Carl Emil Bardenfleth var stiftamtmaður á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann sat á Alþingi eftir endurreisn þess 1845 sem fulltrúi konungs, átti í ritdeilu við Jón Sigurðsson, en beitti sér fyrir málstað Íslendinga í skóla- og menningarmálum.

Afkomandi stiftamtmannsins rennir fyrir lax á Íslandi

Carl Emil Bardenfleth var stiftamtmaður á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar. Hann sat á Alþingi eftir endurreisn þess 1845 sem fulltrúi konungs, átti í ritdeilu við Jón Sigurðsson, en beitti sér fyrir málstað Íslendinga í skóla- og menningarmálum. Afkomandi hans, Jörgen Bardenfleth, er forstjóri tölvufyrirtækis, og skreppur reglulega til Íslands til að ræða viðskiptamál og renna fyrir lax. Helgi Þorsteinsson ber saman samskipti á seglskipa- og tölvuöld.

ÆTTIN Bardenfleth er upprunin í Bremen í Þýskalandi, en á síðustu öld voru margir ættmennanna gengnir í þjónustu danska konungsins og fóru erinda hans til ýmissa hluta konungsríkisins og víðar. Einn þeirra, Johan Frederik Bardenfleth, sigldi með leiðangri sem átti að taka land á Austur-Grænlandi, fór í sendiför til Marokkó og í fimm ár var hann landstjóri í Dönsku Vestur-Indíuum.

Sonur hans, Carl Emil Bardenfleth, sem fæddist 1807, gekk einnig í þjónustu konungs. Á unga aldri vingaðist hann við Friðrik krónprins, sem síðar varð Friðrik VII Danakonungur, en menntun prinsins var í nokkur ár falin Johan Bardenfleth, föður Carl Emils.

Carl Emil tók lögfræðipróf árið 1827 og var eftir það um skeið hirðmaður prinsins, en frá og með 1832 gegndi hann embættum í ýmsum hlutum ríkisins. Fimm árum síðar var hann skipaður stiftamtmaður í hjálendu Danaveldis, Íslandi.

Samskipti dagsins í dag á jafnræðisgrundvelli

Jörgen Bardenfleth, forstjóri tölvufyrirtækisins Hewlett-Packard í Danmörku, afkomandi Carls Emils Bardenfleth í beinan karllegg, segist ekki hafa verið sérstaklega fróður um þennan forföður sinn, en eftir að Frosti Bergsson, forstjóri Opinna kerfa, benti honum á að Bardenfleth gamli hefði verið merkur maður og haft sterk tengsl við Ísland, tók hann til við að kanna málið. Móðir hans reyndist nokkru fróðari, og tókst að auki að klóra sig fram úr gotnesku letrinu í ævisögu Bardenfleths, sem gefin var út 1890, og sagði syni sínum frá helstu atriðum hennar.

Jörgen kemur reglulega til Íslands til að treysta samstarfið við Opin kerfi, sem er umboðsaðili HP á Íslandi. Markaðssvæðið Ísland er þó undir umsjón HP í Danmörku samkvæmt skipulagi Evrópudeildar HP, sem hefur höfuðstöðvar í Sviss. Jörgen leggur þó áherslu á að samskipti hans við Ísland séu með öðrum hætti heldur en tíðkaðist hjá nýlenduherrum 19. aldar. "Í viðræðum okkar ríkir gagnkvæm virðing, við rekum okkar fyrirtæki og Opin kerfi er sjálfstætt fyrirtæki með eigin hagsmuni," segir Jörgen. "Við reynum að búa til samstarf sem báðir hafa ávinning af."

HP stofnaði dótturfyrirtæki á Íslandi árið 1985, en árið 1991 var ákveðið að selja það, og í framhaldi af því varð til fyrirtækið Opin kerfi. "Kaupendurnir voru meðal annars starfsmenn útibúsins, og lykilmenn í fyrirtækinu eru mikið til þeir sömu og voru hjá HP á Íslandi," segir Frosti. Nokkrar áhyggjur voru meðal yfirmanna HP í Evrópu yfir því hvernig þetta fyrirkomulag myndi reynast, en að sögn Jörgens hefur allt gengið að óskum.

Sjóferðin til Íslands engin lystisigling

Að halda uppi samskiptum milli Íslands og Danmerkur er ólíkt auðveldara nú heldur en á tímum Carls Emils Bardenfleths. Árið 1837 sigldi hann yfir Atlantshafið til að taka við stöðu sinni. "Það er engin lystisigling að fara í apríl á litlu kaupfari frá Kaupmannahöfn til Íslands með konu og börn," skrifaði hann síðar í æviminningum sínum. Þegar skipið var komið framhjá Helsingjaeyri urðu tvær þjónustustúlkur, sem kona hans hafði tekið með sér, svo sjóveikar að þær gátu ekki sinnt börnunum. Bardenfleth segir að í 4­5 daga hafi ástandið verið þannig að hann varð að sinna börnunum sjálfur, því enginn annar var á fótum.

Það var ekki aðeins seinlegt og erfitt að flytja fólk yfir hafið, fréttir bárust með sama hætti. Í apríl 1840 bárust Bardenfleth þau tíðindi með fyrsta vorskipinu að Friðrik 6. Danakonungur hefði látist í desember, eða fjórum mánuðum fyrr, og að hann væri kallaður heim til að stýra hirð Friðriks krónprins, æskufélaga síns.

