Í RÚSSLANDI hafa menn sett sér það markmið að taka við meira magni kjarnorkuúrgangs en nokkuð annað ríki í veröldinni hefur gert. Viðkvæmu lífríki Barentshafsins mun þar af leiðandi stafa hætta af niðurníddum og ófrágengnum geymslusvæðum.
Fyrirætlanir rússnesku kjarnorkumálastofnunarinnar njóta stuðnings í Dúmunni

Tekið við 10.000 tonnum

af geislavirkum úrgangi

Norskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að Rússar áformi að taka við gífurlegi magni geislavirkra efna. Jan Gunnar Furuly , fréttaritari Morgunblaðsins, segir norsk stjórnvöld hafa af þessu þungar áhyggjur.

Í RÚSSLANDI hafa menn sett sér það markmið að taka við meira magni kjarnorkuúrgangs en nokkuð annað ríki í veröldinni hefur gert. Viðkvæmu lífríki Barentshafsins mun þar af leiðandi stafa hætta af niðurníddum og ófrágengnum geymslusvæðum. Um árabil hafa norsk stjórnvöld lýst yfir áhyggjum sínum af hugsanlegri útbreiðslu geislavirkra efna til Karahafsins og Barentshafsins, um árnar Ob og Jenísei, frá Mayak-kjarnorkuendurvinnslustöðvinni í Úralfjöllum og Krasnojarsk í Síberíu. Ef marka má leynileg skjöl, sem norska dagblaðið Aftenposten hefur fengið aðgang að, hafa áhrifamiklir aðilar í Moskvu lýst því yfir að Rússland eigi að vera stærsti geymslustaður kjarnorkuúrgangs veraldar.

Í þessu samhengi er Mayak-verksmiðjan talin vera afar mikilvæg. Fulltrúar rússnesku kjarnorkumálastofnunarinnar (Minatom) hafa fullyrt að Rússland geti tekið við um 10.000 tonnum af kjarnorkuúrgangi á næstu 30 árum og hefur kjarnorkumálaráðherra landsins sagt að hann vonist til að viðskiptin geti aflað rússneskum stjórnvöldum tekjum sem samsvara 700 milljörðum ísl. króna.

Fjölþjóðlegur samningur?

Upplýst hefur verið að rússnesk stjórnvöld hafa um langan tíma unnið að því að tjaldabaki, að tryggja samninga við Sviss, Þýskaland, Spán, Taívan, Suður-Kóreu og Japan. En vegna rússneskrar löggjafar, sem kveður á um bann við að taka á móti og geyma erlendan kjarnorkuúrgangang, hafa Rússar reynt að beita áhrifum sínum á laun.

Fyrir stuttu var hins vegar komist á snoðir um málið. Opinberum skjölum þar sem fyrirætlununum er lýst, var lekið til Vladimir Slivjak, umhverfismálaráðherra Rússa. Þá fékk Aftenposten aðgang að fundargerð sem lýsir fundum fulltrúa Minatom, þýsks fyrirtækis og svissneska fyrirtækisins EGL, þar sem komist var að því samkomulagi að reynt verði að ná fullfrágengnum samningi um geymslu kjarnorkuúrgangs.

Samkvæmt fundargerðinni eru svissnesku aðilarnir nú á höttunum eftir hentugu geymslusvæði fyrir 2.000 tonn af geislavirkum úrgangi. Þá segja fulltrúar EGL að fyrirtækið muni þurfa að flytja út um 50­80 tonn af úrgangi árlega næstu 30 árin, en þýska fyrirtækið hefur ekki lagt fram nákvæma áætlun.

Rússarnir hafa hafnað tilboði Svisslendinganna þar sem þeir telja það ekki nógu hátt, en ágreiningurinn er þó ekki talinn vera mikill. Hvað sem öðru líður ríkir mikil samstaða meðal aðilanna um tillögur þær sem á borðinu eru og hafa fundir verið ráðgerðir í framhaldinu.

Þá segir í fundargerðinni að aðilarnir hafi orðið sammála um að best sé að halda öllum samningaumleitunum leyndum svo best megi tryggja árangur til lengri tíma litið. Fundargerðinni lyktar þó ekki með þessari samþykkt.

Bandaríkjamönnum sent bréf

Ennfremur hefur verið haft samband við Bandaríkjamenn vegna hugsanlegra viðskipta með kjarnorkuúrgang. Í desember sl. ár ritaði Adamov, William Richardson, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, bréf þar sem hann kom með þá tillögu að Bandaríkjamenn myndu selja Rússum kjarnorkuúrgang og komast þannig hjá óþægindum vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Orkumálastofnun Bandaríkjanna hefur þegar sætt opinberri kæru vegna ófullgerðra geymslusvæða fyrir kjarnorkuúrgang. Adamov segir í bréfinu að vegna þessa geti það verið viturleg ráðstöfun að hyggja að möguleikum þess að koma bandarískum kjarnorkuúrgangi í geymslu til Rússlands.

