ISORTOQ er paradís karlmennskunnar," sagði Salik Hard, ferðamálastjóri í Narsaq, við greinarhöfund. Salik varð dreyminn á svip og rifjaði upp nokkur ævintýri sem hann hafði lent í með Stefáni. Salik er ekki einn um að kunna sögur af ótrúlegum dugnaði og dug þessa landa okkar sem
Paradís karlmennskunnar

Hreindýrastöðin í Isortoq á Suður-Grænlandi er ekki langt frá hinni fornu Eystribyggð Íslendinga í Grænlandi. Þar hefur Stefán Hrafn Magnússon fest rætur og byggt upp umfangsmikinn atvinnurekstur. Í haust verður lógað um 3.000 hreindýrum frá stöðinni, eða ámóta og öllum íslenska hreindýrastofninum. Í tengslum við stöðina er einnig rekin ferðaþjónusta. Árni Sæberg ljósmyndari og Guðni Einarsson blaðamaður heimsóttu Stefán hreindýrabónda og starfsfólk hans.

ISORTOQ er paradís karlmennskunnar," sagði Salik Hard, ferðamálastjóri í Narsaq, við greinarhöfund. Salik varð dreyminn á svip og rifjaði upp nokkur ævintýri sem hann hafði lent í með Stefáni. Salik er ekki einn um að kunna sögur af ótrúlegum dugnaði og dug þessa landa okkar sem ungur búfræðingur hleypti heimdraganum til Grænlands, kynntist hreindýrahaldi með Sömum í Finnmörku, nam hreindýrafræði í Svíþjóð og kenndi hreindýrahald í Alaska áður en stöðinni í Isortoq var hleypt af stokkunum.

Eftir að hafa kynnst Stefáni og störfum hans lítillega fer ekki á milli mála að það hefur þurft karlmennsku, það er manndóm, hreysti, dugnað og hugrekki eins og orðabók Menningarsjóðs skilgreinir hugtakið, til að reisa vel búna hreindýrastöð fjarri mannabyggðum vestur í Grænlandi.

Undir Íslandsfána

Stefán Hrafn Magnússon er fæddur 1956 og á grænlenska konu, Lone Nilsen. Saman eiga þau dreng á þriðja ári, Manitsiaq John, og eiga heimili í Qaqortoq (Julianehåb) þótt hreindýrastöðin sé annað heimili Stefáns. Stöðin er meira 100 km frá Narsaq og Qaqortoq og farið þangað á báti á sumrin. Á vetrum er yfirleitt ekki farið, nema þá á vélsleða eða þyrlu.

Við biðum Stefáns á bryggjunni í Narsaq og nutum veðurblíðunnar eftir hávaðarok daginn áður. Nokkrir karlar voru að girða af leið frá bryggjustubb og upp að rétt sláturhúss Royal Greenland-fyrirtækisins. Um þennan farveg átti að reka hreindýr frá Stefáni til slátrunar. Tveir stórir ísjakar byrgðu sýn út á Skógarfjörð. Skyndilega birtist þar bátur og fór mikinn. Þegar nær dró sást íslenski fáninn við hún og leyndi sér ekki að þar var kominn Sómabáturinn Bjarni Herjólfsson.

Stefán lagði að bryggju og skaut á fundi með samstarfsmönnum sínum í ferðamálum, Agnari Loga Axelssyni fararstjóra og Helga Jónassyni, sem býr í Narsaq. Að fundi loknum stigum við um borð með okkar hafurtask. Auk blaðamanna voru með í för tveir bændur úr Aðaldalnum, þeir Kolbeinn Kjartansson frá Hraunkoti og Jónas Vilhjálmsson fyrrverandi bóndi og nú gæslumaður á Bergi. Aðaldælingarnir ætluðu að heimsækja sveitunga sinn, Gunnar Óla Hákonarson frá Árbót, og hjálpa til við slátrunina.

