Hinir hæfustu lifa af MÁR Wolfgang Mixa, sérfræðingur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, segir ómögulegt að segja til um hvort lækkun á gengi hlutabréfa í netfyrirtækjum síðan í apríl sé varanleg eða um er að ræða eðlilega sveiflu.
Hinir hæfustu

lifa af

MÁR Wolfgang Mixa, sérfræðingur hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, segir ómögulegt að segja til um hvort lækkun á gengi hlutabréfa í netfyrirtækjum síðan í apríl sé varanleg eða um er að ræða eðlilega sveiflu.

"Það er erfitt að segja til um hvort þetta hafi verið einhver leiðrétting eða hvort þetta sé lognið á undan storminum. Það er mjög erfitt að meta hlutabréf í netfyrirtækjum. Fyrir einu og hálfu ári veðjuðu flestir sérfræðingar á að hlutabréf í Amazon.com myndu lækka og ákváðu því margir þeirra að gera afleiðusamninga þar sem þeir veðjuðu á lækkun hlutabréfa í fyrirtækinu. Í reynd hækkuðu hlutabréfin mjög mikið og þeir sem ákváðu að kaupa í einhverri lægðinni hafa því hagnast meira en hinir fyrrnefndu. Þetta eru bréf sem rjúka upp og niður og það er því ráðlegra að kaupa þegar bréfin fara niður og gera það smám saman," segir Már.

"Mín skoðun er sú að eftir tíu ár hafi 80% fyrirtækja sem starfa á sviði Netsins í dag annað hvort lagt upp laupana eða verið gleypt af öðrum fyrirtækjum. Fá stórfyrirtæki munu verða í forystuhlutverki, hvert á sínu sviði. Ég hef talað um "Microsoft morgundagsins" með vísun í að þegar maður kaupir tölvu er maður ekki að spá í hvaða stýrikerfi nota skal, Microsoft er óumdeilanlega í forystu á því sviði. Yahoo! verður að mínu mati í forystu meðal leitarslóða, America Online í netmiðlun og svo ræðst það á næstunni hvort Amazon.com heldur fyrsta sætinu í bóksölu á Netinu. Aðalhættan fyrir Amazon.com er fólgin í því að stórverslun eins og Wal-Mart fari að feta sig á sömu slóðum, eins má nefna bandarísku bókaverslunina Barnes & Noble. Báðar þessar verslanir gætu náð töluverðri markaðshlutdeild í bóksölu á Netinu á næstu mánuðum," segir Már.

Hann nefnir einnig bandaríska fyrirtækið eBay sem stundar uppboð á Netinu og priceline.com sem er leitarfyrirtæki fyrir þá sem eru að huga að kaupum á bílum eða flugmiðum, hótelgistingu og fleiru. "Aðrir líklegir sigurvegarar á Netinu á næstunni eru Ericsson, Nokia og Alcatel með markaðssetningu netfarsíma, og fleiri er hægt að nefna. Skilin á milli síma, tölvu, veraldarvefns og sjónvarps eiga eftir að minnka næstu árin og ofangreind fyrirtæki eru í góðri aðstöðu til að nýta sér það. Cisco og Sun eru grundvöllur netfyrirtækja, þau veita alla þjónustu varðandi fyrirtækin. Cisco eru fremstir á sviði vélbúnaðarins og í hugbúnaðariðnaðinum fyrir Netið er það Sun með Javaforritin," segir Már. Að mati hans eru þessi tvö fyrirtæki áhugaverðasti kostur fjárfesta í netfyrirtækjum í dag, þau hafa nú þegar náð afgerandi forystu á sínu sviði.

Efnahagsmál í Bandaríkjunum hafa meiri áhrif á netfyrirtæki á markaði en á fyrirtæki í öðrum greinum, að sögn Más. "Verðmat á netfyrirtækjum byggist að langmestu leyti á vexti fyrirtækjanna, með von um hagnað í framtíðinni. Þangað til hagnaður myndast eru netfyrirtæki því viðkvæmari en önnur fyrirtæki fyrir áhrifum vaxta og óvissu. Nýleg lækkun á gengi hlutabréfa í netfyrirtækjum varð á sama tíma og ávöxtunarkrafan á bandarískum ríkisskuldabréfum hækkaði. Hugsanlegar vaxtahækkanir og verðbólguótti hafa því mikið að segja fyrir verð á netfyrirtækjum," segir Már.

Líklegt má telja að hlutabréfaverð netfyrirtækja hækki á því tímabili sem nú fer í hönd, að sögn Más. "Sú söluaukning sem verður fyrir jólin veldur að öllum líkindum verðhækkunum. Nú eru æ fleiri með tölvur og netaðgang í Bandaríkjunum. Á þessu tímabili ræðst kannski líka hvort Amazon heldur forystuhlutverki sínu í bóksölu á Netinu. Þó ber að hafa í huga að verð þessara fyrirtækja eru afar viðkvæm fyrir lækkun markaðarins í heild," segir Már en að hans mati er markaðurinn í heild ofmetinn. "Leiðrétting á hlutabréfaverði fyrirtækja í Dow Jones vísitölunni hefði afar slæm áhrif á gengi hlutabréfa í netfyrirtækjum."

Már Wolfgang Mixa