Brauð og kökur úr lífrænt ræktuðu hráefni HÖFUÐMARKMIÐ okkar er auðvitað að framleiða hágæðavöru en það er líka ljóst að lífræn ræktun er brýn vegna rýrnunar í jarðvegi og mengunar, segja þeir Guðmundur og Sigfús Guðfinnssynir sem reka Brauðhúsið í

Brauðhúsið í Grímsbæ notar engin kemísk bökunarefni

Brauð og kökur úr lífrænt ræktuðu hráefni

HÖFUÐMARKMIÐ okkar er auðvitað að framleiða hágæðavöru en það er líka ljóst að lífræn ræktun er brýn vegna rýrnunar í jarðvegi og mengunar, segja þeir Guðmundur og Sigfús Guðfinnssynir sem reka Brauðhúsið í Grímsbæ. Þeir bjóða nú eingöngu brauð og kökur sem bakað er úr lífrænt ræktuðu hráefni.

"Brauðhúsið flytur inn allt korn og mjöl frá myllum í Svíþjóð og Danmörku sem framleiða eingöngu lífrænt ræktað korn. Það skiptir miklu hvernig mjöl er meðhöndlað. Þó gróft mjöl sé mjög steinefnaríkt kemst það ekki alltaf til skila í meltingunni. Steinefnin eru að mestu bundin í svokölluðum fýtin-samböndum og súrdeig er heppilegasta aðferðin til að leysa þau úr viðjum."

Guðmundur og Sigfús segjast þó einnig vera með annarskonar brauð en súrdeigsbrauð þar sem lítið ger er notað en gerjunartími er langur og í ávaxtabrauðin eru eingöngu notaðir lífrænt ræktaðir ávextir. Þeir segja að fljótlega muni þeir hefja bakstur á brauðum úr "dinkel", sem er hveitiafbrigði sem hefur í sumum tilfellum hentað þeim sem eru með gluten-óþol.

"Í kökurnar notum við síðan íslenskt smjör, lífrænt ræktað mjöl, hamingjuegg, hunang og hrásykur. Við notum vínsteinslyftiduft sem er fosfatfrítt og síðan náttúruleg bragðefni."

Guðmundur bendir á að öll framleiðslan sé laus við kemísk geymslu­, litar- og bragðefni. Þá nota þeir engan hvítan sykur við bakstur.

Hér fylgir svo uppskrift að jólaköku þar sem enginn hvítur sykur er notaður og mjölið er lífrænt ræktað.

Jólakaka

300 g reyrsykur

300 g íslenskt smjör

500 g lífrænt ræktað hveiti

100 g lífrænt ræktað heilhveiti

1 pk vínsteinslyftiduft (fæst í Yggdrasli og í Brauðhúsinu)

4 hamingjuegg

2 dl lífræn mjólk

lífrænt ræktaðar rúsínur

kardimommur

rifinn sítrónubörkur af lífrænt ræktaðri sítrónu

Þeytið egg og reyrsykur og sigtið síðan þurrefnin saman við. Bætið í einu og einu eggi í einu, mjólkinni og að lokum ávöxtum.

Bakið í 2 jólakökuformum við 180C í um 50 mínútur eða uns prónn, sem stungið er í kökuna, kemur hreinn upp.

GUÐMUNDUR Guðfinnsson, sem ásamt bróður sínum Sigfúsi rekur Brauðhúsið í Grímsbæ.

Í ÁVAXTABRAUÐIN eru eingöngu notaðir lífrænt ræktaðir ávextir.