ÞAÐ kæmi engum á óvart ef Pamela Anderson Lee myndi enn og aftur ganga inn kirkjugólfið með engan annan en fyrrverandi eiginmann sinn Tommy Lee sér við hlið á næstunni en hann afplánaði nýlega fangelsisdóm fyrir að leggja hendur á hana. Strandvarðastúlkan sagði í sjónvarpsviðtali á dögunum að hún væri að reyna að ná sáttum við rokkarann Tommy.
Rómantíkin blómstrar

hjá Pam og Tommy á ný

ÞAÐ kæmi engum á óvart ef Pamela Anderson Lee myndi enn og aftur ganga inn kirkjugólfið með engan annan en fyrrverandi eiginmann sinn Tommy Lee sér við hlið á næstunni en hann afplánaði nýlega fangelsisdóm fyrir að leggja hendur á hana. Strandvarðastúlkan sagði í sjónvarpsviðtali á dögunum að hún væri að reyna að ná sáttum við rokkarann Tommy. "Við erum að reyna að byggja upp fjölskylduna á ný. Já, og það er alveg yndislegt," sagði Pam í sjónvarpsþættinum "Access Hollywood". "Síðastliðið ár hefur verið okkur báðum mjög erfitt, við höfum gengið í gegnum margt saman." Þegar hún var spurð hvort að þau myndu endurnýja hjúskaparheitið sagði hún að þau yrðu líklegast að gera það. "Þetta verður mun skemmtilegra núna. Það er enginn annar maður í lífi mínu, eða nokkurt annað hlutskipti sem ég kýs, svo að við verðum að reyna að láta þetta ganga upp, ekki satt?" Pamela sótti um skilnað við Tommy fyrir rúmu ári eftir að hafa kært hann fyrir líkamsárás á heimili þeirra í Malibu. Tommy þurfti að dúsa í fangelsi í sex mánuði fyrir vikið en er að mati eiginkonunnar orðinn nýr og betri maður. Viðtalið var tekið tveimur vikum eftir að Pamela kom öllum á óvart með því að láta fjarlægja silikonpúða úr brjóstum sínum svo að hlutföllin eru orðin eðlileg á ný.

PAMELA Anderson Lee lét fjarlægja silikonpúðana og er búin að taka aftur saman við trommarann Tommy Lee.