MINNIÐ er ekki í öllum tilvikum sá óyggjandi bústaður raunverulegra atburða eins og við ímyndum okkur flest. "Við erum ekki að tala um konur, sem muna, en segja ekki frá kynferðislegri misbeitingu fyrr en mörgum árum seinna, því það er of sárt að tala um slíka reynslu eða konur sem bera líkamleg merki misbeitingar - heldur konur, sem muna eftir slíku eftir að hafa farið í meðferð,
Falskar játningar

falskar minningar Sakamenn, sem játa á sig glæpi, sem þeir hafa ekki framið og fólk, sem man hluti, er ekki virðast sannir eru nokkur atriði, sem sálfræðingar fást við, eins og Sigrún Davíðsdóttir heyrði á ráðstefnu nýlega.

MINNIÐ er ekki í öllum tilvikum sá óyggjandi bústaður raunverulegra atburða eins og við ímyndum okkur flest. "Við erum ekki að tala um konur, sem muna, en segja ekki frá kynferðislegri misbeitingu fyrr en mörgum árum seinna, því það er of sárt að tala um slíka reynslu eða konur sem bera líkamleg merki misbeitingar - heldur konur, sem muna eftir slíku eftir að hafa farið í meðferð," segir Elisabeth Loftus, prófessor í sálfræði og sérfræðingur á sviði falskra minninga. Vandi þeirra, sem hafa orðið fyrir slíkri reynslu er ekki sá að muna ekki, heldur þvert á móti að muna of vel og vera stöðugt minntur á af ýmsum smáatriðum í hversdagslífinu. Annar angi af undarlegri hegðun minnisins er þegar menn játa á sig verknað í sakamálum, en síðar kemur í ljós að játningarnar eru falskar, eins og Gísli Guðjónsson, prófessor í sálfræði við University College í London, hefur rannsakað. Aðalsteinn Sigfússon, sálfræðingur hjá Félagsmálastofnun Kópavogs, og Magnea Jónsdóttir, sálfræðingur hjá ráðgjafardeild Akureyrar, sem sátu ráðstefnu í Stokkhólmi um bældar minningar og falskar játningar eru sammála um að til að koma í veg fyrir mál eins og rædd voru á ráðstefnunni sé menntun meðferðaraðila lykilatriði. Að þeirra mati vantar enn nokkuð upp á að Íslendingar skilji mikilvægi þess að fagaðilar í félagslegum og sálfræðilegum málefnum séu vel að sér og hljóti góða þjálfun. Dómsmál grundvölluð á bældum minningum Elisabeth Loftus er prófessor í sálfræði og lögum við Washington- háskóla. Hún hóf á áttunda áratugnum rannsóknir á minni og vitnaframburði og hefur getið sér gott orð á því sviði. Hún hefur skrifað fjölda greina og átján bækur, auk þess sem hún er oft kölluð til sem sérfræðivitni í sakamálum. Hún kom að fyrsta bandaríska dómsmálinu um bældar minningar, því lögfræðingur Georges Franklyns, hins ákærða, bað hana að bera vitni sem sérfræðingur, því honum fannst málið allt hið sérstæðasta. Það kom upp 1990, þegar Franklyn var ákærður fyrir morð á lítilli stúlku 1969. Dóttir hans hafði verið í meðferð hjá sálfræðingi og í meðferðinni komið upp úr kafinu að hún hafði bældar minningar um kynferðislega misbeitingu föðurins og að hann hefði myrt litla stúlku. Upp úr þessu ákærði dóttirin föðurinn fyrir morð. Eina sönnunin var framburður dótturinnar og á þeim grundvelli var faðirinn dæmdur fyrir morð. Þetta var fyrsti dómurinn byggður á bældum minningum. Franklyn fór í fangelsi og sat þar í nokkur ár. Framhaldssaga málsins er, að það var tekið upp aftur og í kjölfar þess var Franklyn látinn laus. Nú á hann í málaferlum við dóttur sína, sálkönnuð hennar og aðra, sem að málinu komu, til að fá bætur fyrir að hafa setið saklaus í fangelsi. Þegar málaferlunum 1990 lauk áleit Loftus að þetta hefði aðeins verið eitt stakt og sérstakt mál, en það reyndist öðru nær. Þetta var aðeins byrjunin. Fjöldamörg mál byggð á bældum minningum fóru að koma fyrir dómstóla. Nú fóru líka ýmsir þekktir og óþekktir að koma fram og segja frá minningum, sem rifjast höfðu upp við sálmeðferð. Ein þeirra var að sögn Loftus leikkonan Roseanne