ÞORFINNUR SKÚLASON: ÍSLENSKA OG MYNDLIST "Hva, kanntu ekki íslensku?" Þorfinnur Skúlason lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands í júní 1995. Hann hefur einnig lokið eins árs námi í viðskiptafræði við sama skóla og fornámsári við Myndlistar-og handíðarskóla Íslands.
ÞORFINNUR SKÚLASON: ÍSLENSKA OG MYNDLIST

"Hva, kanntu ekki íslensku?"

Þorfinnur Skúlason lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands í júní 1995. Hann hefur einnig lokið eins árs námi í viðskiptafræði við sama skóla og fornámsári við Myndlistar-og handíðarskóla Íslands.

Hann fékk við annan mann styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna árið xxxx til þess að vinna að safnriti óbirtra handrita frá 18. öld og kemur ritið senn út undir titlinum Stórbók 18. aldar.

Lokaritgerð Þorfinns í íslenskunáminu fjallaði um tröll í vitund og menningu þjóðarinnar.

Unnusta Þorfinns er Kristrún Halla Helgadóttir og eiga þau eina dóttur.

ÉG ÆTLAÐI mér í upphafi að feta beina braut, kláraði Versló og var ákveðinn í að verða viðskiptafræðingur eins og pabbi," segir Þorfinnur Skúlason brosandi þegar hann er beðinn að rifja upp formála íslenskunámsins. "Fyrsta og eina árið mitt í viðskiptafræðinni hóf ég hins vegar að stunda kaffistofuna í Árnagarði [húsi íslenskuskorar] reglulega og laumaðist jafnvel til að sitja tíma í íslenskunni."

Var heiftarlega praktískur!

Þorfinnur skipti um deild eftir veturinn og lauk þriggja ára íslenskunámi árið 1995. "Þetta voru mjög skemmtileg ár. Ég þurfti reyndar oft að svara fyrir mig þegar fólk á förnum vegi furðaði sig á ákvörðuninni, "Hva, kanntu ekki íslensku?", spurðu þeir sem héldu að námið snerist um stafsetningu, en það snýst svo sannarlega um annað og meira," segir Þorfinnur og brosir breitt. "Í náminu lærði ég fyrst og fremst ákveðinn þankagang sem átti mjög vel við mig, auk fræðilegra vinnubragða sem ég bý náttúrulega að og nýtast á ýmsum sviðum. Íslenskunámið er þannig mjög góður alhliða grunnur, svo ég reki nú dálítinn áróður fyrir deildinni minni," segir hann og hlær.

Hann var ákveðinn í að gera eitthvað úr menntuninni en var á námsárunum ekki alveg viss um hvað þetta "eitthvað" ætti að vera. Áður en það skýrðist skráði hann sig í MHÍ og tók þar eins árs fornám. "Það hafði lengi brotist í mér að fara í myndlistarnám en lét aldrei verða af því af ótta við að fá enga vinnu út á það. Maður var svo heiftarlega praktískur!" Í dag samnýtir Þorfinnur íslensku- og listmenntunina á snjallan hátt því hann ritstýrir heimasíðu Landsímans þar sem saman fara textaútfærsla og myndræn framsetning.

Nútíminn kallar á hugvísindi

Áður starfaði hann við gerð ættfræðigagnagrunns hjá Friðriki Skúlasyni og var þá eini starfsmaður verkefnisins. "Nú starfa fimmtán manns við gerð gagnagrunnsins og mér finnst skemmtilegt að benda á að það er allt hugvísindafólk - menntað í sagnfræði, mannfræði, bókmenntafræði, heimspeki og skyldum greinum," segir Þorfinnur og lætur annan stuttan fyrirlestur vaða um þýðingarmikið hlutverk húmanískra greina í samtímaþjóðfélagi. "Nútíminn kallar ekki einungis á tæknikunnáttu heldur einnig, og kannski ekki síður, á hugvísindi. Að undanförnu hafa verið að bætast við flóru atvinnulífsins ný svið á borð við vefstjórn, auglýsingagerð og hvers kyns ráðgjöf og þar er sívaxandi þörf fyrir fólk úr húmanískum greinum. Fjármálaspekúlantar tala meira að segja um sívaxandi þörf í sínum geira fyrir sköpunarkraft hugvísindamenntaðra starfsmanna."

Milli fornbóka og framtíðar

Samhliða störfum sínum hefur Þorfinnur af brennandi áhuga garfað í gömlum skræðum og gert sitt til þess að koma gleymdum ritum á framfæri. "Við Víkingur Kristjánsson skólafélagi minn fengum í hitteðfyrra styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að koma skikki á gamla texta frá 18. öld sem ýmist voru aðeins til í handritum eða á gotnesku letri. Við höfum nú safnað ferðasögum, ritgerðum, ljóðum og öðru efni í eina bók sem kemur út á árinu. Fyrir jólin gaf ég ásamt öðrum félaga mínum út Matreiðslukver Mörtu Stephensen frá 18. öld og er nú að undirbúa útgáfu brúðkaupssiðabókar eftir Eggert Ólafsson.

Útgáfumálin eru hins vegar meira eins og áhugamál, aðalstarfið er margmiðlunin og mér finnst mjög spennandi að taka þátt í þeirri öru þróun sem á sér stað á þeim vettvangi. Ég er vissulega með dálítið samviskubit yfir að hafa snúið baki við fræðunum að sinni, en ég reyni að finna flöt til þess að vera áfram tengdur þeim á einhvern hátt.

Dæmi um slíkan flöt er verkefni sem Þorfinnur vinnur nú að fyrir Þjóðabókhlöðuna og felst í því að koma kvæðasafni hennar á tölvutækt form. "Bókmenntirnar voru einmitt sá hluti íslenskunámsins sem mér þótti einna mest heillandi. Það var þessi merkilegi efniviður - mér fannst svo gaman að fá að vinna með arfinn."

Arfurinn heillar

Tröll og forynjur eru líka hluti af arfinum og Þorfinnur hefur haldið ítarlegt erindi um tröll á lærðri drauga- og skrímslaráðstefnu. Hann hefur ennfremur myndskreytt ljóðabók, greinar og aðra texta þar sem bókmenntaþekkingin hefur fléttast inn í. "Hugvísindanám er þannig hægt að nýta á fjölmarga vegu. Það þarf bara að láta sér detta hluti í hug," segir Þorfinnur glaðbeittur og bætir því svo við að hann eigi enn eftir að ákveða hvað hann verði þegar hann verði stór. En það kemur ekki að sök í bili, honum dettur áreiðanlega eitthvað sniðugt í hug.

Morgunblaðið/Sverrir ÞORFINNUR Skúlason, BA í íslensku.