Grafskrift hins gleymda ritstjóra Gömul íslensk dagblöð og tímarit sem tekið hafa upp tugi fermetra af hilluplássi í bókasafni Harvard háskóla eru komin í harða samkeppni við glæsileg einkasöfn sem arfleidd hafa verið til safnsins. Nú á að skrá blöðin í tölvu og koma þeim í lokaða geymslu.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990627 \: SLÖGG:: Grafskrift hins gley STOFNANDI:: TDGA \: \:

Grafskrift

hins gleymda

ritstjóra

Gömul íslensk dagblöð og tímarit sem tekið hafa upp tugi fermetra af hilluplássi í bókasafni Harvard háskóla eru komin í harða samkeppni við glæsileg einkasöfn sem arfleidd hafa verið til safnsins. Nú á að skrá blöðin í tölvu og koma þeim í lokaða geymslu. Sarah Brownsberger segir frá því hvernig hún réðst til atlögu við greininguna klædd svuntu og gúmmíhönskum með sterka handsápu, möppu og penna í hönd. Hún sá fljótlega að bandarísku bókasafnsfræðingar höfðu oft ekki haft hugmynd um hvaða heimildir þeir höfðu í höndunum.

ÉG ER alein í kjallara Widenerbókasafnsins í Harvard University, Cambridge, Massachusetts í Bandaríkjunum. Widener er aðalbygging Harvard-bókasafnsins, risastór kubbur á snyrtilegum grænum velli. Heimsins stærsta háskólabóksafn, en engu að síður heimsins stærsti legsteinn, sem sorgbitin móðir Harry Elkins Wideners lét reisa til minningar bókelskum syni sínum eftir að hann fórst með skipinu Titanic árið 1912.

Þar sem ég stend á neðstu hæð, í kyrrð sem er eingöngu rofin af vélarhljóðum lyftunnar og fjarlægum fótatökum, finn ég fyrir mikilleika safnsins, en líka sorg móðurinnar, sem varð að láta sér nægja minnisvarða í stað lifandi veru. Ég er klædd þungri léreftssvuntu og útbúin gummíhönskum, sterkri handsápu, möppu, penna og nokkrum stórum bókavögnum. Ég virði fyrir mér nokkra tugi fermetra af hilluplássi, þar sem íslensk dagblöð hafa hvílst um áraraðir, flest þakin fíngerðu rauðu ryki. Mitt hlutverk er að fara í gegnum öll þessi blöð og velja örfá til að vera áfram á hillu. Öll hin blöðin hverfa upp í vinnuherbergi, þar sem þau eru ryksuguð og skráð; síðan eru þau flokkuð og þeim pakkað ofan í kassa eftir stærð. Þaðan eru þau keyrð í geymslu í fjarlægu úthverfi sem mér finnst á þessari stundu "fjarlægari en dauðinn."

Þó er gott að geyma blöðin annars staðar. Þau hafa gott af hreinsun og betri aðstæðum og það á að vera hægt að endurheimta þau með tölvupöntun.

Ágiskanir um innihald

Sá hængur er á, að í mörgum tilfellum höfðu bókasafnsfræðingarnir, sem tóku á móti dagblöðunum, ekki minnstu hugmynd um hvers konar rit var um að ræða, hvort þau væru merkilegar heimildir eða blöð til að vefja utan um fisk, hvort þau fjölluðu um fornguði eða fjallagras. Gamla kortaskráin var prýdd gáfulegum athugasemdum og tilgátum margra kynslóða af bókasafnsfræðingum, en þessar upplýsingar færðust sjaldan yfir í nýju tölvuskrána. Gamaldags stafsetningarvillur út af eðum og þornum tíðkast enn, ásamt nýjum ruglingi út af letrinu í tölvukerfinu sem þarf að fást við öll stafróf heimsins. Þannig að sum blöð er ekki hægt að finna, önnur eru hreinlega ekki til í skránni. Svo að það kemur út á eitt í sumum tilfellum hvort blöðin eru sett í geymslu eða þeim hent.

