Doris Mildred Briem fæddist í Birmingham, Bretlandi, 17. september 1902. Hún lést á Líknardeild Landspítala 28. október sl. Útför hennar fór fram frá Fossvogskirkju 5. nóvember sl.

Doris Briem, eða Granny, eins og flestir af yngri kynslóðinni kölluðu Doris hvort sem þeir voru skyldir henni eða ekki, var merkileg kona sem átti litríka og að mörgu leyti furðulega ævi. Hún fæddist í örsmáu raðhúsi í úthverfi Birmingham árið 1902, sú 13. í röð 16 systkina. Doris þótti snemma greind og bókhneigð, en það ásamt annarri sérvisku hennar, eins og að láta sem hún væri konungborin og hefði verið geymd til bráðabirgða hjá fjölskyldu sinni, olli foreldrum hennar áhyggjum. Móðir hennar sagði einhvern tímann við hana að hún myndi aldrei kynnast manni og giftast ef hún væri alltaf með nefið í bók. Doris sagðist mundu kynnast einhverjum í Oxford. Engan grunaði hversu sannspá hún yrði. Skólaganga hennar gekk vel og fékk hún jafnan öll verðlaun fyrir frammistöðu sem í boði voru, en tækifæri til lengra skólanáms voru fá fyrir stúlku úr verkamannastétt í þá daga. Sem unglingur í fyrri heimsstyrjöld vann hún í verksmiðju sem framleiddi skotfæri, en nokkrir af bræðrum hennar létu lífið í þeim hildarleik.

Nokkrum árum síðar var hún svo lánsöm að fá vinnu í Cadbury's-súkkulaðiverksmiðjunni, en það varð henni mjög til happs. Cadbury's var afar framsækið og óvenjulegt fyrirtæki. Það stóð fyrir ýmiss konar menningarstarfsemi og félagslegri þjónustu við starfsmenn sína og var af mörgum talið besti vinnustaður í Bretlandi á þeim tíma. Fyrirtækið studdi Doris til náms í kvöldskóla og síðar auglýsti það styrk fyrir konu til náms í eitt ár við Ruskin College í Oxford. Ruskin College var einn af fyrstu háskólum Bretlands sem veitti konum aðgang. Voru margar um hituna, en amma varð þeirra hlutskörpust og árið 1926 fór hún til Oxford. Sjálf þakkaði hún það því að þegar dómnefndin spurði hvers vegna hún vildi fara til Oxford svaraði hún því til að hún ætlaði sér að verða fyrsti kvenforsætisráðherra Bretlands. Svo fór reyndar ekki, en svarið kom henni til háskólanáms.

Í Oxford blómstraði Doris og naut hún sín vel. Átti hún sér marga aðdáendur og bárust henni fimm bónorð á skömmum tíma, en ekki vildi hún taka þeim, enda fannst henni hún hafa nógan tíma til að gifta sig. Einn aðdáenda hennar var ungur Íslendingur í hagfræðinámi, Helgi P. Briem að nafni. Fannst henni hann ekki mikill fyrir mann að sjá í fyrstu. Framan af þótti henni nóg um fylgisspekt hans því hann stuggaði öðrum vonbiðlum frá. Bráðlega fékk hún þó mikla ást á honum og það varð úr að þau giftu sig 29. júní árið 1929. Þau fóru í tvö brúðkaupsferðalög, annað stóð í þrjá mánuði og var farið um Evrópu, Norður-Afríku og Mið-Asíu, en í hinu fóru þau á hestbaki um Ísland. Doris þótti gaman að segja þá sögu að í hestaferðinni riðu þau hvíldarlaust allan fyrsta daginn. Var hún í olíubornum regnbuxum sem einhvern veginn festust við hnakkinn þannig að í lok dagsins varð að draga hana af hestbaki þannig að buxurnar sátu eftir á baki hestsins.

Doris þótti nóg um eyðslusemi og örlæti eiginmannsins og gerði ráð fyrir því að hann væri sterkefnaður. Svo var raunar ekki, en Helgi taldi sig eiga góða stöðu vísa heima á Íslandi að ferðinni lokinni og hafði tekið lán út á væntanlegar tekjur. Doris var meinilla við skuldir og þegar hún uppgötvaði hvernig í málum lá krafðist hún þess að ekkert yrði bruðlað fyrr en lánið væri að fullu greitt. Svo varð úr, en aldrei framar þurftu þau hjónin að skulda. Í fyrstu var þessi ráðahagur Dorisar og Helga hvorugri fjölskyldunni gleðiefni. Báðar tengdamæðurnar höfðu vantrú á þessu tiltæki, að giftast manneskju frá fjarlægu landi. Hins vegar tóku báðar brátt tengdabörn sín í sátt og urðu með þeim miklir kærleikar. Helgi starfaði árið 1929 sem skattstjóri í Reykjavík og frá 1930 sem bankastjóri Útvegsbankans. Árið 1932 gerðist hann fiskifulltrúi Íslands á Spáni. Við tóku viðburðarík og ævintýraleg ár í utanríkisþjónustunni.

