Ólöf Guðný Valdimarsdóttir
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir fæddist á Núpi í Dýrafirði 21. september 1954. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1976 og prófi í arkitektúr frá arkitektaskólanum í Árósum 1983.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir fæddist á Núpi í Dýrafirði 21. september 1954. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1976 og prófi í arkitektúr frá arkitektaskólanum í Árósum 1983. Auk þess lauk hún prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands 1991. Ólöf hefur unnið sem arkitekt, bæði sem launþegi og með eigin rekstur. Hún hefur tekið þátt í félagsmálum, sat í stjórn Arkitektafélags Íslands og var framkvæmdastjóri þess frá 1995 til 1. sept. sl. og var hún kjörin formaður félagsins á aðalfundi þess í nóvember sl. Ólöf var skipuð formaður Náttúruverndarráðs af Guðmundi Bjarnasyni umhverfisráðherra á Náttúruverndarþingi 1997 og er varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vestfjörðum. Ólöf á tvær dætur og er í sambúð með Gísla Má Gíslasyni, prófessor í líffræði og forseta Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir fæddist á Núpi í Dýrafirði 21. september 1954. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1976 og prófi í arkitektúr frá arkitektaskólanum í Árósum 1983. Auk þess lauk hún prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands 1991. Ólöf hefur unnið sem arkitekt, bæði sem launþegi og með eigin rekstur. Hún hefur tekið þátt í félagsmálum, sat í stjórn Arkitektafélags Íslands og var framkvæmdastjóri þess frá 1995 til 1. sept. sl. og var hún kjörin formaður félagsins á aðalfundi þess í nóvember sl. Ólöf var skipuð formaður Náttúruverndarráðs af Guðmundi Bjarnasyni umhverfisráðherra á Náttúruverndarþingi 1997 og er varaþingmaður Framsóknarflokksins á Vestfjörðum. Ólöf á tvær dætur og er í sambúð með Gísla Má Gíslasyni, prófessor í líffræði og forseta Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Náttúruverndarþing verður haldið á Hótel Loftleiðum og er það umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, sem boðar til þingsins. Þar verður fjallað um fjögur meginþemu; vistkerfi og gróðurvinjar á hálendinu, mat á verndar- og verðgildi náttúrunnar, hvað felst í mati á umhverfisáhrifum og loks verður rætt um hlutverk Náttúruverndarráðs og frjálsra félagasamtaka. Þingið stendur í tvo daga og hefst á morgun klukkan 9.30. Seinni daginn verður yfirlitserindi um stöðu náttúruverndar, niðurstöður umræðuhópa kynntar og tilkynnt um kjör í nýtt Náttúruverndaráð. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir er formaður Náttúruverndarráðs.

"Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal umhverfisráðherra boða til náttúruverndarþings að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar. Þessi þingboðun er í samræmi við þessi lög. Þetta er tíunda náttúruverndarþingið sem haldið er. Náttúruverndarþing er vettvangur til að fjalla um náttúruverndarmál og eiga þar sæti Náttúruverndarráð, fulltrúar náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, náttúruverndar- og útivistarsamtaka, og annarra aðila sem vinna að náttúruvernd, svo og forstjóra á sviði náttúrufræða."

-Er óvenjulega mikið á dagskrá þingsins að þessu sinni?

"Dagskrá þingsins er að vissu leyti hefðbundin, en umræða um náttúruverndarmál hefur verið óvenjulega mikil undanfarin ár og náttúruverndarmál gegna sífellt veigameira hlutverki í samfélaginu. Þetta var því meira spurning um að velja um hvað ætti að fjalla því viðfangsefnin eru næg."

-Hvert er veigamesta viðfangsefnið á þinginu að þínu mati?

"Öll málefnin eru mikilvæg, vistkerfi og gróðurvinjar á hálendinu og upplýsingar um það efni, mat á verndargildi náttúrunnar er einnig geysilega mikilvægt og fremur nýtt í umræðunni, í þriðja lagi er athyglisvert erindi Ragnars Árnasonar um mat á verðgildi náttúrunnar þar sem kynntar eru aðferðir til að leggja slíkt mat á náttúruna. Þá vil ég nefna erindi um hvað felst í mati á umhverfisáhrifum þar sem ég vænti þess að fram komi ný og athyglisverð sjónarhorn sem nýst gætu."

-Hvað viltu segja um hlutverk Náttúruverndarráðs - hefur það breyst í takt við aukna umræðu um náttúruverndarmál?

"Hlutverk Náttúruverndarráðs breyttist með lögum um náttúruvernd frá 1996, þar sem Náttúruvernd ríkisins tók við hlutverki ráðsins en Náttúruverndarráð varð ráðgjafarráð fyrir umhverfisráðherra og Náttúruvernd ríkisins um náttúruverndarmál. Aftur á móti hefur mismunandi skilningur verið af hálfu umhverfisráðherra og Náttúruverndarráðs á því hvernig þessu ráðgjafarhlutverki er háttað."

-Hvernig eru þau mismunandi sjónarmið?

"Ég hefði talið eðlilegt að þetta ráðgjafarráð sem skipað er níu sérfræðingum á sviði umhverfismála ætti að virka sem afgerandi ráðgjafarráð fyrir umhverfisráðherra en ráðgjafarhlutverk gagnvart ráðuneytinu hefur að mestu falist í umsögnum um friðlýsingarmál og reglugerðir."

-Hefur hlutverk Náttúruverndarráðs ekki verið í sérstökum brennidepli vegna Eyjabakkamálsins að undanförnu?

-Allt frá árslokum 1997 höfum við ítrekað lagt til við stjórnvöld að Fljótdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum, bæði við ríkisstjórn, Alþingi og umhverfisnefnd Alþingis en það hefur verið fátt um svör. Af þessum sökum m.a. hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs sem formaður Náttúruverndarráðs, enda ekki verið leitað eftir því. Ég tel tíma mínum betur varið til umhverfismála á öðrum vettvangi."

-Áttu von á fjörugum umræðum um vistfræði hálendisins og friðlýsingarmál á Náttúruverndarþingi núna?

"Ég á von á miklum og góðum umræðum um náttúruverndarmál almennt. Þetta er jú vettvangur náttúruverndarfólks til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og álykta um náttúruverndarmál og aldrei hefur verið meiri ástæða til málefnalegrar umræðu um náttúruvernd en einmitt núna."