Jóhanna Sigríður Jónína Helgadóttir Við andlát Sigríðar Helgadóttur frá Laugarbökkum í Skagafirði viljum við bræður minnast hennar nokkrum orðum, en hún var föðursystir okkar.

Sigríður var næstyngst barna afa okkar og ömmu, þeirra Helga Björnssonar og Margrétar Sigurðardóttur, sem ættuð var frá Ásmúla í Holtum. Átta börn Helga og Margrétar, sem upp komust, kenndu sig ýmist við Ánastaði eða Reyki í Tungusveit, því þau bjuggu fyrst á Ánastöðum en síðast á Reykjum. Nú eru tvö á lífi, faðir okkar, Hjálmar, í Kópavogi og Hólmfríður á Sauðárkróki.

Kynni okkar bræðra af Siggu frænku hófust er við vorum sendir til hennar í sveit á Laugarbökkum. Þar kynntumst við líka ömmu okkar, Margréti, því steinsnar frá Laugarbökkum er Reykjaborg þar sem hún eyddi ævikvöldinu hjá Ófeigi, syni sínum, og Liselottu, konu hans, en afi var þá látinn. Þessir tveir bæir voru nýbýli byggðir í landi Skíðastaða og ásamt fleiri bæjum byggðir í kring um Skíðastaðalaug sem hitar upp allt hverfið. Ófeigur á Reykjaborg, bróðir Siggu, keypti land af Skíðastaðabónda og afnot af lauginni og varð þannig fyrstur manna í sveitinni til að nýta sér þarna möguleika heita vatnsins til húshitunar og ylræktar. Hann byggði Reykjaborg yfir sig og foreldra sína og Hjálmar, faðir okkar, taldi sig þar til heimilis fyrstu árin. Síðar byggðu Sigríður og Svavar Pétursson, maður hennar, Laugarbakka við hlið þeirra og fluttust þau þangað með börn sín. Við vorum því nánast komnir á æskuslóðir pabba, þar sem systkini hans tvö og foreldrar höfðu komið sér fyrir.

Ófeigur, Sigríður og Hjálmar bjuggu með foreldrum sínum á Reykjum þegar eldri systkinin voru farin að heiman. Er þau höfðu aldur til fóru þau að vinna á ýmsum stöðum á veturna, en komu heim til foreldra sinna til að vinna í heyskap á sumrin. Feðgarnir þrír slógu, en Sigríður rakaði og þótti þeim hún raka á við tvær stúlkur. Í vetrarferðum sínum fór Sigga til Reykjavíkur og lærði þar sauma og saumavélin hennar er áberandi í minningu okkar frá Laugarbökkum. Eina sögu sagði hún af afa og ömmu frá þessum tíma og lýsir sagan fólkinu og aðstæðum þess.

Sumarið 1930 vildi Sigga fá móður sína með sér á Alþingishátíðina á Þingvöllum. Afi svaraði því þá til að hún ætti ekki heimangengt, hún þyrfti að hugsa um bústörfin og sinna fósturbarninu, en afi og amma höfðu tekið að sér fósturdótturina Elínu. Þá sagði Sigga að ef hann leyfði henni ekki að fara myndi hún ekki koma framar heim í heyskapinn. Afi gaf þá eftir og fóru þær mæðgur á Þingvöll og heimsóttu ættfólk ömmu í leiðinni. Hún hafði þá ekki hitt fólkið sitt þar síðan fyrir aldamót.

Helga á Reykjum var sagt upp jarðnæðinu 1932 og tvístraðist þá heimilisfólkið. Sigga og Svavar voru nýlega gift, áttu eitt barn og heimskreppan skollin á. Það hafa því verið mikil umskipti til hins betra, þegar þau gátu flutt með börnum sínum, þeim Mörtu, Helga, Steingrími og Elsu, í Laugarbakka. Nú var fjölskyldan komin í heila höfn á eigin jörð. En vegna nábýlis við næstu jarðir fylgdi Laugarbökkum takmarkað land. Svavar bóndi brá á það ráð að leigja tún á öðrum bæjum til að auka heyfeng sinn og Sigga studdi mann sinn dyggilega í öllu því sem þau þurftu að leysa sameiginlega.

Sigga og Svavar fluttust til Akureyrar er börnin voru öll upp komin, en Helgi sonur þeirra tók við Laugarbökkum. Saumavélin fylgdi Siggu og var sem fyrr snar þáttur í lífi hennar. Í heimsóknum til hennar sagði hún oft frá mörgu fólki sem hún hafði kynnst í gegn um saumaskapinn. Fólkið hélt svo tryggð við hana þó beinum erindum væri lokið, enda var það reynsla okkar sem annarra að hlýtt viðmót hennar og létt lund gerði alla léttstígari sem fóru af hennar fundi.

Síðustu árin bjó Sigga frænka hjá Elsu, dóttur sinni, og enn var hún jafn kát og skemmtileg heim að sækja. Við erum þakklátir fyrir að hafa kynnst henni og fólkinu hennar og biðjum guð að blessa minningu hennar.

Magni og Þórir Hjálmarssynir.