Doris og Helgi bjuggu í Barcelona um nokkurra ára skeið og leið Doris ákaflega vel þar. Þau keyptu fögur húsgögn af þarlendum listasmiðum, lærðu spænsku og gekk vel í alla staði. Þar næst lá leiðin til Þýskalands þar sem Helgi var fulltrúi Íslands við sendiráð Danmerkur í Berlín. Þá réðu nasistar þar ríkjum og hjónin þurftu að sækja veislur og móttökur þar sem Hitler og nótar hans voru viðstaddir. Þá áttu allir að hylla foringjann með nasistakveðju. Þetta líkaði Doris illa og hún tuldraði jafnan "God Save the Queen" þegar aðrir hrópuðu "Heil Hitler". Eins raulaði hún fyrir sér "Rule Britannia" þegar sunginn var þjóðsöngur nasista, "Deutschland über Alles".

Árið 1940 var heimsstyrjöldin síðari hafin. Helgi var orðinn uggandi um öryggi konu sinnar og sendi hana til Portúgal, en hann fylgdi á eftir skömmu síðar. Var hann þá gerður að sérstökum sendifulltrúa Íslands í Suðurlöndum. Í Lissabon bjuggu þau í tvö ár og þar varð Doris barnshafandi þrátt fyrir að læknar hefðu sagt henni að af slíku gæti ekki orðið. Þeim hjónum fæddist dóttir, Álfheiður Sylvia, árið 1942. Skömmu síðar sigldu þau til Bandaríkjanna, þar sem Helgi var aðalræðismaður Íslands til 1948. Næst var farið til Svíþjóðar þar sem Helgi var sendifulltrúi og síðar sendiherra til 1956. Helgi var sérstakur fulltrúi ríkisstjórnarinnar þegar Halldór Laxness, fyrrverandi bekkjarfélagi hans og fornvinur, tók við Nóbelsverðlaununum árið 1955.

1956 fluttu Doris og Helgi aftur til Þýskalands, í þetta sinn til Bonn. Þar voru þau um nokkurra ára skeið, með útúrdúrum til Sovétríkjanna, Íran, Egyptalands, Bandaríkjanna og auðvitað komu þau heim til Englands og Íslands með reglulegu millibili. Þau höfðu margt góðra starfsmanna og þjónustufólks sem mörg héldu sambandi við þau alla ævi. Um 1960 komu þau svo alkomin til Íslands. Helgi settist niður við skriftir til að rita sögu íslensku utanríkisþjónustunnar og síðar um rannsóknir sínar á ferðum Íslendinga til Vesturheims. Helgi lést árið 1981 eftir nokkurra mánaða veikindi. Sylvia dóttir þeirra átti fjögur börn og alls eignaðist Doris 10 barnabarnabörn sem öll urðu henni mjög kær. Doris var skemmtileg kona og hafði ríka kímnigáfu og sérstæðar skoðanir á flestum hlutum. Hún var algerlega ófeimin og ræddi opinskátt við alla sem hún hitti, enda var hún mörgum minnisstæð. Hún las mikið alla ævi, bæði á ensku og íslensku, en talaði helst ensku nema hún væri tilneydd. Hún spilaði líka brids reglulega og réð þyngstu krossgátur Times og þakkaði því ásamt vítamínunum að hún hélt fullum sönsum fram í andlátið, Hún var sérlega örlát og seinni árin bauð hún allri fjölskyldu sinni árlega til helgardvalar á Hótel Örk um verslunarmannahelgina. Þær samkomur urðu okkur alltaf mikið gleðiefni.

Á starfsferlinum hjá utanríkisþjónustunni hittu Doris og Helgi flesta af stórleiðtogum tuttugustu aldarinnar, þótt ekki hafi þeim hugnast þeir allir. Þeirra á meðal voru Hitler, Stalín, Roosevelt, de Gaulle, Franco, Tito, Krúsjeff og Íranskeisari, en einnig fjöldi fólks sem hafði getið sér orðstír á sviðum listar vísinda og menningar. Meðal fastra gesta á heimili þeirra hér og þar í heiminum voru menn á borð við Einar Benediktsson, Vilhjálm Stefánsson og Halldór Laxness. Voru þau þekkt fyrir veglegar veislur, m.a. árleg jólaboð fyrir íslenska stúdenta í útlöndum.

Tvö hugðarefni skipuðu stærstan sess í lífi Dorisar og var hún alla ævina óþreytandi við að útbreiða boðskapinn. Annað var spíritismi, en Doris trúði mjög ákveðið á endurholdgun og líf eftir dauðann, en hitt voru vítamín og mikilvægi þeirra. Meðal diplómata gekk hún gjarnan undir viðurnefninu "The Vitamin Lady". Hún var ákaflega trúuð og guðrækin fram á síðasta dag og stundaði hugleiðslu og bænir daglega. Fram yfir áttrætt gerði hún líka jógaæfingar daglega. Hún taldi sig kristna, en hafði það viðhorf guðspekinnar að öll trúarbrögð væru jafnsönn, mismunandi birtingarmyndir sömu trúar. Ráðgaðist hún daglega við vini sína hinum megin og þakkaði góð ráð þeirra og aðstoð velgengni sína í lífinu. Hún og Helgi voru félagar í Guðspekifélaginu og Sálarrannsóknafélaginu alla ævi. Einnig voru þau dyggir stuðningsmenn bandarísku bænasamtakanna Unity.

