Benjamín H.J. Eiríksson fæddist í Hafnarfirði 19. október 1910. Hann lést á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 23. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Eiríkur Jónsson sjómaður, f. 1856, d. 1922, og kona hans, Sólveig Guðfinna Benjamínsdóttir, f. 1867, d. 1949. Benjamín var yngstur ellefu systkina sem öll eru látin.

Með Elviru Hertzsch, háskólanema í Moskvu, f. 1907 í Meissen, Þýskalandi, d. 14. mars 1943 í vinnubúðum í Karaganda, Kazakhstan, átti Benjamín dótturina Sólveigu Erlu, f. 1937 í Moskvu; afdrif hennar eru ókunn.

Benjamín kvæntist hinn 25. desember 1942 Kristbjörgu Einarsdóttur, f. 13. desember 1914 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Hans Sigurðsson, klæðskeri, f. 4. nóvember 1882, d. 10. desember 1961, og Þórunn Jónsdóttir, f. 29. september 1888, d. 20. desember 1973.

Börn Kristbjargar og Benjamíns eru: 1) Þórunn, kennari, f. 1945, gift Magnúsi K. Sigurjónssyni; þeirra börn: Kristbjörg, f. 1969, gift Þorsteini Jóhannssyni, barn: Hrannar Páll, f. 1995; Árni, f. 1974, Sigríður, f. 1987. 2) Eiríkur, læknir, f. 1946, ókvæntur; dóttir hans: Árný Margrét, f. 1968. 3) Einar Haukur, framkvæmdastjóri, f. 1948, kvæntur Erlu M. Indriðadóttur; þeirra börn: Birgir, f. 1968, í sambúð með Sigrúnu Daníelsdóttur, barn: Silja Sóley, f. 2000; Bryndís, f. 1975, gift Erik Davidek; Bjarki, f. 1982. 4) Sólveig, læknir, f. 1952, gift Árna Páli Jóhannssyni; þeirra börn: Sigurður Páll, f. 1975, Þorkell Ólafur, f. 1983, Benjamín, f. 1985. 5) Guðbjörg Erla, ráðgjafi, f. 1958, gift Gunnari Á. Harðarsyni; þeirra börn: Sigríður Vala, f. 1980, Katrín, f. 1986, Sólveig María, f. 1998.

Benjamín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932, stundaði nám í Berlín, Stokkhólmi, Uppsölum og Moskvu 1932-1938 og lauk fil. kand.-prófi frá Stokkhólmsháskóla í hagfræði, tölfræði og slavneskum málum og bókmenntum 1938, lagði stund á MA-nám í hagfræði og stjórnmálafræði í Minneapolis í Bandaríkjunum 1942-1944 og tók doktorspróf í hagfræði við Harvard-háskóla 1946; leiðbeinandi hans var Joseph A. Schumpeter, prófessor.

Benjamín stundaði verkamannavinnu og sjómennsku á unglingsárum, var starfsmaður Landssambands íslenskra stéttarfélaga 1938-1939, túlkur hjá breska setuliðinu 1940, aðstoðarkennari við háskólann í Seattle meðfram námi 1943, starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington 1946-1951, en í leyfi þaðan 1949 er hann vann að álitsgerð um hagmál fyrir ríkisstjórn Íslands, ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum 1951-1953, bankastjóri Framkvæmdabankans 1953-1965 og samdi m.a. við erlendar fjármálastofnanir um lántökur til rafvirkjana, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju o.fl. framkvæmda. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. formaður bankamálanefndar 1951-1956, húsnæðismálanefndar 1954-1955, nefndar til endurskoðunar laga um Háskóla Íslands og nefndar um Skálholtssöfnun 1965.

Dr. Benjamín skrifaði fjölda greina um þjóðmál, auk ritgerða og bóka, bæði á ensku og íslensku, m.a. Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum (1938), Outline of an Economic Theory (1954), The Concept and Nature of Money (1962), Um Vatnsdælasögu (1964), Ég er (1983), Rit 1938-1965 (1990), Hér og nú (1991), Nýtt og gamalt (1998). Ævisaga hans, Benjamín H.J. Eiríksson í stormum sinna tíða, kom út árið 1996.

Útför Benjamíns fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku afi minn. Ég veit að við höfum ekki eytt miklum tíma saman undanfarið, þar sem ég bý nú erlendis. Þótt ég hafi nú eytt miklum tíma hérna, hinum megin við Atlantshafið í henni Ameríku, þar sem þú varst bæði við nám og störf og þið amma genguð í hjónaband, þá hef ég alltaf fundið fyrir mikilli umhyggju og væntumþykju frá þér. Ég man þegar ég var lítil, þá var alltaf svo spennandi að fara niður í bæ til ömmu og afa og fá kók að drekka. Ef að svo vildi til að kókkassinn frammi á gangi var tómur, gafst þú mér alltaf nokkrar krónur til þess að fara út í búð og kaupa kók - auðvitað kók í lítilli flösku. Ég lærði það af þér að kók í lítilli flösku bragðaðist miklu betur, heldur en kók í stærri flösku.

En það var fleira sem ég lærði af þér. Það varst þú, afi, sem kenndir mér að tefla þegar ég var fimm ára. Manstu? Við gátum teflt tímunum saman. Ég gæti haldið endalaust áfram að telja upp hluti sem ég lærði af þér. Takk, elsku afi minn.

Ég minnist þess líka með þakklæti að þið amma gátuð bæði verið í brúðkaupi okkar Eriks fyrir tveimur árum. Takk fyrir allt saman.

Ég mun ávallt vera stolt af þér og þínum verkum og stolt af því að vera sonardóttir þín.

Þín verður sárt saknað. Guð geymi þig.

Þín

Bryndís.

Daginn sem skólaganga mín hófst við Vesturbæjarskóla bauð afi mér til fyrsta af ótal hádegisverðum, enda stutt að fara frá Gamla-Stýrimannaskólanum. Stöku sinnum hafði ég með mér kunningja og voru þeir allir á einu máli um að þessi hárprúði afi væri sá magnaðasti sem þeir hefðu hitt.

Oftast fór ég þó einn. Með steikta rauðsprettu á diskinum og hádegisfréttir í bakgrunninum hlýddi ég á sögurnar hans afa frá fjarlægum stöðum og tímum. Amma kímdi og bætti mjólk í glösin. Með þessum sögum kenndi afi mér um lífið og tilveruna, eðli mannfólksins og fegurð lífsins. Að þeim mun ég búa alla tíð.

Herbergið hans afa var helgistaður í mínum augum, málverk og styttur af englum hvert sem litið var. Englar voru honum ekki ókunnir og núna er hann meðal þeirra.

Afi, minningarnar um þig eru það fallegasta sem ég á.

Árni Magnússon.

Benjamín Eiríksson sá ég fyrst og heyrði, þegar ég var í fyrsta bekk Menntaskólans í Reykjavík veturinn 1930-31. Hann var einn af elztu nemendum skólans og hélt á skólafundi hvassyrta ræðu um deilumál, sem varðaði skólann.

Á námsárum mínum erlendis las ég bók, sem hann gaf út 1938 og fjallaði um Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum. Hún var tímamótarit vegna þess að þar var fjallað af þekkingu og rökvísi um samtíma efnahagsmál.

Á fyrstu árum mínum á Alþingi gerðist hann um skeið ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og kynntist ég þá ítarlegri ritgerð, sem hann skrifaði ásamt Ólafi Björnssyni prófessor. En náið kynntist ég honum ekki fyrr en eftir að hann varð bankastjóri Framkvæmdabankans, en ég átti sæti í bankaráðinu. Samstarf okkar var náið og okkur varð vel til vina. Frá þessum árum er mér það m.a. minnisstætt, að Magnús Magnússon, prófessor í eðlisfræði, lýsti fyrir mér nauðsyn þess, að Háskólinn eignaðist tölvu, en engin tölva var þá til í landinu. Í tengslum við afmæli bankans kom ég þessari hugmynd á framfæri við Benjamín og beitti hann sér fyrir því við bankaráðið að bankinn færði Háskólanum vandaða tölvu. Má því með sanni segja, að Magnús Magnússon og Benjamín Eiríksson hafi lagt grundvöll að tölvuvæðingu landsins.

Á tímamótum í ævi Benjamíns urðu umræður um starf hans. Um málið fjölluðu annars vegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og ég, sem var varaformaður bankaráðsins í fjarveru Jóhanns Hafstein, formanns þess, og hins vegar auðvitað bankastjórinn sjálfur. Skoðanir okkar Bjarna urðu ofan á. En á þessari stundu er það mér einlæg og einstök ánægja að minnast þess, að síðustu orðin, sem fóru á milli okkar í fyrra, voru viðræður milli gamalla og góðra vina og náinna samstarfsmanna um langt skeið.

Benjamíns H.J. Eiríkssonar verður ávallt minnzt sem eins merkasta hagfræðings, sem Íslendingar hafa eignazt.

Gylfi Þ. Gíslason.

Rétt fyrir nónbil hinn fyrsta desember 1918 safnaðist hópur manna saman fyrir framan gamalt, hvítmálað steinhús í miðbæ Reykjavíkur sem reist hafði verið fyrir fanga öldinni áður en var nú orðið skrifstofuhús landstjórnarinnar. Þetta var heldur hnípinn hópur, því að mannskæð farsótt hafði skömmu áður herjað á bæinn. Kalt var í veðri og dagur stuttur.

Nokkrir danskir sjóliðar af herskipi í höfninni stóðu heiðursvörð fyrir framan húsið en einn ráðherranna í þriggja manna ríkisstjórn Íslands flutti stutta ræðu. Forsætisráðherrann sjálfur var í Danmörku. Uppi í Bakarabrekkunni stóð átta ára drengur og fylgdist af athygli með þessari látlausu athöfn. Nú var draumur Jóns Sigurðssonar og annarra forystumanna sjálfstæðisbaráttunnar að rætast, til var að verða fullvalda íslenskt ríki.

Þessi ungi áhorfandi átti eftir að verða einn þeirra sem mótuðu þetta ríki svo að um munaði. Hann var dr. Benjamín H. J. Eiríksson hagfræðingur sem féll frá 23. júlí síðastliðinn í hárri elli.

Benjamín Hafsteinn Jón Eiríksson fæddist í Hafnarfirði 19. október 1910, sonur hjónanna Eiríks Jónssonar sjómanns og Sólveigar Benjamínsdóttur.

Faðir hans drukknaði ásamt einum bróður hans þegar Benjamín var aðeins sex ára. Þurfti móðir hans að sjá á eftir tveimur öðrum sonum í sjóinn. Í Hafnarfirði ólst Benjamín upp við þröngan kost hjá móður sinni og systkinum. Snemma kom í ljós, að hann var mjög góðum gáfum gæddur og hóf hann nám í Menntaskólanum á Akureyri þar sem hann sótti leshring hjá Einari Olgeirssyni og gerðist kommúnisti. Hann lauk hins vegar stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1932 með hárri einkunn og hlaut vænan styrk til háskólanáms. Haustið 1932 hélt hann í hagfræðinám til Þýskalands. Þar var þá mjög ófriðlegt eftir óðaverðbólgu næsta áratuginn á undan og hið feikilega atvinnuleysi sem fylgdi heimskreppunni.

Vopnaðar sveitir nasista og kommúnista börðust á götum úti. Hinn 30. janúar 1933 varð Benjamín vitni að valdatöku Hitlers. Hann var í áhorfendaskaranum fyrir framan kanslarahöllina þegar stormsveitarmenn þrömmuðu fram hjá með blys í hendi, sungu baráttusöngva og hylltu foringja sinn sem stóð á svölum hallarinnar. Mánuði síðar sá hann ríkisþinghúsið brenna til kaldra kola en eftir að stormsveitarmenn skutu á stúdentafund sósíalista, sem Benjamín sótti, ákvað hann að flytja sig um set, fyrst til Kílar, síðan Stokkhólms. Útvegaði Brynjólfur Bjarnason, formaður íslenska kommúnistaflokksins, honum líka skólavist í Moskvu, þar sem hann dvaldi hálft annað ár, 1935-1936. Þar varð Benjamín vitni að því hvernig Jósep Stalín herti smám saman tökin á þjóðlífinu. Hinn 1. maí 1936 sá Benjamín Stalín augliti til auglitis, þar sem hann veifaði mannfjölda á Rauða torginu af svölum á grafhýsi Leníns. Er Benjamín líklega eini Íslendingurinn sem sá þá Stalín og Hitler báða.

Í Moskvu kynntist Benjamín ungri þýskri stúlku sem hét Vera (Elwira) Hertzsch. Tókust með þeim ástir og var Vera þunguð af völdum Benjamíns þegar hann fór frá Moskvu í árslok 1936 til að ljúka hagfræðinámi sínu í Stokkhólmi. Þeim fæddist dóttir í mars 1937 sem skírð var Sólveig Erla. Nú var stjórn Stalíns orðin hrein ógnarstjórn sem tortryggði alla útlendinga, jafnvel þótt þeir væru sannfærðir kommúnistar. Eitt vorkvöldið árið 1938 knúði öryggislögregla Stalíns dyra hjá Veru, handtók hana og sendi eins árs dóttur þeirra Benjamíns á munaðarleysingjahæli. Svo vildi til, að Halldór Laxness, sem hafði dvalist í Moskvu í boði rússneska kommúnistaflokksins og sent þaðan lofgreinar heim um Stalín, en var nú á förum til Íslands, var staddur hjá Veru. Lýsir Halldór handtökunni átakanlega og eftirminnilega í Skáldatíma árið 1963, þegar hann gerði upp við kommúnismann. Það er hins vegar umhugsunarefni, að í tuttugu og fimm ár þagði Halldór ekki aðeins um handtöku Veru, heldur barðist af kappi fyrir kommúnisma og varði orð og gerðir Kremlverja. En um svipað leyti og Benjamín fékk þessi ótíðindi um unnustu sína og dóttur, var hann að ljúka fil. kand. prófi í hagfræði og fleiri greinum í Stokkhólms-háskóla með mjög góðum vitnisburði og eftir það hélt hann heim.

Þegar heim kom fékk Benjamín Eiríksson hvergi starf við sitt hæfi.

Atvinnumálaráðherrann, Skúli Guðmundsson, sagði við hann: "Hér á Íslandi er allt svo öðru vísi en annars staðar. Þess vegna þurfum við enga hagfræðinga." Benjamín afsannaði raunar þá kenningu Skúla sumarið 1938 með því að skrifa bókina Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum sem hann gaf síðan út á eigin kostnað. Þar leiddi hann rök að því, að haftabúskapurinn hefði mistekist vegna mótsagnar í stefnu stjórnvalda: Annars vegar héldu þau genginu föstu, hins vegar fylgdu þau mjög undanlátssamri útlánastefnu. Notaði Benjamín þekkingu sína og skilning á lögmálum hagfræðinnar til að komast að niðurstöðu sem ekki lá í augum uppi. Næstu misseri starfaði Benjamín hjá Landssambandi íslenskra stéttarfélaga sem kommúnistar höfðu stofnað til höfuðs Alþýðusambandi Íslands. Jafnframt var hann í Sameiningarflokki alþýðu - Sósíalistaflokknum sem kommúnistar höfðu stofnað með nokkrum Alþýðuflokksmönnum undir forystu Héðins Valdimarssonar. En nú var Benjamín tekinn að efast um kommúnismann og þegar Stalín gerði griðasáttmála við Hitler haustið 1939 var honum nóg boðið. Skrifaði hann nokkrar greinar í Þjóðviljann um það að íslenskur sósíalistaflokkur mætti ekki fylgja hinni alþjóðlegu kommúnistahreyfingu í blindni, heldur miða þess í stað við hagsmuni íslensks verkalýðs. Gömlu kommúnistarnir í Sósíalistaflokknum höfðu þar tögl og hagldir og þegar í ljós kom, að þeir voru ófáanlegir til að víkja í einu eða neinu frá stefnu Kremlverja, gengu margir lýðræðissinnar úr flokknum, þar á meðal Héðinn Valdimarsson og Benjamín Eiríksson.

