Guðrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 18. maí 1949. Hún lést á Landspítalanum 6. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Bústaðakirkju 14. janúar.

Desembermánuður kveður og enn einu sinni gengur nýtt ár í garð. Landið okkar skartar glitrandi snæfeldi en skyndilega verður ásýnd þess önnur, breiðurnar taka á sig dökkan lit sorgarinnar því að það hefur misst eina af sínum bestu dætrum; Guðrún Ólafsdóttir er látin. Er hægt að alhæfa og nota efsta stigið um eiginleika einnar manneskju? Vissulega þegar Guðrún á í hlut. Ef til vill líta menn það misjöfnum augum, hvað felst í orðinu "góður" en í mínum huga er enginn efi um túlkun þess orðs. Það var það sem Guðrún vinkona var fulltrúi fyrir. Hún var mannbætir. Hún hafði svo góða nærveru að við sem nutum þess að vera samferðamenn hennar um lengri eða skemmri tíma höfðum það einhvern veginn á tilfinningunni að við værum örlítið betri manneskjur en ella þegar Guðrún var nálæg þótt við ef til vill værum aðeins að tileinka okkur brot af góðum eiginleikum hennar. Leiftrandi gáfur hennar og atorka birtust ekki einungis í þeim fjölhæfu verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur hverju sinni, heldur einnig því sem er einna mikilsverðast; hæfni í mannlegum samskiptum. Einhvers staðar stendur: "Þú ert það sem þú hugsar að þú sért." Guðrún hafði ætíð lag á að laða fram það besta sem í hverjum bjó og auka þar með sjálfsstyrk þeirra. Sjálf geislaði hún af sjálfstrausti og þá á ég ekki við hroka því að það er langur vegur þar á milli. Þótt Guðrún bæri af öðrum hvað glæsileik snerti, væri rík að veraldlegum og andlegum gæðum hreykti hún sér aldrei yfir aðra. Hún var einfaldlega hún sjálf, full af lífsorku, gleði og mildi.

Við Guðrún kynntumst árið 1966 þegar hún var aðeins 17 ára að aldri og þrátt fyrir 12 ára aldursmun tókst með okkur náin vinátta. Um þetta leyti var heilsufar mitt ekki uppá það besta og reyndi ég þá hve stórt og gott hjarta hún hafði. Það var gott að geta leitað til hennar og hún var greiðvikin svo að af bar. Alltaf hafði hún tíma þrátt fyrir miklar annir í vinnu sinni og starfi að félagsmálum ýmiss konar, sem hún var á kafi í. Ég bar virðingu fyrir þessari ungu vinkonu minni sem var leiðtogi hvar sem hún fór. Oft var vinnudagur hennar langur og kappið var mikið og hún hlífði sér í engu. Margar góðar stundir áttum við saman, sem gott er að muna og ég þakka af alhug nú er leiðir skilja um sinn. Kær kona er kvödd. Listakonan Guðrún sem kunni þá kúnst að lifa lífinu lifandi er gengin. Þótt þeir sem hana þekktu standi hnípnir eftir getum við öll verið þakklát fyrir að hún var ein þeirra sem fært hafa samfélagið til meiri mannúðar. Landið okkar kveður hana því með þökk og virðingu.

Eftirlifandi eiginmanni hennar, Elíasi Gíslasyni, syninum Ólafi og móður hennar Lillý og öðrum vandamönnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um einstæða heiðurskonu ylji þeim á dimmum dögum.

Sigríður Benediktsdóttir.