildi fræða, leiðbeina. Árið 1973 kom út bók hans Eins konar þögn, og undirtitill hennar er: Ábendingar í hugrækt. Á titilsíðu er ljóðastef eftir Grétar Fells: Skipi þínu er ekki ætlað að lenda. Þú átt að stýra því út á hið endalausa haf. Með þessum orðum er gefið til kynna hvert erindi höfundur á við lesendur sína. Hann vill benda þeim á að enginn verður nokkru sinni fullnuma, að ræktun huga og vilja er þrotlaust viðfangsefni. Það er siglingin sem skiptir máli, ekki áfangastaðurinn. Hann er ekki bara leyndardómur, heldur beinlínis óskiljanlegur og til einskis að hugsa um hann. Áfangastaðurinn getur þess vegna verið sá staður sem maður fer frá, eða öllu heldur hver sá staður sem maður er á hverju sinni. Í stefi Grétars Fells er lykilorðið sögnin að stýra. Sigvaldi vill fræða lesendurna um hvernig hægt er að stjórna fleyi sínu, hinum órólega og hvikula huga, um óþekktar óravíddir. Hann segir í upphafi: Hugrækt er því viðvíkjandi hvernig maður er á hverju andartaki lífsins. Hún er ekki að búa til eitthvað nýtt, heldur fremur hitt að vera eins og manni er eðlilegt, vera maður sjálfur, og allur, ekki brot af sjálfum sér. Hún er í því fólgin að ná valdi yfir þeirri tilhneigingu sem ríkir í mannshuganum að búa sífellt til hugmyndir, ímyndir, hugtök, um allt sem er upplifað. Þegar því valdi er náð er hugurinn það sem kalla mætti hljóður og glaðvakandi, og þá er unnt að upplifa hindrunarlaust allt sem fyrir ber ytra og innra. Þetta er gert með æfingum með athyglina. (1973:11). Hann heldur áfram að ræða um gildi athyglinnar og hve nauðsynleg hún er til þess að ná valdi á huganum. Hann minnist oft á gildi þess að skoða, beina athyglinni að einhverjum ákveðnum hlut, horfa á eitthvað harla kunnuglegt eins og maður hafi aldrei séð það áður. Tvívegis talar hann um þau áhrif sem Kristnamurti hafði á hann í Adyar er hann benti áheyrendum sínum á að horfa á hrafn í garðinum. Sigvaldi segir að sér hafi fundist hann þá sjá hrafn í fyrsta sinn. Hann talaði oft um nauðsyn þess að skoða smáatriði, velta fyrir sér algengu orði, eða hlut og finna hvernig ný sýn opnaðist. Þetta minnir á fræg orð eins af meisturum bókmenntanna: "Smáatriðin, alltaf smáatriðin." Fyrsta boðorðið er að skoða, beina athyglinni að einhverju einstöku, og koma þannig í veg fyrir hugarreik sem er hættulegra en allt annað ef ætlunin er að ráða því hvernig hugsað er. Smám saman á sá er iðkar hugrækt að komast upp á lag með að nota einföld ráð til þess að beina huganum að tilteknu atriði og halda honum þar föstum. Sigvaldi líkir þessu við að læra að hjóla. Hann segir: Hugleiðingu má líkja við að að læra á hjóli, hún er fólgin í því að komast uppá lag með ... Fyrst er hún lítið annað en reyna ­ og mistakast. En í endurteknum mistökum býr sú list að heppnast (1973:56). Hann bendir á þann einfalda sannleika að ekki sé mögulegt að manneskja geti upplifað það sem kallað er æðra vitundarstig meðan hún getur ekki almennilega upplifað það vitundarstig sem hún er á núna. Þjálfun hugans er forsenda vandaðs lífernis í þeirri merkingu að iðkandanum er eðlilegt að hugsa vel. Þó að þessi bók sé fyrst og fremst kennslubók í frumatriðum hugræktar eru þar kaflar sem bregða birtu á margt það sem Sigvaldi fjallar um í síðari ritum sínum. Hann segir að hljóður hugur sé sálarástand sem kallað hefur verið vegur. Það er vegna þess að það er talið að sá sem náð hefur valdi á huga sínum geti valið um ýmsar leiðir til þess að öðlast æðri vitundarreynslu, æðri vitund. En á þessum vegi eru engir áfangar og hann endar hvergi af því að hann er eilíft upphaf (1973:87). Þriðja bók Sigvalda um fræði sín er Haf í dropa. Þættir um Yoga og austræna hugsun (1976). Þessi bók er gríðarlega efnismikil þótt að hún sé ekki nema tæplega 140 blaðsíður í litlu broti. Hann er að fást við flókið efni og alvarlegar spurningar í þeirri bók. Þar ræðir hann um þau fyrirbæri sem kallast dularreynsla, mystísk reynsla, og ég kem að nánar síðar. En hann lýsir þarna ýmsum merkilegum þáttum indverskrar heimspeki, rökfræði