MEÐ HELSTU spámönnum drum 'n bass tónlistar er Daniel Williamson sem tók sér nafnið LTJ Bukem eftir þáttunum Hawaii Five-O, sem eldri lesendur þekkja eflaust.

MEÐ HELSTU spámönnum drum 'n bass tónlistar er Daniel Williamson sem tók sér nafnið LTJ Bukem eftir þáttunum Hawaii Five-O, sem eldri lesendur þekkja eflaust. Bukem fékk hefðbundið tónlistaruppeldi, lærði á trompet, en lék einnig á trommur og píanó en með tímanum mjakaði hann sér út í danstónlistina.

LTJ Bukem var rekinn úr skóla sextán ára gamall og gaf það honum færi á að reyna fyrir sér sem plötusnúður í rave- og hardcore- danstónlist, en meðfram því var hann byrjaður að fást við eigin tónlist. Undir lok níunda áratugarins var Bukem farinn að senda frá sér lög sem féllu fáum í geð enda var tónlistin mýkri og fágaðri en það sem hæst bar á þeim tíma. Eftir því sem drum 'n bass, eða jungle, náði meiri hylli, meðal annars fyrir tilstilli manna eins og Goldies, vakti Bukem æ meiri athygli fyrir tónlist sína. Fyrsta lag hans sem vakti verulega athygli var Logical Progression sem kom út fyrir réttum tíu árum. Um líkt leyti fékk Bukem sig fullsaddan á því hversu litlu hann fékk ráðið um plötur sínar og stofnaði eigin útgáfu, Good Looking Records, sem hann hefur rekið síðan með góðum árangri, svo góðum reyndar að hann stofnaði aðra útgáfu, Looking Good Records, fyrir önnur tilbrigði við danstónlist og hefur gengið enn betur.

Þótt Bukem sé afkastamikill lagasmiður og bráðduglegur í hljóðverinu hefur hann ekki gert mikið af því að gefa út sólóskífur og fyrsta sólóplata hans kom út fyrir nokkrum dögum. Hann hefur þó sent frá sér grúa laga á safnskífum ýmiskonar, þeirra helsta Logical Progression sem er skyldueign öllum þeim sem áhuga hafa á danstónlist.

Fyrsta sólóskífa LTJ Bukems heitir Journey Inwards og spannar tvo geisladiska. Stemmningin er áþekk því sem hann hefur áður gert, fágað og mjúkt drum 'n bass, en hann leyfir sér líka sitthvað á skífunni og kryddar víða vel með fönki og hip-hop-stemmningum. Hann beitir einnig víða fyrir sig lifandi spilamennsku til að gæða skífuna sem mestu lífi og skila inn í hana óvissu og spennu.