Frá Hálslóni eiga að liggja um 40 km löng jarðgöng sem flytja vatnið til stöðvarhússins undir Teigsbjargi. Lega ganganna er merkt inn á myndina.
Frá Hálslóni eiga að liggja um 40 km löng jarðgöng sem flytja vatnið til stöðvarhússins undir Teigsbjargi. Lega ganganna er merkt inn á myndina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gert er ráð fyrir að afl Kárahnjúkavirkjunar geti orðið allt að 750 MW með allt að 2.200 Gl miðlun. Virkjunin verður byggð í áföngum og er áætlað að afl hennar í fyrsta áfanga verði allt að 500 MW.

Gert er ráð fyrir að afl Kárahnjúkavirkjunar geti orðið allt að 750 MW með allt að 2.200 Gl miðlun. Virkjunin verður byggð í áföngum og er áætlað að afl hennar í fyrsta áfanga verði allt að 500 MW. Til samanburðar má geta þess að stærsta orkuver landsins, Búrfellsvirkjun, framleiðir 270 MW.

Kárahnjúkavirkjun mun hafa víðtæk umhverfisáhrif allt frá Vatnajökli og til sjávar í Héraðsflóa. Áhrifasvæðið er yfir 2.000 km{+2} og nær til fjögurra sveitarfélaga, Austur-Héraðs, Fellahrepps, Fljótsdalshrepps og Norður-Héraðs. Áhrifin verða væntanlega mest efst og neðst á vatnasviðum ánna, það er á hálendinu og við strönd Héraðsflóa.

Vatn til Kárahnjúkavirkjunar mun koma frá Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal. Jökulsá á Dal verður stífluð við Fremri-Kárahnjúk og myndað svonefnt Hálslón. Frá lóninu verður vatninu veitt um 40 km löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsinu sem verður neðanjarðar undir Teigsbjargi við mynni Norðurdals í Fljótsdal.

Jökulsá í Fljótsdal verður stífluð skammt neðan við Eyjabakkafoss og vatni úr henni veitt um jarðgöng inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar. Einnig verður vatni af Hraunum veitt til Jökulsár í Fljótsdal með svonefndri Hraunaveitu. Þá á að veita vatni af svæðinu norðan Snæfells inn í aðrennslisgöngin líkt og vatni úr Gilsárdrögum á Fljótsdalsheiði.

Lón samtals um 80 km{+2}

Hálslón verður myndað með þremur stíflugörðum við Fremri Kárahnjúk. Syðst í Hafrahvammagljúfrum verður Kárahnjúkastífla, 185 til 190 metra há og 760 til 780 metra löng. Áætlað er að allt að níu milljónir rúmmetra af fyllingarefni þurfi í stífluna. Austurstífla í Desjarárdalsdrögum verður 50-55 metra há og 850-900 metra löng. Sauðárdalsstífla, á mörkum Sauðár- og Laugavalladals, verður 30-35 metra há og 1.000 til 1.200 metra löng. Áætlað er að í þessar tvær stíflur þurfi allt að fjórar milljónir rúmmetra af fyllingarefni. Efnið í stíflurnar á að koma að mestu úr efnisnámum innan lónsstæðisins.

Hálslón verður um 20 km langt, mun ná suður í Brúarjökul og hafa allt að 60 km{+2} vatnsborð í hæstu stöðu. Í lægstu vatnsstöðu verðu lónið um 10 km{+2}. Samkvæmt matsskýrslu Náttúrufræðistofnunar er gert ráð fyrir að vatnsborðssveiflur í lóninu verði allt að 75 metrar. Lægst verður vatnsstaðan í júní en lónið mun fyllast í ágúst til september.

Aðrennslisgöngin frá Hálslóni að stöðvarhúsinu verða að mestu heilboruð, um 40 km löng og 7,2 metrar í þvermál. Fallgöngin að stöðvarhúsinu verða um 400 metra löng og fimm til sex metrar í þvermál. Við munna aðkomuganga þarf að koma fyrir 2,5 til 3 milljónum rúmmetra af bergmulningi. Ætlunin er að ganga þannig frá efnishaugum að þeir falli sem best inn í landslagið.

Auk Hálslóns er gert ráð fyrir að stífla tíu vatnsföll á fimmtán stöðum og mynda um tíu misstór lón, hið stærsta þeirra um átta km{+2} við Folavatn. Þessar veitur eru Hraunaveita, Jökulsárveita, Hafursárveita, Bessastaðaárveita og veita norðan Snæfells.

Hraunaveita nær austur að Hamarsá. Byggja þarf samtals um tólf km langar stíflur og veitugöng til að safna vatni úr Hamarsá, Sultarranaá, Fellsá, Ytri-Sauðá, Innri-Sauðá, Grjótá og Kelduá að lóni við Jökulsá í Fljótsdal.

