28. júlí 1998 | Innlendar fréttir | 232 orð

Andlát

GÍSLI HALLDÓRSSON

EINN helsti leikari landsins, Gísli Halldórsson, lést í fyrrinótt. Gísli fæddist 2. febrúar 1927. Hann stundaði nám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og lék fyrsta hlutverk sitt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Önnu Pétursdóttur eftir Hans Wiers-Jensen í leikstjórn Gunnars Róbertssonar Hansen vorið 1951 meðan hann var ennþá í námi.
Andlát

GÍSLI

HALLDÓRSSON

EINN helsti leikari landsins, Gísli Halldórsson, lést í fyrrinótt. Gísli fæddist 2. febrúar 1927. Hann stundaði nám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og lék fyrsta hlutverk sitt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Önnu Pétursdóttur eftir Hans Wiers-Jensen í leikstjórn Gunnars Róbertssonar Hansen vorið 1951 meðan hann var ennþá í námi. Upp frá því var hann einn helsti leikari félagsins um áratugaskeið.

Gísli varð meðal annars þekktur fyrir leik sinn í Tobacco Road eftir Erskine Caldwell, fyrir hlutverk séra Jóns Prímuss í Kristnihaldi undir Jökli, Grasa-Guddu í Skugga- Sveini, aðalhlutverkið í Fló á skinni, hlutverk höfuðsmannsins í Dauðadansinum eftir Strindberg og fyrir leik sinn á móti Sigríði Hagalín í gamanleikritinu Rommí.

Gísli varð einnig einn helsti leikstjóri Leikfélags Reykjavíkur og stjórnaði mörgum minnisverðustu sýningum þess um árabil. Hann starfaði mikið fyrir útvarp, bæði sem leikari og leikstjóri, og auk þess las hann töluvert í útvarpi. Í fyrra var til dæmis endurfluttur frægur lestur hans á sögunni um Góða dátann Svejk.

Á síðari árum lék Gísli í nokkrum kvikmyndum, meðal annars í Börnum náttúrunnar í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar, og einnig lék hann í sjónvarpsþáttaröðinni Sigla himinfley í leikstjórn Þráins Bertelssonar.

Síðasta hlutverk Gísla var í útvarpsupptöku á Kristnihaldi undir Jökli sem flutt var um síðustu jól og var það þriðja uppfærsla leikritsins þar sem Gísli fór með hlutverk séra Jóns Prímuss.

Eftirlifandi eiginkona Gísla er Theodóra Sverrisdóttir Thoroddsen og áttu þau þrjú börn.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.