þeirri sem er að baki afstöðu margra Indverja til einstaklings og alheims, hann fjallar ítarlega um jóga sem leið til æðri vitundar og gefur jafnvel í skyn að hugsanlega muni sumt úr þessari fornu speki eiga eftir að verða hluti af vestrænum vísindum, á svipaðan hátt og kínverska nálastunguaðferðin er nú viðurkennd sem hluti af læknislist nútímans. Eins og fyrr er titill bókarinnar hlaðinn merkingu. Haf í dropa og dropi í hafi vísar til einingar alls. Sérhver ögn rúmar alheiminn, og alheimurinn endurspeglar hverja ögn. Allt er samtengt. Það er í senn hinn mikli sannleikur og hinn mikli leyndardómur. Enn leitar Sigvaldi til meistara orða og hugsunar og hefur eftirfarandi ljóðlínur eftir Jakob Jóh. Smára að einkunnarorðum fyrsta kafla bókarinnar: Ég veit að ómæld eilífð lifir í augnabliksins sólskinsstund. Hugtökin eilífð, óendanleiki, augnablikið sem aldrei líður, er viðfangsefni þessarar bókar. Sigvaldi leitar fanga í fornum trúarritum, einkum austrænum, og rýnir í þá leyndardóma sem tíbeskir meistarar hafa sett á bók, hyggur að kenningum um kúndalíni og þær jóga-aðferðir sem miða að því að breyta hugarstarfseminni, og ná jafnvel svo langt að mönnum verði fært að gera ýmsa furðulega hluti með hjálp hugarorkunnar einnar saman. Efni, andi og athöfn tengjast á einhver þann hátt sem ekki verður útskýrt með aðferðum vestrænnar rökfræði og eðlisfræði. Ef til vill gerði vísindahyggjumaðurinn Sigvaldi sér vonir um að takast mundi í framtíðinni að finna lögmál þessara fyrirbæra með tækni og rannsóknaraðferðum sem tíðkast á Vesturlöndum, og austræn reynsla dulspekinga og rökhugsun vísindamanna mundi tengjast í nákvæmri þekkingu á lögmálum alheimsins. Mér þykir rétt að taka hér upp orðréttan kafla úr bókinni þar sem Sigvaldi skýrir hvaða merkingu hann leggur í hugtakið mystísk reynsla. Hann segir: Þegar talað er um mystíska reynslu er verið að gefa til kynna sérstaka upplifun sem illa gengur að gera ljósa með útlistun. Hún er ekki hið sama og almennt er kallað dulræn reynsla og stendur ekki í neinu sambandi við svokallaða dulræna hæfileika. Mystísk reynsla er að upplifa það að vera til öðruvísi en vanalega og miklu stórkostlegar og hefur verið þekkt á öllum tímum og öllum löndum (1976:7). Litlu síðar heldur hann áfram að útskýra við hvað hann á: Freista má að gefa hugmynd um þessa furðulegu upplifun með athugun á lýsingum ýmissa manna frá mismunandi menningarsvæðum og skeiðum, og í ljós kemur að hún er alstaðar sjálfri sér lík. Öll bein reynsla er handanvið orð og hugtök. Orð segja varla nokkurntíma alveg satt. En engu gera þau fremur rangt til en mystískri upplifun. Hér skal þá drepið á þrjár tegundir mystískrar reynslu ­ þó hún sé ekki fremur þrennskonar en eitthvað annað, sjálfsagt eins margvísleg og einstaklingarnir sem hlut eiga að máli. Oft gerist það fyrst að manni finnst sem órofa kyrrð og þögn leggist yfir, hin símalandi ytri tilvera stansi og nái ekki að hafa mann lengur á valdi sínu. Hávaði rýfur ekki slíka þögn, hún bælir niður allan hávaða. Hún er ekki af þessum heimi og ekki neitt sem skynfærin nema, og hún yfirbugar allar skynjanir svo þeim og öllu sem þær vísa til tekur að svipa til óverulegrar froðuslæðu sem flýtur oná botnlausu hyldýpi. Næst kemur það stig að manni finnst hann renna samanvið allt sem hann skynjar, upplifa sjálfan sig með einhverjum hætti í trjám, blómum, öðrum mönnum, dýrum og umhverfi: allt er eitt. Sú niðurstaða er ekki fram komin fyrir umhugsun, hún er milliliðalaus uppgötvun. Mörkin milli þín og þess sem þú skynjar þurrkast út. Og svo yfirþyrmandi getur þessi volduga reynsla orðið að allt snúist við, og þú greinir allt í þér ­ allt sem athygli þín beinist að sé í þér, þú sjálfur orðinn líktog eitthvert óskaplegt tóm sem umlykur og gegnumsmýgur allt ánþess í því felist nokkur tilfinning um stærð eða smæð: stærð og smæð og öll önnur stigbreyting lífsins er farin veg allrar veraldar (1976:8- 9). Og litlu síðar: Í mystískri reynslu virðist öll tilveran lifandi návist ­ hvaða