Hitt er annað mál, hvort það að leita í tölvuskrá geti nokkurn tímann komist í kasta við að skoða bókahillu. Í margar kynslóðir hafa námsmenn fetað sig niður stigana í þennan djúpa kjallara glaðir í bragði eins og krakkar á leiðinni í sælgætisbúð. Hvað ætli maður rekist á, hvaða gersemi, hvaða furðurit, hvaða innblástur, hneyksli, eða fegurð? Staldrar maður ekki alltaf dálítið við til að skoða alveg eins og þegar maður flettir upp í orðabók? Þannig kynnist maður víðari veröld en maður hafði vit á að leita.

Íslenskukennarar berjast fyrir hilluplássi

Ímyndið ykkur ákafar deilurnar sem skapast út af þessu nýja geymslukerfi. Prófessorar úr öllum deildum bítast á við bókasafnsfræðingana og sín á milli um hvað og hversu mikið verður fjarlægt úr hillunum. Prófessorarnir Steve Mitchell og Joe Harris, sem kenna íslensku, reyna sem mest þeir mega að verja hillupláss íslensku ritanna. Rök þeirra eru mörg góð. Safn Harvards af íslenskum bókum, handritum, og blöðum er meðal þeirra stærstu í Norður- Ameríku, aðeins hjá Cornell og í Winnipeg finnast betri söfn. Harvard ber að sjá vel um þetta safn og gera það aðgengilegt sem flestum námsmönnum.

Og þetta er yndislegasta auðlind. Hér eru ekki "bara" fágæt handrit, bestu útgáfur Íslendingasagnanna, gagnrýni miðaldafræðinga og bragháttarskýringar á Eddunni. Harvard á t.d. allt safnið hans Konráðs Maurers frá nítjándu öld, einnig margvíslegt safn William Henry Schofields, sem var prófessor í klassískum fræðum og virðist hafa útvegað safninu allt sem prentað var á Íslandi snemma á 20. öld. Hér má glugga í Fjölni í ró og næði. Eða dást að handvélrituðum ritgerðum um notkun rúnaheita hjá rímnaskáldum. Hér er hægt að setjast flötum beinum á steingólfið og skoða teikningar Kjarvals í Árdegisblaði Listamanna , gefið út á nýjársdegi 1925. Kannski skjálfa fingurnir pínulítið þegar maður meðhöndlar Leirárgerð Magnúsar Stephensens, rýnir í gotneska letrið, les erfiljóð "heldri mannanna," skýrslur um laxveiði á Suðurlandi eða um fjárpestir, hvatningu til vonar og framfara sem var bundin léttum tréplötum og síðan skreytt með rósamynstruðum pappír sem William Morris hefði mátt öfunda.

Stór einkasöfn orka á vöxt safna eins og frjósamur jarðvegur. Þau laða að sér sterka námsmenn, sem síðar krefjast reglulegs og góðs innkaups til að fullkomna safnið og halda því við. Harvard heldur áfram að útvega helstu rit og nýprentaðar bækur frá Íslandi. Það á t.d. Engla Alheimsins bæði á íslensku og ensku; reyndar er hægt að lesa Laxness hér á finnsku . . . En seinustu árgangar Lesbókar Morgunblaðsins fást aðeins á filmu og það gegn þjónustu í Chicago.

Það er í höndum eins manns, Charles Fineman, að hafa umsjón með pöntun rita frá Ítalíu, Frakklandi, Finnlandi, og "Norður-Atlantshafi," sem sagt Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Lítið er um rök fyrir bókavalinu og virðist það fremur handahófskennt, enda fölna þessi söfn í samanburði við viðamikil og fjölbreytt einkasöfn sem brennandi áhugamenn hafa komið sér upp og arfleitt safnið að.

