18. apríl 2000 | Innlendar fréttir | 178 orð | 1 mynd

Andlát

NÍNA BJÖRK ÁRNADÓTTIR

NÍNA Björk Árnadóttir skáld lést á heimili sínu í Reykjavík síðastliðinn sunnudag, 58 ára að aldri. Nína var fædd að Þóreyjarnúpi í Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7.
NÍNA Björk Árnadóttir skáld lést á heimili sínu í Reykjavík síðastliðinn sunnudag, 58 ára að aldri.

Nína var fædd að Þóreyjarnúpi í Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7. júní 1941 og voru foreldrar hennar hjónin Lára Hólmfreðsdóttir og Árni Sigurjónsson, en hann var systursonur Stefáns skálds frá Hvítadal. Fósturforeldrar hennar voru hjónin Ragnheiður Ólafsdóttur og Gísli Sæmundsson að Garðsstöðum við Ögur í Ísafjarðardjúpi.

Nína Björk gaf út fyrstu ljóðabók sína, Ung ljóð, árið 1965 sem vakti mikla athygli og var strax þýdd á dönsku. Síðan sendi hún frá sér ljóðabækur, tvær skáldsögur og fjölmörg leikrit sem voru sýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur, í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar, Nemendaleikhúsinu og víðar. Leikrit hennar voru einnig flutt í sjónvarpi hérlendis og á Norðurlöndunum. Þá flutti hún marga útvarpsþætti um norrænar skáldkonur.

Ljóð Nínu Bjarkar voru þýdd á fjölmörg tungumál, m.a. þýsku, spænsku, pólsku, rússnesku, nokkur indversk mál auk Norðurlandamála og margra fleiri. Hún fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og hún var borgarlistamaður í Reykjavík árið 1985.

Eiginmaður Nínu Bjarkar var Bragi Kristjónsson bókakaupmaður og eignuðust þau þrjá syni og áttu orðið eitt barnabarn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.