Á dekkinu voru þrjár tunnur með flugvélaeldsneyti og aftur í skut rafmagnseldavél. Stefán lagði frá bryggju og sigldi út Narsaq-sundið með stefnu á Breiðafjörð. Við undirbúning ferðar okkar hafði Stefán verið spurður hvort hann vanhagaði um eitthvað frá Íslandi. Það var ekkert ­ nema bláberjaskyr og rjóma. Stefáni þótti ekki leiðinlegt að uppgötva að við höfðum orðið við þessari hóglátu ósk og beið ekki boðanna með að bragða á skyrinu. Hann þræddi á milli jaka og íshröngls með aðra hönd á stýri og skyrdósina í hinni.

En hvers vegna heitir báturinn eftir sæfaranum frækna Bjarna Herjólfssyni?

"Ja, það var ekki hægt að láta bátinn heita Valdi , ­ ekki hér," svaraði Stefán.

Sjórinn var spegilsléttur og sólin skein í heiði. Einstaka sinnum sáust litlir bátar innan um jakana á Breiðafirði, fólk á ferð eða við veiðar. Óvönum virtist það töluverð íþrótt að þræða á milli ísjakanna og íshrönglsins, þótt Stefán hefði lítið fyrir því. Stundum buldi í bátnum þegar ísklumpar urðu fyrir. Þegar kom út Breiðafjörð var siglt inn í skerjagarð og þrædd íslaus sund á milli eyja og skerja. Báturinn er búinn fullkomnum siglingatækjum, GPS-leiðarrita og ratsjá, svo Stefán getur komist leiðar sinnar í myrkri og þoku. Fremst á bátnum er stór ljóskastari til nota við slíkar aðstæður, því alltaf má búast við ísjökum.

Upphafið

Stefán sagði okkur að rekstrarmenn væru á leiðinni að stöðinni með hreindýrahjörð. Meðeigandi Stefáns, Grænlendingurinn Ole Kristiansen, var fjallkóngur og í forystu rekstrarmanna. Þeir höfðu náð saman um 2.000 dýrum þegar styggð komst að hjörðinni, líklega við breytta vindátt. Meirihlutinn stökk á braut, en rekstrarmennirnir voru enn með myndarlegan hóp. Reyna átti að koma hópnum í rétt daginn eftir svo slátrun gæti hafist. En hvernig hófst rekstur stöðvarinnar?

"Ole Kristiansen byrjaði með hreindýrabú árið 1973 og kom þá með 150 dýr norðan úr Nuuk- firði," segir Stefán.

Áður en Stefán fór að kenna Alaskamönnum á hreindýr hafði hann kynnst Ole hreindýrabónda. Stefáni þótti Alaskabúar helst til hæggengir og hóaði því í Ole frá Grænlandi til að hjálpa til við hreindýrasmölun sumarið 1983. Þarna viðraði Stefán hugmynd sína um að hefja eigin hreindýrabúskap í Grænlandi. Ole tók vel í það og Stefán fór til hans um haustið og dvaldist vetrarlangt. Stefán fór síðan til Kanada, lærði að fljúga í Gimli og var til sjós að afla sér fjár. Hann kom aftur til Grænlands í lok árs 1988 og keypti 250 hreindýr og fékk annað eins lánað.

Þeir Stefán og Ole Kristiansen settu upp félagsbú. Í fyrstu var hreindýrastöðin á svonefndu Maraq-svæði við miðjan Breiðafjörð. Árið 1985 fengu þeir þinglýstan afnotarétt á um 1.500 ferkílómetra landi sem er í eigu landstjórnarinnar. Þar er um að ræða nær allt land Qaqortoq-sýslu, norðan Breiðafjarðar, milli jökuls og fjöru. Þarna eru vel gróin heiðarlönd, mörg vötn og eyjar. Stefán gerðist landkönnuður og fór um á vélsleðum og fótgangandi til að kanna aðstæður sem best. Dýrin voru síðan rekin yfir Sermilikfjörð á ís. Þegar stöðin var flutt til Isortoq voru skilin eftir 100 dýr og er hjörðin í Maraq nú um 500 dýr. Þessi hjörð hefur verið nýtt af skotveiðimönnum sem koma víða að til að skjóta tarfana. Í Maraq er gömul rétt sem Stefán ætlar að lagfæra.