Jökulsárveita verður við Hrakströnd, nokkru neðan við Eyjabakkafoss, og verður gerð með um eins km langri og 40 metra hárri stíflu í farvegi Jökulsár í Fljótsdal.

Vatni úr Jökulsárveitu verður veitt um ellefu km löng göng að tengingu við meginaðrennslisgöngin í Fljótsdalsheiði.

Með Hafursárveitu verður Hafursá veitt í Jökulsá í Fljótsdal. Bessastaðaárveita felst í því að stífla Bessastaðaá rétt neðan við Gilsárvötn og veita henni um vötnin og stuttan skurð að inntaki í aðrennslisgöng virkjunarinnar. Með veitu norðan Snæfells verður vatni úr Grjótá og Hölkná veitt til Laugarár með stíflum og skurðum. Frá Laugará verður vatninu veitt inn í veitugöng Jökulsárveitu milli Þrælaháls og Sauðafells.

Stöðvarhús virkjunarinnar verður neðanjarðar við mynni Norðurdals í Fljótsdal. Að húsinu munu liggja 650-700 metra löng aðkomugöng. Gert er ráð fyrir 1,2 til 1,3 km löngum frárennslisgöngum út úr fjallshlíðinni og 1 til 1,2 km löngum frárennslisskurði út í farveg Jökulsár í Fljótsdal.

Fleiri kostir athugaðir

Athugaðir verða tveir aðrir kostir til samanburðar við þá tilhögun sem hér hefur verið lýst. Þeir fela í sér að Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal verði virkjaðar hvor í sínu lagi. Orkugeta allra þessara kosta verður sambærileg.

Útfærsla, sem nefnist tilhögun 2 í tillögu LV að matsáætlun, felst í gerð Kárahnjúkavirkjunar, án veitu frá Jökulsá í Fljótsdal, og Fljótsdalsvirkjun með Eyjabakkamiðlun og Hraunaveitu.

Það sem kallast tilhögun 3 felst í að Jökulsá á Dal verði virkjuð á fjórum stöðum í eigin farvegi. Efst verði Hafrahvammavirkjun, þá Grundarvirkjun, svo Arnórsstaðavirkjun og neðst Hrólfsstaðavirkjun. Jafnframt verði Jökulsá í Fljótsdal virkjuð eins og lýst er í tilhögun 2. Loks er svonefndur núllkostur sem felst í því að ekki verði virkjað við Kárahnjúka.

Friðlýst svæði undir vatn

Verði virkjað eftir þeim hugmyndum sem nú eru á teikniborðinu verða breytingar á verndarsvæðum, ekki síst á Eyjabakkasvæðinu. Stækkun Hálslóns er á kostnað friðlýstra svæða, meðal annars í Kringilsárrana. Þá munu veitur úr Fljótsdal, Gilsárvötnum/Bessastaðaá, af Hraunum og vegagerð tengd þeim hafa áhrif á flokkinn almenn verndarsvæði.

Í matsskýrslu Náttúrufræðistofnunar kemur m.a. fram að stór hluti þess lands sem fari undir Hálslón sé á náttúruminjaskrá. Áhrifasvæði lónsins, einkum vegna jarðvegsrofs og áfoks, geti orðið mun stærra en lónið sjálft.

Þá segir að undir Hálslón fari mjög fjölbreytt land: Árdalur Jöklu, með grunnu gljúfri milli leirhjalla undir grónum brekkum og melum ásamt neðsta hluta Kringilsár og Sauðár vestari. Einnig jarðhitasvæði í Lindum og við Sauðárfoss. Land þetta sé að stórum hluta vel gróið. Kringilsárrani og Háls á öræfum séu mikilvæg beitar- og burðarsvæði hreindýra og Kringilsárrani friðlýstur sem griðland þeirra. Lónið muni takmarka eða hindra samgang hreindýra milli Vesturöræfa og Kringilsárrana. Þá er heiðargæsavarp meðfram Jökulsá á þessu svæði.

Náttúrufræðistofnun bendir einnig á að stór hluti efsta fjöruborðs Hálslóns sé gróðurlendi með allþykkum jarðvegi. Hætt sé við að öldugangur á svo stóru lóni muni mynda strandþrep og opið sár í jarðvegsþekjuna við efstu vatnsstöðu. Jarðvegur næst rofinu þorni og verði því hætt við uppblæstri þegar hlýir og þurrir sunnanvindar standi af jökli. Þá er talið líklegt að setmyndun verði í lóninu og muni fínt efni þekja hluta þess. Við lága vatnsstöðu fyrri hluta sumars sé hætt við að þetta efni þorni og dreifist með vindum í þurrkatíð. Stærð hugsanlegs áfokssvæðis sé óþekkt og þar með þess svæðis sem kunni að breytast í kjölfarið.

