Þjálfarinn og fyrirliðinn: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, fyrirliði ÍS og Zdravko Demirev þjálfari fagna þriðja titlinum í ár.
Þjálfarinn og fyrirliðinn: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, fyrirliði ÍS og Zdravko Demirev þjálfari fagna þriðja titlinum í ár.
ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta varð um helgina bikarmeistari í blaki, lagði Þrótt í Reykjavík 3:1 í úrslitaleik þar sem þeir lentu ekki í teljandi vandræðum. Stúdentar urðu því bæði Íslands- og bikarmeistarar í vetur.
Sigur stúdenta á Þrótti var sanngjarn, ÍS lék betur að flestu leyti, móttakan var betri, sóknin þar af leiðandi beittari og þar á bæ náðu menn oft að verjast vel niðri við gólf, nokkuð sem Þróttarar létu ógert að þessu sinni.

Allt var í járnum í fyrstu hrinunni, liðin skiptust á um eins til tveggja stiga forystu en ÍS var sterkara á lokakaflanum og sigraði 25:23. Þrátt fyrir lítinn mun í tölum var ÍS miklu sterkara lið og það sem helst skildi á milli liðanna í þessari hrinu var einn fjölmargra útlendinga í liði ÍS, Búlgarinn Galin A. Raditchtov, sem skellti gríðarlega vel og réðu Þróttarar ekkert við hann. Hann stýrir skellum sínum af slíkri snilld að unun er á að horfa. Martin bróðir hans er uppspilari í ÍS og átti ekki í vandræðum með að leika upp á bróður sinn.

Byrjunarlið félaganna voru hin sömu í næstu hrinu og raunar í upphafi allra fjögurra hrinanna. Það er skemmst frá því að segja að Þróttarar voru úti á þekju í hrinunni og móttakan, sem hafði verið frekar slæm í fyrstu hrinu, var nú alveg hræðileg. Því fylgir venjulega að uppspilið verður ekki eins og best er á kosið og sóknin því máttminni en efni standa til. Stúdentar voru ekki í nokkrum vandræðum að þessu sinni, uppgjafir þeirra voru góðar, mótherjinn tók illa á móti og sókn þeirra var léleg þannig að háskólaliðið þurfti sjaldnast nema eina sókn til að krækja í stig. Lokatölur í þessari hrinu voru 25:18.

Þróttur sigraði 25:20 í næstu hrinu og frestaði því eigin aftöku um nokkrar mínútur. Það gekk þó ekki átakalaust því eftir að stúdentar höfðu byrjað að fagna fullfljótt vöknuðu þeir upp við það að Þróttur var kominn 17:10 yfir. Þá var allt sett á fullt og hávörnin gerð svo til óvinnandi, en það var of seint og Þróttur vann.

Fjórða hrinan var ekki ólík þeirri fyrstu, allt í járnum þar til staðan var 9:8 fyrir Þrótt. Þá kom kafli þar sem stúdentar fengu fimm stig í röð á silfurfati þar sem móttaka Þróttar var eins og hjá byrjendum. Í kjölfarið fylgdi góður kafli Þróttar þar sem hávörnin var eins og hún hafði verið hjá ÍS í leiknum, mjög góð. Þegar staðan var 14:14 kom smákafli þar sem bæði lið sýndu góða takta og baráttan var mikil þar til staðan var 23:23, en þá fékk ÍS síðustu tvö stigin og fagnaði sigri.

Leikurinn var ekki skemmtilegur, nema síðari hluti síðustu hrinunnar þar sem jafnræði var með liðunum og bæði léku vel. Áðurnefndur Galin var yfirburðamaður á vellinum, gríðarlega sterkur og skipti þá litlu máli hvort hann skellti við netið eða aftan sóknarlínu. Hann ræður yfir mikilli tækni og ef einhverjir Þróttarar náðu að fara í hávörn náði hann oftast að stýra skellum sínum framhjá henni.

Martin uppspilari átti einnig góðan dag enda fékk hann gott framspil frá félögum sínum. Hjá Þrótti áttu nokkrir leikmenn ágæta kafla en það var of sjaldgæft að tveir eða fleiri næðu slíkum kafla á sama tíma.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar