16. júní 1998 | Aðsent efni | 3631 orð

Emil Thoroddsen

EMIL Thoroddsen tónskáld var einn hinn fjölhæfasti Íslendingur af kynslóð þeirri, sem kennd er við aldamótin. Hann var jafnvígur á flestar greinar lista. Tónlist, málaralist, skáldskap. Hvarvetna var hann viðurkenndur sem jafnoki þeirra er fremstir voru taldir. Emil Þórður Thoroddsen var fæddur í Keflavík 16. júní 1898.
Emil Thoroddsen

Hvarvetna var hann viðurkenndur sem jafnoki þeirra er fremstir voru taldir. Pétur Pétursson skrifar um fjöllistamanninn Emil Thoroddsen, en í dag eru 100 ár frá fæðingu hans.

EMIL Thoroddsen tónskáld var einn hinn fjölhæfasti Íslendingur af kynslóð þeirri, sem kennd er við aldamótin. Hann var jafnvígur á flestar greinar lista. Tónlist, málaralist, skáldskap. Hvarvetna var hann viðurkenndur sem jafnoki þeirra er fremstir voru taldir.

Emil Þórður Thoroddsen var fæddur í Keflavík 16. júní 1898.

Faðir minn, Pétur Guðmundsson, og foreldrar Emils, Þórður læknir Thoroddsen og eiginkona hans Anna, dóttir Péturs Guðjohnsens organleikara og söngkennara, bundust vináttuböndum í Keflavík er þeir gegndu þar störfum á seinasta áratug liðinnar aldar. Þórður var héraðslæknir þar 1883­1904, en faðir minn barnakennari 1890­93. Af frásögn föður míns má ráða að hann hafi talið sig standa í þakkarskuld við læknishjónin Þórð og frú Önnu. Hann taldi það jafnan gæfuspor er hann steig að áeggjan þeirra hjóna, að ganga til liðs við "Vonina", en það var góðtemplarastúka er starfaði í Keflavík og þau hjón veittu forystu. Á starfsárum sínum á Suðurnesjum átti faðir minn vísa vináttu og skjól á menningarheimili þeirra hjóna. Þótt vík yrði milli vina við bústaðaskipti og flutning milli héraða hélst vináttan. Er börnum foreldra minna fjölgaði og ómegð og sjúkleiki juku þeim áhyggjur buðu Thoroddsenshjónin af rausn sinni systur minni, Auði, að dveljast á heimili sínu við Túngötu. Naut hún þar um skeið umhyggju og góðvildar fornvina föður míns.

Er við systkinin fluttumst með móður okkar til Reykjavíkur minnist ég tíðra heimsókna Þórðar læknis að fylgjast með heilsufari okkar. Ég minnist svipmikils manns í víðum dökkbláum frakka með lyf og læknisdóma. Þótt joðmjólkin sem Þórður læknir fyrirskipaði pasturslitlum smásveini að súpa kvölds og morgna væri römm á bragðið var það allt bætt upp við borð frú Önnu Thoroddsen á rausnarheimili hennar þar sem unaðslegt Konsumsúkkulaði rann ljúflega í postulínsbolla, hálsmjóir söngsvanir með sveigðan háls, fannhvítt flórsykurbak og þeyttan rjóma og sultutau undir vængjum vöktu ímyndunarafl og bráðnuðu í munni meðan golan gældi við gullregnið í gróðursælum garði hjónanna.

Skautahlaup og knattspyrna

Á æskuárum lagði Emil stund á íþróttir í hópi vaskra sveina. Í janúarmánuði 1909 er hans getið sem yngsta þátttakanda í skautahlaupi á Reykjavíkurtjörn. Hann er þá á ellefta ári. Þar keppa þá jafnframt honum þjóðkunnir íþróttagarpar, Sigurjón Pétursson kenndur við Álafoss síðar, Magnús Tómasson Kjaran, kaupmaður o.fl., sem geta sér frægðarorð. Emil hleypur þar 500 stikur, sem svo voru kallaðar þá. Tími hans er 1 mínúta 56 1/5. Þá tekur Emil einnig virkan þátt í knattspyrnu. Um þá íþrótt skrifaði hann grein í afmælisblað Víkings, knattspyrnufélags í Reykjavík. Hann minnist þar Suðurgötuklíkunnar, sem svo var nefnd:

