Á slóðum Ferðafélags Íslands Vatnaheiði á Snæfellsnesi Vatnaheiði á Snæfellsnesi hefur verið mjög í fréttum að undanförnu sakir umdeildrar vegarlagningar, sem þar er á döfinni.
Á slóðum Ferðafélags Íslands Vatnaheiði á

Snæfellsnesi

Vatnaheiði á Snæfellsnesi hefur verið mjög í fréttum að undanförnu sakir umdeildrar vegarlagningar, sem þar er á döfinni. Heiði þessi myndar djúpa lægð í fjallgarðinn skammt vestan við Kerlingarskarð þar sem bílvegurinn er nú og þjóðleið hefur verið frá ómunatíð. Skarðið er í 311 m hæð yfir sjávarmáli, en heiðin er tæpum 100 m lægri og því þykir þar heppilegra vegarstæði, minni bratti og mildara veðurfar. Einar Haukur Kristjánsson segir hér frá staðháttum og rifjar upp sögur frá svæðinu.

UM VATNAHEIÐI lágu frá fornu fari reiðgötur og gönguleiðir til ýmissa átta, sem ekki eru lengur notaðar af öðrum en fólki á skemmtigöngu, í útreiðarferðum eða veiðiskap. Ennþá má víða rekja þessar slóðir, ýmist markaðar af þúsundum hestahófa í klappir og hellugrjót eða ruddar af mannahöndum um skriður og urðargrjót. Í gróðurlendi og á melum eru þær víðast alveg horfnar.

Til eru þeir, sem telja heiði þessa ákjósanlegt ósnortið útivistarsvæði til framtíðar, en hana prýða meðal annars þrjú friðsæl og eftirsótt veiðivötn, Baulárvallavatn, Hraunsfjarðarvatn og Selvallavatn og svipmikil fjöll en auðveld til gönguferða eins og Horn, Vatnafell, Seljafell og Hafrafell. Á heiðinni skiptast á móar og melar eða gróðursælt valllendi og mýrar með fjölgresi og fuglalífi af ýmsu tagi. Mun marga fýsa að kynna sér þetta landsvæði nú um stundir, bæði þá sem eru hlynntir vegagerð þarna til að sjá hvaða kosti bætt aðgengi býður þeim til skoðunar og útivistar á komandi árum, eins hina, sem eru andvígir röskun þessa svæðis. Þeir munu vilja sjá landið áður en því verður umturnað með hraðbrautargerð og tilheyrandi hávaða, ólofti og umferðarþys og sjá hverju komandi kynslóðir munu tapa af náttúrugæðum. Á móti kemur að Kerlingarskarð mun njóta meiri friðunar um ókomna tíð því þar verða einungis hestar og fólk á ferð. Þar er líka fagurt um að litast þótt fjölbreytni sé minni, en saga aldanna bíður við hvert fótmál, ef svo má segja, eins og reyndar einnig á Vatnaheiði.

Fjölbreyttar gönguleiðir

Um Vatnaheiði má velja sér margar fjölbreyttar gönguleiðir. Greiðfært er upp á heiðina að norðanverðu af gamla veginum við suðurjaðar Berserkjahrauns. Þaðan má ganga á Hornið og njóta þar besta útsýnis yfir dásemdir heiðarinnar. Að vísu er auðveldara að ganga á Hornið að sunnanverðu fyrir þá sem ekki eru vanir miklum bratta. Á þessari leið er Karlinn, hrikahár og mjór steindrangur, sem gaman er að virða fyrir sér. Síðan má ganga um hinn hlýlega og grösuga Seljadal vestan við Hraunsfjarðarvatn og þaðan um grasivaxnar brekkur niður í Árnabotn, en þar var, samkvæmt þjóðsögunni um Árna, argasta kot í Helgafellssveit, þar sem hvorki sá sól né sumar.

