26. mars 1998 | Akureyri og nágrenni | 315 orð

Þrír sparisjóðir í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu

Samkomulag um rekstur póstafgreiðslustöðva fyrir Íslandspóst

ÞRÍR sparisjóðir í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu hafa gert samkomulag við Íslandspóst hf. um að þeir taki að sér rekstur póstafgreiðslustöðva og er stefnt að því að sparisjóðirnir muni kaupa húsnæði Íslandspósts á þeim stöðum sem um ræðir. Þetta eru Sparisjóðurinn í Hrísey, Sparisjóður Höfðhverfinga á Grenivík og Sparisjóður Suður-Þingeyinga, þ.e.
Þrír sparisjóðir í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu Samkomulag um rekstur póstafgreiðslustöðva fyrir Íslandspóst

ÞRÍR sparisjóðir í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu hafa gert samkomulag við Íslandspóst hf. um að þeir taki að sér rekstur póstafgreiðslustöðva og er stefnt að því að sparisjóðirnir muni kaupa húsnæði Íslandspósts á þeim stöðum sem um ræðir. Þetta eru Sparisjóðurinn í Hrísey, Sparisjóður Höfðhverfinga á Grenivík og Sparisjóður Suður-Þingeyinga, þ.e. afgreiðslurnar á Laugum í Reykjadal og í Mývatnssveit. Þessar breytingar taka gildi 1. júní næstkomandi.

Friðrik Friðriksson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík sagði að sparisjóðirnir á þessum svæðum muni eftir þessar breytingar sinna íbúunum á svæðunum varðandi þá margvíslegu þjónustu sem sparisjóðirnir hafa upp á að bjóða auk þess að afgreiða póst og sinna því sem honum tilheyrir. Þá hefðu sparisjóðirnir einnig þjónustuhlutverki að gegna gagnvart Landssímanum, m.a. að líta eftir tækjum og tólum í eigu fyrirtækisins og sjá um sölu á símum og fleiru þeim tengdum.

Tryggjum áframhaldandi góða þjónustu

Samningurinn gildir til 12 ára, eða til ársins 2010. "Með þessu móti viljum við tryggja áframhaldandi góða þjónustu Íslandspósts við íbúa þessara svæða, jafnframt því sem við bætum okkar þjónustu," sagði Friðrik. "Þetta er heilmikið landsbyggðarmál og við ætlum okkur að verða á undan. Í kjölfar þess að fyrirtæki eru einkavædd og krafa um arðsemi verður meiri heyrast oft þær raddir sem óttast að þeir staðir verði útundan sem minnstan arð sýna. Með þessum samningi ætlum við okkur að styðja við bakið á íbúunum á þessum stöðum og styrkja þjónustustigið, að það verði áfram gott og dali ekki."

Nefndi Friðrik sem dæmi um betri þjónustu að til að mynda yrði settur upp hraðbanki í Hrísey og afgreiðslutími yrði lengdur, en nokkuð hefði borið á óánægju t.d. meðal ferðafólks að geta ekki sinnt viðskiptum í hádeginu úti í eyju.

Friðrik vildi ekki tjá sig um hvort sparisjóðir á fleiri stöðum myndu taka að sér rekstur póstafgreiðslna, sagði tímann mundu leiða það í ljós.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.