SIGRÚN SIGURÐARDÓTTIR: SAGNFRÆÐI OG BÓKMENNTIR "Ertu örugglega að vinna fyrir þér?" Sigrún Sigurðardóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands í júní 1998. Auk 90 eininga í sagnfræði hefur hún lokið 25 einingum í bókmenntafræði og dvaldi eina önn sem Erasmus-skiptistúdent við Roskilde Universitet Center í Danmörku.
SIGRÚN SIGURÐARDÓTTIR: SAGNFRÆÐI OG BÓKMENNTIR

"Ertu örugglega að vinna fyrir þér?"

Sigrún Sigurðardóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands í júní 1998. Auk 90 eininga í sagnfræði hefur hún lokið 25 einingum í bókmenntafræði og dvaldi eina önn sem Erasmus-skiptistúdent við Roskilde Universitet Center í Danmörku.

Safaríkt bréfasafn frá 19. öld hefur að undanförnu átt hug Sigrúnar allan og hún vinnur nú að þykkri bók um safnið. Hún fékk fyrir skömmu styrk frá Árnastofnun til þess að bregða sér til Kaupmannahafnar að kynna sér fleiri bréf vegna bókarinnar.

Eiginmaður Sigrúnar er Björn ...son, heimspekingur, og eiga þau von á sínu fyrsta barni í sumar.

"ÉG STARFAÐI við blaðamennsku á sínum tíma og leit á sagnfræðinámið sem leið til þess að verða betri blaðamaður," segir Sigrún Sigurðardóttir um tildrög þess að hún ákvað að hefja sagnfræðinám við Háskóla Íslands. "Eftir því sem á námið leið jókst hins vegar áhugi minn á sagnfræðinni og í stað þess að snúa aftur í blaðamennskuna eftir útskrift gekk ég til liðs við Reykjavíkur Akademíuna, félag sjálfstætt starfandi fræðimanna."

Löngu hætt að efast

Sigrún játar því að hafa stundum haft vissar efasemdir um hagnýti sagnfræðinnar á námstímanum, en nú er hún löngu hætt að efast. "Mín reynsla er sú að það sé auðvelt að skapa sér tækifæri með bakgrunn í hugvísindum," segir hún sannfærandi og kveðst jafnvel hafa þurft að vísa frá sér verkefnum á fræðasviðinu. Hins vegar gangi ekki eins vel að sannfæra aðra um áþreifanleika fagsins. "Þetta var ekki vandamál á meðan ég var í háskólanámi, þá gerðu allir ráð fyrir að ég væri á leiðinni í fjölmiðlun. Núna er þetta verra því ég þarf stöðugt að vera að réttlæta mig, útskýra að ég sé í raunverulegu starfi og sjái mér farborða með því. Margir eiga til dæmis erfitt með að skilja að ég geti verið í vinnunni án þess að fara út úr húsi," segir Sigrún og hvarflar augunum brosandi til fartölvunnar.

Hún hefur gaman að fræðunum, ítrekar að kraftar fólks nýtist best í því sem því þyki skemmtilegt. "Lausamennska krefst hins vegar ákveðins sjálfsaga. Aðhaldið felst í því að maður fær ekkert borgað ef maður slakar á, þannig að það er eins gott að halda sig að verki."

Á kafi í einkabréfum

Stærsta verkið sem sagnfræðingurinn ungi vinnur að um þessar mundir er bók í flokknum Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar sem út kemur hjá Háskólaútgáfunni í haust. "Bókina vinn ég upp úr bréfasafni frá 19. öld sem ég rakst á fyrir tilviljun í Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. Þetta eru bréf sem tengjast að mestu sömu fjölskyldunni, en bókin fjallar um bréf sem tjáningarform og hvernig samfélagið mótar hugsun og tjáningu fólks. Ég vel bréf í bókina og fjalla um notkunarmöguleika þeirra, en í bréfunum birtist ekki aðeins fjölskyldusaga heldur varpa þau ljósi á sjálfsmynd fólksins og viðhorf þess til umhverfisins."

Í einsögurannsókn sinni leggur Sigrún sérstaka áherslu á bréf kvenna en höfuðpersónan í fjölskyldusögunni er sex barna móðir, Anna Guðrún Eiríksdóttir, fædd árið 1826. "Þetta var mjög hugsandi kona og mér finnst skemmtilegt að sjá hversu mikið hún velti fyrir sér stöðu sinni í veröldinni sem fátæk alþýðukona í Reykjavík. Þannig skoða ég bréfasafnið sem samfélagslegt fyrirbrigði fremur en að lesa eingöngu úr því sögu einstaklinga."

Menningin mótar okkur öll

Samhliða fræðimennskunni hefur Sigrún látið til sín taka við kennslu sem hún kveður mjög skemmtilega og góða reynslu. "Ég bjó til dæmis til kennsluefni upp úr fyrrnefndum bréfum handa efri bekkjum Hagaskóla þegar ég var að kenna þar Íslandssögu, síðasta árið mitt í Háskólanum. Við lásum m.a. bréf þar sem fram komu fordómar Íslendinga gagnvart Dönum, aðstöðumunur stúlkna og drengja og fleiri atriði sem hægt var að rekja inn í stærra samhengi. Í einu bréfinu kvartaði stúlka yfir því að vera of grönn og sú frásögn veitti tækifæri til þess að ræða hvernig menningin mótar viðhorf fólks, ekki bara í fortíðinni heldur ekki síður í dag."

Sigrún reyndi enn fyrir sér í kennslu nú fyrir jólin, nú í Verslunarskóla Íslands í menningarfræði, nýju skyldufagi á málabraut og alþjóðabraut. "Markmiðið er að kenna nemendum að lesa menninguna og umhverfið og í því skyni tók ég saman kennsluhefti með greinum um fjölmiðla, innflytjendur, kvikmyndir, líkamann í samfélaginu og fleira. Út frá því fjölluðum við um hvernig menning og tungumál móta okkur öll."

Hugvísindanám er alltaf hagnýtt

Sigrúnu þykir skemmtilegt að kenna og kveðst vel geta hugsað sér að nota menntun sína í framtíðinni til þess að miðla fræðunum í gegnum fjölmiðla eða kennsluefni. "Annars kemur líka til greina að fara í doktorsnám og gerast fræðimaður. Ég stefni allavega á mastersnám í þverfaglegri grein, "moderne culture", í Danmörku haustið 2000, en hvað gerist eftir það veit ég ekki."

Markmiðið með hugvísindanámi hlýtur að vera að maður þroski sig sem einstakling, læri ákveðin vinnubrögð og læri á samfélagið sem maður þarf að taka þátt í. Sem slíkt er það því alltaf hagnýtt en fólk virðist tregt til að viðurkenna það. Viðhorfið er til dæmis dálítið þannig að maður eigi að vera svo þakklátur fyrir allt, verkefni, styrki og fleira, þegar maður er hugvísindamaður," segir Sigrún og hristir höfuðið. Það má ráða af svipnum að hún er ekki alls kostar sammála.

Morgunblaðið/Egill Egilsson SIGRÚN Sigurðardóttir, BA í sagnfræði.