Blöð frá 19. og 20. öld

Þessi dagblöð og tímarit, sem ég á að taka í gegn, eru 19. og 20. aldar rit, flest úr safni Schofields. (Schofield dó 1920 en kona hans, Mary Lyons Cheney Schofield, styrkti áframhaldandi áskrift og innkaup.) Það að grisja úr þessu safni var varla verkefnið sem ég hafði í huga, þegar ég bauðst til að aðstoða Harvard við að hirða um íslensku bækurnar. En það á að tæma þessar hillur á næstu mánuðum, og eins gott að sá sem tæmir sé læs á íslensku. Svo að ég dæsi bara og byrja á -A-.

Rauða rykið þyrlast af Austra og Arnfirðingi, Akureyrarpóstinum og Austanfara. Brátt verður einhvers konar rykstormur í daufri birtunni og mig svíður í augun. Jæja, var það Guðmundur Hagalín sem ritstýrði þessu? Og hana nú, fannst klassíska fræðingnum að Ásgarðstíðindi hlytu að vera spennandi sögur um Æsi? Hvernig átti hann svosem að vita að Ásgarðstíðindi voru smjörlíkisauglýsingar?

Ég hef verið beðin um að flýta mér við að tæma hillurnar (getur það verið að þessi moldríka stofnun sjái eftir tímakaupi mínu?), en ég reyni samt að gá að stefnuskrám og átta mig á því sem ég er með í höndunum. "Krefjumst sjálfstæðis undir konungsvaldi!" "Leyfum Dönum sem hérlendis búa að fá kosningarrétt!" "Kjósið A-listann!" "Þar, sem við ekkert er að stríða, er ekki sigur að fá!" Ósk frá Siglufirði: "Megi Neistar jafnréttindis tendrast í huga ykkar!" "Af hverju er eina prentsmiðjan á Ísafirði algjörlega í höndum afturhaldsins?" þrumar ritstjóri Sköfnungsins . "Passið ykkur á verkalýðshreyfingunni", tónar ritstjóri Íslendings .

Þegar ég rekst á Gletting (Siglufjörður, 1924), fer ég að hlæja, ein í rökkrinu á milli hillanna. "Í rauninni er Glettingur miklu göfugri en önnur blöð. Hann mun birta samvinnuglettur ­ eins og Tíminn , taka málstað Dana og kaupmanna ­ eins og Morgunblaðið , birta auglýsingar frá almenningi ­ eins og Vísir , yrkja á baunversku ­ eins og Lögrjetta , birta palladóma um bæjarstjórnina ­ eins og Vörður um þingmennina, taka málstað alþýðunnar ­ eins og Alþýðublaðið , vera málsvari öreiganna ­ eins og Rauði Fáninn , vera tannhvass ef til kemur ­ eins og Vesturland , skrifa skammir ­ eins og Skutull og Verkamaðurinn , birta ferðapistla ­ eins og Íslendingur , skrifa brennandi frelsishugvekjur ­ eins og Hænir , vera gamansamur og fara í smáróðra ­ eins og Siglfirðingur og þegar það á við vera hógvær ­ eins og Framtíðin. Þetta ætti að vera sæmileg stefnu skrá."

Já, hér eru Geislar og Neistar, Perlur, Heróp, Fáni, Skjöldur, Stundin . Einnig Dagur, Vikan og Öldin, Morgunn og Aftanskin . Sömuleiðis Máninn, Austri og Norðri, Suðri og Vestri . Hér er ýmislegt til gagns, gleði og fróðleiks, spakmæli, smásögur og skrítlur. Hér eru Nýjar Kvöldvökur, Dýravinurinn, Nýja Ísland og Haukur . Hér er Sunnudagsblaðið , með það markmið "að flytja almenningi eitthvað fallegt og fróðlegt að lesa á kyrrum stundum." Hér eru Auglýsarinn, Farandsalinn og Verslunartíðindi , og líka Jólasveinn, Jólaharpa og Jólakveðjur til íslenskra barna frá sunnudagskólabörnum í Danmörku.

