GUÐMUNDUR Bjarnason mun áfram gegna embættum umhverfis- og landbúnaðarráðherra, líklega út kjörtímabilið, samkvæmt niðurstöðu fundar þingflokks Framsóknarflokksins í gærmorgun. Jafnframt hefur verið óskað eftir því við félagsmálaráðherra að Guðmundur þurfi ekki að taka við stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs fyrr en að því loknu, en Íbúðalánasjóður tekur til starfa í byrjun næsta árs.
Niðurstaða fundar þingflokks Framsóknarflokksins

Guðmundur Bjarna-

son áfram ráðherra

Nýr ráðherra úr röðum framsóknarmanna mun ekki taka við embættum umhverfis- og landbúnaðarráðherra og ríkti einhugur um þá tillögu formanns flokksins. Hjálmar Jónsson fylgdist með þingflokksfundi framsóknarmanna.

GUÐMUNDUR Bjarnason mun áfram gegna embættum umhverfis- og landbúnaðarráðherra, líklega út kjörtímabilið, samkvæmt niðurstöðu fundar þingflokks Framsóknarflokksins í gærmorgun. Jafnframt hefur verið óskað eftir því við félagsmálaráðherra að Guðmundur þurfi ekki að taka við stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs fyrr en að því loknu, en Íbúðalánasjóður tekur til starfa í byrjun næsta árs.

"Ég lagði það til að Guðmundur Bjarnason gegndi sínu starfi áfram. Hann hafði áður lýst því yfir að hann væri tilbúinn að gera það til áramóta. Þingflokkurinn telur mjög mikilvægt að hann geri það svo lengi sem þurfa þykir og helst út kjörtímabilið," sagði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, eftir þingflokksfund flokksins í gærmorgun.

Hann sagði að fyrir lægju mjög mikilvæg mál í ráðuneytum Guðmundar. Í landbúnaðarráðuneytinu væri mjög margt komið í höfn og margt hefði færst þar til betri vegar. Það væri búið að ganga frá samningum um framleiðslu á sauðfé og mjólkurvörum, en í umhverfisráðuneytinu væru mjög stórir og vandasamir málaflokkar, sem væru ófrágengnir. "Ég get nefnt náttúruverndarlög, ég get nefnt ráðstefnurnar og samningana um loftslagsbreytingar. Það er mikill fundur í Buenos Aires sem mun taka mikinn tíma hjá umhverfisráðherra. Hann þarf að vera mikið erlendis. Síðan eru það hálendismálin, það eru virkjunarmálin og við teljum mikilvægt að Guðmundur vinni í þessum málaflokkum svo lengi sem þurfa þykir og við munum fara þess á leit við félagsmálaráðherra að honum verði gert það kleift. Það hefur ekki endanlega verið gengið frá því að því er varðar þá nýju stofnun sem hann mun síðar taka við, en ég trúi ekki öðru en það verði hægt að leysa það tímabundið. Hér er aðeins um skamman tíma að ræða. Það eru aðeins átta mánuðir til kosninga og það er þjóðinni mikilvægt að það gefist gott tóm til þess að sinna þessum málum. Umhverfismálin eru afar mikilvægur málaflokkur, landbúnaðarmálin eru það jafnframt, en það blasa við mjög vandasöm verkefni í umhverfismálum," sagði Halldór.

Aðspurður hvort þetta þýddi að Guðmundur sæti á þingi fram að næstu kosningum, sagði Halldór að það væri ekki hans að svara til um það. Það væri ákvörðun Guðmundar Bjarnasonar og hann hefði ekki heyrt í honum varðandi það.