Barr, sem í viðtölum sagði frá því að hún hefði verið kynferðislega misnotuð og myndi eftir slíku frá því hún var sex mánaða. En, bætir Loftus við, það var enginn sem hugsaði út í hvort yfirleitt væri hægt að muna eitthvað frá því á fyrsta og öðru ári. Rannsóknir á minni benda til að hluti heilans, sem gegnir lykilatriði varðandi minningar sé ekki þroskaður fyrr en ári eða meira eftir fæðingu. Málaferli gegn meðferðaraðilum Loftus bendir á að með vaxandi fjölda slíkra mála hafi einnig orðið breytingar á réttarkerfinu. Áður var ekki hægt að kæra fyrir misnotkun, sem átt hafði sér stað áratugum áður, en sökum þess hve mörg slík mál tóku að koma upp á yfirborðið var reglum breytt. Fyrsta fylkið, sem tók upp þessa breyttu tilhögun var Washington-fylki og síðan fylgdu önnur ríki á eftir. Nú var hægt að ákæra foreldra, kennara og nágranna á grundvelli bældra minninga, sem komu upp við meðferð og það skall sannkölluð flóðbylgja slíkra mála yfir réttarkerfið. Í einu slíku máli var til dæmis níræður faðir ásakaður af sextugri dóttur sinni fyrir misbeitingu þegar hún var þriggja ára. Nú hefur fækkað mjög málum á hendur foreldrum fyrir kynferðislega misbeitingu, sem ákærendur mundu eftir að hafa farið í meðferð er snerist um bældar minningar. Í staðinn hafa komið mál gegn meðferðaraðilum, er stundað hafa slíka meðferð. Þau mál eru rekin á grundvelli mistaka í starfi, líkt og mál sjúklinga gegn læknum fyrir meint mistök, eins og mörg dæmi eru um í Bandaríkjunum. Mörg mál af þessu tagi hafa orðið mjög umtöluð þar, til dæmis svokallað Ramona-mál, fyrsta málið af þessu tagi. Ramona var framkvæmdastjóri vínhúss í Kaliforníu. Nítján ára dóttir hans fór í meðferð, sem snerist um að ná fram bældum minningum. Í kjölfar meðferðarinnar hélt hún því fram að faðir hennar hefði notað fjölskylduhundinn til að misnota hana er hún var á aldrinum 5-16 ára. Dóttirin fór í mál við föðurinn, sem svaraði með því að fara í mál við þann, sem dóttirin var í meðferð hjá. Annað frægt mál, sem einnig lauk í rétti með ákærum um afglöp í starfi, varðaði konu sem í júní 1991 fór í meðferð vegna þunglyndis. Tíu mánuðum seinna hafði rifjast upp fyrir henni misnotkun þegar hún var þriggja mánaða, að hún hefði verið neydd til að eignast barn þegar hún var átta ára og tekið þátt í djöfladýrkun, þar sem börn voru snædd. Hún áleit að hún væri ekki aðeins ein persóna, heldur hundrað, þar á meðal líka hundur. Síðan varð hún ósátt við meðferðina og fór í mál. Við réttarhöldin gegn meðferðaraðilanum kom fram að beitt hafði verið umdeildum vinnubrögðum. Málinu lauk með að aðilinn var dæmdur til að greiða konunni 2,7 milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur, önnur kona fékk 2,5 milljónir frá sama aðila og dómssátt var gerð við aðrar konur sem verið höfðu í meðferð hjá þeim sama. Umdeildar aðferðir til að ná fram bældum minningum Þar sem mörg mál af þessu tagi urðu fjölmiðlamál og athyglin beindist mjög að frammistöðu meðferðaraðila, bæði sálfræðinga og annarra, fór Elisabeth Loftus og fleiri að velta fyrir sér hvort hér væru aðeins á ferðinni mál nokkurra meðferðaraðila, sem ekki beittu hefðbundnum aðferðum eða hvort um væri að ræða víðtækara fyrirbæri. Eins og hún bendir á eru í hverri starfsgrein einhverjir slæmir fulltrúar, en spurningin var hversu algengt þetta væri. Einnig vakti það athygli hve háar bætur voru greiddar í mörgum málanna, sem snerust um vanrækslu í starfi. Niðurstaða Loftus var að ef tekinn væri saman fjöldi þeirra meðferðaraðila, sem lent höfðu í málaferlum, fjöldi þeirra sem gætu leitað til þeirra á ári og svo fjöldi þeirra, sem tengdust þeim er í meðferð fóru, fjölskyldur þeirra og vinir, þá væri þarna um mikinn fjölda manna