"Félagið (Víkingur) átti ekki einu sinni knött og það leið langur tími áður en gjaldkerinn var búinn að tína svo marga fimm- og tíeyringa út úr vösum fastheldinna félagsmanna, að það nægði fyrir nothæfum knetti. Framan af var notast við Miniaturknött (lítinn), sem var einkaeign eins af félagsmönnunum og hafði þann ágæta eiginleika að hann lá kyrr eins og klessa, þó hann kæmi niður á jörðina úr háalofti. Þetta fyrirkomulag hafði þann annmarka, að eigandi knattarins var nokkurs konar einvaldsherra á vellinum og ef ekki var látið að hans vilja í einu og öllu þá fór hann í fýlu, tók eign sína og labbaði heim, og þar með var þeirri æfingu lokið." (Heimild: Ágúst Ingi Jónsson "Víkingur".)

Emil hafði alla burði og keppnisanda til þess að láta að sér kveða á sviði íþróttakeppni þótt grannvaxinn væri. Skapgerð hans var sterk og lundin einbeitt. Veikindi hömluðu frekari íþróttaiðkun er fram liðu stundir.

Rík stílgáfa sagði Sigurður skólameistari

Næst hittum við Emil í hópi kátra menntaskólapilta í Menntaskólanum. Skólabræður hans dá hann. Það sem aðrir þurftu að eyða í tíma og fyrirhöfn lá fyrir honum sem opin bók. Löngu innan við 10 ára aldur var slagharpan orðin honum kært og viðráðanlegt hljóðfæri, að sögn Valtýs Stefánssonar. Sigurður Guðmundsson, síðar skólameistari á Akureyri, er stundakennari í Menntaskólanum í Reykjavík á námsárum Emils. Hann, sem var manna dómbærastur um stíl og orðfæri, kvaðst... "aldrei (hafa) fyrirhitt lærisvein með ríkari stílgáfu en Emil".

"Emsi" segir brandara

Sé blaðað í fundargerðum "Framtíðar", félags nemenda, þá er Emils t.d. getið í frásögn af fundi árið 1916. Flestir, sem nefndir eru sem fundarmenn, verða síðar þjóðkunnir. Margir þeirra nánir félagar Emils og samstarfsmenn, Kristján Albertsson, Sigurður Grímsson, Morten Ottesen o.fl. nafnkunnir.

"Emsi (Emil) stendur í einu horninu og segir brandara er stóðu í Klods Hans (danskt skopblað) fyrir fimm árum. Dálítill hópur manna hefur safnast um hann. Þeir horfa á hann með brosandi ánægju og hlæja þegar þeir halda, að það eigi við." Meðal þeirra sem getið er á Framtíðarfundi er Stefán Jóhann Stefánsson, síðar forsætisráðherra.

Leikið á orgel í sunnudagaskóla KFUM

Emil telur sjálfsagt að bregðast vel við tilmælum KFUM að leika á orgel á samkomum sunnudagaskóla. Hann tekur þar við af frænku sinni Hólmfríði, sem fluttist burt úr Reykjavík með eiginmanni sínum séra Jósef Jónssyni presti á Setbergi. Sigurbjörn kaupmaður í Vísi rifjar upp gamansögu af samskiptum þeirra Emils. Sigurbirni fipaðist í frásögn, er hann mælti af munni fram í hléi, sem varð á sálmasöng. "Mér duldist ekki að yfir henni var einhver andlegur blær, sem gæti verið í ætt við þig, sagði Emil með miklum alvörusvip, en ég sá hvernig andlit hans undir alvörugrímunni logaði allt af niðurbældu gríni og gamansemi," sagði Sigurbjörn Þorkelsson kaupmaður í "Vísi".

Listgáfur og menntunarandi Knudsena

Á unglingsárum Halldórs Kiljans Laxness nefndi hann Emil Thorodden, Pál Ísólfsson og Pétur Á. Jónsson "verðandi öðlinga íslenskrar tónlistar".