Sumar- og vetrarbeit

Hreindýrastöðin er staðsett við lítinn fjörð eða vog sem skerst inn í mitt hreindýrasvæðið. Þarna er styst á milli jökuls og sjávar í hreindýralandinu. Kolmórauð jökulá beljar fram í voginn austan við stöðina og litar sjóinn, nafnið Isortoq merkir einmitt Leirufjörður. Sjóbleikja gengur í ána og er góð netaveiði í ósnum.

Stöðin er á mörkum sumar- og vetrarbeitilanda hreindýranna. Vetrarlandið er að vestanverðu og heldur víðfeðmara en sumarlandið. Þegar kemur að burði fara kýrnar að færa sig nær sumarbeitilandinu en tarfarnir verða eftir í vetrarbeitilandinu. Stefán segir að kýrnar beri á nákvæmlega sama stað ár eftir ár, þar sem nýgræðingurinn kemur fyrst. Kýrnar strekkja við að fara í sumarbeitina snemma vors en reynt er að hamla því fram eftir sumri. Landið er erfitt yfirferðar þegar snjóa leysir og ekki fært vélknúnum farartækjum á borð við vélsleða eða fjórhjól. Gróður er líka seinni til en þar sem kýrnar bera og engin beit þegar kýrnar strekkja af stað.

Stefán segir að gróðurfarið í beitarlandinu sé ekki ólíkt því sem gerist í Þingeyjarsýslum, þótt það sé heldur grýttara. Þarna vex fjalldrapi, víðir, margskonar grös og berjalyng. Mikið er af krækiberjum og bláberjum. Inn á milli klettóttra ása eru mýrarflákar og vötn. Í vetrarbeitilandinu er mikið af hreindýramosa og segir Stefán mosann algengari þar en á Íslandi.

Byrjað í kassa

Stefán hægði á bátnum, beygði að ströndinni og benti á trékassa ofan við fjöruna. "Í þessum kassa byrjaði Isortoq-hreindýrastöðin," segir Stefán. "Veturna 1987-89, áður en við byggðum stöðina, ókum við yfir Sermilikfjörð á vélsleðum og skutum hreindýr á færi. Við settum kjötið í þennan kassa. Þegar kassinn var fullur var hrúgað ofan á hann og segldúkur breiddur yfir. Svo bundum við hund við kassann til að passa kjötið yfir nóttina fyrir refum. Síðan kom skip að ísröndinni og sótti kjötið sem selt var til Nuuk og víðar."

Áfram var haldið um straumþung sund og þröngar lænur uns við komum inn á voginn við Isortoq. Stefán lagði bátnum við ból og grænlenskur veiðimaður, John Nilsen, kallaður Újú, kom á jullu og sótti okkur. Hann býr í þorpi í skerjagarðinum en vinnur í sláturtíðinni í Isortoq. Í fjörunni biðu nokkrir reiðmenn á íslenskum hestum, þeirra á meðal Gunnar Óli Hákonarson og Olle Westlund þyrluflugmaður. Þeir ætluðu að ríða með girðingunum og loka hliðum svo allt yrði til reiðu þegar safnið kæmi af fjalli. "Tarsan", sem réttu nafni heitir Josef Kleist, hjálpaði okkur með dótið. Tarsan hefur unnið við smíðar fyrir Stefán og annað sem til fellur. Hann er ekki stór vexti, en því þrautseigari og sagður bera gælunafnið með rentu.