Fyrirætlanir Minatom eru háðar fyrirhuguðum breytingum á umhverfisverndarlöggjöf Rússlands. Dúman, rússneska þingið, mun ræða lagabreytingar í maí nk. og er talið að breytingartillögurnar eigi vísan stuðning meirihluta þingmanna. Samkvæmt upplýsingum samtaka Grænfriðunga hafa Gennadíj Tjsúganov, leiðtogi kommúnista, Vladimir Zírínovský, leiðtogi þjóðernissinna, Nikolaí Rýzjkov, fyrrverandi innanríkisráðherra og Gennadíj Seleznev, forseti Dúmunnar, ritað undir bréf til stuðnings fyrirætlunum Minatom. Jafnaðarmannaflokkurinn Jabloko er eini þingflokkurinn sem lýst hefur yfir efasemdum vegna málsins.

Barentshafið í hættu

Norska utanríkisráðuneytið og norsk umhverfisverndarsamtök hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum vegna hugsanlegrar geislamengunar sem lekið gæti í Barentshafið. Rússland er nú þegar mengaðasta land veraldar hvað geislamengun varðar. Samkvæmt tillögum Minatom munu Rússar taka við kjarnorkuúrgangi annarra þjóða og koma efnunum fyrir á Mayak- og Krasnojarsk-svæðunum. Þar er ætlunin að koma á endurvinnslu á plútóni og úrani á meðan úrgangi verður komið fyrir í geymslu.

Geymslusvæði Mayak-svæðisins eru hins vegar ekki hönnuð með slíkan úrgang í huga, heldur er um stöðuvötn að ræða sem ætluð eru lág- og miðlungsgeislavirkum úrgangi. Í Krasnojarsk er úrganginum komið fyrir í steinsteyptum kerum. Þá er úranið endurunnið og úrgangi, sem til fellur, dælt 5­700 metra undir yfirborð jarðar. Vegna fjárskorts eru aðeins um 30­40% verksmiðjunnar fullgerð.

Þá bera árnar Ob í Úralfjöllum og Jenísei í Síberíu geilsavirk efni frá Mayak og Krasnojarsk til Karahafsins og þaðan er talið að mengunin berist í Barentshaf. Árnar sjálfar og vatnakerfi þeirra eru mjög mengaðar og hafa menn sagt að um gífurlegan vanda sé að ræða.

Bráð umhverfisvá

Torbjörn Norendal, öryggismálaráðunautur norska utanríkisráðuneytisins, vill ekki fullyrða neitt um ráðstafanir Rússa, en sagði: "Mér myndi ekki hafa líkað það ef Norðmenn hefðu haldið þannig á málum," og minnti á að um geymslu til langs tíma væri að ræða. "Vandamálið er hvort hinn geislavirki úrgangur muni lenda í sjó. Þegar þangað er komið munu efnin dreifast um allan norðurhluta jarðarinnar. Þá þekkja menn vel til rannsóknarskýrslna sem segja að sé úrgangi dælt í jörð, dreifi hann úr sér. Úrgangurinn getur því endað í grunnvatninu," sagði Norendal.

Umhverfisverndarsamtök lýsa yfir sömu áhyggjum og Norendal. "Geymslusvæðin eru hugsanleg tímasprengja fyrir Barentshafið. Mönnum er mikill vandi á höndum við að hreinsa það sem þegar hefur losnað út í náttúruna og verðum við því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hindra Rússa í að taka við enn meiri úrgangi," sagði Thomas Nilsen hjá Bellona-samtökunum.

Nilsen hefur sjálfur heimsótt svæðin sem um ræðir og sagði hann að Mayak-geymslusvæðið sé í versta ásigkomulagi allra geymslusvæða kjarnorkuefna í veröldinni.

Kare Olerud, yfirmaður upplýsingamála hjá Náttúruverndarráði Noregs, var mjög áhyggjufullur yfir fyrirætlunum rússneskra stjórnvalda. "Þetta er enn ein áminningin um að kjarnorka er ekki orkugjafi framtíðarinnar. Við erum á góðri leið með að skapa eilífðarvanda sem ekki er unnt að stjórna," sagði Olerud.

Áformin varin

Rússneskir vísindamenn hafa stutt hinar fyrirhuguðu lagabreytingar og telja þeir að ríkið sé þegar í miklum vanda vegna eigin kjarnorkuúrgangs og verði því að afla fjár með skjótum hætti.

Hinn möguleikinn er aukin fjárveiting framkvæmdavaldsins til kjarnorkuendurvinnslu. Slíkt er nær óhugsandi á meðan milljónir ellilífeyrisþega, kennara, lækna og annarra ríkisstarfsmanna hafa ekki fengið laun sín greidd í langan tíma, að mati prófessors Jevgeníj Velikhov sem starfar hjá Kúrtsjatov-stofnuninni.

Samtök Grænfriðunga telja hins vegar að vandinn eigi upptök sín á Vesturlöndum en ekki í Rússlandi. "Ríkar þjóðir, sem vita ekki hvað þær eiga að gera við kjarnorkuúrgang sinn, mega ekki nýta sér örbirgð Rússa. Hinu alþjóðlega samfélagi er skylt að aðstoða Rússa við að finna lausn á eigin kjarnorkuvanda. Lausnin felst ekki í að senda þeim meiri úrgang," sagði Tobias Munchenmeyer sem starfar hjá Alþjóðasamtökum Grænfriðunga í Amsterdam.

Reuters

ÁIN Jenísei rennur um borgina Krasnojarsk í Síberíu. Nærri borginni standa geymslusvæði fyrir kjarnorkuúrgang og beinast áhyggjur manna að mengun sem í hana rennur og berst í norðurhöf. Rússar beita áhrifum sínum á laun

Efnin munu dreifast um norðurhöf