Benjamín hafði nú brennt allar brýr að baki sér á Íslandi, svo að hann ákvað eftir nokkra hríð að hefja framhaldsnám í hagfræði í Bandaríkjunum.

Hann lauk M.A.-prófi í hagfræði frá Minnesota-háskóla 1944 og doktorsprófi frá Harvard-háskóla 1946. Leiðbeinandi hans í Harvard var hinn kunni hagfræðingur Jósep Schumpeter, bölsýnn íhaldsmaður sem hélt að dagar kapítalismans væru taldir, þótt hann væri eindreginn stuðningsmaður einkaframtaks og atvinnufrelsis. Að loknu doktorsprófi fékk Benjamín starf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington-borg en fylgdist grannt með því sem var að gerast á Íslandi. Hann var nú orðinn eindreginn stuðningsmaður frjálsra viðskipta, séreignar og samkeppni. Árið 1949 átti Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra erindi til Washington-borgar. Hittust þeir Benjamín og áttu langt tal saman. Sannfærðist Bjarni þar um það, að hætta mætti haftabúskap þeimsem rekinn hafði verið með litlum hléum á Íslandi frá því í kreppunni og legið eins og farg á atvinnulífinu. Benjamín var síðan tvisvar kallaður heim árið 1949 og samdi fróðlegar álitsgerðir um efnahagsmál. Vann hann ásamt Ólafi Björnssyni prófessor að tillögum um breytingar á stjórn efnahagsmála sem fólu í sér sveigjanlegra gengi og afnám viðskiptahafta. Þessar tillögur voru framkvæmdar vorið 1950 en vegna utanaðkomandi erfiðleika varð minna úr en til hafði staðið og fékkst ekki fullt innflutningsfrelsi fyrr en í tíð viðreisnarstjórnarinnar 1960. Benjamín kynntist vel helstu ráðamönnum þjóðarinnar á þeirri tíð, þeim Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni og Eysteini Jónssyni, sem allir mátu hann mikils.Hann var ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum 1951-1953 og bankastjóri Framkvæmdabankans 1953-1965. Þá dró hann sig í hlé, safnaði skeggi og gerðist einrænn og undarlegur um ýmislegt. Um og eftir 1990 breyttist þetta nokkuð og tók hann þá aftur að blanda geði við aðra en nánustu fjölskyldu.

Árið 1990 sáum við Gunnar Harðarson, tengdasonur Benjamíns, um útgáfu ritsafns hans frá árunum 1938-1965 og árið 1996 færði ég í letur ævisögu hans eftir sögn hans sjálfs.

Fáir Íslendingar kynntust tuttugustu öldinni eins vel af eigin raun og Benjamín Eiríksson. Hann fæddistá meðan íslenska þjóðin var ein hin fátækasta í Norðurálfunni, á meðan hana vantaði vegi, brýr, stíflur, áveitur, virkjanir, verksmiðjur og önnur atvinnufyrirtæki. Þegar hann lést, voru Íslendingar hins vegar komnir í góðar álnir. Hann sá ekki aðeins stofnun hins íslenska ríkis átta ára að aldri, heldur varð hann vitni að valdatöku Hitlers og ógnarstjórn Stalíns og þurfti raunar að horfa á eftir konu og barni inn í hina hljóðu fylkingu fórnarlamba kommúnismans. Hann bjó líka í Bandaríkjunum þegar veldissól þeirra reis hæst eftir síðari heimsstyrjöld. Allt olli þetta því, að Benjamín var maður ríkur að reynslu.

Hann var þó ekki aðeins sjónarvottur að tuttugustu öldinni, heldur líka fullur þátttakandi í henni, framúrskarandi rithöfundur og vísindamaður. Í hagfræðiritum sínum skýrir hann á einföldu alþýðumáli mörg mikilvægustu lögmál hagfræðinnar. Menn þurfa ekki að muna vöruskort, biðraðir og stjórnmálaspillingu haftaáranna til þess að vera þakklátir Benjamín fyrir hina miklu baráttu hans fyrir viðskiptafrelsi á sjötta áratug. Ýmsar athugasemdir hans um Íslendingasögur og önnur efni sýna líka hugkvæmni hans og frumlega hugsun. En merkilegastur var Benjamín Eiríksson ef til vill fyrir heilindi sín. Það þurfti hugrekki til að segja skilið við gamla vini og samverkamenn eins og hann gerði 1940. Hann og Halldór Laxness sáu hið sama á ferðum sínum til Rússlands. Munurinn var sá, að Benjamín sagði satt um það en Halldór hafði jafnan það sem betur hljómaði. Hræsni var ekki til í munni Benjamíns.

Benjamín Eiríksson var fremur lágvaxinn maður en samsvaraði sér vel. Hann var svarthærður og hrokkinhærður, fagureygur og þótti fríður sýnum, naut jafnan hylli kvenna og kunni vel að endurgjalda hana. Rödd hans var djúp og karlmannleg og hann var mjög vel máli farinn. Hann vissi vel af skörpum gáfum sínum og yfirburðaþekkingu og var líklega óvanur því, að sér væri mótmælt um fræðileg mál. Talaði hann um þau eins og sá sem valdið hafði.