Á toppi Hornsins, sem sýnist hrikalegur tilsýndar, áttu ernir sér hreiður á öldum áður, þegar ernir voru algengir um land allt, enda gott til veiðifanga í silungsvötnum á báða vegu. Frá Horninu gengur hyldjúpt gljúfur niður í Hraunfjarðarvatn, skorið í móbergið af vatni og vindum og endar í háum klettum og er þar hyldýpi neðan undir. Væri þarna með öllu ófær leið stórgripum, ef ekki væri stóreflis steinhella lögð yfir gljúfrið á einum stað, svonefndur steinbogi. Þótti heldur glæfralegt að ríða þarna yfir á hestum eins og lesa má í frásögnum fyrri tíðar. Sumir telja að steinbogi þessi hafi verið gerður af mannahöndum, jafnvel þegar á landnámsöld, til að búendur í Hraunsfirði gætu nýtt sér beitilandið á heiðinni. Er hann þá líklega elsta brúarmannvirki á Íslandi, sem enn stendur. Frá Horninu má einnig ganga umhverfis Hraunsfjarðarvatn að nokkru um reiðgötu sunnan í Vatnafelli, en þá þarf að vaða Vatnaána eða stikla hana á steinum, þegar lítið er í henni.

Norðan í Vatnafelli eru þverhníptir klettar niður í vatnið. Þar á að vera stór hellir, sem ekki er fært í nema á báti. Þjóðsagan segir, að þar hafi tröllskessan Tögld hafst við í eina tíð og valdið búandmönnum stóru tjóni með stuldi á fénaði uns kappanum Illuga sem síðan var nefndur Tagldarbani tókst að lokum að sigra hana. Skessa þessi er talin vera upphafið að hinu ægilega skrímsli, sem lengi var talið að hefðist við í Baulárvallavatni, en strax í Landnámu er frásögn af nykri, sem kom frá þessum vötnum.

Ganga má upp á heiðina að sunnanverðu af þjóðveginum rétt áður en farið er upp á Kerlingarskarð. Þá þarf að vaða Köldukvísl, sem stundum getur verið nokkuð vatnsmikil. Gengið er inn með Skuggahlíð, ýmist um mýrlendi eða á bökkum Straumfjarðarár. Þar eru rústir af eyðibýlinu Hvammi á Dufgusdal, en þar hefur ekki verið búið frá því um 1870. Þarna getur stundum að líta hinar styggu og skrautlegu straumendur á sundi í flugastraum árinnar og allt um kring eru heimkynni mófugla, sem um varptímann mynda fegurstu fuglahljómkviðu þessa lands, sem unun er á að hlýða. Innar í dalnum syngur fossinn Rjúkandi með sínum rómi.

Af þjóðveginum rétt norðan við sæluhúsið í Kerlingarskarði liggur vegarslóð vestur undir Baulárvallavatn, sem mikið er notað af veiðimönnum, en þetta vatn er talið eitt besta veiðivatnið á heiðinni.

Leiðin úr Hraunsfirði um steinbogann, sem áður var nefndur, og eiðið milli vatnanna um grjótskriður Vatnafells lá áður fyrr um Baulárvallaveg að Elliða í Staðarsveit. Á þeirri leið eru hinar sérkennilegu Draugatjarnir í dalkvosum með klettaveggjum á flesta vegu. Eru þær að líkindum ævaforn gígvötn, sem fróðlegt og gaman er að skoða.

Undrin á Baulárvöllum

Suðvestan við Baulárvallavatn stóð bærinn Baulárvellir, þar sem búið var langt fram á síðustu öld. Afskekkt hefur það kot verið, minnst tveggja stunda gangur til næsta bæjar og vetrarríki mikið uppi á háheiði. Þar gerðust þau miklu undur á jólaföstu, líklega árið 1838, að skrímslið, sem talið var hafa aðsetur í vatninu, braut niður á einni nóttu næstum öll bæjarhúsin og muldi þau mélinu smærra. Þá var Kristín húsfreyja Þórðardóttir ein heima með dóttur sinni, Kristjönu, 8 ára, en húsbóndinn, Jón sundmann Sigurðsson, var á ferðalagi. Má geta nærri hve skelfileg angist þeirra mæðgna hefur verið þegar ósköpin dundu yfir, að vita sig einar lengst uppi á fjöllum órafjarri allri mannlegri hjálp. Í þá daga trúði fólk ekki öðru en þarna væri að verki stórháskaleg forynja, sem engu eirði, hvorki mönnum né skepnum.

