Til 2. maí. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14­18. SJÖ skoskir listamenn sýna um þessar mundir í Nýlistasafninu, ásamt Bryndísi Snæbjörnsdóttur, eina íslenska þátttakandanum. Sýningin ber yfirskriftina "If I Ruled the World...", sem er eilítið gráglettinn titill, einkum þegar verkin eru höfð í huga.
Ef ég réði veröldinni ... MYNDLIST Nýlistasafnið, Vatnsstíg 3b BLÖNDUÐ TÆKNI CLAIRE BARCLAY, MARTIN BOYCE, RODDY BUCHANAN, ROSS SINCLAIR, BRYNDÍS SNÆBJÖRNSDÓTTIR, SIMON STARLING, ROSE THOMAS og CLARA URSITTI Til 2. maí. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 14­18. SJÖ skoskir listamenn sýna um þessar mundir í Nýlistasafninu, ásamt Bryndísi Snæbjörnsdóttur, eina íslenska þátttakandanum. Sýningin ber yfirskriftina "If I Ruled the World ...", sem er eilítið gráglettinn titill, einkum þegar verkin eru höfð í huga. Megnið af verkunum er af kaldhæðnum toga, en um leið eru þau einstaklega hversdagsleg, svo mjög að jaðrar við hreina fátækt. Bakvið þessa hversdagslegu kaldhæðni liggur nefnilega sú bráðfyndna þversögn að tilveran er eins og hún er, en í staðinn fyrir að fagna þeirri staðreynd og taka hlutunum nákvæmlega eins og þeir eru leggjum við á okkur ómældar píslir til að finna draumsýn okkar stað þótt hún sé ef til vill engu betri en áþreifanlegur raunveruleikinn. Lærum að elska hversdagsleikann eins og hann er og hættum að rembast við að breyta honum. Þetta er inntak hins mikla fagnaðarerindis Ross Sinclair og félaga í Nýlistasafninu. Ef til vill er þetta skosk hreintrúarhyggja, en einhvern veginn svona hugsum við okkur Skotland ­ ekki satt? ­ að minnsta kosti eftir svo og svo marga þætti um Taggart ­ þann harðsoðna lögreglufulltrúa ­ og jafnmarga, vélsagarráma söngvara á borð við Rod Stewart og Bonnie Tyler. Skoskri ímynd fylgir sérkennilega nöturlegt andrúmsloft axarmorðingja, blandið meinlæti og grimmd. Eflaust var það ekki ófyrirsynju að sá þefvísi höfundur Shakespeare lét eitt sitt átakanlegasta leikrit gerast í hálöndum Skotlands og fjalla um svívirðileg launráð. Strax þegar komið er inn úr dyrum Nýlistasafnsins taka við Bjarti salur og Svarti salur á hægri hönd. Í fyrri salnum er að finna Bill , lyktargjafa Clöru Ursitti, sem ásamt lyktarkönnun hennar fjallar um "ferómón", þau efnafræðilegu skilaboð sem heilinn nemur sem lykt, og ræður töluverðu um mannleg og kynferðisleg samskipti. Myndband Ursitti og samstæða ­ plastpoki með bol og púðum ­ til að safna líkamslykt er til þess gerð að auka betur hæfni kaupandans á sambúðarmarkaðnum. Sum líkamslykt á betur við þefvísi okkar en önnur. Ursitti þykist viss um gjaldgengi í makavali ráðist af lyktartegund, enda er myndband hennar er í þeim hressilega uppgötvunar- og innrætingarstíl sem einkennir mælskulist auglýsingaiðnaðarins. Ross Sinclair bregður sömuleiðis upp háðslegri mynd af seiglu hefðbundinnar hugsunar og forgengileik þjóðlegrar draumsýnar í Svarta sal á miðhæðinni og Forsalnum á jarðhæð safnsins. Nakinn maður sem snýr baki í myndbandstökuvélina kirjar sálma hástöfum í verkinu Dead Church/Real Life . Á bak mannsins er ritað stórum stöfum "Real Life". Not as it is but as it could be , verkið í Forsalnum er sett saman úr lauslega máluðum pappírsfánum , sem hanga eins og þvottur til þerris á snúrum ásamt yfirliti úr alfræðiorðabók um viðkomandi land. Grófgerð útfærslan og hásæti í miðjum salnum, helgað Íslandi ­ með amerísk-ættuðum dægursöng í anda Franks Sinatra ­ bera leikrænum tilþrifum og raunsæju mati Sinclairs gott vitni. Roddy Buchanan og Martin Boyce skipta með sér Gryfjunni ásamt Simon Starling, en hann hefur komið fyrir stórum lampa sem gengur fyrir sólarrafhlöðum; búnaði sem komið er fyrir uppi á þaki Nýlistasafnsins. Þetta er eitt örfárra verka á sýningunni sem eru af bjartsýnum toga. Á aðliggjandi vegg leikur Boyce sér með lýsingu í orðum og skurðlínum á kappakstri, sem virðist vera til þess eins að ákvarða staðsetningu keppendanna, svo sprenghlægilega sem það hljómar. Verk Buchanans er ekki síður í anda fáránleikans; hrátt, grátt og bullulegt, líkt og nöturlegur brandari á óheppilegum stað. Súm-salnum deila þær með sér, Claire Barclay og Bryndís Snæbjörnsdóttir, báðar með loftkenndum verkum sem ríma afbragðsvel saman. Home and not home eftir Barclay er líkast ljóðrænni fantasíu um þvottinn á snúrunum, meðan tveir skjáir í verki Bryndísar Skýjum ofar flytja áhorfandann um háloftin gegnum skýjabólstarana undir suðandi flugvélagný. Á pallinum má svo að lokum sjá myndband Rose Thomas af skoskum almenningi skemmta sér í "Fram, fram fylking...". Tengslin sem fólkið myndar í leik sínum bera með sér innilegt yfirbragð sem er talsvert öðruvísi en það sem einkennir verkin sem áður voru nefnd. Það er til marks um útsjónarsemi þeirra sem settu upp sýninguna að opna hana og ljúka með verki Thomas, og brjóta þannig upp kaldranalegt andrúmsloftið sem annars setur sinn sérstaka svip á "Ef ég réði veröldinni ..." Halldór Björn Runólfsson EITT af verkunum á sýningunni: Fánaborg eftir Ross Sinclair.