SAMÞYKKT var á fundi flóttamannaráðs í gær að stefnt yrði að því að sendinefnd héldi til Makedóníu á nk. þriðjudag og kæmi til baka á föstudag. Með nefndinni kæmu 50 flóttamenn frá Kosovo sem búsettir yrðu í héraðsskólanum á Eiðum í tvær til þrjár vikur meðan verið væri að útvega þeim framtíðarheimili.
Von á 50 flóttamönnum frá Kosovo í næstu viku

Verða búsettir á Eiðum fyrstu vikurnar hér á landi

SAMÞYKKT var á fundi flóttamannaráðs í gær að stefnt yrði að því að sendinefnd héldi til Makedóníu á nk. þriðjudag og kæmi til baka á föstudag. Með nefndinni kæmu 50 flóttamenn frá Kosovo sem búsettir yrðu í héraðsskólanum á Eiðum í tvær til þrjár vikur meðan verið væri að útvega þeim framtíðarheimili.

Samþykkt hefur verið að 25-30 flóttamenn flytji að því búnu til Reyðarfjarðar en óákveðið er hvert hinn hluti hópsins mun fara. Tekur ráðherra á móti umsóknum sveitarfélaga um móttöku hluta hópsins.

Starfshópur sem settur var á laggirnar fyrr í vikunni hefur samið reglur um hvaða ættingjar Kosovo- Albana sem búsettir eru hér á landi verði teknir til landsins á vegum ríkisins. Reglurnar eru þannig að foreldrar umsækjanda, sem verður að hafa verið búsettur hér á landi í þrjú ár eða lengur, og ógift börn foreldranna, 21 árs eða yngri, svo og einstaklingar sem hafa búið á heimilinu eða eru á framfæri foreldranna fái að koma hingað. Að auki verður mökum umsækjanda sem kunna að hafa orðið viðskila við þá og börnum þeirra, sem eru 21 árs eða yngri, leyft að koma hingað.

Búist við 25-30 ættingjum flóttamanna

Að sögn Björns Friðfinnssonar ráðuneytisstjóra og formanns starfshópsins reiknar nefndin með því að þegar farið hafi verið í gegnum þær 170 umsóknir sem liggja fyrir um að ættingjar komi hingað til lands verði fjöldi þeirra sem lendi innan þessa ramma í kringum 25-30, sem er í samræmi við það sem eftir er óráðstafað af þeim 100 plássum flóttamanna sem ríkisstjórnin hefur fallist á að taka við. Segir Björn að farið verði í gegnum umsóknirnar sem fyrst og ef svo vilji til að ættingjar séu staddir í Makedóníu þangað sem sendinefndin fer verði þeir teknir með hingað. Umsóknir muni annars fara í gegnum hefðbundinn feril. Útlendingaeftirlitið svarar þeim, Rauði kross Íslands hefur samband við IOM- stofnunina (International Organisation of Migration) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og koma ættingjar hingað til lands á þeirra vegum.