Svo sem vænta mátti lýsir Halldór af nærfærni og skilningi sérstöðu Emils í flokki íslenskra listamanna. Þótt telja megi víst að Emil hafi sótt sitthvað af tónlistargáfum sínum til afa síns Péturs Guðjohnsens, organleikara og söngstjóra, virðist augljóst að Knudsensættin eigi þar einnig drjúgan skerf. Halldór segir í bók sinni "Grikklandsárið": "Kanski hefur honum (Emil) kipt í móðurkyn sitt: það voru Knudsenar og hafa lagt skerf til listgáfna og mentunaranda meir en flest annað gyðingættað fólk okkar sem við höfum spurnir af. Stilt en auðvelt fas, þó ómannblendni að fyrra bragði, var háttur Emils; áhugamál hans öll snertu list og mentun; annars var hann borinn með þesskonar gáfum að honum var fleygt niður á hvað sem vera skal."

Skýringu á listhneigð Knudsensættar má einnig rekja til séra Hjalta Þorsteinssonar prófasts í Vatnsfirði. Hann gnæfði yfir samtíðarmenn sína sökum fjölhæfni og gáfna. Söngmennt, hljóðfærasláttur, höggmyndagerð, útskurður, málaralist, smíðar, stjarnfræði. Hvarvetna var séra Hjalti heima. Verk hans í Þjóðminjasafni tala sínu máli. Ætla má að niðjar hans í Knudsensætt hafi sótt margt til þessa forföður síns.

Málaralist ­ sýning í Charlottenborg

Emil dvaldist langdvölum í menningarborgum Evrópu. Hann innritaðist í Hafnarháskóla árið 1917. Lagði stund á listasögu til ársins 1920. Þá fór hann til Þýskalands. Stundaði nám í Leipzig og Dresden til ársins 1925. Þar nam hann hljómlist, listasögu og málaralist.

Þórarinn Guðmundsson sagði svo frá námi Emils:

"Hann byrjaði sem ungur piltur að nema málaralist hjá Ásgrími Jónssyni, og þegar hann fór fyrst utan til náms, var talið, að hann færi til þess að leggja stund á málaralistina. En tónlistin sigraði. Hann málaði þó töluvert á yngri árum og náði það langt á því sviði, að hann fékk myndir eftir sig teknar á sýningu í Charlottenborg. En svo lagði Emil málaralistina að mestu leyti á hilluna."

Halldór Laxness sem hitti Emil í Dresden segir hann hafa þá verið allan "á valdi málaralistar". Halldór kveður Emil hafa þekkt "manna best þýskan expressionisma, sem um þær mundir stóð í hádegisstað, léði hann ekki máls á honum fyrir sína parta. Ég held að þegar menn máluðu, þá æðu menn beint að léreftinu með blautan kústinn; og fanst það skrýtið að Emil lá fyrir í djúpum hugleiðíngum leingi áður en hann vogaði sér að trönunum. Málaði hann kanski myndina í huganum uppá dívan áður en hann þreif pensilinn?"

Emil lánar Halldóri Kiljan bók

Til marks um þroska Emils og fundvísi hans á meginstrauma bókmennta og menningar má nefna dæmi þess er Halldór Laxness greinir frá í pistli sínum frá Dresden haustið 1921. Emil er þá 23 ára. Halldór biður hann að lána sér eitthvað á þýsku að lesa sér "til dundurs". Emil sótti í hillu sína tvær bækur. Önnur þeirra var "Untergang des Abendlandes" eftir Oswald Spengler. Þar er spáð hruni vestrænnar menningar. Halldór kveður Alþýðubók sína "bera nokkur merki viðkynningar" af höfuðspekingum, einkum Spengler, sem hann segir síðar að vísu "óskrifandi eins og marga þýska spakvitringa".

Eigi að síður virðist bók Spenglers hafa ótvíræð áhrif á viðhorf Halldórs um skeið og er dæmi um það hve Emil fylgdist vel með straumum samtíðar sinnar. Val Emils á bók Spenglers verður Halldóri drjúgt efni til umfjöllunar í Alþýðubókinni.

Tónlistargagnrýni

Emil var um árabil einn helsti tónlistargagnrýnandi hér á landi. Hann var sanngjarn en kröfuharður í dómum sínum. Skilningur hans næmur. Honum var einkar lagið að lýsa með samlíkingum einkennum söngvara og annarra tónlistarmanna er hann fjallaði um. Þá vísaði hann þeim einnig veginn til frekari þroska. Nefna má dæmi. Emil ritar í Morgunblaðið 25. júlí 1938 um hljómleika Stefáns Íslandi og Haralds Sigurðssonar píanóleikara frá Kaldaðarnesi:

"... röddin ein gerir engan mann að söngvara, engu frekar en gott hljóðfæri mundi gera hvern mann að góðum hljóðfæraleikara. Það sem gerir Stefán að góðum söngvara er, að hann hefur persónuleika, sönggáfu og skap til þess að nota rödd sína í þágu sönglistarinnar, að hann með þessum eiginleikum sínum gefur verkefnum sínum innihald. Sá, sem heyrði Stefán syngja sömu lögin nú og hann söng, er hann kom fyrst frá Ítalíu fyrir þremur árum, heyrir að Stefán er stöðugt að vaxa að þroska og skilningi, og að hann hugsar viðfangsefni sín, og er þó ekki almennt álitið að söngvarar hugsi." (Hér gægist skopskyn Emils fram. Honum verður hugsað til þjóðsagna um greindarstig tenórsöngvara, sem ýmsir rekja til álits bassasöngvara.) Emil heldur áfram: "Þó er ýmislegt í söng hans sem gæti orðið að ásteytingarsteinum, ef ekki er nógu vel á haldið, ýmis sérkenni (t.d. að renna sér upp á tóninn o.fl.) sem gætu orðið kækir ef of mikið er að gert, og Stefáni hættir óneitanlega til að "yfirdrífa" og "forcera" röddina. Þess vegna þurfa einmitt söngvarar með sterk persónuleg sérkenni að hafa stöðugan aga á sjálfum sér. Við höfum þess allt of mörg dæmi að efnilegir söngvarar, sem virtust vera, hafa lent í ógöngum undireins og aga kennarans sleppti."

Níu árum áður en Emil birti þessa grein sem hér er vitnað til hafði hann ritað um söng Stefáns á nemendahljómleikum Sigurðar Birkis: "Auk þess hefur Stefán ósvikið söngvaraeðli, og honum verður jafn eðlilegt að syngja eins og laxi stökkva."

Söngvís bakari

Í tíð Emils Thoroddsens og Þórarins Guðmundssonar voru "lifandi" hljómleikar fastur dagskrárliður Ríkisútvarpsins. Einsöngur, samleikur, tríó, kvartettar, kórsöngur. Emil birti í Útvarpstíðindum þætti úr annálum útvarpshljómsveitarinnar. Þar lýsti hann með gamansömum hætti atviki í útvarpssal, "í beinni útsendingu", eins og sagt er. Emil var á kvöldvakt. "Inn kemur maður nokkur, að ég held bakari að iðn, uppdubbaður í smoking og með flösku upp á bakvasann. Kveðst hann vera kominn til að syngja í útvarpið og það undir eins í kvöld." Emil spyr um kunnáttu. Komumaður býst til þess að slá hann kaldan ef hann léki ekki undir með sér. Svo kveðst Emil hafa ætlað að leysa málið með því að lofa honum að garga í þögulan hljóðnemann af hjartans lyst að dagskrá lokinni. En útvarpsstjóri kom á vettvang með nægan mannafla til þess að setja hinn söngvísa og skrautklædda bakara á dyr," sagði Emil. Hér kemur ljóslega fram viðhorfsmunur Emils og útvarpsstjóra. Emil vill leysa málið með friðsamlegum hætti og gamansömum. Útvarpsstjóri sýna stjórnsemi og embættisvald.

Emil raddsetti fjölda laga annarra höfunda og bjó til flutnings. Hann raddsetti t.d. lög Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra. Gárungar sögðu eitt sinn að Jónas hefði sagt: "Hafðu nú ekki undirspilið allt á svörtu nótunum, Emil minn." Við athugun kom í ljós að Emil hafði skömmu áður leikið lag eftir Chopin, "Á svötu nótunum". Lag Jónasar er við ljóð Stephans G. Stephanssonar "Sestu í hornið hjá mér". Emil raddsetti m.a. lag Skúla frænda síns Halldórssonar "Jójó valsinn". "Mér var ljóst að hann átti a.m.k. helminginn af tónsmíðinni," sagði Skúli. Ekkert vildi Emil þiggja að launum.

Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari, félagi Emils, sagði: "Það var sérstaklega eitt athyglisvert, sem hann gerði og fáir léku eftir: Hann gat spilað svo að segja hvaða lag sem var í þeirri tónhæð, sem óskað var, gat hækkað eða lækkað um tón frá því sem lagið var skrifað."

Sigurlag sett í póstkassann rétt fyrir miðnætti

Þórarinn Guðmundsson tónskáld hlaut önnur verðlaun í samkeppni um Þjóðhátíðarlag 1944. Árni Björnsson tónskáld og píanóleikari mun einnig hafa hlotið slík verðlaun. Þórarinn sagði frá lögum við hátíðarljóðin: "Það var dálítið merkileg tilviljun, að við, þessir gömlu samstarfsmenn, skyldum báðir hitta á það að gera lög við sitt hvort hátíðaljóðið, sem sungin voru í fyrsta sinn við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, Emil við ljóð Huldu og ég við ljóð Jóhannesar út Kötlum, "Land míns föður, landið mitt". Hvorugur vissi þó um hinn, eins og gefur að skilja, enda var þetta leynileg samkeppni."

Þegar greinarhöfundur leitaði upplýsinga fyrir allmörgum árum hjá Þorvaldi, bróður Emils, og Ingu konu hans, sögðu þau að það hafi ekki tekið Emil nema klukkutíma að semja lagið við þjóðhátíðarljóð Huldu, "Hver á sér fegra föðurland". Hann skundaði með lag sitt og rétt náði að koma bréfinu í póstkassa á Pósthúsinu fyrir miðnætti þess dags er fresturinn rann út.

Lag Emils við ljóð Huldu hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um söngva. Emil hlaut einnig verðlaun fyrir lag sitt við ljóð Arnar Arnarsonar "Íslands Hrafnistumenn".

Heimsókn Emils

Minnisstæð verður heimsókn Emils á heimili okkar hjóna í Meðalholti 5. Það mun hafa verið árið 1944. Tengdamóðir mín, Anna Þorgrímsdóttir, og Emil voru þremenningar, Ludvig Knudsen afi hennar og Guðrún Sigríður, amma Emils, voru systkini. Kært var með öllum Knudsenum. Þorgrímur læknir Þórðarson sem tók við héraðslæknisstarfi eftir Þórð Thoroddsen sagði: "Kona af Knudsensætt bregst aldrei." Einhverjir góðkunningjar okkar Emils voru í glöðum hópi gesta. Emil var lágmæltur, en þurfti enga háreysti til þess að njóta athygli. Mörgum voru enn í fersku minni gamanyrði er hrutu af vörum hans er Ríkissjóður hafði nýverið gefið út 1 krónuseðla. Voru þeir prentaðir á lélegan pappír, enda tekið fram í opinberum skrám að erfitt hafi reynst að "afla góðs pappírs". Halldór Pétursson frændi Emils hafði teiknað seðlana. Emil sagði: "Maður má ekki einu sinni svitna, þá er maður orðinn blankur." Að skilnaði gaf Emil okkur hjónum litla mynd er hann hafði teiknað. Blýantsteikningu.

Hjá Leikfélagi Reykjavíkur

Eigi má gleyma þætti Emils í leikhússtarfi. Hann samdi leikgerð tveggja skáldsagna afa síns, Jóns Thoroddsens skálds. "Maður og kona" og "Piltur og stúlka" nutu mikilla vinsælda í búningi þeirra frænda Emils og Indriða Waage.

Það er ein besta minning frá unglingsárum að hafa átt þess kost að kynnast þeim frændum og starfi þeirra hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Vegna starfa í Útvegsbankanum og vináttu við Indriða og Brynjólf Jóhannesson tók ég að tilmælum þeirra þátt í starfi félagsins um skeið. Það verður ógleymanlegur þáttur. Emil fylgdist vel með æfingum á leikritsgerð þeirra félaga. Svo kom frændi þeirra, Haraldur Á. Sigurðsson, sem þá var fluttur að Drageyri. Kvöld eitt er "Piltur og stúlka" var flutt á sviði og Þorsteinn Ö. Stephensen söng af hjartans lyst "Búðarvísur" um Kristján búðarmann og "fyrirtaksklútana Danskinum hjá" sem Reykjavíkurstúlkurnar fengu ókeypis hjá Danskinum, þá stóð Haraldur í hópi búðargesta á sviðinu. Hann hafði ekki staðist mátið. Sminkaði sig í skyndi og sté inn á sviðið. Lét mjög að sér kveða, hafði hönd á öllum varningi í "búðinni" og laumaði í vasa sína. Tók kröftuglega undir í viðlagi með Þorsteini Ö. Átti sinn ríka þátt í gleði leikhúsgesta það kvöld. Þeir frændur af Knudsenskyni, Indriði, Emil og Haraldur Á., kunnu að skemmta sér og öðrum.

