"Tóndansmynd" eftir Guðna Franzson, Láru Stefánsdóttur og Ragnhildi Stefánsdóttur. Tónlist: Guðni Franzson. Búningar og leikmynd: Ragnhildur Stefánsdóttir. Dansgerð: Lára Stefánsdóttir. Lýsing: Elfar Bjarnason. Hljóð: Páll Sveinn Guðmundsson: Flytjendur: Guðni Franzson, Lára Stefánsdóttir og Ragnhildur Stefánsdóttir. Sunnudaginn 3. maí, seinni sýning.

Kinnhestar

og appelsínur

LISTDANS

Menningarmiðstöðin Gerðuberg

TÓNDANSMYND

"Tóndansmynd" eftir Guðna Franzson, Láru Stefánsdóttur og Ragnhildi Stefánsdóttur. Tónlist: Guðni Franzson. Búningar og leikmynd: Ragnhildur Stefánsdóttir. Dansgerð: Lára Stefánsdóttir. Lýsing: Elfar Bjarnason. Hljóð: Páll Sveinn Guðmundsson: Flytjendur: Guðni Franzson, Lára Stefánsdóttir og Ragnhildur Stefánsdóttir. Sunnudaginn 3. maí, seinni sýning.

ÞRÍEYKIÐ Guðni Franzson tónlistarmaður, Ragnhildur Stefánsdóttir myndlistarkona og Lára Stefánsdóttir danshöfundur fluttu verk sitt Tóndansmynd í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi síðastliðinn sunnudag. Tóndansmynd er vinnuheiti sýningarinnar sem byggð er á hugarástandi húsfreyjunnar á Hlíðarenda, Hallgerðar langbrókar.

Í verkinu eða gjörningnum er tvinnað saman dansi, tónlist og myndlist. Verkið hefst á tregafullu klarinettspili Guðna Franzsonar. Áhorfendur berja Hallgerði langbrók augum og fylgja henni í hægum dansi undir dulúðugri tónlist innan um appelsínur sem skreyta sviðið.

Hallgerður langbrók dönsuð af Láru Stefánsdóttur er miðpunktur verksins. Hún er með hælasítt hár og í þungu svörtu pilsi. Guðni Franzon túlkar lauslega Gunnar á Hlíðarenda jafnframt því að leika tónlist á sviðinu. Leikið er útfrá kinnhestinum sem Gunnar á Hlíðarenda veitti Hallgerði langbrók í Njáls sögu og spunnið út frá viðbrögðum hennar við honum. Kinnhesturinn er endurtekinn í verkinu og er framvinda sýningarinnar byggð á honum.

Hugarástand Hallgerðar er margbreytilegt. Hún grætur í örvæntingu, hún á sínar innilegu stundir með karli sínum og hana dreymir dagdrauma. Leikurinn endar iðulega á sama veg, Gunnar slær Hallgerði og örvænting hennar tekur við.

Atburðarásin er túlkuð með leikrænni tjáningu í dansi, tónlist og myndlist.

Frumlegt á köflum

Það tjáningarform sem hópurinn velur til að koma hugmyndum sínum til skila er í ætt við ýkjuleik. Hvort sú leið eða önnur hefði hentað betur verður að teljast smekksatriði. Hugmyndirnar eru ágætar og úrvinnsla þeirra góð. Þessi ýkti tjáningarstíll var eigi að síður oft á mörkum þess að vera hlægilegur mitt í allri dramatíkinni. Samspil Láru Stefánsdóttur og Guðna Franzsonar var frumlegt á köflum og gaf atburðarásinni dýpt.

Búningur Hallgerðar langbrókar, hnébuxur úr plasti sem minnti á verkað skinn og silikonbrjóst í anda Pamelu Anderson fóru vel saman og var nýstárlegt.

Appelsínurnar og appelsínuskúlptúrinn gáfu verkinu ferskan blæ. Tónlistin, ómissandi þáttur verksins, var annaðhvort eða allt í senn angurvær, vafin dulúð eða dillandi.

Tóndansmynd er forvitnilegur gjörningur sem inniheldur ágætis hugmyndir sem sumar hverjar ganga upp, aðrar ekki. Hópurinn leitar að eigin listrænum farvegi fyrir hugmyndir sínar sem telst dýrmætt í oft formúlukenndu umhverfi lista. Þetta er hópur sem vert er að hafa augun opin fyrir.

Lilja Ívarsdóttir