Hann var alvörugefinn maður og jafnvel ákafur þegar hann var að ræða um einhver áhugamál sín. Gátu augu hans þá skotið gneistum. Þótt hann gæti átt það til að vera harðorður var hann oftast sanngjarn í dómum um þá mörgu og ólíku menn sem hann hafði hitt fyrir á lífsleiðinni. Hann var stakur hófsmaður á vín og mat og bjó við góða heilsu mestalla ævi. Árið 1942 hafði Benjamín kvænst Kristbjörgu Einarsdóttur og áttu þau saman fimm börn, Þórunni kennara, Eirík lækni, Einar verslunarmann, Sólveigu lækni og Erlu félagsfræðing. Fyrir átti Benjamín Sólveigu Erlu en eftirgrennslan um örlög hennar í Rússlandi hefur enn ekki borið árangur. Kristbjörg er kona glaðlynd og hagsýn og um margt ólík manni sínum sem kallaði hana jafnan allrabestu eiginkonu í heimi. Svo sem nærri má geta voru fyrstu árin eftir að Benjamín hætti bankastjórastarfi konu hans og börnum afar erfið en þau reyndust honum öll mjög vel. Taldi hann sig gæfumann í einkalífi.

Með Benjamín Eiríkssyni er genginn einhver merkasti og einkennilegasti Íslendingur tuttugustu aldar.

Hannes Gissurarson.

Á sjötta áratug tuttugustu aldar lá engin bein leið á Íslandi til faglegra starfa fyrir flesta þá sem luku námi í hagfræði og höfðu að sjálfsögðu mikinn áhuga á störfum tengdum fræðigrein sinni. Voru þeir þó örfáir miðað við þann geysilega fjölda vel menntaðra hagfræðinga sem síðan hafa lokið námi og, vegna vaxandi þarfar í þjóðfélaginu, finna störf við hæfi. Þrátt fyrir miklar framfarir var efnahagslífið enn njörvað í viðjar aldagamals landbúnaðarkerfis og síðbúins afsprengis þess, sjávarútvegs, eftir að helsi vistarbandsins var aflétt. Við þessar aðstæður ríkti eðlilega takmarkaður áhugi fyrir störfum hagfræðinga og kenningum sem vísuðu í átt til frjálsara hagkerfis. Ég varð þó þeirrar gæfu aðnjótandi að fá starf við hagdeild Framkvæmdabanka Íslands á miðju ári 1955, þökk sé dr. Benjamín, en bankinn hafði tekið til starfa 1953 undir stjórn hans. Stofnun bankans varð eins konar vorboði í hagskýrslugerð þar sem honum var falið að semja skýrslur um þjóðartekjur og fjármunamyndun en vitneskja um þessar þýðingarmiklu grunnstærðir var af afar skornum skammti svo ekki sé fastara að orði kveðið. Þessi störf voru unnin í hagdeildinni undir stjórn Torfa Ásgeirssonar hagfræðings og voru starfsmenn deildarinnar fjórir fyrstu árin sem ég starfaði þar, auk Torfa, einnig Benedikt Antonsson og Bjarni Bragi Jónsson sem hóf störf samsumars og ég. Þar með hófst skipuleg hagskýrslugerð á þessu sviði, byggð á lagagrunni, til upplýsingar fyrir stjórnvöld og notkunar við ákvarðanir í efnahagsmálum. Sýndi Benjamín störfum hagdeildar mikinn áhuga og hlúði að henni enda kom hann frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þar sem fræðin voru undanfari ákvarðana. Benjamín varð þannig sporgöngumaður nýrra tíma í hagskýrslugerð. Starf við hagdeildina var óskahlutverk fyrir nýgræðing úr háskóla. Starfið var spennandi því allt var nýtt og ferskt, rannsóknir um þjóðarauðinn, fjármunamyndun hvers árs og þjóðartekjurnar. Þetta var meira og minna frumvinna þar sem feta varð lítt troðnar slóðir í gagnaöflun, framsetningu gagna og uppfyllingar í eyður þar sem upplýsingar þraut. Á því þremur og hálfa ári sem ég starfaði í hagdeildinni tel ég mig hafa bætt mikilli þekkingu við skólanámið, að sjálfsögðu með töluverðum viðbótarlestri í nýjum fræðibókum en umfram allt í praktískum vinnuaðferðum við greiningu gagna, áætlunum og framsetningu endanlegs efnis og betra hlutskipti gat ég trauðla óskað mér.

Til viðbótar við spennandi frumkvöðulsstörf í hagdeildinni varð ég einnig þeirrar gæfu aðnjótandi að Benjamín valdi mig á tíðum sem samferðamann á ferðum um landið í erindum Framkvæmdabankans. Kynntist ég þá Benjamín nokkuð vel persónulega og varð aðnjótandi víðtækrar þekkingar hans, ekki aðeins á efnahagsmálum heldur jafnframt á landinu, náttúrunni, sögunni og þeim samtvinnaða heimi fróðleiks og víðsýnis sem hann hafði öðlast á lífsleiðinni enda var Benjamín hafsjór af fróðleik sem var árangur af stöðugri fræðafýsn og víðtækri lífsreynslu. Fyrir tveimur árum heimsóttum við Torfi Ásgeirsson Benjamín heim á Bárugötuna og dvöldum hjá honum lengi við upprifjun gamalla minninga frá starfsárum okkar í Framkvæmdabankanum og umræður um þær breytingar sem orðið hafa á hagstjórn í landinu síðan. Var þessi samverustund einkar kærkomin. Að lokum bið ég Kristbjörgu blessunar svo og börnum þeirra Benjamíns.