Tarsan er eineygur og með glerauga í annarri tóttinni. Okkur var sagt að einu sinni hafi Isortoq-menn verið í kaupstaðarferð og farið á vertshús. Þar sem þeir sátu að sumbli stóð Tarsan upp, tók gleraugað úr, lagði það á borðið og sagðist ætla að kasta af sér vatni. Þegar hann sneri aftur setti hann gleraugað í tóttina og fékk sér sæti. Einhver spurði hvers vegna hann hefði skilið eftir augað, meðan hann brá sér frá. "Mér þótti vissara að hafa auga með glasinu," svaraði þá Tarsan.

Mikil uppbygging

Þótt Isortoq sé afskekkt hefur nútíminn gengið þar í garð. Stór gervihnattadiskur og þyrla voru til tákns um tæknivæðingu hreindýrabænda. Á hlaðinu stóð burðarvirki í stálgrindarbrú sem á að brúa jökulána. Brúin verður flutt í einingum með þyrlu og sett saman á staðnum.

Uppbygging stöðvarinnar í Isortoq hófst 1990 og hefur verið hröð. Þrjú íbúðarhús, rafstöðvarhús með verkstæði og dælustöð voru byggð á staðnum, en sláturhúsið er reist að miklu leyti úr yleiningum og límtré frá Íslandi. Nú var Tarsan búinn að reisa grind að stórri vélageymslu, sem á að loka í haust. Það er erfitt að ímynda sér hvílíkt fyrirtæki það er að reisa á skömmum tíma öll þessi hús, steypa bryggjukant, setja upp díselrafstöðvar, dælustöð, hreindýrarétt og 23 kílómetra langar girðingar víðs fjarri mannabyggðum. Á staðnum er ekkert sem hægt er að nýta til nútímabygginga, nema ef vera skyldi grjót. Meira að segja verður að sækja steypusand um langan veg á báti. Skipgengt er fyrir allt að 200 tonna skip langleiðina til Isortoq sem auðveldar þungaflutninga.

Eftir að hafa kýlt okkur út á hreindýrasaltkjöti með kartöflum og svörtu kaffi sýndi Stefán okkur stöðina. Hreindýraréttin er ofan við sláturhúsið og hliðar hennar meira en mannhæðarháar vírnetsgirðingar. Girðingarnar ná marga kílómetra út frá réttinni og eru notaðar til að stýra hjörðunum. Frá réttinni að sláturhúsinu eru dilkar og gangar klæddir krossviðarplötum. Þar eru dýrin flokkuð í lífdýr og sláturdýr. Sláturdýrin fara niður gang og inn um vökvaknúið hlið að skábraut sem liggur upp að sjálfum slátrunarstaðnum. Þaðan fara skrokkarnir inn í sláturhúsið þar sem tekið er innan úr og fláning fer fram. Eftir þrif á skrokkunum fara þeir í kæli og síðan í frysti. Sláturhúsið er viðurkennt sem slíkt og dýralæknir annast heilbrigðisskoðun.

Heima við bæ er rafstöð með þremur ljósavélum og í sama húsi verkstæði. Stefán er jafn stórhuga og fyrr og áformar nú að virkja bergvatnsá sem rennur tæpa tvo kílómetra frá stöðinni.

Stefán gekk með okkur að vatnsveitu hreindýrastöðvarinnar. Vatnslögnin liggur ofanjarðar frá dæluhúsinu og heim á bæ. Í lögninni eru rafþræðir með hálfleiðurum. Um leið og nálgast frostmark fer lögnin að hitna svo ekki frýs í henni. Í dæluhúsinu eru ofnar sem eru kyntir í frostum.

"Það var gríðarleg vinna að byggja þetta upp ­ en maður tók ekkert eftir því fyrr en það var komið af stað," sagði Stefán hlæjandi.

Fjölskrúðugt dýralíf er í kringum hreindýrastöðina. Snæhérar og rjúpur sjást þar oft og vill Stefán að þessi dýr séu látin í friði í nágrenninu, því honum þykir gaman að hafa þau í kringum sig. Hins vegar fær tófan engin grið, enda getur hún borið hundaæði. Heima á bæ var par af áströlskum kelpa- hundum og hafði tíkin gotið sjö hvolpum undir íbúðarhúsinu. Úti á hlaði var lítill hænsnakofi og girðing með tíu kjúklingum sem Elísabet Kristjánsdóttir hafði með sér þegar hún kom til Isortoq í sumar frá Íslandi. Þetta er þriðja sumarið hennar á hreindýrastöðinni og stundar hún smölun, veiðar og eftirlitsferðir til jafns við hvern annan starfsmann. Lengsti "labbitúrinn" hennar stóð eina 17 daga samfleytt.

Í sláturtíðinni laðast villtir hafernir að og sitja allt að 20 til 30 talsins á staurum í kringum stöðina og eru á höttunum eftir æti. Þarna má einnig rekast á grænlandsfálka og snæuglur.

Heima við bæ eru matjurtagarðar þar sem ræktaðar eru kartöflur og rófur til heimilisins. Einnig hefur Stefán ræktað rúg í akri ofan við bæinn. Sáningin í vor hafði eitthvað misfarist svo hann átti ekki von á neinni metuppskeru í ár.

Um 50 km fyrir norðan landsvæði Stefáns eru sauðnaut. Hann sagðist langa að kaupa nokkur dýr og hafa í Isortoq. Með því að gefa þeim hey á vetrum væri hægt að hafa tvöfalt fleiri dýr á landinu en ella.

Nokkuð gengur af fiski í firðina. "Þú færð hlýra á 60 metrum og karfa og grálúðu á 300­600 metra dýpi," sagði Stefán.

Góðar heimtur

Hreindýraréttir eru haldnar oft á ári. Merkja þarf kálfa og flokka frá sláturdýr og eldisdýr. Þegar dýrin eru komin í rétt eru lífdýr skilin frá og þeim sleppt. Stefán sagði að reynt væri að hafa hlutfall tarfa um 14% í hjörðinni og þess vegna væri flestum ungum törfum lógað. Í hjörðinni eru hvít dýr og þau sett á til að fjölga þeim. Stefán segir ekki vera mikil afföll af stofninum. "Við fáum um 80% heimtur, sem er hærra hlutfall en í Finnmörku." Hvernig stendur á því?

"Það vantar bæði ferfætt rándýr og tvífætta nágranna ­ svo er beitin góð," segir Stefán og hlær sínum hvella hlátri.

Koma aldrei ísbirnir í heimsókn?

"Þeir fylgja rekísnum og hann stoppar við skerjagarðinn hér fyrir utan," segir Stefán. Hann segist hafa fellt einn ísbjörn. Það var um páska 1990 að hann rakst á miðlungsstóran björn uppi á Sermelikjökli sem gengur fram í samnefndan fjörð. Listmálarinn Tolli fékk síðan skinnið í skiptum fyrir málverk.

Fjölþjóðlegt andrúmsloft

Það er sérstök stemmning í Isortoq, einhver blanda af villta vestrinu og norðurhéruðum Skandinavíu. Hnífar og byssur eru jafn sjálfsögð verkfæri hreindýrabóndans og hamar og sög smiðsins. Úti á verönd hékk haglabyssa og önnur á snaga úr hreindýrshorni inni í forstofu. Raunar eru allir fatasnagar úr hreindýrshorni líkt og handfangið á bakarofninum í eldhúsinu. Í innri forstofu voru þrír rifflar í rekka á veggnum. Þetta voru ekki gljáfægðar montbyssur heldur snjáð verkfæri sem notuð eru við búskapinn. Í vélahúsinu var og þokkalegt byssusafn úti í horni.

