Magnús Ingimarsson, hljómlistarmaður og prentsmiður, fæddist á Akureyri 1. maí 1933. Hann lést á heimili sínu 21. mars síðastliðinn og fór útför hans fram frá Langholtskirkju 31. mars.

Farinn er í ferðina löngu, vinur minn, kollegi og bróðir, Magnús Ingimarsson. Ég vissi vel að hverju stefndi og ætti sjálfsagt að vera feginn að stríðinu er lokið, en það er alltaf jafn sárt þegar að kveðjustundinni kemur.

Leiðir okkar Magnúsar lágu fyrst saman þegar mér bauðst starf í hljómsveit Svavars Gests árið 1963. Svavar var hljómsveitarstjórinn en það kom fljótt í ljós að Magnús var heilinn á bak við allt sem laut að tónlistinni. Hjá honum lærði ég það litla sem ég kann í nótnalestri og bý að því enn og hjá honum lærði ég að meta rétta blöndun mannlegra radda og hljóðfæra, en Magnús var snillingur í að útsetja, bæði fyrir hljóðfæri og fólk.

Síðast en ekki síst fann ég hjá Magnúsi mannlega þáttinn í samstarfinu en Svavar leit gjarnan á hljómsveit sína sem atvinnutæki.

Þetta samstarf okkar Magnúsar í hljómsveit Svavars hélst til seinnihluta ársins 1964, en hófst svo aftur þegar Magnús tók að sér stjórn Lögreglukórsins í Reykjavík. Þar áttum við gifturíkt samstarf í nokkur ár.

Og síðan í þriðja sinn áttum við Magnús samstarf eftir að við hittumst sem bræður í Frímúrarareglunni. Samstarf sem hélst, þar til yfir lauk.

Á þessum tíma giftist Magnús eftirlifandi konu sinni, Ingibjörgu Björnsdóttur, og varð okkur hjónunum það ógleymanlegt að fá að samgleðjast með þeim í tilefni dagsins. Var þá tekið lagið eins og svo oft áður.

Magnús Ingimarsson hefur sett óafmáanlegt mark sitt á íslenska tónlist með útsetningum sínum og tónlistarflutningi, samanber útsetningar á plötum Fjórtán fóstbræðra, útsetningar og hljóðfæraleik á plðtum hljómsveitar Svavars Gests, útsetningar og hljóðfæraleik með sinni eigin hljómsveit, hljómlistarflutning í útvarpi og sjónvarpi og svo mætti lengi telja.

Þar sem við hjónin erum erlendis, viljum með þessum fáu orðum minnast Magnúsar, fyrst og fremst sem tónlistarmanns og góðs vinar sem við söknum sárt.

Elsku Inga mín, börn og tengdabörn. Ykkur sendum við innilegar samúðarkveðjur og biðjum hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar að gæta ykkar og vernda.

Erla og Bertram Möller.

Kveðja frá Söngskólanum í Reykjavík.

Magnús Ingimarsson píanóleikari réðst til starfa við Söngskólann í Reykjavík fyrir sex árum síðan. Hann var þá þegar þjóðkunnur tónlistarmaður, píanóleikari, hljómsveitarstjóri og útsetjari "par excellance," Magnús hafði ekki starfað sem kennari fyrr, þótt hann hafi í starfi sínu með kórum og hljómsveitum til margra ára kennt og miðlað af tónlistarþekkingu og kunnáttu sem var einstök. Hann féll strax inn í starfsumhverfið og starfsandann í Söngskólanum. Kraftar hans nýttust til fulls, allt frá yngstu nemendunum í unglingadeildinni upp í óperudeild skólans, þar sem hann vann með þeim sem lengst eru á veg komnir í söng- og tónlistarnámi sínu. Það vafðist aldrei fyrir honum að aðlaga hvert sönglag rödd flytjandans, færa það milli tóntegunda, eða útsetja svo betur færi.

Ósérhlífni hans og örlæti á kennslutíma var einstök. Undanfarið ár innti hann starf sitt af hendi meira af vilja en mætti, og helsjúkur lék hann að lokum á hljóðfærið á jólatónleikum skólans, við söng nemenda sinna í unglingadeild. Slíkur var viljinn og þrautseigjan að bregðast þeim ekki.

Það voru síðustu hljómar hans hér innan skólans. Fáum dögum síðar greindist hann með ólæknandi sjúkdóm sem dró hann til dauða á örskömmum tíma.

Við í Söngskólanum minnumst Magnúsar og þökkum sérgáfu hans, störf og vináttu. Eftir lifa minningar um góðan félaga, og tónlistarmann sem skilur eftir sig merk spor. Tónsmíðar hans, hljómplötur með óteljandi flytjendum og útsetningar, hvort heldur fyrir kóra, einsöngvara, sveiflu eigin hljómsveita eða Sinfóníuhljómsveitar Íslands, eiga eftir að lifa og halda nafni hans á lofti löngu eftir að við erum öll.

Ingibjörgu og börnunum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. samstarfsmanna í Söngskólanum,

Garðar Cortes, skólastjóri.

Kynni okkar Magnúsar hófust fyrir tæpum fimmtíu árum. Á þeim árum var framtíðin óráðin eins og gengur.

Bjartsýni ungra manna var óheft og í frístundum tókum við fjórir félagar okkur til og æfðum söng heima hjá hver öðrum við gítarundirleik Magnúsar eða Ásgeirs Sigurðssonar en auk hans var Sigurður Sívertsen einn fjórmenninganna.

Í sjálfu sér var þetta ekkert stórvirki sem við fjórmenningar áorkuðu, en á unglingsárum okkar voru tveir leiðtogar, annars vegar Ásgeir og hins vegar Magnús.

Þetta kom m.a. fram í þeirri vinnu sem þeir félagar lögðu af mörkum við raddsetningar. Ásgeir var á þessum tíma í tónlistarskóla en Magnús var enn við nám í prentiðn. Þó tel ég að þær raddsetningar sem urðu til á þessum tíma hafi verið fyrstu verk Magnúsar á tónlistarsviðinu. Það sem gerði þessi ár svo skemmtileg var hugmyndaauðgin og hiklaus viðleitni til að prófa hvort hugmyndir gætu gengið, hvort þær væru í raun sönghæfar eða ekki. Ég held að þarna hafi Magnús mótað sína framtíð að því leyti að tónlistinni yrði hann að þjóna í framtíðinni. Sú varð og raunin sem landsmenn vita. Þó samskipti okkar Magnúsar hafa verið heldur stopul voru vináttuböndin sem urðu til á okkar yngri árum þess valdandi að í hvert skipti sem við hittumst vorum við alltaf í mjög góðu sambandi. Mér þótti því vænt um að fá skilaboð um að hafa samband við hann, sem ég og gerði. Ljóst var að Magnús var fárveikur orðinn og óvinnufær. Samt sem áður hafði hann ánægju af að rifja upp atriði frá liðnum árum.

Honum þótti vænt um að heyra sögu sem móðir hans sagði undirrituðum, Magnús lá lítill drengur í vöggu og var sungið í stofunni, einn falskur tónn truflaði greinilega drenginn í vöggunni og hafði þá viðstaddur prestur þau ummæli að þarna færi tónlistarmaður.

Af miklu æðruleysi tók Magnús örlögum sínum og naut hann aðdáunarlegrar umönnunar eiginkonu sinnar, Ingibjargar Björnsdóttur. Við hjónin þökkum Magnúsi samfylgdina og og sendum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Vilhjálmur B. Vilhjálmsson.

Erla og Bertram Möller.