Oddur Oddsson Rödd hans var há og tær þegar hann söng.

Fjölskyldurnar sem tengdust Siglufirði komu iðulega saman og gerðu sér dagamun. Þá var slegið á létta strengi og lagið tekið. Þótt erfiður vinnudagur væri að baki voru lítil þreytumerki sjáanleg. Hvert lagið eftir annað hljómaði langt fram á kvöld. Þó er það ekki aðeins söngurinn sem mér er nú efst í huga. Minningarnar hlaðast upp. Allt líf Odds J. Oddssonar reis hátt og það var einstaklega tært og hreint. Eins og í söngnum var þar enga falska nótu að finna.

Oddur var öllum mönnum hjálplegri þegar á þurfti að halda. Hann var listagóður smiður og þangað leitaði maður þegar glímt var við byggingarframkvæmdir meðan stríðið við að koma sér upp þaki yfir höfuðið stóð sem hæst. En þar sem Oddur lagði hönd að verki var fagmennlega gengið frá öllu. Og það virtist líka gert svo áreynslulaust. Stundum hafði maður barist við það daglangt sem hann lauk á stuttri stundu. Hreyfingar hans voru léttar en karlmannlegar, þrekið mikið og kraftarnir virtust óþrjótandi. Í návist Odds fann maður fyrir sérstöku föðurlegu öryggi. Hann var maður sem hægt var að treysta. Hvorki þurfti að krefja hann um loforð eða undirskrift. Orð hans voru lög. Hann var fastur í skoðunum ef því var að skipta og hefði hann ákveðið eitthvað varð því ógjarnan breytt. Hann var klettur sem bifaðist ekki hvað sem á gekk. Einmitt þess vegna átti maður erfitt með að trúa því að sjúkdómur gæti bugað þennan glæsilega mann, langt um aldur fram. En enginn má sköpum renna. Hvorki sér maður eða sklur það sem framundan er. Lífsþræðirnir eru svo margslungnir að enginn fær vitað hvað bindur þá saman eða leysir þá í sundur.

Fáir höfðu meiri lífskraft til að bera en Oddur. Samt hefur hann kvatt. Þótt mörg ár hafi liðið í baráttu við illvígan sjúkdóm finnst manni eins og hendi hafi nú verið veifað. Og allt í einu skynjar maður að eitthvað hefur gleymst sem maður vildi segja, að hönd sem vildi þakka var aldrei rétt fram, að skuld sem átti að gjalda var aldrei greidd. En kannski gerir þetta ekkert til. Oddur kunni því alltaf betur að eiga innstæðu heldur en að skulda öðrum. Héðan hverfur hann á brott og skilur ekki aðeins eftir sig innstæður í sínum mannvænlegu börnum heldur einnig þakkarskuld hjá vinum sínum og ættingjum fyrir hjálpsemi og drengilegt líf.

Nú streyma minningarnar fram, einstök atvik rifjast upp. Þó mun eftirlifandi eiginkona hans geyma björtustu stundirnar og atvik frá liðnum árum. Henni, sonum hans og dóttur færum við hjónin innilegar samúðarkveðjur. Megi þau öll, og einnig við hin, njóta sem lengst minninga um góðan dreng.

Ragnar Ágústsson.