Orðtækið líflaus er hníflaus maður á vel við í Isortoq. Axel dýralæknir ætlaði að skera sneið af spægipylsu við morgunverðarborðið og þótti pylsuhnífurinn heldur sljór. Hann hafði ekki fyrr sleppt orðinu en þrír hárbeittir kutar voru á lofti. Axel afþakkaði þá en dró upp svissneskan sjálfskeiðung og skar pylsuna.

Það starfa um tólf manns við smölun og slátrun í Isortoq. Við morgunverðarborðið sátu Íslendingar, norskur stórskotaliðsforingi, grænlenskir vinnumenn, dýralæknir frá Danmörku og sænskur þyrluflugmaður. "Ég reyni að blanda þessu, það verður fjölbreyttara mannlíf og skemmtilegra fyrir fólkið," sagði Stefán. Hann sat við enda borðsins og skipulagði daginn, talaði til skiptis á íslensku, grænlensku, norsku, sænsku og dönsku. Það er gott skipulag á hlutunum. Stefán skrifar verkefni dagsins og verkaskiptingu á töflu í forstofunni. Uppi á vegg hangir áætlun um þrif á húsunum.

Hreindýrasmölun

Eftir morgunverð fór Stefán með þyrlunni að reka hreindýrin. Hann situr við hlið flugmannsins og segir honum til við smölunina. Gunnar Óli var skipaður sláturhússtjóri í einn dag, enda þurfti að ganga frá ýmsu smálegu. Einnig var honum falið að stýra hópnum sem tæki á móti safninu og hjálpaði við að smala því síðasta spölinn. Hann settist niður og teiknaði kort til skýringar fyrir okkur óvana smalana. Safnið átti að renna eftir leið sem afmarkast af jökulánni og fjallshrygg. Þegar það væri komið framhjá ákveðnum stað átti að reisa girðingu þvert fyrir leiðina, klæða hana striga og loka safnið inni. "Það má lítið út af bera til að hreindýrin fælist," sagði Gunnar Óli. "Öruggasta flóttaleið sem hreindýr þekkja er að fara sömu leið til baka. Það verður að passa vel að þau komist ekki yfir girðinguna þegar við erum búnir að loka flóttaleiðinni."

Þegar búið var að dytta að sláturhúsinu var snemmbúinn hádegisverður. Þá kom kallið í talstöðinni um að tímabært væri að fara af stað í smölunina. Újú ferjaði okkur framhjá ósnum og yfir voginn. Við þurftum að bera nokkra tveggja metra langa girðingarstaura úr sveru steypustyrktarjárni upp á fjallið og hvítan striga til að klæða girðinguna. Hreindýrin sjá illa og vaða síður í vírnetið ef þau sjá strigann. Við kjöguðum upp brekkurnar með mismarga girðingarstaura á herðunum. Kolbeinn bóndi hljóp fremstur, enda með flesta staura. Í fjarska mátti heyra suðið í þyrlunni líkt og óðri býflugu.

Við höfðum rétt kastað mæðinni uppi á fjallsbrúninni þegar safnið sást koma fyrir múlann í fjarska. Menn röðuðu sér á fjallsbrúnina með nokkru millibili, tilbúnir að standa upp og láta öllum illum látum ef hreindýrunum dytti í hug að fara á fjöll. Von bráðar kom hjörðin hlaupandi með ánni. Tígulegir tarfar töltu utan með en kýr með kálfa fóru fremstar. Skannahvít dýr skáru sig úr hópnum. Þyrlan fylgdi í humátt á eftir og var snögg til ef dýr ætluðu að stinga af úr safninu. Það var ótrúlegt að sjá hvernig þyrlan lék í höndum Olle, manni datt í hug að Stefáni þætti lítið til þess koma að fara í rússíbana eftir setuna í smalaþyrlunni.