Emil skrifaði greinar í vikublaðið Vörð. Fjallaði þar um framtíð íslenskrar tónlistar. Þá ritaði hann um málaralist, leiklist og hljómlist í Morgunblaðið. Hann var um skeið ritstjóri vikublaðsins Freyju er út kom árin 1927­28. "Glaumbæjargrallarinn" var safn sönglagatexta er Magnús Ásgeirsson og Emil gáfu út. Magnús þýddi ljóðin en Emil valdi lög og bjó til flutnings. Emil þýddi og staðfærði mörg leikrit. Þá átti hann mikinn þátt í revýum mörgum.

Ríkisútvarpið varð þeirrar gæfu aðnjótandi að Emil Thoroddsen réðst til starfa sem píanóleikari og starfsmaður tónlistardeildar þegar við stofnun. Emil hafði fastmótaðar skoðanir, sem byggðust á þekkingu, sem hann hafði aflað sér á námsárum sínum í menningarborgum Evrópu. Auk þess naut hann erfða og uppeldis við móðurkné og í föðurgarði. Á þeim grundvelli byggði hann tillögur sínar um sókn til aukinnar menningar og framfara í tónlistarmálum þjóðarinnar. Emil birti greinar um sönglíf og tónlistarmál í Verði, málgagni sem Kristján Albertsson vinur hans og skólabróðir stýrði. Þar lýsti hann því, með hvaða hætti hann teldi að keppa bæri að því marki að efla hljómlist og sönglíf í landinu. Emil gat trútt um talað. Afi hans, Pétur Guðjohnsen, var í nánu vinfengi við Andreas Berggren, danskt tónskáld. Móðir hans, Anna, og Sveinbjörn tónskáld Sveinbjörnsson voru systkinabörn. Ásta Einarsson, ein helsta stoð hljómlistar í Reykjavík, var dóttir Lárusar Sveinbjörnssonar bróður Sveinbjörns tónskálds. Túngatan og umhverfi Landakotstúns, æskustöðva Emils, ómaði af sönglist og ilmaði af gróðri. Þá mun föðurkyn ekki hafa spillt menningararfi hins unga tónlistarmanns. Hvar var hlíðin fríðari og blágresið blíðara en í Barmahlíð, æskustöðvum afa Emils, Jóns Thoroddsens skálds og sýslumanns ...

Starf Emils og arfur

Strax þegar Emil tók við starfi í Ríkisútvarpinu hófst hann handa um söfnun nótna, raddsetningu tónsmíða, sönglaga og hljómsveitarverka, með það í huga að mennta þjóð sína með markvissum hætti ... Þeirri ætlun sinni lýsti hann í greinaflokki er hann birti í Útvarpstíðindum ... Emil, sem sjálfur var kominn af embættismönnum og taldist til einskonar yfirstéttar, var maður fólksins. Hann setti saman syrpur af íslenskum þjóðlögum fyrir þá hljóðfæraleikara sem Ríkisútvarpið hafði á að skipa og léku þeir félagar utan dagskrár eitt kvöldið í "hálfgerðu óleyfi útvarpsráðs". Emil segir: "Þessi alþýðulagakvöld urðu þá undir eins svo vinsæl að sjálfsagt þótti að halda þeim áfram, og hefur það verið gert vikulega síðan."

Emil entist ei aldur til þess að sinna ætlunarverki sínu. En hann lagði grundvöll, sem aðrir ættu að geta fært sér í nyt. Verk hans, lagasyrpur búnar til flutnings í útvarp, nótnasafn er hann og fjöldi merkra tónlistarmanna m.a. Sigurður Þórðarson tónskáld og Baldur Andrésson cand. theol. höfðu ánafnað Ríkisútvarpinu til eignar og varðveislu voru afhent annarri stofnun. Þjóðarbókhlaðan hampar nú nýfengnum perlum hljómlistar á sýningu. Fjársjóður Emils Thoroddsens er hulinn rykmekki í geymslum "úti í bæ".

Ljóð afa Emils Thoroddsens, Jóns sýslumanns og skálds, "Til skýsins", minnir með ýmsum hætti á örlög Emils.

"Virðist þó greið liggja þín leið

um ljósar himinbrautir."