verkfærum skynjunar eða vitundarlífs sem að henni er beint. Ekkert er til nema líf. Og þótt óskiljanlegt kunni að sýnast frá sjónarmiði venjulegrar mannlegrar hugsunar þá ert þú sjálfur þessi alheims-návist og hún er þú (1976:10). Eins og fram kemur í orðum Sigvalda er full ástæða til þess að gera greinarmun á dulrænni reynslu og mystískri reynslu. Ég hef ekki gert nógu greinilegan mun á þessu tvennu en þegar ég tala um dulspeki er ég reyndar að fjalla um alla þá reynslu sem ekki er hversdagsleg, en gerist fyrst og fremst í hugarheimi viðkomandi. Hún er ekki það að sjá sýnir, eða verða var við framliðna, eða annað af því tagi sem algengast er að kalla dulræna reynslu. Enda þótt slík reynsla og þess konar fyrirbæri séu verð rannsóknar eins og önnur fyrirbæri mannlegs lífs þá má ekki blanda henni saman við þá upplifun að allt sé eining, og manneskjan sé í nánu sambandi við allt annað í alheimi. Þessi vitund, sem ef til vill mætti kalla nýja tegund vitundar, birtist eins og snögg ljómun hugans og Sigvaldi segir að henni fylgi stundum nagandi efasemdir um mikilvægi mannlífsins og sjónarspils þess. Það sem hjálpar til þess að öðlast hæfileika til að kynnast þessari mystísku vitund er jóga. Jóga er hugrækt og fólgið í því að ná valdi á myndun hugsana og hugmynda (1976:18). En jóga-iðkun er einnig líkamlegs eðlis en miðar þó ætíð að því að iðkandinn nái hugrænum árangri. Sigvaldi rekur síðan skiptinguna í líkamlegt jóga og hugrænt jóga, en tekur fram að í raun sé ekki rétt að skipta þessu þannig niður í svið, en þó megi afsaka það með því að það sé til hægðarauka fyrir þá sem eru að feta sig inn á braut jóga. Hið hugræna jóga beinist að mystískri uppplifun, en líkamlegt jóga stefnir að því að ummynda tauga- og heilastarfsemina. Síðan er rætt um nokkrar tegundir jóga- iðkana sem allar miða að því sem Sigvaldi leggur alltaf svo mikla áherslu á, það er að æfa athyglina, æfa sig í því að skoða og íhuga í þeim tilgangi að ná valdi á hugsuninni. Og er þá komið að dhyana : Næst kemur stig sem kallast dhyana, það þýðir hugleiðing, og er hin eina og sanna hugleiðing, hitt er einungis undirbúningur eða hreinsun, því tærleiki hreinnar athygli þegar hugarstarf lætur ekki á sér bæra er upphaf hreinleika sem vex og magnast ef rétt er á haldið uns þú og óendanleikinn renna saman í eitt. Í dhyana er ástand vitundarinnar orðið svo hljótt að þér finnst þú eitthvert þagnardjúp á bakvið allt hugsanarót ­ þannig að jafnvel hugsanir þínar sjálfs trufla ekki, þú hefur þær á valdi þínu, leyfir þeim að líða fram þegar þú vilt, ella ríkir kyrrð, hugsunarhæfileikinn lætur jafn-létt að stjórn og mannshönd sem aðeins tekur til starfa þegar þörf krefur (1976:21). Það væri fróðlegt að rekja umfjöllun Sigvalda um líffræðilegar forsendur jóga, og ekki síst kenningarnar um kúndalíni og þau orkusvið sem hann telur að ráði mestu um ástand efnislíkamans. Ég læt nægja að benda á að rannsókn á þeim fyrirbærum er eitt af því sem vísindamenn og dulspekingar ættu að geta fræðst um með frekari rannsóknum og tilraunum. Má vera að þar séu fram komin ýmis sannindi sem ég hef ekki frétt af.

Niðurlag í næstu Lesbók.

Höfundurinn er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Greinin er byggð á erindi sem flutt var á fundi í Guðspekifélaginu 10. okt. 1997.

SIGVALDI Hjálmarsson. Hann bendir á þann einfalda sannleika að ekki sé mögulegt að manneskja geti upplifað það sem kallað er æðra vitundarstig meðan hún getur ekki almennilega upplifað það vitundarstig sem hún er á núna. Þjálfun hugans er forsenda vandaðs lífernis í þeirri merkingu að iðkandanum er eðlilegt að hugsa vel.DULARÖFLIN sem eru að baki lögmálum náttúrunnar eru þegar allt kemur til alls hin sömu og dulspekin er að fást við. Orðin eru ólík, hugtökin margvísleg, en að baki allrar viðleitni manna til að finna það sem er satt og rétt er samræmt lögmál um að allt í veröldinni sé á einhvern hátt tengt.

Myndin: Í árdaga. Eftir William Blake

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.