THABO Mbeki, forseti Suður-Afríku, hefur sakað bandarísku leyniþjónustuna (CIA) um aðild að samsæri um að breiða út þá kenningu að HIV-veiran valdi alnæmi.

THABO Mbeki, forseti Suður-Afríku, hefur sakað bandarísku leyniþjónustuna (CIA) um aðild að samsæri um að breiða út þá kenningu að HIV-veiran valdi alnæmi.

Mbeki, sem hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að draga í efa að HIV-veiran sé orsök alnæmis, lét þessi ummæli falla á fundi Afríska þjóðarráðsins, að því er vikublaðið The Mail and Guardian skýrði frá í gær. Hafði blaðið eftir félaga í flokknum, sem sat fundinn, að Mbeki hefði fullyrt að CIA væri í ráðum með bandarískum lyfjafyrirtækjum um að vefengja sig og efasemdir sínar um tengslin milli HIV og alnæmis. Forsetinn mun hafa staðhæft að Bandaríkjstjórn ætti ríkra hagsmuna að gæta, enda hefði hún veitt Afríkulöndum lán til að kaupa lyf við alnæmi frá bandarískum fyrirtækjum.

Fyrr í þessari viku höfðu fjölmiðlar birt fréttir um að Mbeki héldi því fram að stór lyfjafyrirtæki á Vesturlöndum teldu fólki trú um að veiran orsakaði alnæmi, til að geta grætt á sölu lyfja gegn sjúkdómnum.

Mbeki telur að HIV-veiran sé ekki eina orsök alnæmis, heldur eigi vandamál á borð við fátækt, vannæringu og kynsjúkdóma einnig hlut að máli. Hefur hann skipað vísindamenn, sem einnig eru þessarar skoðunar, í ráð sem fjallar um varnir gegn alnæmisvánni í landinu.

Jóhannesarborg. AFP.