Kvikmynd sem kostar 10 milljónir, segir Einar Þór Gunnlaugsson, getur verið betri en sú sem kostar 1.000 milljónir. Það þekkja flestir.
Hvað er iðnvæðing? Kvikmyndagerð Kvikmynd sem kostar 10 milljónir, segir Einar Þór Gunnlaugsson , getur verið betri en sú sem kostar 1.000 milljónir. Það þekkja flestir. EINHVER misskilningur virðist koma upp öðru hverju um hvað iðnvæðing í kvikmyndagerð sé og hvert sé takmark hennar. Til að einfalda málið er best að gera grein fyrir því hvað sé ekki takmarkið; það er að fjöldaframleiða færibandakvikmyndir, svo sem mótorhjólamyndir og brellubombur. Takmarkið er einfaldlega að leggja traustan efnahagslegan grunn að starfi kvikmyndafyrirtækja svo þau geti vandað framleiðslu sína, lagað sig að breyttu umhverfi og verið samkeppnishæf í alþjóðlegu umhverfi. Eignaraðild Verkefni og umhverfi kvikmyndafyrirtækja eru flest þau sömu og annarra fyrirtækja, þau búa við samkeppni, pólitískt umhverfi og fleira. Ólíkar áherslur í rekstri algengustu kvikmyndafyrirtækja mótast aðallega af því að meta listrænt gildi hlutanna eða "lesa" markaðinn. Sérstaða kvikmyndaiðnaðarins er mikil að þessu leyti. En listrænt frelsi felst ekki eingöngu í því að fyrirtæki fái peninga frá hinu opinbera eða stóru stúdíó- fyrirtæki úti í heimi og fari með það að vild, heldur liggur galdurinn í stjórnun fyrirtækisins sjálfs og meðferð þeirra aura sem eru umleikis. Kvikmynd sem kostar 10 milljónir getur verið betri en sú sem kostar 1.000 milljónir. Það þekkja flestir. Þessar ólíku áherslur á milli kvikmyndafyrirtækja og annarra birtast í eignaraðild í fyrirtækjum og einstökum bíómyndum. Hluthafar leggja mun meiri áherslu á hverjir séu hinir hluthafarnir en t.d. ef um hundamatarverksmiðju væri að ræða. Arðsemi er aðalmálið fyrir flesta hluthafa. Og þar sem áhættan er oftast nokkuð mikil í þessu fagi gera stórir hluthafar kröfu um háa ávöxtun, oft yfir 50%. Mörg dæmi eru um að slík ávöxtun heppnist og gott betur, en til að koma á móts við háa ávöxtunarkröfu og lækka hana er reynt að minnka áhættuna. Í kvikmyndagerð er að þessu leyti mikil áhersla lögð á rétta eignaraðild, því í gegnum hana liggur áhættudreifingin, og er oftar en ekki forsenda fyrir því að kvikmynd verði gerð. Á vesturlöndum er mesta áherslan lögð á aðgang að markaði, þ.e. dreifingarfyrirtæki eigi að minnsta kosti 25% hlut í verkefni. Með sterkt dreifingarfyrirtæki er hægt að gera áhættuna að nánast engu. Dreifingarfyrirtækið vill á móti ­ til þess að geta selt myndina ­ traustan framleiðanda, góða hugmynd, gott handrit, þekktan/góðan leikstjóra eða leikara o.s.frv. eða eitthvað af þessu. Að fara stjörnuleiðina, það er að ráða eina stjörnu, var ein af lykilvinnureglum Hollywood frá upphafi og hefur gefist vægast sagt vel. Hvað telst gott er oftast matsatriði og mótast bæði af menningu og stefnu fyrirtækis. En þar sem einstök dreifingarfyrirtæki gera ekki og styðjast ekki við viðhorfskannanir fyrir "vörur" sínar geta þau haft mjög ólíkar áherlsur. Annað sem hluthafar leita eftir eins og gengur í rekstri er samstarf við aðila sem veita aðgang að nýjum fjármagnsleiðum, nýrri