Þegar dýrin voru farin framhjá var hlaupið niður af fjallinu til að loka leiðinni. Girðingarstaurar og vírnet voru til reiðu. Bora þurfti nokkrar holur í klappir með bensíndrifnum vélbor og reka niður tréstaura með stórum hnalli. Meðan við vorum að brasa við girðinguna bættust rekstrarmennirnir í hópinn, Ole Kristiansen fjallkóngur, Elísabet Kristjánsdóttir og Grænlendingarnir Pavia og Siva.

Nú var eftir að reka dýrin yfir jökulána og inn í næstu girðingu. Þau voru lengi vel ekkert á því að fara í sund en hlupu fram og til baka. Nokkrum sinnum steðjuðu þau að okkur þar sem við stóðum framan við nýju girðinguna. Það var veifað og öskrað og dýrin sneru frá, ein kýr með kálfi lét sér þó ekki segjast og slapp framhjá. Eftir langa mæðu og miklar flugæfingar þyrlunnar lagði hjörðin loks til sunds og svamlaði yfir ána. Eftirleikurinn virtist auðveldur og von bráðar rann hjörðin alla leið inn í rétt.

3.000 sláturdýr

Sláturtíðin hefst um miðjan ágúst og stendur mesta törnin út fyrstu viku september. Í haust var slátrað um 1.700 dýrum í Isortoq og um 1.300 í Narsaq svo alls féllu um 3.000 hreindýr frá stöðinni, eða ámóta og allur íslenski hreindýrastofninn. Hreindýrin eru flutt til slátrunar í Narsaq á stórum prömmum og farið með um 250 dýr í ferð.

Stefán sagði að tveir þriðju hlutar framleiðslu búsins færu til Evrópulanda og þriðjungurinn seldur innan Grænlands. Megnið af húðunum frá sláturhúsinu í Narsaq fer til Danmerkur. Í ár fara 480 þurrkaðar húðir til Norður-Grænlands þar sem þær eru notaðar á hundasleða. Hluti af innmat er hirtur og um tíma var góður markaður fyrir hreindýrshorn en svo datt botninn úr þeim viðskiptum. Meðan hornin eru í vexti og blóðrík eru þau eftirsótt, m.a. í Suðaustur-Asíu, þar sem þau eru notuð í kynorkubætandi lyf. Það er erfiðara að taka hornin á réttum tíma þegar dýrin ganga laus en þar sem dýrin eru höfð heima við bæi.

Fyrir nokkrum árum var flutt eitthvað á annað tonn af hreindýrakjöti til Íslands, enda Grænland laust við búfjársjúkdóma. Stefán var spurður hvort til greina kæmi að framhald yrði á þeim innflutningi. "Ef Íslendingar fella niður 480 kr. innflutningstoll sem lagður er á hvert kíló af hreindýrakjöti kemur það vel til greina að selja til Íslands. Við flytjum inn um 30 tonn af lambakjöti frá Íslandi og mjólkurvörur til Austur- og Vestur- Grænlands, auk þess að kaupa margskonar þjónustu við togara og fleira á Íslandi. Ég er búinn að flytja inn vélar og tæki frá Íslandi fyrir um þrjár milljónir króna, en ekki selt þangað fyrir meira en 700­800 þúsund krónur," sagði Stefán.

Vetrarlokun

Haustönnum lýkur með slátrun kálfa í október. Stefán segir að þá séu kálfarnir feitastir því líkt og aðrar skepnur bæti hreindýrskálfarnir vel á sig í september og fram í október. Eftir kálfaslátrun er gengið frá húsunum í Isortoq fyrir veturinn, lagnir tæmdar og öllu lokað. Stöðin er síðan yfirgefin fram í febrúar. Yfir háveturinn er erfitt að komast um, sund og firði leggur svo ekki er bátfært. Stefán segir að yfir veturinn sé oft -7 til -16 stiga frost. Það geti reyndar farið niður í -30 stig en standi sjaldnast lengur en einn til tvo daga.