Doris var formaður Vinahjálpar um langt árabil, en það eru góðgerðarsamtök íslenskra og erlendra kvenna í utanríkisþjónustu. Hefur Vinahjálp safnað fé og gefið sjúkrahúsum og líknarstofnunum tæki og fé gegnum árin.

Við sendum ástkærri ömmu okkar hlýjustu kveðjur.

Fyrir hönd barnabarna, tengdabarna og barnabarnabarna,

Helgi Briem Magnússon.

Elskuleg amma mín er dáin. Hún var stórkostleg kona og ógleymanleg hverjum þeim sem henni kynntist.

Við systkinin vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í sama húsi og hún og afi, og áttu þau ætíð stund aflögu fyrir okkur. Ein mín uppáhaldsiðja var að biðja hana um að segja mér sögur frá því þegar hún var lítil. Sögur hennar af systkinum sínum og uppátækjum þeirra voru ævintýri líkust í huga mínum.

Hún var þrettánda í röð sextán barna efnalítilla foreldra í Birmingham. Uppvaxtarár hennar voru full af hamingju og gleði og hún sagðist ætíð hafa fundist hún búa við alsnægtir og ríkidæmi. Leið hennar þaðan til æðstu mennta er saga ákveðinnar og greindrar stúlku sem vissi hvað hún vildi og stefndi ótrauð að markmiðum sínum.

Hún fékk styrk til náms og þreytti inntökupróf í Oxford. Frammi fyrir nefnd ábúðarfullra, virðulegra manna, sem taka áttu lokaákvörðun um val, sagði hún að sér hefði þótt staðan heldur vonlaus. Sú tilfinning hefði verið yfirþyrmandi þegar þeir spurðu hvaða erindi hún teldi sig eiga í þetta nám. Þá lýsti hún því hæglátlega yfir að hún ætlaði að verða fyrsta kona til að verða forsætisráðherra Bretlands. Svar hennar, á tímum þegar konur í Englandi höfðu ekki einu sinni kosningarétt, er lýsandi fyrir kjark hennar og áræði þegar að þrengdi. Hún fékk inngöngu í skólann og kynntist þar afa mínum heitnum, Helga P. Briem. Þau giftu sig að lokinni skólagöngu og lifðu í hamingjusömu hjónabandi í 52 ár, eða allt þar til afi minn dó fyrir 18 árum. Jafnvel eftir 20 ára hjónaband voru þau spurð á veitingastöðum hvort þau væru á brúðkaupsferðalagi. Þau játtu því og bættu við að brúðkaupsferðin hefði staðið í 20 ár.

Lífsganga þeirra saman var óvenju viðburðarík og virtist amma ætíð stödd mitt í hringiðu atburða sem skópu sögu 20. aldarinnar. Hún var á Spáni þegar borgarastyrjöldin braust þar út og hún bauð uppreisnarmönnunum birginn undir ógnandi vélbyssukjöftum þeirra. Hún var í Berlín þegar átökin, sem leiddu til seinni heimsstyrjaldarinnar, grófu um sig og upplifði sjálf skelfingu Kristalnæturinnar. Á þeim tímum í Þýskalandi þegar allir hylltu Hitler með nasistakveðju, lagði hún ætíð hægri hönd á hjartað og sagði: "God save the King" upp í opið geðið á þýskum ráðamönnum. Þannig var amma, hún gat aldrei annað en verið sjálfri sér samkvæm. Hún hitti alla helstu valdamenn þeirra tíma, Chamberlain, Churchill, Hitler, Göring, Mussolini, Rosevelt, konunga, drottningar, listamenn og skáld.

Hún kunni frá mörgu að segja og var sögumaður góður. Frásagnir hennar báru keim af persónuleika hennar sem einkenndist af jákvæðri lífssýn og glettni ásamt óvenju næmi og innsæi. Hún þakkaði sjálfri sér aldrei úrræði sín og styrk heldur guði: "Guð segir mér hvað ég á að gera." Sannfæring hennar var mikil og hún hlakkaði til að hitta afa minn, eiginmann sinn heittelskaðan, á himnum. Hún ætlaði þó að skamma bæði afa og Guð þegar hún dæi. Afa fyrir að fara svona snemma frá henni og Guð fyrir að halda henni svona lengi á lífi. "Ekki vera sorgmædd þegar ég dey, vertu glöð fyrir mína hönd. Þá verð ég hjá afa þínum og hleyp um á heilbrigðum fótum." Þetta og annað álíka sagði hún oft og orð hennar hugga vissulega nú þegar hún er öll.

Ég þakka að hún fékk hægt andlát í svefni og að hún hélt viti sínu og kímni til síðasta dags. Ég reyni að gleðjast fyrir hennar hönd en ég sakna hvers hárs á höfði hennar.

Iðunn.