að ræða. Við athugun kom í ljós að það sem einkenndi meðferð þeirra, sem lent höfðu í málaferlum, var útbreidd notkun dáleiðslu, að sjúklingurinn var leiddur aftur í bernsku og frumbernsku, leitað minninga í draumi og notast við ímyndun, sem meðferðaraðili kallaði fram. Eitt er að átta sig á að hægt er að muna rangt, að minni dofnar með tímanum og að minnið virðist ekki starfa eins og meðferðin gerði ráð fyrir, en annað að sýna fram á hvernig hægt er að skapa falskar minningar. Þessu hafði Loftus áhuga á, en stóð þá frammi fyrir því vandamáli að ekki væri verjandi að reyna að koma inn fölskum minningum um kynferðislega misnotkun hjá fólki. Niðurstaðan var að hún og aðstoðarmenn hennar unnu með hugmynd um að viðkomandi hefði týnst í verslunarmiðstöð, sem gæti vissulega verið nokkuð skelfileg reynsla fyrir barn, en þó á engan hátt sama áfall og misnotkun. Niðurstaðan var sú að eftir eina til tvær tilraunir með leiðandi spurningum, þar sem ýtt var undir falskt minni var hægt að fá 20-30 prósent til að muna eftir því, sem aldrei hafði gerst. (Yfirlit um rannsóknir Loftus er að finna í Scientific American , September 1997.) Þeir sem halda á lofti í Bandaríkjunum að bældar minningar séu til halda því fram að milljónir Bandaríkjamanna hafi bældar minningar. Aðferðin við að veiða þær upp úr minninu er meðal annars að láta viðkomandi ímynda sér aðstæður úr lífi sínu í æsku og síðan ímynda sér hvað hefði getað gerst ef viðkomandi hefði verið kynferðislega misnotaður, hver hefði getað verið viðstaddur og átt hlut að máli og svo framvegis. Gagnrýnendur þessarar aðferðar benda á að þetta sé vísasti vegurinn til að búa til falskar minningar, þar sem viðkomandi geti á endanum ekki greint á milli eigin hugmynda og þeirra, sem meðferðin hefur leitt hann til að muna. Loftus undirstrikar að hún sé ekki að halda því fram að allar minningar séu falskar, heldur aðeins að nauðsynlegt sé að átta sig á hvernig hægt sé í meðferð að ýta undir falskar minningar og hve mikilvægt sé að átta sig á því hvernig mannshugurinn starfi. Fólki, sem farið hefur í meðferð af þessu tagi hefur oft versnað en ekki batnað, það missir samband við maka, börn og aðra fjölskyldumeðlimi, missir oft vinnuna og verður hálfgerð hrök. Að mati Loftus hefur meðferð byggð á bældum minningum grafið undan trú á meðferðaraðilum og skaðað þá, sem í raun hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, þar sem hætta sé að allt sé sett undir sama hatt sem ímyndun. Umræða um bældar minningar ýtir undir að slíkt sé til Gísli Guðjónsson fæst einnig við minnisrannsóknir, einkum í tengslum við vitnasálfræði, sem er hans sérgrein. Auk þess að fást við rannsóknir er hann eftirsóttur sem sérfræðivitni í sakamálum og sem slíkur hefur hann komið að frægum sakamálum í Bretlandi. Árið 1993 gaf hann út bókina "The Psychology of Interrogations, Confessions and Testimony", sem þykir lykilbók á sviði réttarsálfræði. Gísli hefur fengist við rannsóknir á fölskum játningum í sakamálum og fölsku minni, þar sem fólk ákært í sakamálum finnst að það hafi framið afbrot, sem það man svo ekki eftir, en einnig hefur hann fengist við endurhæft minni, þar sem viðkomandi telur að eitthvað hafi gerst, en sem hann ekki man fyrr en eftir meðferð. Hið síðastnefnda segir hann ekki óalgengt ef viðkomandi líður illa, á í sambúðarerfiðleikum eða öðrum persónulegum erfiðleikum. Gísli er ekki í vafa um að umræður um að bældar minningar séu til hafi mjög ýtt undir að slíkar hugmyndir kæmu upp. Mál af þessu tagi hafi aukist í réttu hlutfalli við umræðuna um bældar minningar. Í rannsókn sem Gísli gerði á 282 fjölskyldum, þar sem fullorðin börn höfðu borið fram ásakanir um kynferðislega misbeitingu, oftast