VILTU vita allt um galdra, töfrabrögð og sjónhverfingar? Viltu verða töframaður og slá um þig með spilagöldrum í veislum og meðal starfsfélaganna?
VILTU vita allt um galdra, töfrabrögð og sjónhverfingar? Viltu verða töframaður og slá um þig með spilagöldrum í veislum og meðal starfsfélaganna? Þá ættirðu að nota Netið þér til framdráttar og kynna þér það fjölbreytta úrval af vefsíðum sem lúta að þessum málaflokki.

Með því að ferðast um Netið undir leitarorðunum "magic+tricks" opnast fyrir manni nýr heimur töfra og sjónhverfinga og í ljós koma spjallrásir, heimasíðuhringir, póstlistar, tímarit helguð töfrabrögðum og margt annað sem kemur upp um þann fjölda einstaklinga um heim allan sem lifir og hrærist í heimi töfra, galdra og sjónhverfinga. Ungir sem aldnir töframenn hafa sínar eigin heimasíður sem gaman er að heimsækja og er í því sambandi nauðsynlegt að benda á þann besta og mesta í dag, sjálfan David Copperfield, en opinber heimasíða hans er á slóðinni http://www.dcopperfield.com/. Hún er auðvitað töfrandi - eins og honum einum er lagið.

Fyrir þá sem áhuga hafa á að læra einfalda jafnt sem flókna spilagaldra er úr mörgum skemmtilegum síðum að velja, en hér skal bent á http://www.web.superb.net/cardtric/tricks.htm og http://www.geocities.com/TimesSquare/4608/ sem eru uppfullar af alvöru göldrum með spil og smápeninga sem auðvelt og fljótlegt er að læra. Þar er hægt að finna spilagaldra fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna og einnig galdra þar sem aðrir hlutir eru notaðir til að koma spenntum áhorfendum á óvart. Einnig er síðan http://www.teleport.com/~jrolsen/ feykilega skemmtileg, en á henni er að finna minnisgaldra af ýmsum toga og kemur Simpson-fjölskyldan þar meðal annars við sögu.

Fyrir þá sem vilja kynna sér sögu töfrabragða er síðan http://www.uelectric.com/pasttimes/ tilvalin, en þar er farið yfir feril fremstu sjónhverfingasnillinga og töframanna sögunnar og er Houdini, meistarinn sjálfur, meðal þeirra. Einnig er hægt að skoða á Netinu margar síður sem sérstaklega eru tileinkaðar honum og hans brögðum, en hann var uppi um síðustu aldamót og hefur enginn töframaður enn komið fram á sjónarsviðið sem kemst með tærnar þar sem hann hafði hælana hvað dulúð varðar. Voru það galdrar eða voru brögð í tafli? Þú gætir komist að því! Á pasttimes-síðunni er einnig hægt að kíkja í töfrakassa gömlu meistaranna og sjá hvaða hjálpartæki þeir studdust við á sínum tíma. Auðvitað er reynt að giska á leyndarmálin að baki töfrabrögðunum sem mörg hver eru þó enn í dag óleyst ráðgáta.

Síðan http://www.qtm.net/~geibdan/magician/links.html er góður upphafspunktur í ferðalagi um heim töfranna á Netinu því á henni er listi yfir margar verulega fróðlegar síður töframanna, verslana með töfrabækur og fleira glimrandi gaman. Byrjaðu að vafra!