Rakel Sigurðardóttir, Hörður Birgisson og Hildigunnur Ægisdóttir, nemendur í tölvunarfræðideild HR, www.ru.is, hafa búið til rúllettu fyrir Netið og WAP-síma.
Rakel Sigurðardóttir, Hörður Birgisson og Hildigunnur Ægisdóttir, nemendur í tölvunarfræðideild HR, www.ru.is, hafa búið til rúllettu fyrir Netið og WAP-síma.
Þrír nemendur í kerfisfræði við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hafa búið til hugbúnað, SpinIt, sem er notaður til þess að starfrækja fjölnota spilavíti fyrir Netið og WAP-síma í lokaverkefni í kerfisfræði. Gísli Þorsteinsson kynnti sér spilavíti Rakelar Sigurðardóttur, Hildigunnar Ægisdóttur og Harðar Birgissonar.
Nemendur við HR, www.ru.is, lögðu af stað með að kynna sér kosti og galla þess að búa til spilavíti fyrir Netið, stafrænt sjónvarp og lófatölvu og WAP-síma. Þau unnu verkefnið fyrir Betware, www.betware.com, íslenskt fyrirtæki, sem meðal annars framleiðir peningagetraunaleiki fyrir Netið. Hörður segir að markmið verkefnisins hafi verið að byggja kerfið ofan á Betware Gaming Platform eða BGP-kerfið sem þróað er af Betware og er þjónusta sem að leikir eru byggðir ofan á.

BGP sér um alla bakendaþjónustu fyrir leiki sem hannaðir eru hjá fyrirtækinu. "Þegar farið var að greina verkefnið frekar kom í ljós að jaðartækin, eins og lófatölva og WAP-sími buðu á mun takmarkaðri notkunarmöguleika en við höfðum gert okkur í hugarlund í fyrstu. Þá óskuðu samstarfsaðilar okkar hjá Betware eftir því að leikurinn yrði útfærður með fjölnotandaútfærslu fyrir Netið í huga," segir Hörður.

Fengu 10 í einkunn fyrir verkefnið

Það varð úr að leikurinn var hannaður sem fjölnotaleikur á Netinu og fyrir WAP-síma Spilavítið, sem er í raun rúlletta, er bæði útfærð á Netinu og í WAP. Allt notendaviðmót er á ensku þar sem kerfið verður jafnvel notað til kynningar á BGP-kerfinu á erlendri grund. Hörður segir að viðmót leiksins sé með ágætum á Netinu en einungis sé hægt að birta stakar myndir á skjánum í WAP-síma.

Þrátt fyrir að SpinIt verði fyrst og fremst notað fyrir kynningarefni fyrir Betware segir Hörður að það verði að koma í ljós hvort það verði á einhvern hátt þróað frekar.

Verkefnavinnan tók fjóra mánuði og fengu Hildigunnur, Rakel og Hörður 10 í einkunn fyrir verkefnið. "Við erum himinlifandi með þessa einkunn, sem kom á óvart. Við erum búin að leggja nótt við nýtan dag við vinnu við verkefnið í fjóra mánuði, Það er mikil skýrsluvinna í kringum verkefnið sem þarf að skila til kennara og kerfið sjálft er aðeins hluti af þeirri vinnu sem við höfum innt af hendi," segir Hörður sem hefur ásamt Rakel hafið störf hjá Betware. Hildigunnur fer hins vegar að vinna hjá EJS.

www.betware.com