á hendur föður, höfðu ásakanir komið fram eftir meðferð. Gísli segir að ásakanirnar hafi oft verið gríðarlega öfgakenndar, talað um 200-300 látna án þess að nokkur lík hefðu fundist, djöfladýrkun og að atburðirnir hefðu átt sér stað, þegar fólkið var nýfætt. Það einkenndi líka oft slíka meðferð að fólk myndi æ meir eftir því sem liði á meðferðina. Í þessum málum hefur ekkert verið til að sanna eða afsanna og engin gögn legið fyrir, en andstætt því sem verið hefur í Bandaríkjunum þá hefur í Bretlandi verið erfitt að fá dómstóla til að líta á mál af þessu tagi. Af þessum 282 málum fóru aðeins 20 fyrir dóm. Gísli hefur aðstoðað lögregluna við rannsókn mála af þessu tagi og og segir þau afar erfið viðfangs, því fólk segir frá í trúnaði hlutum, sem það trúir á, en hefur engan vitnisburð um. Jafnvel þótt málin komi ekki til kasta lögreglu og dómstóla eru þau vandamál, því afleiðingarnar eru gríðarlegar, að sögn Gísla. Þeim fylgir að það er skorið á fjölskyldubönd og í stað þeirra kemur oft og tíðum hatur. Er hægt að bæla minningar? Er þá hægt að bæla minningar? Er hægt að bæla minningar um að hafa verið beittur ofbeldi reglulega yfir langan tíma og ef svo er, hvernig færi þá slík bæling fram? Bælir maður minninguna um einn atburð í einu, eða byrjar maður að bæla minningarnar, þegar öllu er lokið? Þetta eru nokkrar þeirra spurninga, sem Gísli segir að hljóti að vakna, þegar ferli bældra minninga sé athugað. Svar hans er að ósennilegt sé að hægt sé að bæla minningar af þessu tagi. Annað er svo að við yfirheyrslur í sakamálum bera hinir ákærðu því oft við að þeir muni ekkert. Gísli bendir á að í íslenskum morðmálum sé til dæmis algengt að hinn ákærði muni lítið sem ekkert, en slíkt minnisleysi sé í mörgum tilvikum tengt áfengisneyslu. Það minni sé tapað og komi ekki aftur. Annað er svo þegar menn vilja ekki segja neitt í byrjun yfirheyrslna, bera við minnisleysi, þótt þeir muni og slíkt sé einnig þekkt fyrirbæri í sakamálum. Minni um liðna atburði er oft aðeins í glefsum, fólk man eitthvert hrafl, en svo ekki meir. Bældar minningar, sem komi upp í meðferð, einkennast hins vegar oft af því að vera mjög heillegar, þar sem margir aðilar komi við sögu. Slíkt minni stoppi oft ekki, heldur bætist nýjar minningar sífellt við. Þegar þetta ferli komi upp sé nauðsynlegt að vera varkár, þar sem þetta komi ekki heim og saman við það sem vitað sé um minni. Gísli segist oft hafa haft konur í meðferð, sem hafi verið nauðgað eða þær kynferðislega misnotaðar sem börn. Þeirri vandi sé að lítil atvik í daglega lífinu minni þær stöðugt á dapurlega og skelfilega reynslu þeirra. Þær geta ekki gleymt því sem þær vilja ekki muna. Þessar konur eigi við alvarlegan vanda að stríða, sem eyðileggi líf þeirra. Auðvelt að skapa falskar minningar Rétt eins og Loftus er Gísli á því að auðvelt sé að skapa falskar minningar hjá fólki og hægt sé að fá flesta til þess. Þetta ferli rekst Gísli oft á í sakamálum, þar sem ákærðir játa á sig glæpi, sem þeir hafa ekki framið, og Gísli heldur því fram að auðvelt sé að fá fólk til að játa ef sá sem yfirheyri geri sér grein fyrir veikleikum hins ákærða. Sama sé oft upp á teningnum í meðferð er gangi út á að afhjúpa bældar minningar. Það eru ákveðin einkenni, sem eru gegnum gangandi hjá þeim sem hafa farið í slíka meðferð. Oftast er um að ræða konu á fertugsaldri, sem hefur átt í erfiðleikum í sambúð, sem verður þunglynd og spyr sig af hverju líf hennar sé eins og það sé og leitar í meðferð til að afhjúpa bældar minningar, oft af því viðkomandi hefur heyrt eða lesið um slíkt. Í meðferðinni stingur svo meðferðaraðilinn upp á að ástæða vanlíðaninnar sé kynferðisleg misnotkun og fyrir konuna er það oft mikil lausn