Helgi Ólafsson.

Hann var yfirburðamaður að vitsmunum og lærdómi, brautryðjandi nýrra tíma á Íslandi og langt á undan samtíð sinni.

Hann ólst upp við kröpp kjör á fátæku alþýðuheimili í upphafi aldarinnar.

Ungur fór hann að vinna sér og fjölskyldu sinni hörðum höndum. Hann varð því snemma að beygja sig undir þann harða aga, sem lítil efni kenna atgervisfólki. Hann braust til mennta í krafti yfirburða gáfna og námshæfileika. Hann stundaði nám á annan áratug við fræg menntasetur gamla og nýja heimsins: Í Berlín, Stokkhólmi og Moskvu á fjórða áratugnum og við Harvard og víðar í Bandaríkjunum á fimmta áratugnum.

Hann var hneigður til stærðfræði og vísindastarfa, en heimskreppan beindi honum að hagfræðinni. Það besta sem hann hefur skrifað um hagfræði og efnahagsmál er jafnframt það besta sem skrifað hefur verið um þau efni á íslensku. Yngri kynslóðir íslenskra menntamanna gátu lesið megindrætti aldarfarsins af æviferli hans og verkum. Að honum gengnum skynjum við betur en áður, að hann var tímamótamaður í sögu Íslands á 20. öldinni.

Þessi maður, sem svo er lýst, er dr. Benjamín Eiríksson hagfræðingur. Hann varð ungur kommúnisti, í miðri heimskreppunni, og hélt til Moskvu í leit að lausn á lífsháska öreiganna. Samtímamenn hans margir hverjir, meðal íslenskra menntamanna, létu ýmist blekkjast af Sovéttrúboðinu eða þorðu ekki af hræðslugæðum að bera sannleikanum vitni. Benjamín var ekki þeirrar gerðar. Hann skildi snemma hvert stefndi og þorði að skýra frá því einarðlega og undanbragðalaust, þótt það kostaði bannfæringu fyrri félaga.

Hann gekk í gegnum hugmyndalegan hreinsunareld langt á undan sinni samtíð.

Orð hans, í tíma töluð, reyndust áhrínsorð. Fáir hafa greint banamein kommúnismans sem pólitískra trúarbragða af meiri skarpskyggni en Benjamín.

Það geta þeir sannfærst um, sem lesa greinasöfn hans: "Ég er" og "Hér og nú".

Þegar leiðtogar lýðveldisins höfðu sólundað stríðsgróðanum og komið málum þjóðarinnar í óefni leituðu þeir til Benjamíns um að vísa veginn út úr ógöngunum. Álitsgerð hans um endurreisn efnahagslífsins er grundvallarrit í íslenskri hagfræði. Því miður höfðu stjórnmálaforingjar þeirrar tíðar hvorki vit né þrek til að hlíta þeirri leiðsögn. Enn var Benjamín of langt á undan sinni samtíð. Endurreisn efnahagslífsins á Íslandi dróst því um heilan áratug.

Tuttugasta öldin er öld stórfenglegra andlegra afreka, sem lengi munu auðga líf komandi kynslóða. En hún er líka öld ægilegra mannlegra mistaka, sem eiga rætur að rekja til heimsku og óheiðarleika þeirra, sem buðust til að vísa veginn. Viti firrtar öfgar hinna fláráðu hafa kostað mannkynið líf og hamingju hundraða milljóna mennskra fórnarlamba.

Benjamín Eiríksson kenndi meira til í stormum sinna tíða en flestir samtímamenn hans, íslenskir. En hann stóð af sér manndrápsbylji og lét aldrei blekkjast af fagurgala falsspámanna.

Benjamín var nokkuð hniginn á efri ár, þegar kynni okkar tókust. Samt fann ég ekki á honum ellimörk. Það er sama hvort þú áttir við hann orðastað eða last texta hans, áhrifin voru þau sömu. Greining hans á málavöxtum var skýr af því að málið hafði verið þaulhugsað. Hugsun hans var hnitmiðuð, af því að á bak við bjó yfirburðaþekking. Röksemdafærslan var sannfærandi, af því að hún var knúin fram af ástríðufullri sannleiksleit. Þess vegna var efagjörnum uppörvun að hitta hann að máli. Megi dæmi hans verða hvatning til dáða þeim sem leggja upp, ungir og óþreyttir, í örlagaleiðangur í dögun nýrrar aldar.

Að leiðarlokum kveðjum við hann með djúpri þökk og einlægri virðingu.

Jón Baldvin Hannibalsson.

Ég kynntist Benjamín H.J. Eiríkssyni fljótlega eftir að ég kom heim frá námi 1960. Ég gekk þá á hans fund og hann tók mér vel og bauð mér í hádegisverð. Benjamín var þá bankastjóri Framkvæmdabankans og hafði þá þegar komið víða við í íslenzkum hagmálum og þjóðmálum. Hann þekkti vel kjör sjómanna og verkamanna, kominn af sjómönnum í Hafnarfirði. Hann snerist ungur til fylgis við þá þjóðmálastefnu, sem þá laðaði að sér margan vaskan manninn. Hann gekk aldrei í flokk sósíalista né kommúnista.