Í dag eru starfsmenn HP í Danmörku og Opinna kerfa í daglegu tölvupóstsambandi, og Jörgen Bardenfleth fer reglulega til viðræðna á Íslandi með flugi, og notar stundum tækifærið til að fara í veiði. Jörgen dáist eins og forfaðirinn, að íslensku náttúrunni. Carl Emil Bardenfleth, sagði að vísu að næsta nágrenni Reykjavíkur byði ekki upp á annað en mýrar og grjót, en þegar lengra væri komið frá höfuðstaðnum, til dæmis til Þingvalla og að Geysi, kæmi í ljós stórbrotið umhverfi.

Íhaldssamur og andstæðingur Jóns Sigurðssonar

Carl Emil lét vel af dvölinni á Íslandi, og hann virðist hafa fundið sig vel í embætti sínu. Í tíð hans var komið á fót svonefndri embættismannanefnd, sem var eins konar forveri Alþingis, og leiddi Bardenfleth hana.

Bardenfleth átti einnig eftir að hafa áhrif á málefni Íslands eftir lok embættistíðar sinnar. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á ferli sínum, meðal annars var hann dómsmálaráðherra um skeið. Á fyrstu tveimur þingum endureists Alþingis, 1845 og 1847, var hann fulltrúi konungs.

Einar Hreinsson sagnfræðingur, sem vinnur að doktorsritgerð um embættismenn konungs á Íslandi, segir að Bardenfleth virðist hafa verið raunsærri stjórnmálamaður en margir samtíðarmanna hans, og stefnumótun hans varðandi Ísland hafi mótast af skynsemishyggju, en jafnframt tilraunum til að halda konungsdæminu saman á sundrungartímum.

Bardenfleth var íhaldsmaður á tímabili þegar frjálslyndi var í sókn, og telur Einar að það kunni að skýra af hverju honum hafi ekki verið meira hampað en raun ber vitni í Danmörku, þrátt fyrir það mikilvæga hlutverk sem hann gegndi um miðja öldina.

Bardenfleth var lítt hrifinn af þjóðhetju Íslendinga, Jóni Sigurðssyni, og átti meðal annars í stuttri ritdeilu við hann. Bardenfleth taldi Jón ganga of langt í baráttu sinni fyrir auknu sjálfstæði, enda taldi hann Íslendinga ekki færa um að standa á eigin fótum. Hann beitti sér hins vegar fyrir stofnun íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn, og í skóla- og menningarmálum reyndi hann oftast að tala máli Íslendinga.

Óttuðust að ættarnafnið hyrfi

Bardenfleth-fjölskyldan var aldrei stór, og segir Jörgen að á tímabili hafi verið óttast að ættarnafnið hyrfi, enda fylgdi það að sjálfsögðu aðeins karlkyns meðlimum fjölskyldunnar. Sonur Carl Emils, Vilhelm, átti fimm börn, þrjá syni og tvær dætur. Aðeins einn sonanna átti börn, en það var föðurafi Jörgens. Nú eru fjölskyldumeðlimirnir um 25 talsins. Jörgen á einn son og frændur hans eiga samtals þrjá syni.

Frá lokum 17. aldar og fram í byrjun hinnar 19. leituðu flestir karlmenn Bardenfleth-ættarinnar frægðar í herþjónustu fyrir Danakonung, en á 19. öld og á fyrri hluta hinnar tuttugustu sóttust margir eftir frama sem embættismenn. Sonur Carls Emils, Vilhelm Bardenfleth, varð stiftamtmaður í Árósum og nágrenni og amtmaður í Vejle. Hann náði reyndar einnig frama í stjórnmálum eins og faðirinn, var kirkju- og menntamálaráðherra og síðar innanríkisráðherra. Sonur hans, Gunnar Bardenfleth, gegndi ýmsum embættisstörfum og var loks konungsritari.

Nú er ættin Bardenfleth gengin úr þjónustu ríkis og konungs og þjónar í stað þess alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Margir forfeður Jörgens lærðu lögfræði til að búa sig undir embættismannsferil, en Jörgen fór til Kaliforníu og lærði viðskiptafræði. Aðalsættin gamla frá Bremen lagar sig stöðugt að nýjum aðstæðum. Í sumar hefðir er þó ennþá haldið.

"Í eigu ættarinnar eru nokkur málverk frá átjándu öld, sem Johan Frederik Bardenfleth, sem var landstjóri á Dönsku Vestur-Indíum, átti. Þau erfast alltaf til elsta sonarins af hverri kynslóð. Konurnar í fjölskyldunni draga nú í efa réttmæti þess, enda er systir mín sú elsta af minni kynslóð í ættinni." Jörgen gefur þó ekki upp afstöðu sína til þessarar jafnréttisbaráttu, ypptir aðeins öxlum eins og til að gefa til kynna að hann geti lítið gert til að breyta aldagömlum ættarhefðum.

Morgunblaðið/Jim Smart Jörgen Bardenfleth, forstjóri tölvufyrirtækisins HP í Danmörku.

Carl Emil Bardenfleth, stiftamtmaður á Íslandi, konungsfulltrúi á Alþingi 1845 og 1847, síðar og dómsmálaráðherra.