7. júlí 1998 | Akureyri og nágrenni | 324 orð

Ný póstmiðstöð Íslandspósts

ÍSLANDSPÓSTUR opnaði formlega nýja flokkunar- og dreifingarmiðstöð fyrir póst á Fjölnisgötu 3b á Akureyri sl. fimmtudag. Með tilkomu hennar verður vinnslan skilvirkari, öryggið meira og þjónustan betri. Um 70 fyrirtæki eru í fyrirtækjaþjónustu póstsins á Akureyri og verður nú með stærra húsnæði hægt að efla þá þjónustu enn frekar.
Ný póstmiðstöð Íslandspósts

ÍSLANDSPÓSTUR opnaði formlega nýja flokkunar- og dreifingarmiðstöð fyrir póst á Fjölnisgötu 3b á Akureyri sl. fimmtudag. Með tilkomu hennar verður vinnslan skilvirkari, öryggið meira og þjónustan betri. Um 70 fyrirtæki eru í fyrirtækjaþjónustu póstsins á Akureyri og verður nú með stærra húsnæði hægt að efla þá þjónustu enn frekar.

Í nýju póstmiðstöðinni fer fram móttaka á pósti fyrir Norðurland, flokkun og vinnsla fyrir bréfbera og fyrir landpósta, fyrirtækjaþjónusta og frágangur sendinga til flutnings.

Húsnæðismál póstþjónustu á Akureyri hafa ekki verið í nógu góðum farvegi undanfarin ár, eins og segir í fréttatilkynningu Íslandspósts. Lengi hefur staðið til að leysa þennan vanda og m.a. hafa verið uppi hugmyndir um að byggja nýtt pósthús. Í stað þess að fara út í svo kostnaðarsamar aðgerðir þótti skynsamlegra að nýta aðstöðuna á Fjölnisgötu og skipta húsnæðinu í Skipagötu/Hafnarstræti milli Landssímans og Íslandspósts. Nú standa yfir breytingar á húsnæðinu við Skipagötu og þegar þeim lýkur síðar í sumar mun öll póstafgreiðsla færast úr Hafnarstræti og sameinast þeirri starfsemi sem verið hefur í Skipagötu.

Álagi létt af afgreiðslu í miðbænum

Með opnun póstmiðstöðvar á Fjölnisgötu munu allir þungaflutningar póstsins færast þangað. Með því mun álagi létt til muna af afgreiðslunni í Skipagötu en Íslandspóstur þarf, eins og önnur fyrirtæki í miðbæ Akureyrar, að búa við þrengsli og ógreiðan aðgang fyrir viðskiptavini.

Eitt af því sem ný póstmiðstöð býður upp á er nýtt flokkunarkerfi fyrir bréfbera. Um er að ræða breska flokkunarskápa sem teknir hafa verið í notkun. Þeir munu auðvelda bréfberum starfið og bæta þjónustuna.

Þegar fram líða stundir er gert ráð fyrir að póstmiðstöð á Akureyri muni gegna mikilvægara hlutverki í flokkun og vinnslu sendinga frá öðrum þéttbýlisstöðum. Ekki er að svo stöddu reiknað með afgreiðslu fyrir viðskiptavini Íslandspósts í húsnæði nýrrar póstmiðstöðvar en það mál verður skoðað þegar fram líða stundir.

Morgunblaðið/Kristján GUÐLAUGUR Baldursson, stöðvarstjóri Íslandspósts, Einar Þorsteinsson, forstjóri fyrirtækisins, Halldór Blöndal, samgönguráðherra, og Gísli Eyland, fyrrverandi stöðvarstjóri Pósts og síma, voru við opnun póstmiðstöðvarinnar á Akureyri.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.