Breytingar á ám

Neðan við stíflurnar verða breytingar á rennsli og eðli ánna. Rennsli Jökulsár á Dal mun minnka verulega og mun hún verða að bergvatnsá neðan stíflu, nema þegar lónið er fullt og vatn flæðir í yfirfall. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar er nefnt að verði heimilað að hafa undirfall til að hleypa umframvatni úr stíflunni verði útskolun á aur niður í farveg árinnar með tilheyrandi leirfoki. Minna vatnsmagn Jökulsár á Dal mun einnig valda því að í neðsta hluta árinnar, á aurum neðan Fossvalla, muni áin líklega grafa sig niður og hætt sé við að grunnvatnsstaða breytist og mýrlendi með ánni þorni þannig að í stað flæðilanda gætu myndast þurrir melar.

Rennsli mun minnka í Jökulsá í Fljótsdal, frá Eyjabökkum og niður að Valþjófsstað.

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar segir að á landsvæðinu sem á að leggja vatn til Hraunaveitu séu fossar áberandi landslagseinkenni enda lækki land þarna hratt úr 700 metra hæð yfir sjávarmáli í 20 metra yfir sjávarmáli á aðeins 20 km kafla. Með tilkomu Hraunaveitu muni farvegir verða þurrir mestan hluta ársins og margir fossar hverfa.

Neðan virkjunarinnar mun vatnsmagn aukast tvöfalt eða þrefalt í Jökulsá í Fljótsdal - Lagarfljóti. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar segir að vatnsborð í Lagarfljóti og grunnvatnsstaða gæti hækkað og votlendi aukist sums staðar meðfram fljótinu. Grugg muni aukast og ljóstillífun minnka í fljótinu vegna verri birtuskilyrða.

Fyrirhugað er að dýpka Lagarfljót utan Egilsstaða, taka nes og víkka þannig farveg fljótsins á nokkrum stöðum til að yfirborð þess hækki ekki.

Strandrof við Héraðsflóa

Jökulsárnar tvær, á Dal og í Fljótsdal, renna báðar í Héraðsflóa. Árnar hafa með framburði sínum myndað 100 til 200 km{+2} sanda sem að hluta til eru vel grónir. Náttúrufræðistofnun bendir á að umrætt svæði í Hróarstungu, Jökulsárhlíð og Hjaltastaðaþinghá sé nær allt á náttúruminjaskrá, einkum vegna auðugs votlendis, mikils fuglalífs og selalátra í Jökulsá á Dal við Húsey. Tilflutningur á vatni muni hafa áhrif á núverandi ósasvæði og strönd Héraðsflóa. Talið er að áhrifin verði einkum rof við ströndina vegna minni framburðar og gæti eitthvað af grónu landi horfið. M.a. er talin þörf á að kanna áhrif minni aurburðar og breytinga á streymi ferskvatns á lífríki sjávar í Héraðsflóa.

Vinsun við umhverfismat

Í tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun kemur fram að við mat á umhverfisáhrifum verði beitt svonefndri vinsun. Tilgangurinn með henni er að skilgreina helstu umhverfisþætti sem talið er að sérfræðingar og almenningur telji mikilvæga svo hægt verði að lýsa líklegum áhrifum hinna fyrirhuguðu framkvæmda. Helstu umhverfisáhrif sem hafa þarf í huga eru talin upp í tillögunni að matsáætlun. Þau eru:

Áhrif á jarðmyndanir, landslag

og víðerni (landslagsheildir).

Áhrif á gróður og dýralíf á

landi og í vatni.

Áhrif á rennslishætti vatns-

falla.

Jarðvegsrof og aurburður.

Sjónræn áhrif.

Áhrif á útivist og ferða-

mennsku.

Áhrif á sögulega og menning-

arlega mikilvæga staði.

Áhrif á búskap, bithaga og

aðra landnotkun.

Áhrif á loft og veðurfar.

Áhrif vegna titrings, hávaða

eða umferðar.

Hættur.

Samfélagsleg og þjóðfélagsleg

áhrif.

Í matsferlinum verður lagt mat á ofangreind umhverfisáhrif og lagðar til mótvægisaðgerðir og vöktunaráætlun.

Að mati Náttúrufræðistofnunar ber að leggja áherslu á að rannsaka þau svæði sem ætla má að verði fyrir mestum áhrifum af virkjuninni, þ.e. svæðum sem eyðileggjast eða breytast verulega. Einnig telur stofnunin nauðsynlegt að rannsaka vatnakerfi sem verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum af virkjuninni. Á það er bent að samfara framkvæmdum og í kjölfar þeirra muni mannaferðir aukast til mikilla muna á hálendi Austurlands sem valdi óhjákvæmilega meiri truflun á dýralífi.

Þegar er hafin vinna við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og er unnið eftir nýjum lögum sem sett voru fyrr á þessu ári. Stefnt er að því að ljúka matsskýrslunni í mars á næsta ári. Hægt er að lesa tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun og matsáætlun Náttúrufræðistofnunar í heild sinni á heimasíðunni www.karahnukar.is.