En hann nýtti sér tækifæri, sem honum bauðst, til að kynna sér af eigin raun veruleikann í því landi sem þá var að byggja upp þjóðfélag sósíalisma - Sovétríkjunum. Hann horfðist í augu við þennan veruleika og aflaði sér staðgóðrar þekkingar á honum. Hann var og heiðarlegur við sjálfan sig og aðra og skýrði frá reynslu sinni af hreinskilni og neitaði að taka undir áróðurslygar þær, sem sósíalistum var uppálagt að trúa. Hann neitaði og að þegja. Það er gott til þess að vita að greinar hans um þessi mál skuli nú hafa verið birtar á prenti í greinasöfnum hans.

Benjamín var gagnmenntaður maður á mörgum sviðum. Minni hans var frábært.

Það var hægt að fletta upp í honum eins og alfræðiorðabók og honum skeikaði ekki - þekking hans á þeim sviðum sem hann hafði kynnt sér var nákvæm og ýtarleg. Hugsun hans var gagnrýnin og skörp.

Þegar hann kom heim eftir seinni heimsstyrjöld átti hann þátt í að móta tillögur um íslenzk hagmál og hagstjórn. Þær hugmyndir sem hann hélt fram þá eru fyrst nú um tíðir að komast í framkvæmd.

Benjamín var einn af merkustu mönnum sinnar samtíðar. Nú þegar hann er horfinn frá okkur verður lífið svipminna og daufara en áður.

Arnór Hannibalsson.

Sumarið 1938 tók Benjamín Eiríksson, þá nýkominn heim frá hagfræðinámi í Svíþjóð, sér fyrir hendur að komast að orsökum þeirra erfiðleika, sem hrjáð höfðu landið að undanförnu. Árangur þess starfs birtist í bók, sem nefndist Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum og gefin var út á kostnað höfundar. Í bókinni var með skýrum hætti rakin þróun efnahagsmála á kreppuárunum frá 1931. Sýnt var fram á, hvernig fyrstu viðbrögðin við kreppunni, að halda gengi föstu miðað við sterlingspund samfara aðhaldi í peninga- og fjármálum, hefðu leitt til samdráttar og atvinnuleysis.

Jafnframt hefði þó náðst jafnvægi í erlendum viðskiptum, sem í raun hefði gert þau innflutningshöft óþörf, sem sett hefðu verið af skyndingu á grundvelli gamallar löggjafar frá því í lok fyrri heimsstyrjaldar.

Þar næst var lýst, hvernig stefnan í efnahagsmálum hefði breyst við valdatöku nýrrar ríkisstjórnar árið 1934. Genginu hefði verið haldið föstu eins og áður, en hert hefði verið á innflutningshöftum, ekki síst til að skapa skilyrði fyrir aukna framleiðslu iðnvöru fyrir innlendan markað. Um leið hefði verið losað um útlán bankanna til að halda framleiðslu gangandi þrátt fyrir erfiðan rekstur. Það væri þessi mótsögn í framkvæmd stefnunnar í peningamálum, annars vegar fast gengi, hins vegar lánsfjárþensla, sem væri orsök þeirra gjaldeyrisvandræða, sem menn yrðu svo mjög varir við.

Innflutningshöft gætu ekki ráðið bót á þessu, nema þá um skamma hríð, auk þess sem þau skertu persónufrelsi og hefðu seigdrepandi áhrif á framleiðsluna fyrir erlendan markað. Þau minntu á stíflugarð - á floti.

Hugmyndir um að leysa gjaldeyrisvandann með aukinni framleiðslu neysluvöru fyrir innlendan markað væru óraunhæfar. Eina leiðin til raunverulegra úrbóta í gjaldeyrismálum og um leið til að bæta kjör fólksins í landinu væri aukin framleiðsla til útflutnings. Sú aukning gæti átt sér stað jafnvel við erfið markaðsskilyrði erlendis, væri gengið rétt skráð og að öðru leyti búið vel að atvinnurekstri. Kjörorðin ættu að vera: viðreisn atvinnulífsins og aukin framleiðsla.

Þau sjónarmið, sem hér komu fram, sóru sig í ætt við þær skoðanir frjálslyndra hagfræðinga, sem þá voru að ryðja sér til rúms erlendis, ekki síst í Bretlandi og í Svíþjóð, þaðan sem Benjamín var að koma. Þær byggðu á klassískum grunni hagfræðinnar með þeirri mikilvægu viðbót, sem heimskreppan hafði knúið fram, að nauðsyn bæri til nýrrar stefnu í fjármálum, peningamálum og gengismálum. En slíkar skoðanir fundu ekki mikinn hljómgrunn á Íslandi um þessar mundir, þar sem enn ríktu hugmyndir um afskiptaleysi af atvinnulífinu annars vegar og um smásmugulega stjórnsemi hins vegar. Við það bættist, að þær stofnanir höfðu ekki orðið til í landinu, er haft gætu með höndum þá almennu könnun og stjórn efnahagsmála, sem þörf var á. Úrbætur í því efni og þá umfram allt sjálfstæður seðlabanki var meðal þess, sem áhersla var lögð á í bók Benjamíns.