að fá hér allt í einu skýringu á öllum sínum vandamálum. Í málum er snerta kynferðislega misnotkun er mun algengara að misnotkun hafi verið framin af stjúpföður en föður en í ásökunum í kjölfar meðferðar um bældar minningar eru aðeins þrjú prósent ásakana á hendur stjúpföður. Niðurstaða Gísla er að undir öllum kringumstæðum sé alltaf mikilvægast að koma að hverri meðferð eða rannsókn með opnum hug og án nokkurra fyrirfram hugmynda. Minnið á myndöld Bæði Aðalsteinn Sigfússon og Magnea Jónsdóttir þekkja til umræðunnar um bældar minningar, en segja að mál af því tagi, sem hafa vakið sem mesta athygli í Bandaríkjunum, þekkist vart á Íslandi. Bæði eru sammála um að mikilvægt sé annars vegar að taka fólk alvarlega, þegar það beri upp vandamál sín, en hins vegar þurfi einnig að fara varlega. Einnig sé menntun og reynsla meðferðaraðila mjög mikilvæg. Hvað sifjaspellsmál varðar segir Aðalsteinn, að meginatriði sé að hafa í huga að slík mál geti komið upp eins og hver annar vandi. Starfsmenn sem fái þau á sína könnu þurfi bæði að taka þau alvarlega, en jafnframt fara varlega og leita eftir hvað best sé að gera. Betra sé að bíða í nokkra daga og huga vel að málinu, svo ekki sé farið af stað á óyfirvegaðan hátt. Magnea undirstrikar að nauðsynlegt sé að ræða bæði við fjölskylduna og barnið og athuga fjölskylduna í heild. Þegar um lítil börn sé að ræða dragi hún oft í efa að rétt sé að splundra fjölskyldunni, því einnig það hafi djúp áhrif á barnið. Afbrigðileg kynhegðun sé oft angi af stærra mynstri og komi oft fram í fleiri atriðum í fjölskyldunni og sem þá þurfi að athuga í heild. Það er margt sem kemur til athugunar, þegar sifjaspellsmál eru annars vegar og Aðalsteinn bendir á að tilvikin séu jafn margvísleg og þau séu mörg. Aldur barnanna skipti máli og hegðun gerandans sé því óeðlilegri eftir því sem börnin séu yngri, því það sýni sjúklega mynd hans af umhverfi sínu og afbrigðilegt hvatalíf. Í sifjaspellsmálum sé oft ekki aðeins um að ræða viðhorf fárra, heldur snerti það alla stórfjölskylduna. Í málum, þar sem stelpa kvarti yfir áleitni afa sé oft um að ræða að móðirin, dóttir afans, hafi mátt þola hið sama án þess að gera neitt í því. Þegar málið komi upp verði það oft til að einangra þær tvær frá öðrum í fjölskyldunni. Þau Aðalsteinn og Magnea eru sammála um að mjög áhugavert hafi verið að heyra af rannsóknum þeirra Loftus og Gísla. Aðalsteinn álítur mikilvægt að endurskoða þá hugmynd að börn segi alltaf satt, því svo margt geti spilað inn í og þar komi einmitt til kasta fagfólks að greina á milli. Margar rannsóknir sýni að áföll séu minningar, sem standi upp úr, þótt fólk reyni að gleyma þeim. Varhugavert sé að ganga út frá bældum minningum, því þar með sé vísað til ferils, sem allt bendi til að sé ekki til. Mikilvægt sé að vinna með eitthvað raunverulegt í meðferð, eitthvað sem viðkomandi geti tengt sínum raunveruleika. Í lokin nefnir Aðalsteinn að rannsóknir bendi til að minningar bjagist gríðarlega með tímanum, en nú sé svo mikið til að myndum. Þegar hann hafi verið lítill var tekin ein mynd af honum eins árs gömlum og síðan aðeins stöku sinnum. Nú séu hins vegar til bæði ljósmyndir í hundraðatali í hverri fjölskyldu og oft myndbönd líka. Fróðlegt verði að sjá hver áhrif myndaldarinnar verði á minnið í framtíðinni og hvernig samspil minnis og mynda verða. Hér bíður greinilega heillandi verkefni komandi sálfræðinga. "Við athugun kom í ljós að það sem einkenndi meðferð þeirra, sem lent höfðu í málaferlum, var útbreidd notkun dáleiðslu, að sjúklingurinn var leiddur aftur í bernsku og frumbernsku, leitað minninga í draumi og notast við ímyndun, sem meðferðaraðili kallaði fram."

Elisabeth LoftusGísli Guðjónsson