16. september 1999 | Neytendur | 313 orð

Umbætur á þjónustu Íslandspósts

Tilraun með heimakstur ábyrgðarbréfa

FYRIR skömmu hófst tilraun Íslandspósts hf. með heimkeyrslu á ábyrgðarbréfum til heimila og fyrirtækja. Að sögn Arnar Skúlasonar, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs Íslandspósts, er um tilraun að ræða og markmiðið að meta kosti þjónustunnar og ennfremur að skoða í framhaldinu kostnað við útkeyrslu á ábyrgðarbréfum.


Umbætur á þjónustu Íslandspósts

Tilraun með heimakstur ábyrgðarbréfa

FYRIR skömmu hófst tilraun Íslandspósts hf. með heimkeyrslu á ábyrgðarbréfum til heimila og fyrirtækja. Að sögn Arnar Skúlasonar, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs Íslandspósts, er um tilraun að ræða og markmiðið að meta kosti þjónustunnar og ennfremur að skoða í framhaldinu kostnað við útkeyrslu á ábyrgðarbréfum.

"Við erum að vinna að umbótum á þjónustu og eflingu á dreifikerfi Íslandspósts og eitt af því sem við höfum orðið varir við í skoðanakönnunum er að fólk vill fá ábyrgðarbréfin send heim til sín eða í fyrirtæki eftir því hvort við á.

Með tilraunaverkefni eins og þessu fáum við heildarmynd af kostum og göllum og getum í framhaldinu tekið endanlega ákvörðun um hvort þetta er raunhæfur kostur."

Örn segir að tilraunin muni standa í nokkra mánuði. Þjónustan er þegar hafin í tilraunaskyni í póstnúmerum 101, 103, 104, 108 og 170 og á næstunni verður tilraunaakstur hafinn á fleiri stöðum í höfuðborginni.

Lengdur afgreiðslutími

­ En stendur til að bæta þjónustuna að öðru leyti?

"Við erum að skoða ýmsar leiðir til að bæta þjónustuna. Nýlega opnuðum við pósthús við Grensásveg og þar erum við með opið til klukkan 20 á kvöldin. Með því að lengja afgreiðslutímann er verið að bæta þjónustuna. Það er ljóst að almennt verða pósthúsin ekki opin til klukkan 20 á kvöldin en ef þessi tilraun á Grensásvegi gefst vel er hægt að skoða þann möguleika að hafa opið lengur á einhverjum fleiri stöðum."

Örn segir að frá miðju síðasta ári hafi staðið yfir mælingar á hversu langan tíma það taki bréf að berast frá sendanda til viðtakanda. "Í ljós kom að af hverjum tíu innanbæjarbréfum berast 8­9 þeirra á einum virkum degi." Örn segir að sá árangur sé viðunandi en betur megi þó gera í dreifbýlinu. Hann bendir að lokum á að alls fari um 70 milljón sendingar um hendur starfsfólks Íslandspósts á hverju ári.

Morgunblaðið/Ásdís

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.