' Það var dálítil tilbreyting, þegar Apa, kona Tapartés, ól barn, því ýmislegt sögulegt gerðist í sambandi við það, enda þótt sjálf fæðingin gengi vel. Við sátum inni í tjaldi hennar, er hún fékk allt í einu jóðsóttina.
' Það var dálítil tilbreyting, þegar Apa, kona Tapartés, ól barn, því ýmislegt sögulegt gerðist í sambandi við það, enda þótt sjálf fæðingin gengi vel. Við sátum inni í tjaldi hennar, er hún fékk allt í einu jóðsóttina. Hún sótti tvo kassa og lagðist á hnén á milli þeirra. Síðan gróf hún holu í mölina, en meira sá ég ekki. Litlu síðar var allt um garð gengið, og það var allt og sumt, sem við vissum. Eiginmaðurinn var í veiðiför, og lítil telpa, sem þau áttu, hafði farið upp í fjall að tína blóm. Hún vissi ekki, að hún hafði eignazt bróður, fyrr en hún kom heim og gekk inn í tjaldið. Svo illa vildi til, að móðurinni hafði ekki unnizt tími til þess að skera sundur naflastrenginn, og enginn mátti mæla orð frá vörum, fyrr en það hafði verið gert. Telpan fór samt að masa og braut þannig strangasta forboð þessara Eskimóa. Refsingin lét ekki á sér standa. Drengurinn nýfæddi blygðaðist sín svo, að hann saug inn í sig kynfæri og breyttist í stúlku.

Þegar Taparté kom heim, sagði Apa honum, að þetta væri ekki sín sök. Hún hafði alið dreng, en hann hefði orðið að telpu, þegar dóttirin kom inn og fór að tala.