Þótt nútímafólk trúi ekki tilveru skrímsla og finni þá skýringu helsta á atburðum þessum, að þeir hafi verið af mannavöldum, þá var sú hugsun áreiðanlega víðs fjarri þeim mæðgum. Hefur líklega sjaldan eða aldrei verið beðið jafn heitt og innilega um náð og miskunn Guðs, sér og sínum til handa, en af þessari umkomulausu konu í lágreista moldarbænum á miðri Vatnaheiði þessa löngu og hræðilegu vetrarnótt. Trúarstyrkur hennar og hugrekki varð móður og barni til bjargar á hættustund og bænin var heyrð. Þegar ólátunum loks linnti undir morgun, stóð ekkert uppi af bæjarhúsunum nema baðstofan ein, þar sem þær höfðust við. Nú þegar kristnihátíðarár fer í hönd mætti vel minnast þessa einstæða atburðar með því að gera sér ferð á staðinn. Í þessum fornu rústum, þar sem kjarkur og kristin trúarvissa sigraði á undraverðan hátt djöfulskap ægilegrar ófreskju hlýtur ennþá að ríkja góður andi þótt liðið sé hátt á aðra öld.

En ekki voru tröll og forynjur alltaf til jafn mikilla vandræða á Vatnaheiði og hér hefur verið lýst. Það hafði ekki verið búið lengi á Baulárvöllum í upphafi, þegar vanda bar að höndum. Það vantaði dagsmörkin eða eyktarmörkin eins og þá var sagt. Í þá daga voru ekki stundaklukkur á bæjum til að mæla tímann, heldur var gangur sólar notaður sem klukka og fjöll og kennileiti mörkuðu stundirnar eða eyktirnar eins og sagt var. Áður nokkurn varði var leyst úr þessum vanda, þegar tröllkona heyrðist kveða hátt, svo að undirtók í fjöllunum:

Dagmálin á Dofrahnúk,

hádegi á Stakki,

miðdegi á Möðruhnúk,

en nón er úti á Klakki,

miðaftan á Breiðuborg á Baulárvöllum,

náttmálin á Nípufjöllum.

Nú er sagt frá eyktum öllum.

Höfundur er fjármálastjóri hjá Vegagerðinni og Snæfellingur að ætt og uppruna.Ljósmyndir/Einar H. Kristjánsson STEINBOGINN á gjánni við Hraunsfjarðarvatn. Um hann lá alfaraleið milli byggða norðan- og sunnanfjalls á Snæfellsnesi. Er hann gerður af mannahöndum og þar með elsta brúarmannvirki á landi hér, sem enn stendur?

ÚTSÝNI af fjallinu Horni til norðausturs. Selvallavatn, Berserkjahraun og Grákúla á miðri mynd. Nýi vegurinn mun liggja niður af Vatnaheiði um hlíðina til hægri á myndinni.

ÚTSÝNI af fjallinu Horni til suðurs yfir Vatnaheiði, Hraunsfjarðarvatn, Baulárvallavatn (fjær) og Vatnafell á eiðinu á milli þeirra. Til hægri á myndinni sér til Baulárvalla þar sem undirn gerðust, en neðst sér í gjána, sem Steinboginn er á. Nýi vegurinn mun liggja upp skarðið til vinstri og skammt austan við Baulárvallavatn.

STEINKARL móbergsdrangur norðvestur af fjallinu Horni á Vatnaheiði.