Ekkert benti til annars en að glæsileg framabraut biði Emils. Veikindi og áföll lömuðu starfsorku hans ...

"Jörðu því hver

ofnærri er

oft hlýtur væta hvarma."

Matthías spyr Pál um Emil

Í viðtalsbók Matthíasar Johannessens og Páls Ísólfssonar "Hundaþúfan og hafið" spyr Matthías um Emil Thoroddsen. Páll svarar hiklaust:

­ Já, hann er fjölgáfaðasti Íslendingur, sem ég hef kynnzt. Allt lék í höndunum á honum, músík, málaralist, skáldskapur, prakkaraskapur, góðmennska, dugnaður, slark. Færeyingar segja um okkur Íslendinga: "Íslendingurinn getur allt!" Þannig var það með Emil Thoroddsen, hann gat allt. Sumir sögðu að hann skorti dýpt, en það var aðeins vörn þeirra, sem fleyttu sér á yfirborðinu. Þegar fólk talar um að einhvern skorti dýpt er það oft sjálfsvörn. Hitt er sanni nær, að fjöllyndi í listinni hafi orðið Emil Thoroddsen að fótakefli. Hann málaði á píanóið og spilaði á léreftið, eða með öðrum orðum: hann stökk úr einu í annað og var oft kærulaus um það sem hann var að vinna, því hann gat ekki lokið við verk sín fyrir áhuga á nýjum viðfangsefnum. Ég held hann hafi eytt hæfileikum sínum í að taka fram hjá lífinu. En hann gerði það líka af list. Hann samdi mörg ágæt verk, eins og Alþingishátíðarkantötuna, og ýmis góð sönglög sem oft eru sungin, ekki sízt síðasta lagið sem hann samdi og hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni á lýðveldishátíðinni 1944, "Hver á sér fegra föðurland".

Ég sá Emil síðast á ferli í hráslaganum á Þingvöllum það sumar. Þá sagðist hann ekki vera heill heilsu. "Ég verð að koma mér heim," sagði hann. Upp úr því lagðist hann í Landspítalann. Ég heimsótti hann þangað nokkrum sinnum og þegar ég kvaddi hann síðast, spurði hann: "Hvað er að frétta úr lífinu?"

Daginn eftir lézt hann."

Samtök listamanna ættu að gangast fyrir því í samvinnu við Reykjavíkurborg að reisa styttu Emils við Túngötu, á lóð þeirri er gullregnið bærðist í blíðum blæ á æskuárum tónskáldsins í Reykjavík. Knattspyrnufélagið Víkingur gæti virkjað afkomendur Suðurgötuklíkunnar og aðra vini og velunnara til þess að hrinda því í framkvæmd.

Þorvaldur Thoroddsen er einn á lífi af mannvænlegum hópi systkinanna.

Hann hefir reynst traustur og staðfastur, stoð og stytta í tónlistarlífi Reykjavíkur. Hógvær og hlédrægur hefir hann markað sín spor í menningarlífi borgar sinnar.

Ummæli Halldórs Laxness

"Emil var að auk mentaður konsertpíanisti og mundi á því sviði hafa verið maður til að ná einstæðum frama hefði hann kært sig um. Listsköpun var honum svo auðsótt í hvaða formi sem var að mestur vandi hans var sá að draga sig í réttan dilk, setja sér skorður."

(HKL)

"Nú munu málverk hans og saunglög halda á loft nafni hans, þó orkesturverk hans ófullgerð séu í hámarki þess sem hér hefur verið samið af slíkri tónlist."

(HKL)

"Þessi gáfaði duli maður lifði það að semja lagið við þjóðhátíðarkvæðið Hver á sér fegra föðurland, 1944, og ók til Þingvalla og hlustaði á flutning þess í Rigníngunni Miklu á lýðveldisdaginn, varð innkulsa og dó fáum dögum seinna."

(HKL)

ÆSKUHEIMILI Emils Thoroddsens við Túngötu.

FORELDRAR Emils, frú Anna og Þórður, á miðri mynd. Þorvaldur bróðir Emils og kona hans Inga. Loftur ljósmyndari Guðmundsson og fjölskylda ásamt vinafólki.

HÉR var angan blóma og ilmur af gullregni.

Í TRJÁGARÐINUM Túngötu 12. Séð til gamla Landakotsspítala.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.