þekkingu og nýjum samböndum almennt. Þetta er mjög áberandi hjá litlum og meðalstórum kvikmyndafyrirtækjum í Evrópu í dag þar sem evrópski iðnaðurinn er bæði fjölbreyttur og breytist ört. Og þegar hluthafi er metinn segir t.d. eiginfjárstaða viðkomandi fyrirtækis mjög lítið um verðgildi þess. Ólíkt hugbúnaðar- og margmiðlunariðnaði, þar sem oft er mikil áhætta í undirbúningi verkefnis, hefur kvikmyndaiðnaðurinn um 100 ára sögu að baki, en enn er áhættuliðurinn sá sami. Listrænt frelsi Í takmarki hluthafa, þ.e. arðsemi, felst oft krafa um listrænt gildi. Það er oftar en ekki reglan frekar en undantekningin, því flestir eigendur kvikmynda, fyrir utan nokkur Hollywood-dæmi, sjá markað og arð í því sem fólk vill sjá og heyra, eitthvað sem skiptir það máli. Þegar best verður á kosið og það sem einkennir góða stjórnun er þegar dreifendum og framleiðendum tekst að dreifa áhættu, laða að söluvænt nafn á myndina til þess að gefa hinum skapandi einstaklingum sem "ekki selja" meira frelsi. Hið listræna mat framleiðandans og viðskiptnef listamannsins geta leitt til dýnamísks og arðbærs samstarfs. Góð stjórnun er þegar þetta skarast á skynsamlegan hátt. Vitaskuld er allur gangur á þessu og er mannlegi þátturinn þar mikilvægastur. Listrænt frelsi í kvikmyndagerð má því engan veginn vega og meta eins og listrænt frelsi listmálarans. Það er óraunhæf krafa í markaðsvæddum iðnaði og vinnubrögð eru einnig ört að breytast í styrkjakerfinu. Listamanninum kann að finnast hann svikinn þegar hann sér að aðrir eiga meirihluta í kvikmyndinni "hans" og að "peningamenn" ráða öllu. Veruleikinn er hins vegar sá, að þegar góðir stjórnendur hafa búið svo um hnútana að áhætta er dreifð og búast má við eðlilegri sölu hafa meirihlutahluthafar oft ekki áhuga eða tíma til að fylgjast með daglegri vinnslu. Inn í þetta koma bæði undirverktaki og aðrir listamenn, sem handritshöfundur og leikstjóri ráða eftir eigin hyggjuviti. Sú ímynd loðir við kvikmyndaiðnað að þar séu listamenn sem ekki fá að njóta sín vegna valds peninganna og fara illa út úr viðskiptum við stóra "kalla". Það er undantekning og hugsanlega er sú ímynd tilkomin vegna þess mannlega eiginleika fólks að spá frekar í það sem illa fer en það sem vel er gert. Og þetta er líka undir listamanninum sjálfum komið. En þessi ímynd er ekki til þess fallin að laða að nýtt fólki inn í greinina, hvorki viðskiptafræðinga. lögfræðinga né listamenn, sem við hér á Íslandi þurfum á að halda ef við ætlum að vera samkeppnishæf. Opinbert fé Íslensk kvikmyndagerð hefur starfað í skjóli styrkja og þarf að tileinka sér breyttar áherslur ef hún ætlar að færa út kvíarnar. Myndir styrktar með opinberu fé eru þó nauðsynlegar til að koma kvikmyndagerðarmönnum á koppinn. En iðnvæðing er forsenda fyrir því að Íslendingar geti haft meiri forræði yfir myndum sínum sem eru framleiddar með erlendum aðilum, ekki síst listrænt séð eins og umhverfið er að þróast. Opinberu fé er því best varið til hugmynda- og þekkingarvinnu, til þjálfunar og til að laða að nýja starfskrafta til iðnvæðingar. Höfundur er kvikmyndagerðarmaður. Einar Þór Gunnlaugsson