23. desember 1999 | Neytendur | 437 orð

Ráðleggingar við matreiðslu á jólahangikjötinu

FLEST heimili landsins halda í þann sið að snæða hangikjöt á jóladag.
FLEST heimili landsins halda í þann sið að snæða hangikjöt á jóladag. Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól upp á eigin spýtur hafa það ef til vill ekki á takteinunum hvernig best beri að matreiða jólahangikjötið og því er ekki úr vegi að gefa góð ráð til þess.

Leiðbeiningastöð heimilanna gefur upplýsingar um hvert það sem varðar heimilishald. Þar fengust upplýsingar um hina vinsælu jóladagsmáltíð.

Til að byrja með er gott að miða við að kaupa kjöt sem nemur 200-250 g á mann. Fjögurra manna fjölskylda þyrfti því úrbeinað hangilæri sem vegur um eitt kíló.

Mælt er með því að setja kjötið í sjóðandi vatn og sjóða það í u.þ.b. 45 mínútur á hvert kíló. Sumir vilja þó setja hangikjötið í kalt vatn og láta suðuna koma hægt upp, en þá verður að stytta suðutímann töluvert. Tveggja kílóa hangilæri þarf því um 1½ klst. suðu ef það er sett í sjóðandi vatn.

Margir mæla með því að þegar suðu er lokið, sé hangikjötið kælt í um 2 klst. í soðinu áður en það er sett í ísskáp. Við það verði það mýkra og meyrara og auðveldara verði að skera það.

Hæg kæling varhugaverð

Hjá Hollustuvernd ríkisins fengust hins vegar þær upplýsingar að svo hæg kæling væri varhugaverð og ráðleggur Hollusturvernd fólki eindregið frá því að kæla kjötið í soðinu. Lykilatriðið sé að kæla það eins hratt og við verður komið því það sé viss hætta á matareitrunum ef kjötið er kælt hægt í soðinu. Það megi alltaf gera ráð fyrir því að ýmis bakteríugró geti borist í kjötið og náð að vaxa upp og valda matareitrunum ef kjötið er ekki meðhöndlað rétt.

Því er mælt með því að kjötið sé kælt í ísskáp. Best sé þó að láta mestu gufuna fara af því áður, það taki um tíu mínútur og setja það svo strax að því loknu inn í ísskáp.

Uppskrift að uppstúf

Hjá Leiðbeiningastöðinni fengust einnig þær upplýsingar að talsvært væri hringt inn til þess að fá uppskrift að uppstúf sem bera ætti fram með hangikjötinu og látum við það fylgja hér með. Það er ætluð fjórum.

2 msk. smjörlíki

3 msk. hveiti

3-4 dl mjólk

Smjörlíkið er brætt, hveitinu stráð út í og hrært vel. Mjólkinni er síðan hellt hægt saman við og hrært vel á meðan. Þetta er bragðað til með salti og ef til vill smá sykri og sumir nota einnig múskat til þess að bragðbæta.

Uppstúf er hægt að gera að morgni jóladags, eða jafnvel degi áður en ætlað er að bera það fram. Þá er gott að strá sykri yfir til þess að forðast að myndist skán. Við geymslu þykknar uppstúfið og því þarf að þynna það með mjólk þegar það er hitað upp.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.