Sum blöðin molna

Sum dagblaðanna eru svo illa farin að þau verða að gulnu regni þegar ég dreg stóru pappírsborðsmöppurnar af hillunni. Einhver hefur verið að skoða ljósmyndirnar í Fálka , og hefur skilið eftir hrúgu af pappírsnifsum sem hann var að merkja blaðsíðurnar með. Sums staðar hafa blaðsíður aldrei verið skornar; sum rit eru enn bundin í bunkum með gráhvítum bómullarborðum. Ég verð stöðugt að þvo hendurnar, annars yrðu allar bækurnar strax ataðar í mórauðum fingraförum.

Endrum og sinnum álpast fram hjá mér drengirnir sem aka vögnunum upp í vinnuherbergið. Þeir eru ekki vanir því að einhver leynist meðal íslensku bókanna í kjallaranum og í fyrsta skiptið sem þeir ganga fram hjá er einn þeirra í miðri ítarlegri frásögn um ævintýri síðustu helgarinnar. Þeim bregður hryllilega þegar þeir koma auga á mig, en ég brosi bara sakleysislega. Eftir þetta eru drengirnir mér greiðasemin uppmáluð, hlaupa sendiferðir, útvega mér lykla og athuga einu sinni á dag hvort ég sé enn með lífsmarki í dimma kjallaranum.

Æ, hefði ég bara fengið álíka mikinn stuðning hjá bókasafnsfræðingunum! Þeir birtast oftar og oftar, æ grimmilegri á svip, þangað til einn góðan veðurdag kemur hinn ágæti maður sem réð mig í þetta starf og útskýrir, að nú sé risin meiri háttar deila meðal bókasafnsfræðinganna vegna þess að íslenskan fái "sérstaka meðferð."

Ísland og Eystrasaltsríkin

Ekki tef ég háttvirta lesendur þessa blaðs með nákvæmnum lýsingum af þeirri umræðu, sem fór fram milli rannsóknarsérfræðinga og bókasafnsfræðinga í marga klukkutíma þar á eftir. Þarna stóðum við, ég í léreftssvuntunni minni og þátttakendurnir allir, meðal hálftæmdra hillanna, þar sem íslensk tímarit höfðu tollað í tvö hundrað ár.

Mér tókst að hefta reiðigrátinn sem sauð í mér á köflum, og ég þagði, en þegar einn fræðinganna loksins sagði: "Heyrið þið, málið er einfaldlega það, að Ísland á að fá sömu meðhöndlun og Eystrasaltsríkin." Þá dauðlangaði mig til að hrista hann og segja: "Heyrðu vinur, hver maður er ekki sjálfur lítil þjóð og hver á meðal okkar er fær um að vita hverjir verða dæmdir merkilegastir í tímans rás?"

Sáttalok urðu um að einhvers konar tilraun yrði gerð til að gæta þess, að ritin yrðu að minnsta kosti í skránni áður en þau yrðu send í dýflissuna.

Joe Harris, Steve Mitchell, ég og fleiri munum halda áfram að vekja athygli á þessu safni og prófessor Harris segist vera að brugga ráð til að bæta skráningu á íslensku bókunum.

Leirárgerð og Klaustur Pósturinn fóru í geymsluna en Fjölnir er enn á hillunni, eða var þegar ég síðast gáði.

Höfundur er ljóðskáld, sem nam íslensku við Háskóla Íslands, hefur þýtt íslensk ljóð á ensku og kennt íslensku. Hún hefur starfað við endurskoðun á skráningu og flutning á íslenskum bókum í eigu Harvard háskóla.

WIDENER- bókasafnið í Harvard University, Cambridge, Massachusetts í Bandaríkjunum.

BAKHLIÐ bókasafnsins er girt af vegna framkvæmda, meðal annars vegna flutninga bóka og tímarita í geymslur.

Og hana nú, fannst klassíska fræðingnum að Ásgarðstíðindi hlytu að vera spennandi sögur um Æsi? Hvernig átti hann svosem að vita að Ásgarðstíðindi voru smjörlíkisauglýsingar?