Í kringum áramótin er farið á þyrlu til að líta eftir húsum og skepnum. Stefán er með sex íslenska hesta og nokkrar kindur. Hestarnir eru notaðir við rekstur og þegar farið er að líta eftir girðingum. Stefán kaupir heyrúllur af bændum í Grænlandi og grasköggla frá Fóðuriðjunni í Ólafsdal. Fyrir vetrarlokunina er tekið utan af öllum rúllunum. Skepnurnar ganga við opið hús yfir og komast í nóg fóður. Hrútur gengur með ánum svo þær bera snemma á vorin. Kindurnar eru einungis hafðar til heimilisins. "Það er ágætt að geta breytt til, ef maður fær leið á hreindýrakjöti," sagði Stefán.

Það verða sjaldan jarðbönn svo hreindýrin geta alltaf krafsað eitthvað. "Samarnir segja að nái hreindýr í sem svarar einni fingurbjörg af mosa á dag, þá sé því borgið," segir Stefán. Um tíma ganga dýrin á fituforða líkamans og míga rauðu á meðan. Þegar kemur fram í mars eru grænar nálar farnar að stinga upp kollinum undir snjónum. Birtan nær í gegnum snjóinn sem bráðnar neðan frá og myndar eins konar gróðurhús.

Heima á norðurslóð

Íslendingurinn Stefán Hrafn Magnússon er á heimaslóð, þar sem hann býr vestur í Grænlandi. Sú ramma taug sem bindur marga brottflutta landa við Ísland heftir ekki Stefán. Aðspurður um hvar hann ætti heima benti hann til Isortoq og sagði: "Þarna! Ég á heima allstaðar við norðurheimskautsbauginn. Það er eiginlega sama hvar ég kem á norðurhjara, mig langar að eiga þar heima."Gunnar Óli Hákonarson hefur starfað við hreindýrastöðina undanfarin sumur.Morgunblaðið/Árni Sæberg Tígulegir tarfar töltu utan með hjörðinni en kýr með kálfa fóru fremstar. Nokkur skannahvít dýr skáru sig úr hópnum. Þyrlan fylgdi í humátt á eftir og var snögg í veg fyrir dýr sem ætluðu að stinga af úr safninu.Skinin hreindýrshorn eru í hrúgu ofan við lendinguna í Isortoq. Til hægri má sjá íbúðarhús Stefáns og starfsmannahús við hlið þess. Aftar til vinstri er sláturhúsið.Fjölskyldan á bryggjunni í Qaqortoq á leið til Isortoq. F.v. Manitsiaq John, Stefán Hrafn Magnússon og Lone Nilsen.Ole Kristiansen hreindýrabóndi og meðeigandi Stefáns var fjallkóngur í smöluninni. Hér hvílir hann lúin bein og skiptir um sokka eftir eltingarleikinn við hreindýrin.Morgunblaðið/Árni Sæberg Manitsiaq John sat í fangi pabba síns í afmælisveislu ömmu sinnar. Stefán dró upp kuta og snyrti neglur drengsins. Hreindýrabóndinn er aldrei hníflaus.Það er fjölþjóðlegt andrúmsloft við matarborðið í Isortoq. Tarsan teygir sig eftir brauðsneið, Gunnar Óli og Elísabet eru til hægri.Hjón stöðvuðu Stefán á götu í Qaqortoq. Þau ætluðu að láta skíra barnið í kerrunni og vantaði nokkur hreindýrslæri í skírnarveisluna.Stefán hefur haldið dagbók um árabil. Hann tálgaði högld í hreindýrasnöru meðan hann dvaldi í Noregi á áttunda áratugnum.Í Isortoq er fullkomið sláturhús. Axel Tang-Petersen dýralæknir heilbrigðisskoðaði skrokkana og sá um að farið væri eftir settum reglum við slátrunina.