Bragi Eiríksson Kær vinur, mér tengdur nánum fjölskylduböndum, hefur verið skyndilega brott kallaður.

Bragi Eiríksson sleit barnsskónum á stóru myndarheimili á Ísafirði. Hann fór til náms við Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi á árinu 1934. Á Akureyri kynntist hann móðursystur minni, Ragnheiði Sveinsdóttur, og áttu þau síðan samleið í afar hamingjusömu og samstilltu hjónabandi í meira en hálfa öld.

Það var glæsilegur hópur sem útskrifaðist frá MA á árinu 1934 en þeir sem skoða mynd af hópnum taka strax eftir sérlega myndarlegum og broshýrum manni á miðri myndinni. Það var ekki að undra að tanta mín renndi hýru auga til þessa glæsilega unga manns. Þessum glæsileika í ásýnd og framkomu hélt Bragi til síðasta dags. Hver sem hitti hann á seinni árum hlaut að dást að höfðinglegu yfirbragði manns sem kominn var vel á níræðisaldur.

Bragi hafði ekki aðeins til að bera fágæta líkamlega fágun heldur var skaphöfn hans og andlegt viðmót steypt úr sama eðalmálmi. Hann var ætíð rólegur og traustur í fasi og hlaut að hafa góð áhrif á alla sem áttu samskipti við hann. Ég veit að hann var langt frá því að vera skaplaus en samt minnist ég þessa varla að hafa séð hann skipta skapi. Til hans var alltaf gott að leita með margvísleg persónuleg úrlausnarefni og ég efa ekki að traust og hlý skaphöfn hans hefur verið honum afar happadrjúgt veganesti á löngum starfsferli í viðskiptaheiminum, bæði hér á landi og erlendis.

Bragi var um skamman tíma við nám í Háskóla Íslands, stundaði kennslustörf á Akureyri og hóf síðan störf við Síldarbræðslustöðina á Dagverðareyri við Eyjafjörð þar sem hann var framkvæmdastjóri í allmörg ár. Bragi stýrði rekstri fyrirtækisins farsællega og mikið orð fór af snyrtimennskunni sem einkenndi starfsemina á Dagverðareyri á öllum sviðum. Mörg voru þau árin þó er lítið barst á land af silfri hafsins.

Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur á árinu 1953 og hóf Bragi þá störf hjá Samlagi skreiðarframleiðenda. Var hann framkvæmdastjóri þess fyrirtækis frá árinu 1961 til starfsloka á árinu 1985. Í þessu starfi reyndi mjög á dugnað, framtakssemi og lipurð Braga, ekki síst við sölu á skreið til Nígeríu og fleiri Afríkulanda. Efnahags- og stjórnmálaástand í þessum löndum var ótryggt og oft dvaldist Bragi langtímum saman í þessum heimshluta við að þoka skreiðarsölumálum í réttan farveg.

Mörgum tómstundum eyddi Bragi í fögrum lendum við íslenskar laxveiðiár, einkum við Laxá í Aðaldal. Bragi gjörþekkti þessa einstöku á og umhverfi hennar og bar sig að við veiðarnar með sama glæsibrag og einkenndi framgöngu hans á öðrum sviðum. Á uppvaxtarárum mínum á Akureyri bauð hann mér gjarnan að slást í hópinn austur að Laxá. Frá þeim ferðum á ég ótalmargar skemmtilegar minningar sem oft koma mér í hug þótt áratugir séu um liðnir. Nú er Bragi horfinn yfir á aðrar og ókunnar lendur og í huga mínum er söknuður og tómleiki.

Við Inga biðjum töntu og fjölskyldunni Guðs blessunar.

Sveinn Jónsson.