Aðspurður hvort ekki væri óeðlilegt að halda frá opinberri stöðu, eins og framkvæmdastjórastóli Íbúðalánasjóðs fyrir ráðherra sem væri á útleið, sagði Halldór að það væri ekkert verið að halda henni frá. "Þetta er nú spurningin um einhverja mánuði. Það hefur enginn gagnrýnt þá ráðstöfun að Guðmundur fari til þessara verka svo ég viti til. Það er mikil samstaða um það. Guðmundur er mjög hæfur maður og hlýtur að vera mjög eðlilegt að hann geti gengið til annarra starfa, eins og aðrir, en við hljótum líka að ætlast til þess að það sé gert mögulegt að hann skili sínum verkum með eðlilegum hætti, því þau eru mikilvæg, og ég trúi því að þeir sem standa að þessari stofnun taki tillit til okkar óska í því sambandi og þingflokkurinn er alveg sammála um þetta mál," sagði Halldór.

Hann sagði að algjör eining hefði verið um þessa niðurstöðu á þingflokksfundinum og einnig á meðal þeirra þingmanna sem væru erlendis og ekki hefðu getað verið á fundinum. Hann hefði rætt við alla þingmenn flokksins og þeir stæðu sameinaðir að þessari niðurstöðu.

Stend að þessari niðurstöðu

"Ég stend að þessari niðurstöðu. Við stóðum öll saman, allur þingflokkurinn að því að það komi ekki nýr ráðherra," sagði Valgerður Sverrisdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, en hún hefur, auk Guðna Ágústssonar og Sivjar Friðleifsdóttur, verið orðuð við ráðherraembættið, ef niðurstaðan hefði orðið sú að Guðmundur færi úr ríkisstjórninni.

Hún sagðist aðspurð telja skynsamlegt að Guðmundur lyki þeim verkum sem hann hefði verið byrjaður á. Auðvitað hefðu ýmsar aðrar leiðir komið til greina "en við töldum þessa þá bestu eins og staðan er og við sem þekkjum Guðmund vitum öll að hann mun gegna sínum störfum af heilindum til síðasta dags", sagði Valgerður ennfremur.

Aðspurð hvort ekki hefði verið gott að fá konu inn í ríkisstjórnina svona skömmu fyrir kosningar, sagði Valgerður, að það hefði vissulega verið valkostur sem hefði komið til greina. "Ég bendi á að það sýnir stöðu kvenna innan flokksins að það voru tvær konur mjög sterklega nefndar til sögunnar sem hugsanlegir kandidatar í ráðherrastöður og koma tímar koma ráð," sagði Valgerður.

Siv Friðleifsdóttir sagði að þetta væri niðurstaða sem allur þingflokkurinn stæði að. Formaður flokksins hefði rætt við alla þingmenn flokksins um þessi efni. "Það er hans mat að þetta sé besta niðurstaðan og við styðjum hann í því," sagði Siv.

Hún sagðist aðspurð telja þetta skynsamlega niðurstöðu. "Það er mjög skammt til kosninga. Það er að fara í hönd harður kosningavetur. Guðmundur Bjarnason hefur verið með afar stór mál. Loftslagssamningurinn er viðamikill og erfiður til dæmis og það er eðlilegt að hann haldi á þeim málum til loka kjörtímabilsins," sagði Siv.

Aðspurður um niðurstöðu þingflokksins, sagði Guðni Ágústsson: "Niðurstaðan er komin fram. Menn vildu ekki rugga bátnum. Guðmundur Bjarnason er góður vinur minn. Ég mun standa við bakið á honum, eins og ég hef alla tíð gert fyrst þetta var niðurstaðan, og ekki níðast á þessu né neinu öðru sem mér er trúað til," sagði Guðni.

Aðspurður hvort hann teldi þetta skynsamlega niðurstöðu, sagðist Guðni hafa sagt allt sem hann vildi segja um málið.

Páll Pétursson félagsmálaráðherra, sem hefur með málefni Íbúðalánasjóðs að gera, segist muna reyna að beita sér fyrir því að Guðmundur Bjarnason geti starfað áfram sem ráðherra út kjörtímabilið, þannig að Guðmundur þurfi ekki að taka við starfinu formlega 1. janúar næstkomandi. Það eigi hins vegar eftir að fara yfir hvernig að því verði staðið.

Morgunblaðið/Jim Smart HALLDÓR Ásgrímsson tilkynnir niðurstöður þingflokks framsóknarmanna.