23. desember 1999 | Bókmenntir | 748 orð

BÆKUR - Íþróttir

Brautryðjendur, gleði og sigrar í 400 eintökum

TBR Í 60 ÁR Saga Tennis- og Badmintonfélags Reykjavíkur 1938-1998

eftir Ármann Þorvaldsson. Hönnun: Kristján Kristjánsson. Útgefandi: Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur. Prentvinnsla: Ásprent/POB ehf. 1999. Um 150 myndir og 246 bls.
BÓKIN TBR í 60 ár - Saga Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur 1938-1988 - verður örugglega ekki lengi til sölu og gæti þess vegna verið uppseld þegar þetta birtist, en hún er gefin út í takmörkuðu upplagi og verður aðeins seld í 400 eintökum og aðeins hjá TBR, eins og fram kemur í fréttatilkynningu. Þar segir líka að TBR sé eitt fjölmennasta íþróttafélag landsins með meira en 3.000 iðkendur. Ef að líkum lætur fara margir þeirra í jólaköttinn vegna þess að því verður ekki trúað að óreyndu að þeir vilji ekki eiga fyrstu bókina um félagið sitt og í raun fyrstu bókina um badminton á Íslandi. Hins vegar gefur fjöldi útgefinna eintaka sterklega til kynna að selja þurfi 400 eintök til að standa undir kostnaði - íslensk íþróttafélög geta ekki leyft sér að taka áhættu í fjármálum.

Þeir sem hafa verið eða eru í íþróttum vita hvað íþróttastarfið getur verið ggjöfult og uppbyggilegt, hvað það getur haft góð áhrif á samkennd og samvinnu og verið skemmtilegt. Þannig hefur lífið greinilega verið í TBR í 60 ár og Ármanni Þorvaldssyni tekst að koma því til skila með léttum og hnitmiðuðum texta ásamt stuttum innskotsgreinum um ýmis atvik, einkum í léttari kantinum. Hann segir í formála að hann hafi leitast við að krydda bókina með forvitnilegum og skemmtilegum sögum og þær hitta flestar vel í mark, rista jafnvel dýpra en margan grunar. Margt er brallað í íþróttastarfinu og gaman er að halda sögunum til haga á prenti. Ekki er unnt að rekja þær hér, en frásögnin af skapheitum badmintonmönnum í íþróttahúsi Háskólans um miðja öldina getur átt við hvaða íþróttamenn sem er hvar sem er á hvaða tíma sem er. Sagan af Úlfari Þórðarsyni augnlækni og lögreglumanninum er dæmi um kænsku íþróttamannsins. Máttur "kommúnistans" Steinars Petersen í Moskvu er mikill og árangur Árna Þórs Hallgrímssonar í umferðinni í Hollandi sýnir að margt er í heiminum hverfult. Rannsóknarvinna höfundar skilar heiðursfélaga sem gleymdist og frásögn af bréfi frá Ólympíunefnd Íslands 1939 þar sem TBR er beðið um að hafa íþróttamenn félagsins tilbúna vegna fyrirhugaðra Ólympíuleika í Helsinki 1940, sem reyndar fóru ekki fram vegna síðari heimsstyrjaldarinnar, er skondin í ljósi þess að ekki var keppt í tennis á Ólympíuleikum á þessum árum og badminton varð ekki ólympíugrein fyrr en 1992. Og svo má lengi telja en í raun hefðu innskotin mátt vera fleiri, því að þau eru miklu meira en gott krydd.

TBR er stórveldi í íslensku badmintonlífi en saga félagsins er áþekk sögu annarra íþróttafélaga á sama tíma. Fyrst og fremst þrotlaus sjálfboðavinna frumkvöðlanna við erfiðar aðstæður, ekki síst aðstöðuleysi, samt sem áður háleit markmið, mótlæti, sigrar og árangur erfiðisins. Ármann rekur söguna í annálsformi, greinir frá helstu viðburðum hvers árs í stuttu máli. Í upphafi voru húsnæðismálin sett á oddinn og 1944 var farið að huga að því að byggja höll en biðin varð löng. 1972 úthlutaði borgarráð TBR lóð á mótum Gnoðarvogs og Holtavegar og fjórum árum síðar var fimm valla badmintonhús tekið í notkun. 1987 var annað hús með 12 völlum vígt. Með bættri aðstöðu var hægt að sinna fleiri iðkendum, barna- og unglingastarfið varð stöðugt öflugra og bestu keppendurnir náðu æ betri árangri.

Byggingarsagan er rakin en eftir því sem á líður söguna er meira greint frá keppni og helstu keppendum og skal engan undra þótt Óskar Guðmundsson, Haraldur Kornelíusson, Árni Þór Hallgrímsson, Broddi Kristjánsson, Elsa Nielsen og Vigdís Ásgeirsdóttir séu í sviðsljósinu. Sama á við um forystumennina Jón Jóhannesson, Garðar Alfonsson og Sigfús Ægi Árnason, en fleiri koma við sögu, jafnt innan sem utan vallar, og er margra getið.

Eftir lesturinn kemur einna helst á óvart að félagið skuli jafnframt hafa verið kennt við tennis alla tíð en íþróttin hefur lengst af legið niðri í félaginu og tennisiðkun var hætt í TBR-húsinu 1994.

Myndir hafa mikið að segja í svona bókum og hefur þess verið gætt að hafa þær nógu margar. Litmyndirnar á kápu hefðu mátt vera líflegri en aðrar myndir eru allar svarthvítar, sem er auðvitað miður, en sem fyrr má gera því skóna að kostnaður ráði för. Allir eru nafngreindir á myndunum og greint frá hvaðan þær eru fengnar og eru þetta vinnubrögð til fyrirmyndar, eins og allur frágangur bókarinnar. Sami háttur hefði átt að vera á myndaopnunni frá sjálfboðavinnu (bls. 122 og 123). Í lokin er skrá yfir heimildir og nafnalisti.

Það var fróðlegt og góð upprifjun að lesa þessa bók, sem er í raun ágætis handbók um sögu badmintons á Íslandi til þessa, og ekki kæmi á óvart að þegar þyrfti að huga að 2. prentun.

Steinþór Guðbjartsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.