Það leið rúmur áratugur, frá því að Orsakir erfiðleikanna birtust, þar til Benjamín Eiríksson kom að nýju við sögu íslenskra efnahagsmála. Hann hafði á styrjaldarárunum haldið til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og lokið doktorsprófi við Harvard-háskóla. Að því loknu hafði hann tekið til starfa í hagrannsóknadeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington, sem stofnsettur hafði verið í stríðslok. Þar samdi hann nokkrar greinargerðir um íslensk málefni, sem þó urðu ekki til að koma á samskiptum á milli sjóðsins og Íslands, sem voru lítil sem engin á þessum árum. En vorið 1949, þegar Bjarni Benediktsson var staddur í Washington vegna stofnunar Atlantshafsbandalagsins, átti hann langt viðtal við Benjamín, sem varð til þess, að hann kom heim þá um sumarið og samdi rækilega greinargerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem þá sat enn á stóli.

Þessi heimsókn Benjamíns varð upphaf mikilla veðrabrigða í stjórn íslenskra efnahagsmála og í íslenskum stjórnmálum. Í raun og veru hafði ekki mikið breyst í þeim efnum frá því fyrir styrjöldina, enda þótt velmegun þjóðarinnar hefði vaxið hröðum skrefum á styrjaldarárunum. Skráning gengisins var með öllu óraunhæf og höft á viðskiptum og framkvæmdum meiri en nokkru sinni fyrr. Gjaldeyrisforðinn frá stríðsárunum var þrotinn, en Marshall-aðstoðin hafði firrt ýtrustu vandræðum um sinn. Ekki var að finna neina eiginlega stefnu í peninga- og fjármálum né í atvinnumálum, er beint gæti þjóðinni út úr vandanum né höfðu neinar þær stofnanir enn orðið til í landinu, er stuðlað gætu að mörkun og framkvæmd slíkrar stefnu.

Þau sjónarmið, sem Benjamín flutti með sér, voru í grundvallaratriðum hin sömu og hann hafði flutt rúmum tíu árum áður: gildi frjáls athafnalífs undir almennri, agaðri stjórn peninga- og fjármála. En í þetta skipti voru sjónarmiðin studd nýjum lærdómi hans og þekkingu ásamt reynslu af því, sem var að gerast í Bandaríkjunum og á alþjóðavettvangi. Fyrir þá stjórnmálamenn, sem átt höfðu í vök að verjast fyrir ágangi sósíalismans, og fyrir þá hagfræðinga, sem sátu fastir í skipulagi skriffinnsku og hafta, kom þessi boðskapur eins og vorþeyr eftir harðan vetur.

Fyrir atbeina Ólafs Thors, sem myndaði minnihlutastjórn þá um haustið, tóku þeir Benjamín og Ólafur Björnsson að sér að undirbúa rækilegar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum, sem hrint var í framkvæmd á næsta ári. Fólu þær í sér mikla gengislækkun ásamt margháttuðum aðgerðum til að draga úr afleiðingum hennar á almenn lífskjör. Árangur reyndist verulegur, en þó ekki sá, sem til þurfti og að hafði verið stefnt. Ytri aðstæður voru óhagstæðar vegna aflabrests og verðhækkana á aðfluttum vörum, sem Kóreustyrjöldin hafði í för með sér. Eigi að síður náðist um skeið þokkalegt jafnvægi í efnahagsmálum, og unnt reyndist að létta af höftum að talsverðu leyti. Það skorti á, að ekki reyndust tök á að afla fjár til að mynda gjaldeyrisvarasjóð né voru þau tæki heldur til, sem tryggt gátu nægilega festu í peninga- og fjármálum. Ekki varð úr stofnun sjálfstæðs seðlabanka, en hins vegar var í samráði við Alþjóðabankann komið á fót Framkvæmdabanka, er Benjamín veitti forstöðu eftir heimkomu sína frá Bandaríkjunum.

Það liðu enn næstum því tíu ár, áður en þær breytingar höfðu orðið á hugsunarhætti stjórnmálamanna og almennings í landinu, að unnt reyndist að gera nýja tilraun til umbreytingar á stjórn efnahagsmála, í þetta skipti með meiri og varanlegri árangri en áður. Skipti í því efni miklu, að frjáls skipan atvinnu- og viðskiptamála hafði komist á í hverju landi Evrópu á fætur öðru og að Ísland gat ekki tekið þátt í því viðskiptasamstarfi, sem var að verða til, nema með róttækri breytingu eigin mála. Þá reyndist í þetta skipti unnt að afla nægilegs varasjóðs í gjaldeyri í samvinnu við alþjóðastofnanir og að koma á fót þeim innlendu stofnunum, er tryggt gætu stöðugleikann.

Eftir að Framkvæmdabankinn kom til sögu varð stjórn hans aðalverkefni Benjamíns, og úr ráðgjöf hans í efnahagsmálum dró að sama skapi. Þó tók hann þátt í undirbúningi viðreisnaraðgerðanna 1960 og var þeim eindregið fylgjandi. Áhugi hans á efnahagsmálum og stjórnmálum hélst vakandi fram á síðustu ár, og hann talaði og skrifaði um þau mál af sama skarpa skilningi og hann hafði gert í upphafi. Gleði hans var mikil og innileg yfir þeim framförum, sem orðið hafa í landinu undanfarin ár á grundvelli þess frjálsa athafnalífs, sem hann hafði leitast við að efla.

Jónas H. Haralz.

Bryndís.